Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Sumardagurinn fyrsti í höfn

Þetta var ágætur fyrsti sumardagur, ég gef honum svona þrjár stjörnur af fimm (kannski aðeins of góður dómur, og þó). Hann hefði fengið fleiri stjörnur ef ég hefði komist í heimsókn til fjölskyldunnar en það bíður betri tíma. Ég breytti út af venjunni svona í þetta sinn og fékk mér hamborgara og franskar og fékk mér svo einn ískaldan léttöl þegar heim var komið. Annars hef ég í marga daga bara eldað eitthvað ódýrt heima eins og grjónagraut, kjötfarsbrauð með pasta, núðlur og slíkt og bíllinn hefur svo gott sem ekki hreyfst... og sjoppur eru algjört bann. Haddi yngri frændi minn gaf mér snilldar ráð til að hafa eitthvað virkilega gott að narta í fyrir lítið af peningum en það er ekki flóknara en að þú kaupir vínber... og setur þau í frysti!!! Þetta er algjört lostæti, að borða frosin vínber er eins og að vera með nammi uppi í sér og það er miklu hollara og ódýrara og svo skemmast vínberin ekki í frystinum. Prófið þetta, namm! Það var svo sannarlega ekki sumarlegt um að litast hérna á Sauðárkróki þennan fyrsta sumardag, en mér var svosem sama, svona er þetta venjulega á Íslandi og alvöru sumarið með hita og sól kemur á endanum, það er alveg öruggt. Ég klæddi mig vel upp, fór í ullarpeysu yfir aðra peysu og setti á mig húfu og vettlinga og skrapp í smá göngutúr og fannst bara hressandi að finna kuldann í andlitinu, þangað til það kom hálfgert haglél í andlitið á mér, það var svona full mikið af því góða. Þetta var svona millistig snjókorna og hagla, frekar sérstakt. Fyrir utan þetta rölt, sem endaði í heilum fimm kílómetrum þvers og kruss um bæinn þá hélt ég mig innandyra í hlýjunni og hafði það bara fínt þar restina af deginum. Ég óska ykkur gleðilegs sumars og vonandi áttuð þið góðan dag. Cool

Hausinn á mér fullur af áætlunum

Þá er enn ein helgin hafin og ég bíð og bíð eftir sumrinu, eins og svo margir. En biðin núna hefur verið erfiðari en áður því að það er mikil óvissa framundan hjá mér. Ég er nefninlega kominn með það á heilann að komast til Ísafjarðar eða nágrennis. Vestfirðirnir kalla á mig, eins og þeir hafa reyndar alltaf gert. Þó Sauðárkrókur sé góður staður þá var það aldrei ætlunin að flytja hingað, heldur aðeins að dvelja hér um skamma hríð (af því að hér fékk ég vinnu) á meðan ég losnaði við yfirdráttinn og fyndi mér vinnu þar sem ég vildi búa til frambúðar og kaupa mér íbúð. Vestfirðir og Strandir hafa alltaf verið þeir staðir sem ég hef fyrst og fremst viljað búa á, en ég væri líka hæstánægður með að búa á Austfjörðum eða á Eyjafjarðarsvæðinu. En ég hringla ekki meir með þetta, Ísafjörður eða nágrenni skal það vera. Þaðan er styttra fyrir mig á þá staði sem ég sæki mest í og góðar flugsamgöngur til Reykjavíkur, þar er ódýrt húsnæði og lágvöruverðsverslun, gott aðgengi að námi, frábær menning og svo margt fleira sem heillar, eins og t.d. fjöllin. Ég er byrjaður að sækja um störf og vona það besta og ef heppnin er með, þá kemst ég vestur í sumar eða haust.

Fyrir utan þetta þá er svona helst að frétta að ég er byrjaður að skokka aftur eftir að hafa jafnað mig á öfga skokkinu fyrr í vetur sem fór alveg með mig. Nú verður vegalengdin höfð styttri og hún verður ekki lengd í bráð. Svo stofnaði ég auka sparireikning til að nota sem ferða- og neyðarsjóð (og söfnunarsjóð til að geta skipt um bíl) en ég held að þetta sé bráðsniðug hugmynd hjá mér, og ég vona bara að ég nái fljótlega að gauka nógu í hann til að gera eitthvað skemmtilegt. Ég held að bílakaup verði það fyrsta sem ég fer í en nú finnst mér loks vera kominn tími til að skipta um bíl eftir að hafa átt Applausinn minn í einhver sjö ár, mér er í fyrsta sinn farið að leiðast bíllinn þó ég beri samt tilfinningar til hans, þetta er klárlega bíll með sál.

Það er líf og fjör í fiskabúrinu mínu en gúbbunum mínum fækkaði fyrst úr sex í fimm að því er virðist (einn karlinn hvarf bara á dularfullan hátt), en fjölgaði á móti um all nokkur seyði og nú hafa fjögur þeirra komist á legg og eitt þeirra er komið með lit í sporðinn. Í vikunni fór ég í göngutúr um bæinn og ákvað að kanna hann betur, og mér til ánægju uppgötvaði ég brattan malarveg sem fer beint upp af húsinu sem ég bý í og alveg upp á hæðina fyrir ofan, og þar er magnað útsýni yfir allan bæinn og hestar á beit sem sýndu mér mikinn áhuga! Alveg ótrúlegt að ég hafi fyrst núna fundið þessa leið, ekki slæmt það þó!

Vonandi fara bræður mínir að geta kíkt í heimsókn til mín, en af þeim þá hafa Bergþór og Sindri haft mestan áhuga og það væri reglulega gaman að fá þá hingað yfir helgi eða lengur. Ég býst þó fastlega við því að þeir komi í sitt hvoru lagi en varðandi Sindra þá verð ég að plana það ferðalag svolítið fyrir hann kallinn. Vonandi verður af þessu í sumar. Jæja, þetta fer að verða heil fréttasíða ef ég hætti ekki núna, hafið það gott og meira seinna. Smile


Laumaðist á Akureyri

Ég stóðst ekki mátið, ákvað að skreppa bara til Akureyrar núna í góða veðrinu þó ég sé í stífum sparnaði þessa dagana. Mig langaði svo að gera mér dagamun. Það er auðvitað lang ódýrast fyrir mig að kíkja þangað ef ég vil kíkja einhvert, aðeins um klukkutíma akstur frá Króknum svo það er töluvert minna mál en að fara til Reykjavíkur eða á Hólmavík. Ég fékk gistingu hjá frænku minni og hef enga sérstaka dagskrá, sem er frábært, þá slappar maður bara af. Það er nú líklega sniðugt að nota tækifærið og versla í Bónus áður en ég fer til baka, það gæti sparað mér einhvern aurinn því það er því miður engin lágvöruverðsverslun á Króknum enn sem komið er. Ég fór til læknis um daginn og er kannski loksins að fara að komast í handagreiningu hjá sérfræðingi. Kannski fæ ég nú loks að vita hvað er að höndunum en ég fór að finna fyrir óþægindum og braki í höndunum á mér svona upp úr 2006, og það hefur hægt og rólega versnað síðan þá og læknarnir í Reykjavík hafa alla tíð hundsað mig og tafið það að ég kæmist í skoðun til bæklunarlæknis, þrátt fyrir að ég hafi trekk í trekk reynt að fá bót minna mála. Vonandi kemur eitthvað út úr þessu núna, ég get ekki beðið eftir að losna við þessa óvissu, ,,hvað er að mér?" og ,,er hægt að gera eitthvað við þessu, eða ekki?" Jæja, ég læt þessi ,,úr einu í annað" skrif mín duga í bili FootinMouth . Góða helgi öll!

Fjúff, bara martröð...

Úff, ég fékk þessa svaka martröð núna, dreymdi þennan líka hrikalega jarðskjálfta í herberginu mínu og hrökk upp úr svefni. Herbergið kastaðist til eins og í stórsjó. Hélt að hann hefði jafnvel orðið í alvörunni, var smá stund að átta mig. Ég steinsofnaði óvart í rúminu í fötunum strax eftir kvöldmat, hef greinilega verið ansi þreyttur. Stundum er raunveruleikinn betri en svefnheimar. En jæja, best að fá sér vatnsglas og fara aftur að sofa! Góða nótt gott fólk og vonandi eigið þið góða drauma!!!

Jæja, vinnan á ný

Frábærir páskar að baki. Ég þvældist út um allar koppagrundir, fór sem fyrr segir til Reykjavíkur, skrapp svo á Akranes í stutta heimsókn til Hadda frænda (yngri) og fór svo til Hólmavíkur og loks til baka á Krókinn og var ég þá búinn að aka samtals um 860 km þessa páska! Á Hólmavík var ég mest með vini mínum og fjölskyldu sem ég kynntist þegar ég var að vinna hjá Hólmadrangi en auðvitað kíkti ég líka á Stakkanes til Hadda frænda (eldri) og hitti líka afa minn á vappi um Hólmavík og hann var bara í góðu skapi og gaman að tala við hann. Ég seldi einum vini mínum á Hólmavík rafmagnshjólið mitt því að þó mér hafi fundist virkilega skemmtilegt að eiga það og ég hafi notað það mikið í Reykjavík, þá býður húsnæðið sem ég er í núna því miður ekki upp á neinn stað til að geyma hjól á, svo ég hef ekkert getað notað hjólið hér á Króknum. Þá vildi ég frekar selja gripinn og láta hann nýtast einhverjum öðrum, en það er samt alveg á hreinu að ég fæ mér aftur svona hjól þegar betur stendur á. Mér veitir líka ekki af krónunum núna til að hjálpa mér að koma fjárhagnum loksins í plús svo ég geti loksins farið að safna eitthvað. Þetta er alveg glatað ástand og nýja vinnan mín hefur því miður ekki boðið upp á nógu góðar tekjur svo það er spurning hvað ég geri. Hvað sem ég geri þó, þá er ég alveg ákveðinn í því að ég verð áfram hér á Sauðárkróki eða annars staðar á landsbyggðinni því að þó mér finnist Reykjavík líka vera góður staður til að vera á, þá er bara of notalegt að vera á litlum stað þar sem fólk þekkir hvort annað og að vera með fjöllin og hafið og sveitirnar, dýralífið og allt hitt allt í kringum sig.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband