Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Hvað tekur við?

Þá er ég aðeins kominn á skrið í þessu. Ég er búinn að sækja um störf á Þórshöfn, Vopnafirði, Grundarfirði og á Sauðárkróki. Þetta er bara blábyrjunin, ég á eftir að skoða að sækja um á fjölmörgum öðrum stöðum (auk Reykjavíkur til öryggis), en ég læt þetta líklega duga í bili þar til skólinn er búinn og lokaprófin. Eitt er víst, að hvar sem það verður, þá verð ég að fá vinnu strax eftir jól eða áramót. En ég hef þó litlar áhyggjur af þessu enn sem komið er. Þó ég segi sjálfur frá þá er ég stundvís, duglegur og samviskusamur sem er einmitt það þrennt sem flestum vinnuveitendum finnst skipta mestu máli. Svo bý ég yfir reynslu af fiskvinnslustörfum, auk meiraprófs- og lyftararéttinda, þó að ég ætli sannarlega ekki bara að sækja um störf á þeim vettvangi.

E.S. Ég hef ákveðið að læsa blogginu tímabundið með aðgangsorði, svona á meðan ég er að finna mér vinnu, þar sem ég vil ekki vera gúgglaður upp af vinnuveitendum sem gætu lesið eitthvað hér um mig sem þeim líkar ekki við, þið fattið? FootinMouth En ég vona að sjálfsögðu að vinir og vandamenn haldi áfram að kíkja hingað sem fyrr, enda munu þeir fá aðgangsorðið um hæl. Happy


Fínn dagur

Mér finnst vera orðið svo létt yfir mér núna. Ég held að síðustu leifar þunglyndisins séu horfnar því að ég hef sofið vel á nóttunni nú í fjóra daga í röð og ég hef verið nokkuð ferskur yfir daginn. Svo er ég farinn að geta lært og haldið einbeitingunni lengur í einu. Þegar athyglisbresturinn var verstur fyrir nokkrum vikum síðan þá var alveg sama þó ég sæti fyrir framan námsbækurnar klukkutímum saman og reyndi að þvinga mig til að læra, ég áorkaði engu og var sífellt þreyttur. Ég gafst svo upp og fór að sofa bæði dag og nótt og það var þá sem ég uppgötvaði að ég væri líka orðinn þunglyndur, svo slæmur að það eru einhver fimm ár síðan ég var jafn langt niðri. En mér líður vel núna og vaknaði snemma til að ljúka við að ganga frá fyrirlestri sem ég mun líklega halda í skólanum í dag ásamt samnemanda.

Í gær ræddi ég við kennara um í hversu djúpan skít ég er kominn í sumum námsgreinunum vegna einbeitingarskorts og svefntruflana á önninni (en ég minntist reyndar ekki einu orði á þunglyndið, ég hugsaði að líklega væri betra að sleppa því, enda er ég í hröðum bata) og við ræddum um lausnir á vandanum og hvernig ég gæti lokið við að útskrifast þó svo að ég klári því miður ekki allt á önninni. Góðir vinir hafa líka bent mér á að ég geti farið í greiningu og kannski fengið einhverja meðferð eða lyf við athyglisbrestinum og ætla ég að athuga það þegar ég hef efni á því. En það plan sem mér lýst best á í augnablikinu er að byrja aftur að vinna eftir áramót og koma mér í plús, og skrá mig svo í sumarskóla um leið og ég hef aflað mér nógu langs orlofsréttar. Með þessu móti get flutt strax út á land til að vinna en stundað nám í Reykjavík um sumarið. Nema ég verði það heppinn að fá einhverja tímabundna vinnu í bænum, en þá tækla ég kannski stúdentinn í kvöldskóla og fer síðan út á land.

En hvað ætla ég að gera eftir útskrift? Ég hef nokkra spennandi möguleika. Fyrst og fremst vil ég komast í eigið húsnæði. En svo hef ég áhuga á að fara í ferðamálanám og fá réttindi sem leiðsögumaður (þá er eins gott að standa sig í tungumálanáminu). Ég gæti líka farið í landbúnaðarháskólann en ég væri til í að læra eitthvað þar t.d. um fiskeldi, ylrækt eða jafnvel búfræði. Einnig get ég klárað múraranámið mitt, en mig vantar bara herslumuninn upp á að útskrifast sem múrari. Svo væri líklega sniðugt að taka bókfærslunám með þessu. Þetta eru auðvitað frekar ólík fög en öll áhugaverð á sinn hátt og bjóða öll upp á það að geta búið í sveitinni. En það er best að hætta draumórunum í bili og halda áfram með glærusýninguna. Eigið góðan dag Smile


Styttist í annarlok

Nú er bara þessi kennsluvika eftir og tvær að auki. Mér til ánægju hef ég getað vakað á daginn og sofið á nóttunni eins og venjulegt fólk nú í tvo daga! Ég vaknaði til dæmis í gær ferskur við fyrsta vekjara án þess að ýta á blundarann á símanum, og það var sama sagan í morgun (allt í lagi þá, ég blundaði í eitt skipti Whistling).

Ég vil fá snjó hingað til Reykjavíkur, þetta gengur ekki lengur. Það jákvæða er að Esjan er farin að sýna hvítan lit öðru hvoru og alveg niður í miðjar hlíðar, en betur má ef duga skal. Fönnin gerir allt bjartara og skemmtilegra og ég dauðöfunda fólk sem er núna statt fyrir norðan. Er ekki líka snjór á Vestur- og Austurlandi annars? Nú ætla ég að notfæra mér syfjuna sem er komin yfir mig þessa stundina þó það sé enn allt of snemmt að fara að sofa. Ég gæti farið að vakna upp seinna eins og svo oft, svo ég er bara farinn að sofa strax. Þá vakna ég bara sérstaklega snemma, það er allt í lagi, ég á eftir að læra svolítið fyrir sögutíma, gott að geta byrjað morgundaginn þannig.


27 dagar, glæsilegt :)

Nú er ég búinn að skokka 4 km á dag í 27 daga. Vonandi geri ég aldrei aftur þau mistök að hætta, en það gerði ég því miður árið 2009 og ég hef séð eftir því allar götur síðan, enda fékk ég hvert einasta kíló á mig til baka og kílói betur meira að segja.

Hástemmd blogg

Mér brá svolítið þegar ég kíkti á forsíðu Blog.is um daginn. Þar var varla hægt að finna einn einasta bloggara sem er bara að skrifa um daglegt líf og eigin hugleiðingar um hversdagslega hluti. Þarna má finna bloggsíður um hitt og þetta, blogg veðurfræðings, blogg trúboða, blogg eldheits áhugamanns um stjórnmál, blogg um fréttir, kreppuvælsblogg, blogg um ESB með eða á móti og svo framvegis, allt voða ,,hástemmt" eins og ég vil kalla þetta í léttu gamni. En varla er finnandi eitt einasta blogg ,,leikmanns" sem er einfaldlega að tala um sitt eigið líf og pælingar um hitt og þetta, eins og t.d. hvernig gaman væri að endurinnrétta íbúðina sína í framtíðinni, eða hversu ótrúlega flottan kött einhver hafi séð í gær!!! Það vantar bloggið um spennandi utanlandsferðina sem einhver er að fara í, bloggið um glæsilegan árangur í líkamsræktinni, bloggið um hversu illa einhverjum gangi að spara og það vantar blogg náungans sem gat einfaldlega ekki sofið og vildi endilega tilkynna það með nýrri færslu til að eyða tímanum!

Ég er hræddur um að ég verði að fara að hætta að blogga svo ég sé ekki eini ,,lágstemmdi" lúðinn innan um alla sérfræðingana í mikilvægu málefnunum. Ég virðist altént vera orðinn það hér í blog.is samfélaginu. Ég kenni Flettismettinu og Twitter um þetta. Ég trúi því samt ekki að ég sé einn eftir, þetta hlýtur bara að vera svona slæmt hérna. Ég þarf klárlega að leita betur á netinu.

Ein aðal ástæðan fyrir því að ég skrifa er reyndar sú að ég er að skrifa eigin hugleiðingar fyrir sjálfan mig, sem öllum er þó velkomið að lesa, en svo hef ég líka mikinn áhuga á íslensku sem og öðrum tungumálum, að þau séu skrifuð sem réttast og með sem fæstum slettum. Það finnst mér fallegt. Einnig hef ég aldrei gefið bloggið upp á bátinn því að ég er eldheitur áhugamaður um að komast út úr borginni eitthvað út á land og setjast þar að, en þegar sá draumur rætist gæti verið skemmtilegt fyrir vinina og ættingjana að geta gluggað í það hvað sé svona helst að frétta hjá mér í gegnum bloggið mitt. Ég verð þá líka að passa mig að skrifa ekki of mikið svo fólk þurfi líka að hringja í mig öðru hvoru!

En jæja, ég þarf að halda áfram að læra í nótt fyrir prófin tvö sem ég er að fara í á morgun. Fyrst ég get ekki sofnað er allt eins gott að læra bara fram á morgun. Miðað við hvað mér hefur gengið vel að vakna á morgnana held ég að ég þori hvort eð er ekki að fara að sofa núna því að þá gæti ég sofið yfir mig og misst af prófunum! Sko, þetta var ekki erfitt! Nú er ég búinn að koma með voðalegt ,,drama" úr eigin lífi um lágstemmt málefni sem engu máli skiptir fyrir aðra en gæti þó haft eitthvað skemmtanagildi, eða í það minnsta hjálpað einhverjum að drepa tímann. Ekki flólkið Wink


Skokkað alla daga

Mótvindurinn hafði sín áhrif í dag þó að sums staðar hafi verið skjól í Elliðaárdalnum. Ég þurfti að ganga meira en venjulega til að geta pústað aðeins. Þegar veðrið er til friðs þá er ég farinn að skokka alla leiðina nema í brattasta hlutanum á bakaleiðinni upp úr dalnum. Nokkuð sérstakt að sjá vatn í læk fara tvisvar sinnum niður sama fossinn í vindhviðunum áður en það hélt áfram sína leið. Það var líka komið ágætis klakalistaverk fyrir ofan fossinn. Nú er ég að tala um litla lækinn við Reykjanesbrautina en ekki þann stóra niðri í dalnum, en neðri foss þess lækjar var auðvitað ekki síður fallegur. Kári megnaði þó ekki að blása honum eins glatt upp fyrir sjálfan sig og hinum. Það er hægt að klæða af sér flest veður, mér leið bara ágætlega með húfuna á hausnum og svo hettuna rígbundna yfir svo hún héldist kyrr. Ef ég sleppi úr degi þá er ég svo hræddur um að ég sé hættur svo það geri ég ekki nema eitthvað mikið sé að. Nú er að læra um helgina og vona það besta, en ég fer í tvö próf á mánudaginn og eitt á þriðjudaginn.

Dæmigert

Fólk á lágmarkslaunum verður samkvæmt þessari reglugerð að vera þrælar húsnæðislána stórra = dýrra íbúða (eða leigja og eignast aldrei neitt) en má ekki velja að verða skuldlaust og frjálst í litlum = ódýrum íbúðum. Meira um málið hér.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband