Halló!

Mikið svakalega er ég nú orðinn lélegur bloggari, svona er þetta bara. En það er svona helst allt gott að frétta bara síðan síðast! Ég hef verið án alls þunglyndis og hress og kátur flesta daga, en ég vil meðal annars þakka það því að ég hef haldið áfram mínum daglegu göngutúrum alveg sleitulaust án þess að nokkurn tíman sleppa degi úr. Út fer ég sama hversu snælduvitlaust veður er úti, en ég klæði mig auðvitað bara betur eftir því sem veðrið er verra. En auðvitað fer ég yfirleitt í lengri göngur þegar það er blíðviðri! Ég geng aldrei styttra en 2 km á dag, en oftast geng ég aðeins lengra því ég er með það markmið að ná að lágmarki 100 km á mánuði. Til þess að svo megi verða þá þarf ég að meðaltali að ganga 3,333... km á dag, en ég hef nú farið létt með það, enda getur stöku göngutúr hjá mér farið yfir 10 kílómetrana og metið mitt undanfarið ár voru 23 km á einum degi þegar ég skrapp í smalamennsku þann 19. sept. 2020! Þegar ég sá fram á að ég þyrfti aðeins að herða mig agnarögn í göngutúrunum til að ná að ganga jafn langa vegalengd og Hringvegurinn (eða Þjóðvegur eitt) er á 12 mánuðum, tja, þá gerði ég einmitt það! Þessu markmiði náði ég með stæl því að á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til 31. janúar 2021 gekk ég samtals 1.329 km sem er 8 km lengra en Hringvegurinn sem er samtals 1.321 km langur eins og hann er í dag. Þetta er auðvitað bara tær, tær snilld!!!

Af öðrum hlutum að frétta þá náði ég þeim áfanga síðastliðið vor að ljúka við stúdentsprófið á félagsvísindabraut svo það var húllumhæ og útskrift um sumarið, en vegna Covid-19 skrattans þá munaði samt mjóu að ekki hefði verið hægt að halda útskriftina í raunheimum. Það slapp þó fyrir horn með því að fresta útskriftinni um eins og mánuð og með því að viðhafa fjöldatakmarkanir og fara eftir ítrustu sóttvarnarreglum og fjarlægðartakmörkunum. Ég gat af þessum sökum aðeins boðið tveimur gestum með mér í útskriftina og úr varð að Sunna og pabbi komu með mér á Krókinn í útskriftina og smá skrall og dekur eftirá. Aðrir gátu þó fylgst með í gegnum netútsendingu. Þetta nám er búið að vera svo mikil barátta hjá mér og það hefur tekið svo langan tíma að það lá við að ég brysti í grát í útskriftarsalnum rétt áður en ég tók við prófskírteininu mínu! En þetta tókst! Mér tókst þetta, 35 ára gömlum og nú eru mér allir vegir færir :)

Af öðrum fréttum þá er það að frétta að ég ákvað að hætta sem þrifamaður hjá Hólmadrangi og færa mig yfir í dagvinnu (á hreinsibandinu aðallega) með fríi um helgar og ég er yfirleitt bara að vinna frá 8-4 á daginn. Þetta er bara tær snilld og allt annað líf fyrir bæði mig og fjölskylduna og þetta hefur ekki breytt tekjunum hjá mér svo neinu nemur. Maður er auðvitað stálheppinn að búa á Íslandi á Covid tímum og eins og er þá er vírusinn í algjöru lágmarki hér á Fróni og helstu áhrifin (fyrir utan hertar sóttvarnarreglur, fjöldatakmarkanir og slíkt) eru þau að vegna hruns í sölu á rækju þá hafa komið regluleg vinnslustopp hjá Hólmadrangi en sem betur fer hefur atvinnuleysistryggingasjóður þá hlaupið undir bagga og borgað okkur laun þegar svo stendur á.

Nú ætlum við Sunna loksins að fara að taka húsið í gegn og t.d. erum við búin að panta bæði nýja eldhúsinnréttingu og nýtt rúm í Ikea og við erum bara að bíða eftir sendingunum með dótinu til að geta hafist handa við breytingarnar. Spennandi! Einnig höfum við verið að vinna í því að stöðva lekann í kjallarann undir eldhúsinu og svefnherberginu en við höfum t.d. verið að fylla hann að hluta með möl sem við ætlum svo að steypa yfir til að koma í veg fyrir grunnvatnsleka inn í kjallarann. Einnig hef ég með mikilli hjálp verið að laga pípulagnirnar þarna niðri svo neyðarkraninn til að skrufa fyrir vatnið inn á allt húsið lendi ekki undir þessari möl og steypu. Því miður kom líka í ljós að þegar við förum í sturtu þá seytlar einnig vatn inn í kjallarann í gegnum sprungu á veggnum svo við þurfum greinilega líka að lagfæra niðurfallið frá sturtunni. Svo erum við að vinna í músavörnum o.fl. en þetta er semsagt allt bara í bullandi vinnslu og meira um það síðar!

Við erum orðin tveggja bíla fjölskylda eftir að hafa lent í hrakningum með Trajetinn okkar í sumar sem leiddi til þess að við keyptum okkur varabíl, Benzjeppa, til að nota sem varabíl á meðan við værum að koma Trajetinum aftur í lag. Við ætluðum fyrst að selja Benzjeppann eftir að Trajetinn kæmist í lag, en við hættum við það og ákváðum að halda honum bara ef ske kynni að fleiri bilanir kæmu í ljós í framtíðinni, þá höfum við alltaf varabíl á meðan hinn bíllinn er í viðgerð!! Nú fer ég að hætta að skrifa í bili, þó á ég enn eftir að segja frá sumarferðalögum okkar fjölskyldunnar og svo mörgu fleiru, en ég læt þetta duga í bili. Takk fyrir að nenna að lesa þetta allt og lifið heil! ;)


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband