Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Gleðilegt nýtt ár!

Þetta ár hefur verið yndislegt í alla staði og ætla ég að stikla á því helsta sem dreif á daga okkar frá því síðast er ég bloggaði. Ég og Sunna ferðuðumst mikið í vetur og í sumar á Vestfjörðum og Vesturlandi. Snemmsumars kíktum við í rómantíska ferð á Drangsnes og gistum í litlu gistiherbergi og fórum út að borða á Malarkaffi, auk þess að láta líða úr okkur í heitu pottunum í fjöruborðinu. Við kíktum í sumarbústað tengdafjölskyldu minnar við Skorradalsvatn og fórum líka í sumarbústað sem mamma og pabbi leigðu við Langavatn nálægt söluskálanum Baulu á Vesturlandi. Við lönduðum nokkrum fiskum af ýmsum tegundum í Skorradalsvatni, Langavatni og einnig í sjónum við Bolungarvík, ísafjörð, Suðureyri, Hólmavík og víðar.

Við fengum fjölskyldur okkar beggja í heimsókn vestur, fyrst mína (nema Elvar) í grenjandi rigningu, svo fjölskyldu Sunnu (nema Ívar) í fínasta veðri, en við gerðum ýmislegt skemmtilegt í bæði skiptin og létum veðrið ekki stöðva okkur mikið. Við fórum Vestfjarðahringinn tvisvar, fyrst bara við litla fjölskyldan og þá tjölduðum við í Bíldudal, svo með fjölskyldu Sunnu þegar þau komu til okkar. Þetta allt gerðum við þrátt fyrir að ég hafi ekki náð að kreista fram nema viku frí hjá Íslandssögu. Um Verslunarmannahelgina var mikið fjör líka en við kíktum að sjálfsögðu á mýrarboltamótið og á ókeypis tónleikana við brennuna. Þá helgi hitti ég nokkra góða vini frá Vogaskólaárunum (og fleiri), meðal annars á tjaldsvæðinu, en líka vini Sunnu sem voru þarna einnig um helgina. Við Sunna og Guðný skruppum líka á Suðureyri og tjölduðum þar í eina nótt með Pétri vini mínum og Erlu kærustu hans. Það var skrýtin tilfinning að tjalda þarna rétt við hliðina á bragganum sem ég bjó í aðeins nokkrum mánuðum fyrr áður en boltinn fór að rúlla og ég eignaðist kærustu og fór að leigja á Ísafirði og var allt í einu orðinn stjúpfaðir, allt á svo skömmum tíma. Þetta sannar svo vel að maður veit aldrei hvaða ævintýrum maður lendir í á morgun, lífið er afar spennandi, bara yndislegt! Ekki má gleyma öllum notalegu sundferðunum okkar í sumar, aðallega í Bolungarvík og á Suðureyri.

Við vorum orðin þreytt á kostnaðinum sem fylgdi því að búa á Ísafirði en vinna á Suðureyri með tilhreyrandi akstri, bensíneyðslu og tímaeyðslu. Þetta ýtti við okkur að leita að nýrri vinnu um vorið og sumarið. Því miður var ekki laust hentugt húsnæði fyrir okkur á Suðureyri á þessum tíma svo það var ekki möguleiki að búa þar. Í fyrstu ætluðum við að fá vinnu á Ísafirði, og ég var meira að segja kominn með starf þar, en einn daginn vorum við á rúntinum að velta fyrir okkur möguleikunum þegar Sunna sagði við mig eitthvað á þessa leið ,,Hvað með að flytja til Hólmavíkur? Þú talar svo oft um hvað þú saknir staðarins og vinnunnar þar og að þér hafi liðið svo vel þar.'' Þetta gladdi mig mjög því mér hafði aldrei dottið í hug að spyrja hana hvort henni litist á að flytja með mér þangað, því ég hélt að henni fyndist Hólmavík vera full lítill og einangraður staður, komandi frá Reykjavík, miðað við hvað Ísafjörður og nágrenni hefur upp á að bjóða. En fyrst hún var til í Hólmavík, þá varð ég sjálfur mjög spenntur að flytja þangað á ný. Ég dreif í því að hringja í gamla vinnustaðinn minn, Hólmadrang og sækja um vinnu þar fyrir okkur bæði og við sóttum um leiguíbúð og leikskólapláss. Allt varð að smella saman svo það yrði úr flutningunum. Okkur fannst biðin eftir svari um starfið engan endi ætla að taka, svo ég fór að hringja reglulega í Hólmadrang til að minna á okkur. Svo er við vorum einn daginn stödd í Hnífsdal á rúntinum kom hringingin, og við fengum störfin! Sem betur fer fengum við líka íbúð (í Skólabraut 16) og pláss á leikskólanum Lækjarbrekku fyrir Guðnýju og þá var aðeins eftir að pakka og flytja. Það var svosem ekkert aðeins, því við lögðum mikið á okkur til að koma öllu okkar dóti til Hólmavíkur og ókum mörgum sinnum á milli með fullan bíl og kerru af búslóð, jafnvel á virkum degi eftir vinnu, og vorum svo komin til baka vestur um nóttina og svo var mæting í vinnu snemma um morguninn.

Fljótlega eftir að við vorum flutt í leiguíbúðina á Skólabrautinni sáum við að við gætum ekki búið þar lengi, því það var bæði fúkkalykt og mygla þar, auk þess sem íbúðin var með úr sér gengnar innréttingar og hún var líka bara langt frá því að vera falleg. Það eina frábæra við hana var útsýnið yfir þorpið og Steingrímsfjörðinn út um gluggana. Við vorum vægast sagt svekkt því við höfðum rétt misst af draumaleiguíbúð í Lækjartúni 18. Á meðan við vorum með opin augun fyrir nýrri íbúð til að leigja eða kaupa fórum við í leitir og réttir í Staðardalnum fyrir frænda minn Harald á Stakkanesi og skemmtum við okkur öll mjög vel þá helgi. Haustið kom og veturinn en þá dró heldur betur til tíðinda hjá okkur því við fréttum af huggulegu gömlu húsi til sölu á Kópnesbraut 3b í hjarta gamla bæjarins á Hólmavík. Í fyrstu voru þetta aðeins draumórar hjá okkur því við vissum ekki hvað húseigendur vildu selja á og svo vissum við ekki hvort við fengjum lán hjá einhverjum bankanum eða hvort við ættum nóg fé til að greiða út þann hluta húsnæðisverðsins sem fengist ekki lánaður. Við fórum í greiðslumat hjá hagstæðasta bankanum og byrjuðum að gera tilboð í húsið. Svo bauðst okkar fólk til að lána okkur það sem myndi vanta uppá, og þegar við fengum húsið á viðráðanlegu verði þá réðum við okkur ekki af kæti.

Þetta er búið að vera draumi líkast og ég vil þakka öllum sem hafa hjálpað okkur að láta hann rætast. Við erum semsagt flutt í þetta yndislega hús sem bíður eftir okkur á Hólmavík þegar við keyrum heim frá Reykjavík eftir yndisleg jól og áramót hér fyrir sunnan. Nú læt ég staðar numið í bili og þakka fyrir góðar stundir á gamla árinu. Gleðilegt nýtt ár öll sömul :)


Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband