Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Vííí snjór!

Í vikunni þegar ég fór út til að ganga í vinnuna þá var nánast blankalogn og snjókoma með alveg risastórum dúnmjúkum snjóflygsum og jörðin var orðin alhvít. Mjög fögur sjón og mér að skapi, bara eins og í jólamyndunum sem maður horfir á í desember. En þetta entist stutt og var allt bráðnað eftir vinnu. Það er svosem ágætt líka, það er kannski aðeins of snemmt að fá þetta strax. En ég er vel til í að fá snjóinn í kringum desember svo ég geti farið að leika mér að festa bílinn í snjósköflunum eða kannski jafnvel prófa að fara á gönguskíði?

Skvamp!

Er að spá í að fara að stunda sund af alvöru eftir vinnu mánudaga til fimmtudaga. Ég og Haddi frændi fórum saman í íþróttahúsið, hann á fótboltaæfingu og ég í sund á meðan. Tók 30 ferðir sem er um 750 metrar og fór svo í heita pottinn í korter. Ég ætla að reyna að taka 40 ferðir í hvert skipti, semsagt einn kílómetra á dag af bringusundi. Tja, eða öðru sundi en ég er reyndar skítlélegur í öllu nema bringunni og kafsundi. Hmm, þetta eru pælingar.

Magnað dæmi, hér er allt krökkt af Rjúpum! Þær vappa hér um í hópum innanbæjar, eitthvað sem sést aldrei fyrir sunnan. Hvítar eru þær orðnar svo það hlýtur að taka af allan vafa um að veturinn sé kominn, ef einhver efast enn!


Októberfærslan...hehe

Líf mitt hefur einfaldast mikið við það að flytja hingað norður (já, Hólmvíkingar segjast flestir búa fyrir norðan þó á Vestfjörðum séu). Ég er ekki lengur andvaka á nóttunni og dauðþreyttur á daginn eins og fyrir sunnan. Og gott ef ég fæ ekki líka meira út úr svefninum hérna. Andleg þreyta hefur minnkað til muna en aftur á móti er ég alveg úrvinda í skrokkinum eftir daginn (mikil breyting). Hérna dotta ég aldrei í vinnunni, það er einfaldlega ekki fræðilegur möguleiki, enda er ég að gera eitthvað hverja einustu sekúndu, líka í kaffipásunum. Hjá borginni var vinnan í hrikalegum skorpum, en hér er jafnt álag allan daginn, sem mér líkar mun betur. Ég sat fastur í bílum í marga klukkutíma á dag í Reykjavík, bæði í vinnunni, og utan hennar. Hérna geta liðið 2-3 dagar án þess að ég svo mikið sem setjist inní bíl. Hér er ég rúma eina mínútu að fara gangandi í vinnuna (fyrir sunnan: 10-15 mínútur akandi,  tæplega 30 mínútur hjólandi, um og yfir klukkutími gangandi) og þegar Café Riis er opið (bar/veitingastaður) tekur það sömuleiðis ekki nema tæpa mínútu að komast þangað fótgangandi. Eina þjónustan (sem ég nota) sem er nógu langt í burtu frá heimilinu til að ég aki þangað er sjoppan, búðin og sundlaugin. Samt er varla að bílvélin nái að hitna á leiðinni þangað, kannski á bakaleiðinni! Svo ég minnist nú á eitthvað neikvætt þá er auðvitað leiðinlegt að geta ekki hitt fjölskylduna og vinina í Reykjavík hvenær sem er.

Sunnudaginn 7. október síðastliðinn keyrði ég á ref utarlega í Steingrímsfirðinum þegar ég var á leið heim frá Reykjavík. Ég er því núna búinn að aka yfir og drepa tvo refi á ekki nema rúmlega ári á þessum ferðum mínum á milli (hitt skiptið gerðist nálægt Bifröst/Hreðavatnsskála). Ég skil ekki þessa óheppni því að ég er viss um að sumir keyra um sveitirnar ævina út án þess að lenda í þessu í eitt skipti. Bæði tilfellin gerðust í myrkri og á þann hátt að þeir voru á harðaspretti yfir veginn og í bæði skiptin snarhemlaði ég en allt kom fyrir ekki. Annað hvort varð ég að sætta mig að keyra yfir þá, eða keyra út af á 90 kílómetra hraða. Maður verður að vera búinn að taka ákvörðun fyrirfram um það hvað maður gerir við svona aðstæður. Að sjálfsögðu fórnar maður ekki sjálfum sér fyrir dýr, en gerir það fyrir manneskju. Og maður ekur ekki út af vegna refs en gerir það ef stórt dýr eins og hestur er á veginum sem getur kastast inní bílinn. Sömuleiðis myndi maður ekki aka fram af þverhnípi, jafnvel þó að dýrið væri stórt.

En nú að bókamálum! Ég var að ljúka við bókina „Konungsbók“ eftir Arnald Indriðason á dögunum. Til að koma með stuttan dóm þá fannst mér hún frekar þung í lestri miðað við aðrar bækur eftir hann og hún innihélt mikið af nöfnum sem þurfti að melta. Aftur á móti hafði hún þau áhrif á mig að fá mig til að hugsa um og gera mig stoltan af þeim arfi sem forfeður okkar skildu eftir handa okkur, og þá er ég auðvitað að tala um skinnhandritin. Bókin byrjar mjög rólega en verður hörkuspennandi í lokin. En samt, ef þú hefur ekki kynnst Arnaldi áður, byrjaðu þá fyrst á að lesa sögurnar um Erlend og félaga. Í augnablikinu er ég að lesa bókina „Viltu vinna milljarð,“ eftir rithöfundinn Vikas Swarup og gerist hún að mestu í fátæktrahverfum Indlands. Hún verður sífellt meira spennandi með hverjum kaflanum og er skrifuð í hálfgerðum dagbókarstíl en þar sem ég er ekki búinn með hana ætla ég að bíða með frekari gagnrýni. Næst mun ég svo byrja á sakamálasögunni „Farþeginn,“ eftir Pál Kristin Pálsson. Hlakka til! En nóg í bili.


Jei!

Nú er ég sáttur! Búinn að koma bílnum í lag með aðstoð góðra ættingja, búinn að fá útborgað, helgin framundan og ég er ekki að vinna á sunnudaginn. En næsta vinnuvika verður samt verulega erfið því að við í móttökunni hjá Hólmadrangi erum að fara að vinna 12 tíma á dag, frá fimm á morgnana. Þetta gerum við til að vinna af okkur einn föstudag í nóvember svo það verði hægt að fara í starfsmannaferð til Akureyrar stresslaust. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég nenni ekki að fara og það er líklega orðið of seint fyrir mig að skrá mig núna til þáttöku. Æ, ég er einhvernvegin bara ekki í stuði núna þó að ég viti að þetta verði skemmtileg ferð og gott tækifæri til að kynnast annari hlið á nýju vinnufélögunum mínum. Mig langar bara ekki til að skrá mig ef ég er síðan líklega að fara að „beila“ á ferðinni. En ég fer pottþétt næst ef ég verð enn vinnandi hérna þá. Ég er að spá í að fara til Reykjavíkur um helgina þó að ég hafi verið þar síðustu helgi, því að ég veit að ég mun ekki hafa tækifæri til þess þá næstu. Ég þarf að kaupa dekk fyrir veturinn og svo þarf ég eiginlega að koma fiskunum mínum norður. Mér gafst heldur ekki tími til að kíkja í bíó síðast. En ég fór sko á djammið! Reyndar meira en það. Ég fór í smá teiti, síðan var ég allt í einu staddur á fjörugu Þróttaraballi og svo endaði ég í Ellefunni niðrí bæ þannig að ég fór sáttur norður. Jamms, jæja... geisp, ég nenni ekki að skrifa meira... hrooot... hrooot...

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband