Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Jóla eitthvað

Jæja, er fólk ekki bara búið að hafa það Þokkalegt eða allavega skítsæmilegt þessi jólin? Auðvitað! Það er allavega tilfellið hjá mér, ég er búinn að hitta haug af vinum og ættingjum, síðasta jólagjöfin hafðist ekki fyrr en á Þorláksmessu eins og alltaf, jólamaturinn var mjög fínn og ég fékk bók, föt, herrailm, málverk og einhver fleiri skemmtilegheit í jólagjöf. Búinn að kíkja í eitt smá partí og vonandi verður eitthvað skrall líka á morgun. Núna er ég að vinna í að klára meiraprófið en ég fer líklega í síðasta trailer og rútutímann á morgun og þá eru bara prófin eftir sem ég fer í annan janúar á nýja árinu. Það er enn óvissa með hvort ég nái að klára leigubílinn líka í þessu holli en það væri nú ekki amarlegt. Ég vona að þið hafið haft það gott um jólin og segi bara, gleðilegt nýtt ár!


Hólmadrangsferðin

Það er orðið svo stutt núna í jólafríið mitt að ég finn næstum lyktina af því. Ekki á morgun heldur hinn! Dvölin á Akureyri var bara þokkaleg, enda er sjaldan eða aldrei leiðinlegt í þeim góða bæ. Ég skildi bílinn bara eftir á Hólmavík og fór með Hadda frænda sem var auðvitað mun þægilegra enda þá hægt að spjalla eða bara leggja sig á leiðinni. Innifalið í ferðinni var hótelgisting hjá KEA fyrir laugardaginn en flestir vildu koma strax á föstudaginn til að skralla eitthvað um kvöldið og redduðu sér þá gistingu fyrir það kvöld.

Seinnipart laugardagsins fórum við flest í keilu og náði ég þar þeim óviðbúna árangri að vinna einn leikinn...þokkalega sáttur sko! Eftir það kíktum við snöggvast inná hótel og svo fórum við á hinn fína veitingastað Friðrik fimmta þar sem hver rétturinn á eftir öðrum bráðnaði í munni, Mmm! En eins og siður er á fínum veitingastöðum var vín með matnum svo ég ákvað að sveigja reglurnar örlítið og smakka aðeins á þessu. En það komu fleiri vín og það var fyllt á glösin, þannig að það má eiginlega segja að óformlegt (u.þ.b. tveggja mánaða gamla) vínleysi mitt hafi farið í vaskinn það kvöldið en ég er þá bara byrjaður aftur með nýtt núna!!! Eftir matinn tók næturlífið að sjálfsögðu við og við skrölluðum á Sjallanum fram eftir nóttu, allavega þau okkar sem eitthvað stuð var í.

Á sunnudeginum náði Gógó frænka mín á Akureyri að ýta mér af stað í jólagjafainnkaupin og sá ótrúlegi árangur náðist að ég er núna búinn að versla næstum allar gjafirnar fyrir þessi jól sem er ekkert annað en kraftaverk því að venjulega er ég að klára þetta seint á þorláksmessu eða jafnvel á aðfangadag, alveg kolsveittur á harðahlaupum, lítandi á klukkuna með mínútu millibili. 


Get ekki hreyft mig

Vá, svakalega át ég yfir mig á þessu blessaða jólahlaðborði í kvöld. Ég er þokkalega búinn að njóta þessa fyrsta frídags sem ég hef haft hér á Hólmavík síðan 18. eða 19. október. Ég sleppti því að stilla vekjaraklukkuna á föstudagskvöldinu og gat því sofið í friði þar til ég vaknaði um tvöleitið í dag. Skrapp þá í stutta heimsókn til ömmu og afa, svo til bróður míns, fór síðan á Stakkanesið og hékk þar í einhvern tíma þar til jólahlaðborðið með vinnufélögum mínum hófst á Café Riis. Ég er svo að vinna núna á sunnudaginn en það veitir svosem ekki af, þetta meirapróf er búið að vera djöfull dýrt. Ég á reyndar eftir að fá einhvern hundrað þúsund kall eða svo endurgreiddan frá Verk Vest sem er reyndar bara brot af kostnaðinum en það á eftir að koma sér vel þar sem ég þarf að lappa lítils háttar upp á bílinn minn, skipta um framdemparana og eitthvað en ég er samt byrjaður að safna aftur, búinn að semja einhverja voða flotta sparnaðaráætlun sem gildir fram á sumar. Sjáum til hvernig það fer hehe, er samt þokkalega bjartsýnn þar sem mér gekk mjög vel í þessu síðast. Lítur út fyrir að ég sé kominn í eitthvað óformlegt gos og áfengis straff en ég hef hvorugt smakkað síðan í október og fyrst ég er enn ekki farinn að sakna þess neitt voðalega mikið er ég ekkert að flýta mér að byrja aftur. Vatnið er bara svo hrikalega gott, og ókeypis líka, það bara verður ekki betra! Dagskráin hjá mér heldur áfram að vera ansi þétt, næstu helgi er ég nefninlega að fara í skemmtiferð með Hólmadrangi til Akureyrar og verður skrallað eitthvað þar og kíkt í heimsókn til frænku líka. Helgina þar á eftir verð ég kominn í jólafrí en þá verður ekki slakað á frekar en fyrri daginn því þá fer ég að hamast við að klára trailer og rútutímana auk leigubílatímanna og prófanna auðvitað!

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband