Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Sorg og gleði

Ég missti góðan vin minn í dag, Snaran. Tennurnar voru orðnar ónýtar og aðgerð hefði verið erfið með litlum batalíkum. Hans verður sárt saknað en hann var kelinn og forvitinn svo ég held að hann hafi verið nokkuð sáttur hjá mér. Bróðir hans (Snöggur! Ekki góð nafnasamsetning?) átti við sama vandamál að stríða og var svæfður í vor, svo þetta virðist vera algengt vandamál hjá naggrísum. En Snar varð tæplega fimm ára sem jafngildir því líklega að verða 65 ára í mannsárum, en naggrísir verða venjulega mest sjö ára gamlir. Það þýðir samt auðvitað sjö ára ábyrgð svo að fólk ætti ekki að fá sér naggrísi (eða önnur langlíf dýr) ef það er ekki reiðubúið að hugsa um þau alla ævi þeirra. Ég gerði það þrátt fyrir að það væri pínulítið erfitt eftir að ég varð fátækur námsmaður, en ég sé alls ekki eftir að hafa fengið mér þá. Þeir voru frábærir félagar, sérstaklega þegar ég var stundum einn. En ástandið lagaðist reyndar mikið hjá mér stuttu eftir að ég keypti þá, því að vinahópurinn stækkaði og allt í einu var ég svo kominn með kærustu, þó það samband sé reyndar búið núna!

Ég hef ekki bara leiðinlegar fréttir að færa, heldur líka frábærar. Mér tókst nefninlega í dag, með hringingum í all nokkuð mörg símanúmer, að redda mér herbergi á Sauðárkróki tímabundið þar til ég redda mér leiguíbúð, sem er auðvitað langtímamarkmiðið. Herbergi þetta er á vegum sláturhússins en þar sem engin slátrun fer fram á þessum tíma eru væntanlega mörg herbergi laus, en reyndar var mér sagt að ég væri ekki eini starfsmaður landvinnslunnar sem verð þarna, það eru nokkrir búnir að vera þarna um tíma. Það er ágætt, þá kynnist ég kannski einhverju fólki betur. En jæja, fleiri fréttir seinna, ég er með í maganum af spenningi og af óvissunni við að flytja norður á Krókinn, en ég held að þetta verði gæfurík ákvörðun hjá mér.

 

 


Gleðileg jól!

Gæfan er með mér núna. Ég er kominn með vinnu á Sauðárkróki og hlakka mjög til að flytja þangað og prufa að búa á nýjum stað og kynnast nýju fólki. Krókurinn er stór bær en ekki of stór, vel staðsettur, með góða þjónustu og með hitaveituvatn, er hægt að biðja um meira? Eina vandamálið í augnablikinu er að ég er ekki búinn að finna mér húsnæði, en ég er það ákveðinn í að komast á Krókinn að ef ég verð óheppinn og finn ekkert fyrir janúarbyrjun þá fer ég frekar á gistiheimili til að byrja með en að hætta við. Það bara kemur ekki til greina að láta þetta tækifæri úr greipum renna. Ég líka verð að vinna og fá tekjur, og ég er búinn að hlakka lengi til að klára skólann (næstum búinn!) svo ég geti farið að vinna allt árið. Lífið er búið að vera í pásu í þrjú ár vegna peningaleysis, og ég geri mér fulla grein fyrir að ég er líklega að fara að fá lágmarkslaun til að byrja með, en það skiptir ekki máli, bara að ég sé með stöðugar tekjur, hitt kemur með tímanum. Ég er mjög sparsamur og mín áhugamál eru ekki dýr (nema ferðaáhuginn), en ef maður er í skóla og ekki með neinar tekjur á veturna, þá er alveg sama hvað maður er sparsamur, peningarnir klárast fljótt og þá er maður nánast úr leik í samfélaginu, því að næstum allt kostar peninga, að minnsta kosti einhverjar krónur. Það er bara óþolandi ástand að hafa ekki einusinni efni á að kaupa sér flík heilu mánuðina, en nú er sá tími á enda og framtíðin er björt. Eins og þið sjáið er ég búinn að aflæsa blogginu á ný svo það sé ekkert vesen að kíkja við! Gleðileg jól vinir og vandamenn og vonandi hitti ég ykkur sem flest áður en ég fer í burtu á nýja árinu og hafið það sem allra best. Smile

Mmm, jólabjór!

Heilt á litið er ég ekkert fyrir áfengi. Það líða stundum allt að fjórir mánuðir á milli þess að ég drekki. En ég kaupi stundum léttbjóra og fæ mér eins og 2-3 slíka um helgar því að mér finnst bjór einfaldlega svo bragðgóður. Ég er ekkert fyrir alvöru fyllerí en enda þó alltaf á eins og 3-5 slíkum á ári. Maður verður nú að sleppa sér einstaka sinnum í góðra vina hópi, ég kæmist ekki einusinni upp með annað! En eins og ég segi, ég hugsa samt alltaf í upphafi ,,úff, nú byrjar ballið," en síðan skemmti ég mér auðvitað ærlega og allt er svo æðislegt (þið kannist við þetta, er það ekki?!Wink ), svo kemur þessi hörmungar, hryllings morgundagur þar sem maður er ófær um að gera nokkurn hlut og þarf að borða og drekka vökva, en maður hefur enga löngun til þess, og maður hugsar ,,aldrei aftur... aldrei aftur!!!" Já, ég er mjög feginn að vera orðinn áhugalaus að mestu fyrir áfengi, sem er líka eins gott fjárhagslega, því að stjórnvöld hækka alltaf og hækka áfengisgjaldið vegna þess að þau hafa svo gaman af því að fá jafn mikið eða minna fé í kassann vegna minnkandi áfengissölu, en í millitíðinni bruggar landinn landa sem aldrei fyrr! En svo ég kafi nú ekki dýpra í leiðinlega pólitík þá verð ég nú að segja að Vífilfell/Víking er að standa sig alveg ótrúlega vel varðandi árstíðarbundna ölið sitt. Víking jólabjórinn er alveg fáránlega góður með þessa fullkomnu blöndu sem er einhvers staðar mitt á milli venjulega bjórsins og hins dökka. Ég mæli hiklaust með honum um jólin og þetta getur selst upp á hverri stundu svo að fyrir fólk sem á einhverja aura, öfugt við sjálfan mig, þá mæli ég með að það drífi sig strax í ríkið! Neinei, vonandi kaupi ég eina kippu eða svo, ég verð að gera það því að ekki fer ég meira á bar á þessu ári, ég einfaldlega get það ekki. Ég verð að eyða óvissunni um atvinnu strax eftir síðasta prófið mitt þann 13. des. því mér finnst ekkert verra en að vera hugsanlega foreldrum mínum byrði. Sama hvar ég enda þá ætla ég að gera gott úr því, vera sáttur og helst að endurgjalda hjálpina sem ég hef fengið á einn eða annan hátt.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband