Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Gengur vel

Bara þessa fyrstu viku mína hjá Íslandssögu er ég búinn að vinna 12 yfirvinnutíma og vinnuvikan er ekki einu sinni búin, morgundagurinn er eftir! **Uppfærsla: komnir 18 tímar og 30 mín. betur núna á föstud.** Það má því segja að hvað tekjur varðar var þetta klárlega hárrétt ákvörðun hjá mér að skipta um vinnustað! Fólkið sem hér vinnur er af ýmsum þjóðernum auk Íslands en allt saman gæðafólk að því er mér sýnist og ég er að vinna með fínasta náunga. Vinnan hefur verið passlega erfið bara, ekkert mál, en það sem hefur aðallega vaxið mér í augum er að læra á bókhaldið, en það er í mínum augum, allavega enn sem komið er á meðan ég er að læra, æði flókið. Ég er sem sagt (aðallega) að vinna á endastöðinni þar sem fiskurinn er sendur af stað út í heim eða í verslanir og veitingastaði á Íslandi. En meira um það seinna. Í gær kíkti ég upp á bæjarfjall Suðureyringa, fjallið Spilli (Spillir í nefnifalli). Ég vildi endilega drífa mig upp á topp áður en óveðrið skylli á, en það á að gerast einhvern tíman á morgun, gott ef ekki í nótt, ég man það ekki alveg. Útsýnið af fjallinu var glæsilegt og alltaf gaman að svala forvitninni og sjá hvað er hinum megin við fjöll! Ég setti nokkrar myndir úr göngunni á síðuna mína hjá sports-tracker.com fyrir áhugasama að sjá. Ég hef bara einu sinni kveikt á nýja bílnum mínum síðan ég kom í Súgandafjörðinn en ég er að bíða eftir fyrstu launagreiðslunni sem kemur á fimmtudaginn eftir viku (borgað vikulega) en þangað til verður tankurinn ekki fylltur þó ég hafi raunar alveg fyrir eins og einni og hálfri tankfylli. Ég er samt blússandi ánægður með gripinn og hann verður sko notaður vel í framtíðinni og ég trúi því að hann muni reynast vel, sérstaklega á vondum vegum eða í torfærum og svellum. En ég má ekki vera að þessu hangsi, þarf að fara að sofa, mæting kl. sjö á morgnana. Góða nótt góða fólk Smile


Orðinn íbúi á Suðureyri við Súgandafjörð

Hér er ég staddur, í herbergi á Suðureyri, og velti því fyrir mér hvort ég gerði rétt, hvort ég er að fara að græða á flutningnum frá Sauðárkróki, eður ei. En ég hef samt sterka tilfinningu fyrir því að svo verði með tímanum. Þetta verður erfitt fyrst um sinn, að þurfa að byrja upp á nýtt að kynnast fólki, eignast nýja vini og venjast nýrri vinnu og umhverfi... en ég er dolfallinn fyrir Vestfjörðum svo að þó ég myndi ekkert græða meira fjárhagslega á flutningnum en það að eiga heima á Vestfjörðum (sem verður samt pottþétt raunin) þá á ég eftir að verða ánægðari hérna og geta sleppt ferðalögum í smá tíma á meðan ég er að safna pínulítið næstu þrjá mánuðina að minnsta kosti.

Ég er nokkuð heppinn með herbergið hérna get ég sagt ykkur. Það er næstum jafn stórt og herbergið á Króknum, en það er á jarðhæð (ég þurfti að ganga upp brattan stiga á Króknum) og bara eins og tíu skref frá sjoppunni og tuttugu skref frá sjónum og í svona 2-3 mínútna göngufjarlægð frá vinnunni. Svo er ég með þvottavél og þurrkara hérna sem ég var ekki með á Króknum (það var hryllilegt að handþvo, ég tek ofan fyrir forfeðrum okkar að hafa staðið í þessu!) og reyndar ekki eigið herbergi með sturtu og klósetti en sturta og klósett þó (að sjálfsögðu). Eldhúsið er svo alveg þokkalegt, með öllu því helsta: rafhellum, örbylgjuofni og grilli en reyndar engum bakaraofni, og svo eru ísskápar en ég sé samt fram á að ég muni vilja kaupa mér eigin lítinn ísskáp með frystihólfi til að setja inn í herbergið mitt.

Í framhaldi af fyrri færslu get ég sagt frá því að ég lét verða af þessu... ég keypti Súbarúinn og dýrka hann í botn! Þvílíkur munur á bílum... að keyra hann, hvað hann er stöðugri á veginum, kröftugur, cruise control, engin rúða biluð eins og á Daihatsúinum, það er miklu meira pláss, fjórhjóladrif!!.. og ýmislegt fleira. Applausinn var ágætur á meðan hann entist, og hann var með sál, en það var löngu kominn tími á skipti.


Allt gengur eins og í sögu!

Nú er kominn tími til að segja betur frá því hvað er að gerast hjá mér með vinnu og bílamál! Ég er semsagt, eins og fyrr segir, kominn með nýja vinnu, nánar tiltekið hjá fiskvinnslunni Íslandssögu á Suðureyri í Súgandafirði í rétt um korters akstursfjarlægð frá Ísafirði. Fyrsti vinnudagurinn verður mánudaginn 26. ágúst næstkomandi svo ég hef nokkra daga til að kíkja á fjölskyldu og vini hér í Reykjavík áður en ég fer vestur kannski á föstudaginn til að venjast umhverfinu aðeins áður en ég hef störf. Vinnuveitandinn er strax búinn að redda mér herbergi með sameiginlegri eldunaraðstöðu á Suðureyri svo það er allt til reiðu og ég er sloppinn við að þurfa að stressa mig við að finna mér samastað í tæka tíð. Það bætist við gleðina að í dag (20.) tókst mér að finna Daihatsu Applausinum mínum nýjan eiganda eftir að hafa átt þann ágæta grip í sjö ár og ekið hann 115.000 km. en hann var í 88.000 km. er ég keypti hann á sínum tíma. Hjalti frændi er duglegur að hjálpa mér í bílamálum en hann hefur bent mér á ágætis bíl í staðinn fyrir Applausinn en þar er um að ræða Subaru Outback sem er fjórhjóladrifinn skutbíll sem ég hef ákveðið að skella mér á. Það verður ekki slæmt að komast á bíl sem leikur sér að snjónum sem undantekningalítið kyngir niður fyrir vestan og víðar á veturna. Gleði gleði!! Meira næst!!! Happy Tounge

Vestfirðir, hér kem ég!

Í dag (15. ágúst) var ég ráðinn í vinnu á einum af þeim fjórum stöðum sem ég hef hingað til sótt um vinnu hjá á Ísafjarðarsvæðinu. Ég er því í góðum málum og á að hefja störf eftir rúma viku, eða mánudaginn 26. ágúst. Nú tekur við húsnæðisleit en meira ætla ég ekki að segja ykkur fyrr en þetta skýrist frekar hjá mér, en þetta lofar allt saman mjög góðu og ég mun geta flutt á draumasvæðið mitt á landinu! Af því að ég er orðinn svolítið sjóaður í svona flakki þá er ég ekkert að fara á límingunum yfir þessu eins og áður, en ég get ekki neitað því að ég er mjög spenntur. Ég segi ykkur meira á allra næstu dögum. Það styttist mjög í 29 ára afmælið mitt þann 17. ágúst og ég er ekki frá því að ég sé það ánægður með lífið þessa dagana að ég haldi bara upp á það og bjóði jafnvel til lítillar veislu eða hittings hér í Reykjavík áður en ég fer!

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 792

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband