13.11.2013 | 22:18
Urrandi pirrandi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.11.2013 | 21:26
Sindri Snær í heimsókn :)
Nú er ég búinn að fá Sindra Snæ ,,litla" bróður í heimsókn og heppnaðist sú helgi vonum framar! Ég hafði alveg eins búist við að honum myndi leiðast hjá mér á einhverjum tímapunkti en það kom ekki ein slík sekúnda. Hann vill strax ólmur koma aftur og mikið er ég nú ánægður með það! Ég get sagt það sama, ég myndi mjög svo vilja fá hann einhvern tíman aftur í heimsókn því ég skemmti mér alveg jafn vel þessa helgi.
Fyrst stefndi í að heimsóknin tæki enda áður en hún hæfist því það var frekar hvasst og tvísýnt með flug, en fluginu daginn áður hafði verið aflýst sem jók á áhyggjur mínar. En sem betur fer slapp þetta og Sindri lenti um sexleitið á föstudaginn eins og áætlað var. Steinar vinur minn hérna á Suðureyri kom með mér að sækja Sindra og við fórum beint af flugvellinum á rúntinn um Ísafjörð því við höfðum ákveðið að fara í bíó um áttaleitið á myndina Thor 2 og urðum því að drepa tímann í millitíðinni. En við komum líka við í Hamraborg, bestu sjoppunni á Ísafirði og tróðum okkur út, það er nú nauðsynlegt að gera vel við sig um helgar. Eftir bíóið fórum við svo á Suðureyri og tókum úr töskunum. Haldið þið ekki að það hafi leynst gjafir handa mér innan um dótið hans Sindra sem mamma og hann vildu færa mér: snakk, nammi, bakkelsi og fleira gúmmelaði, auk plastíláta sem mig hafði vantað! Ég þakka bara innilega fyrir mig!
Á laugardaginn byrjuðum við á að gefa öndum nokkrum brauð en ég stóðst ekki mátið að sýna Sindra kvikyndi þessi því að æstari öndum hef ég ekki kynnst annars staðar á minni ævi. Endurnar eru svo trylltar í brauð að um leið og einhver þeirra verður manns vör, þá gargar hún af öllum lífs- og sálarkrafti og þá tekur allur hópurinn við sér og þær koma á móti manni eins og herfylking og umkringja brauðgjafa/na og éta eins og þær hafi ekki fengið mat í viku. Stundum kemur fyrir að þær elti mann þó þær séu búnar að fá allt brauðið, og einu sinni var ég eltur á bílnum! Ég kalla þær því í gamni ,,drápsendurnar" og við Sindri sprungum úr hlátri yfir hamaganginum en tókum svo til fótanna að því loknu!
Að brauðgjöf þessari lokinni rúntuðum við yfir til Ísafjarðar og skoðuðum bæinn og tókum nokkrar vel heppnaðar myndir af okkur félögunum, en fórum svo yfir til Bolungarvíkur og skelltum okkur í sundlaugina, í heitan pott og fleira sem var mjög svo hressandi í kuldanum. Á bakaleiðinni var komið við í Bónus og keypt meira gúmmelaði fyrir helgina!! Um kvöldið var okkur Sindra boðið yfir til Steinars og þar eignaðist Sindri vin, Andra, sem er yngsti bróðir Steinars og kom þeim vel saman þó Andri sé nokkrum árum eldri. Grand Theft Auto var spilaður grimmt í þessari heimsókn og hafði ég gaman af að fylgjast með æsingnum, en ég er orðinn svo slappur tölvuleikjamaður að ég fylgdist bara með, allavega í þetta sinn! En ég ætti nú kannski, svona þegar ég hugsa málið, að dusta rykið af tölvuleikjaáhuganum, því það kemur alveg fyrir í þeim takmarkaða frítíma sem ég hef að mér leiðist. Þegar við komum heim í herbergið mitt að heimsókn lokinni horfðum við á uppáhalds bíómyndina mína ,,Office Space" og það kom mér skemmtilega á óvart að Sindri ,,fílaði" hana bara í botn þó svo að hún væri gamanmynd/grínmynd sem er aðallega stíluð á fullorðna fólkið. En ég skal líka segja ykkur að brósi hefur þroskast alveg svakalega bara á einu ári og hann er orðinn mjög mannalegur, enda er kallinn að fermast á árinu!
Sunnudagurinn tók á móti okkur með miklu blíðskaparveðri en það bærðist ekki strá um morguninn. Því miður var heimfarartíminn að bresta á fyrir Sindra en áður en það yrði ákváðum við að fara í sundlaugina á Suðureyri sem er ekki síðri en sú í Bolungarvík, en Suðureyri er eini bærinn á svæðinu sem býr við hitaveituvatn. Í hádeginu var komið að kveðjustundinni og Sindri fór með flugvélinni til Reykjavíkur. Við vorum sælir og glaðir eftir þessa vel heppnuðu helgi og hann sagði mér að hann hefði helst viljað vera lengur. En það kemur nú örugglega að því að hann komist aftur í heimsókn, áður en hann veit af.
Bloggar | Breytt 6.11.2013 kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2013 | 20:50
Þriggja daga flugskrepp
Heil og sæl. Ég tók þá skyndiákvörðun á fimmtudaginn að kaupa mér flugmiða til Reykjavíkur daginn eftir og fá frí á mánudaginn. Ég er ekki búinn að redda mér nagladekkjum svo þetta var eina vitið (því heiðarnar eru nú flughálar á köflum), og svo er þetta bara svo þægilegt að vera ekki nema fjörutíu mínútur á leiðinni fyrir ekki svo mikið hærri upphæð en hefði farið í bílferðina. Síðan græði ég líka hátt í tólf tíma sem hefðu farið í aksturinn, ekkert vesen! Þetta var fyrsta flugið mitt í fjögur ár eða síðan 2009 þegar ég fór á Þjóðhátíð í Eyjum. Árið áður, 2008, fór ég til Spánar með fjölskyldunni og nú fimm árum síðar er sú góða ferð ennþá síðasta utanlandsferðin mín.
Það má sjá af ofangreindu að það er löngu tímabært að skutla sér í útlandið, spurningin er bara hvert og með hverjum? Ef einhver iðar í skinninu að kíkja út og vantar ferðafélaga þá má sá eða sú alveg hafa samband við mig og sjá hvort ég hafi ekki bara áhuga! Ekki það að nú er það í forgangi hjá mér að skrapa saman fé til að borga út í íbúð (en ég gæti þó tekið upp á því að geyma upphæðina og klára skólann fyrst). Minniháttar utanlandsskreppi ætti þó að vera auðvelt að finna stað í bókhaldinu. Ég reyki ekki og drekk sama sem ekkert svo það kostar mig ansi lítið að lifa miðað við hjá mörgum.
Svo ég spóli aftur í núið þá er ég semsagt staddur í Reykjavík og er búinn að njóta þess í botn enda þarfnaðist ég þess að eiga smá fjölskyldutíma í nokkra daga. Ég er búinn að kíkja í bíó, versla, fara í heimsóknir, skella mér í sund, rúnta, fara í fjölskyldugöngu og ég komst jafnvel í klippingu (takk frænka!). En nú nenni ég ekki að skrifa meir, best að setjast með kaffibolla og góna á imbann með hinum. Svona þriggja daga helgar eru mér að skapi!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2013 | 22:19
Mér er létt!
Nú er ég nýkominn til Suðureyrar eftir smá ,,skreppitúr" á Strandir. Vinnuvikan var erfið og löng því ég var að vinna í ellefu til tólf tíma á dag alla vikuna, að laugardeginum meðtöldum. Ég þurfti líka að hugsa fyrir öllu í fjarveru vinnufélaga míns og bar mikla ábyrgð. Ég var því orðinn nokkuð þreyttur þó ég hafi farið snemma að sofa á kvöldin. Það var þó klárlega sterkur leikur núna að sofa vel. En ég lærði líka heilan helling af þessu svo þetta var í raun það besta sem gat gerst, að neyðast til að sjá um allt í nokkra daga.
Ég ákvað semsagt að ,,skreppa" á Strandir þó það sé töluverður akstur þvi ég vildi endilega komast aðeins í annað umhverfi og hlaða ,,batteríin." Svo langaði mig líka bara að heilsa upp á mitt fólk. Þetta var þægilegur akstur í góða veðrinu og ég fékk gistingu hjá Hadda frænda á Stakkanesi en Gréta frænka var líka á staðnum.
Morguninn eftir kíkti ég til ömmu og afa sem voru hress og höfðu gaman að því að fá þennan leynigest. Þegar ég var búinn að borða í sjoppunni var förinni heitið í heita pottinn í Hólmavíkurlaug en þar er nánast hægt að stóla á að hitta kunningja og ná góðu spjalli, sem líka gerðist. Eftir heitapottsdýfinguna ákvað ég að þiggja kaffiboð í ,,spilavítinu" eins og gamla fólkið kallar félagsheimilið sitt, en það er til húsa í gamla flugstöðvarhúsinu.
Ég ákvað að vera snemma á ferðinni til baka til að ná að aka sem lengst í björtu og það var enda ágætis ákvörðun því að nú voru komnir hálkublettir og ég enn án nagladekkja. Samt náði ég að skrölta þetta á þremur klukkutímum þrátt fyrir að hafa tekið allar beygjur og brekkur afar rólega. Ég er feginn að vikan er á enda og sú næsta verður án efa þægileg, segjum það bara! Hafið það gott, gott fólk!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2013 | 21:35
Þokkalegt bara!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.10.2013 | 23:08
Hafnarlífið
Nú eru strembnir dagar framundan hjá mér í vinnunni og eins gott að standa sig. Stór hluti af vinnufélögunum er að fara í starfsmannaferð (skemmtiferð) til Berlínar í Þýskalandi þann 17. - 20. október og ég þarf því að passa nánast einsamall upp á bókhaldið og fleira í vinnunni, reyndar strax frá og með miðvikudegi. Ég fæ reyndar mann í staðinn fyrir þann sem hefur verið með mér en hann kann, eins og ég, ekki hundrað prósent á allt. En allt verður engu að síður að vera hundrað prósent rétt nú sem fyrr svo það verður ekkert gert án góðrar ígrundunar.
Ég slóst í för með tvem félögum á Ísafjörð um helgina og þar rúntuðum við um og kíktum líka til Bolungarvíkur, en lengst af vorum við í Ísafjarðarhöfn því að þar var mikið um að vera. Verið var að draga skipið Ísbjörninn í höfnina af stórum línubát sem ég man nú ekki lengur nafnið á, en skipið hafði fengið nótina í skrúfuna í fyrsta kasti. Þarna var líka mættur lóðs til að ýta til skipinu til innan hafnarinnar, auk kafaragengis og fleira fólks svo það var hamagangur í öskjunni sem gaman var að fylgjast með frá hliðarlínunni.
Mér var hugsað til þess þarna hvað ég yrði nú í góðum málum ef ég bara kæmist á gott skip og næði tökum á sjómannslífinu. Það væri heldur betur búbót fyrir mig og ég myndi ráða auðveldlega við langa túra, enda vanur því að vera í einangrun eins og t.d. þegar ég var í vinnubúðum á Klettshálsi árið 2003. Þá var ég fastur á mínu vinnusvæði fjarri mannabyggð, í hálfan mánuð í einu, án sambands við nokkra aðra en vinnufélagana og þarna var ekkert gemsasamband, engar sjoppur og eingöngu um að ræða matinn í mötuneytinu á staðnum - sem smakkaðist reyndar lang oftast mjög vel. Annað gott sem myndi fylgja því að vera á sjó væri fríið a milli túra sem væri stundum á virkum dögum líka svo það væri auðveldara að sinna erindum. En jæja, ég læt þetta duga í bili, ég þarf víst að ná smá kríu. Lifið heil gott fólk!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2013 | 16:28
Fæ heimsókn í nóvember :)
Á fimmtudaginn lét ég verða af því að kaupa flugmiða fyrir Sindra Snæ bróður minn til Ísafjarðar. Ef veður leyfir mætir hann því 1. nóvember og verður hjá mér yfir helgina. Bæði ég og hann hlökkum mikið til og það er gott að geta núna efnt loforðið um að hann geti kíkt í heimsókn til mín. Mér fannst nefninlega mjög leiðinlegt að hann komst aldrei á Krókinn eins og ég hafði lofað honum. Þetta verður góð sárabót held ég. Ég var að frétta að Elvar brósi var að kaupa sinn fyrsta bíl fyrir nokkrum dögum, Mitsubishi Carismu '99, svo það er allt að gerast hjá okkur fjölskyldunni. Bara snilld. Ég fór í mína fyrstu bíóferð á Ísafjörð í gær, fór á myndina Prisoners en get nú ekki sagt að þetta hafi verið mynd að mínu skapi. Þetta er mjög vel gerð mynd og allt það og með flottum leikurum, en pyndinga- og mannránsmyndir heilla mig yfirleitt ekki. Ég vil frekar sjá góðar spennumyndir, gaman- og grínmyndir, ferðamyndir og góða vísindatrylla, vestramyndir og slíkt, það er mér að skapi. Semsagt, hryllingsmyndir með limlestingum og slíku eru ekki fyrir mig takk fyrir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2013 | 22:59
Október
Það er margt sem heillar mig við þennan árstíma. Á haustin og veturna er engin pressa að gera hluti. Til dæmis að fara í ferðalög næstum því um hverja helgi, grilla, mæta á útihátíðir eða að vera stanslaust úti! Svo er líka myrkur á nóttunni sem bætir nætursvefninn minn um allan helming. Og ó já, ó já, allar þessar pirrandi pöddur drepast!! Ég er ekki einusinni byrjaður að tala um snjóinn, norðurljósin og stjörnurnar. En engar áhyggjur, ég hef ekki tíma til að tala um það núna. Ég á líka alltaf mun auðveldara með að spara á veturna og að skipuleggja mig. Svo er bara svo fallegt á haustin! Nú skartar landslagið hér í kring sínu fegursta. Það er snjór efst í fjöllunum og kjarrið í miðjum hlíðunum er komið í rauðan haustbúning. Enn er þó grasið grænt á láglendinu og svo tekur við blátt og slétt hafið, eða þannig var þetta altént í dag. Algjört listaverk. Þetta minnir mig á það að ég ætti að taka nokkrar myndir af þessari dýrð um helgina til að sýna fólki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2013 | 23:00
Namm!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2013 | 00:00
Ferðahelgi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðmundur B. Sigurðsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Gummi bloggar á spænsku Bloggið mitt þar sem ég æfi mig í að skrifa og tjá mig á spænsku.
Eldri færslur
2024
2021
2020
2019
2018
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Bloggin
Vinir, fjölskylda eða aðrir
- Haddi frændi
-
Pétur Olsen og co
Fyrrverandi vinnufélagi minn og vinir hans í sameiginlegu bloggi, bara flott hjá þeim! - Bergþór bróðir
- Elín frænka
- Þórhallur
- Ari
- Mary
- Anna Hendrix
- Mist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar