Fínn dagur

Mér finnst vera orðið svo létt yfir mér núna. Ég held að síðustu leifar þunglyndisins séu horfnar því að ég hef sofið vel á nóttunni nú í fjóra daga í röð og ég hef verið nokkuð ferskur yfir daginn. Svo er ég farinn að geta lært og haldið einbeitingunni lengur í einu. Þegar athyglisbresturinn var verstur fyrir nokkrum vikum síðan þá var alveg sama þó ég sæti fyrir framan námsbækurnar klukkutímum saman og reyndi að þvinga mig til að læra, ég áorkaði engu og var sífellt þreyttur. Ég gafst svo upp og fór að sofa bæði dag og nótt og það var þá sem ég uppgötvaði að ég væri líka orðinn þunglyndur, svo slæmur að það eru einhver fimm ár síðan ég var jafn langt niðri. En mér líður vel núna og vaknaði snemma til að ljúka við að ganga frá fyrirlestri sem ég mun líklega halda í skólanum í dag ásamt samnemanda.

Í gær ræddi ég við kennara um í hversu djúpan skít ég er kominn í sumum námsgreinunum vegna einbeitingarskorts og svefntruflana á önninni (en ég minntist reyndar ekki einu orði á þunglyndið, ég hugsaði að líklega væri betra að sleppa því, enda er ég í hröðum bata) og við ræddum um lausnir á vandanum og hvernig ég gæti lokið við að útskrifast þó svo að ég klári því miður ekki allt á önninni. Góðir vinir hafa líka bent mér á að ég geti farið í greiningu og kannski fengið einhverja meðferð eða lyf við athyglisbrestinum og ætla ég að athuga það þegar ég hef efni á því. En það plan sem mér lýst best á í augnablikinu er að byrja aftur að vinna eftir áramót og koma mér í plús, og skrá mig svo í sumarskóla um leið og ég hef aflað mér nógu langs orlofsréttar. Með þessu móti get flutt strax út á land til að vinna en stundað nám í Reykjavík um sumarið. Nema ég verði það heppinn að fá einhverja tímabundna vinnu í bænum, en þá tækla ég kannski stúdentinn í kvöldskóla og fer síðan út á land.

En hvað ætla ég að gera eftir útskrift? Ég hef nokkra spennandi möguleika. Fyrst og fremst vil ég komast í eigið húsnæði. En svo hef ég áhuga á að fara í ferðamálanám og fá réttindi sem leiðsögumaður (þá er eins gott að standa sig í tungumálanáminu). Ég gæti líka farið í landbúnaðarháskólann en ég væri til í að læra eitthvað þar t.d. um fiskeldi, ylrækt eða jafnvel búfræði. Einnig get ég klárað múraranámið mitt, en mig vantar bara herslumuninn upp á að útskrifast sem múrari. Svo væri líklega sniðugt að taka bókfærslunám með þessu. Þetta eru auðvitað frekar ólík fög en öll áhugaverð á sinn hátt og bjóða öll upp á það að geta búið í sveitinni. En það er best að hætta draumórunum í bili og halda áfram með glærusýninguna. Eigið góðan dag Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband