Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Páskar og hjólamennska

Það er eiginlega fyndið að hlakka svona til páskanna þegar maður ætlar ekki einusinni í ferðalag eða að gera neitt sérstakt í fríinu. En málið er að þegar maður er í skóla eins og er tilfellið með mig núna, þá er fríið svo gullið tækifæri fyrir mig til að undirbúa mig fyrir prófin svo ég geti síðan bara verið rólegur og áhyggjulaus í prófunum sjálfum sem verða ekki svo löngu eftir páska. Semsagt, ég ætla bara að slappa af heima og fara yfir námsefnið og jú líka stunda heimsóknir og ekki síst, hjóla á fullu.

Það greip mig algjört hjólaæði eftir jól þegar ég ákvað að fara að spara peninga og taka fram hjólið mitt góða og skella undir það nagladekkjum. Ég smurði það líka og styllti og keypti á það blikkljós að framan og aftan sem fara sjálfvirkt í gang þegar ég hjóla af stað og hætta einnig sjálfvirkt að blikka svona 2 mínútum eftir að ég stöðva hjólið, þau eru líka með skær díóðuljós sem eru nánast eilíf svo ég þarf aldrei að skipta um peru og ég þarf ekki einusinni að skipta um rafhlöður því að ljósin nota segla til að hlaða sig á meðan ég hjóla. Þægindin í kringum þessi ljós gætu semsagt ekki verið meiri, og þessi ljós fást í Íslensku fjallahjólabúðinni (GÁP) ef einhver er áhugasamur! Nagladekkin hafa einnig gefist mjög vel og ég hef getað hjólað í alveg glærahálku af öryggi í þau fáu skipti sem það hefur komið einhver hálka í vetur.

Fatnað þurfti ég ekki að kaupa mér því ég hef átt lengi ágætis vind og regnheldan jakka og buxur og Elsa Rut prjónaði á mig þessa fínu húfu líka. Annars er betra að vera frekar minna klæddur en meira, en hanska nota ég alltaf, sama hvernig viðrar því vindkælingin á puttana getur orðið svakaleg. Að sjálfsögðu gat ég ekki sleppt því að kaupa líka mæli á hjólið fyrst ég var farinn af stað í þetta allt en mælirinn hefur hvatt mig mikið áfram í hjólamennskunni því að ef maður sér kílómetrana tikka inn þá á maður oft erfitt með að fara ekki að keppa við sjálfan sig. Til sönnunar á því þá hef ég núna hjólað samtals 563 kílómetra síðan ég tók hjólið í notkun í janúar!

Mest hef ég hjólað um 50 km. á einum degi en oftast hafa löngu hjólatúrarnir mínir verið í kringum 30 km. Ég er farinn að fara flestra minna ferða á hjólinu, ég hjóla í skólann (bara 1,6 km. leið), út í búð (ef ég er að versla eitthvað smálegt), í bankann, lyfjabúð, í heimsóknir og svo framvegis. Bara síðan í janúar er ég búinn að spara mér 9.000 krónur með því að velja oftar hjólið en bílinn.

Og brekkurnar? Finn ekki fyrir þeim, ég fer í lægsta gírinn og svo sný ég pedölunum bara hægt og rólega upp brekkurnar og maður er kominn á jafnsléttu aftur áður en maður veit af. Maður á ekki að hamast upp brekkurnar, annars hættir maður að nenna þessu. Það er miklu skemmtilegra að hamast þegar komið er á jafnsléttu eða maður er að fara niður á við! Þá er minnsta mál að halda allt að 30 kílómetra hraða á jafnsléttunni án mikillar fyrirhafnar og enn meiri hraða á niðurleið, allt að 50-60. Metið mitt er reyndar 70 (ohh, það var æðislegt og mér fannst hraðinn miklu meiri!!) en á slíkum hraða á reiðhjóli er líka eins gott að vera vakandi fyrir umhverfinu svo að ekki hljótist slys af! En neinei, þetta eru auðvitað bara öfgarnar, meðalhraðinn er oftast mun lægri en þó tekur enga stund að skjótast á milli á fjallahjólinu. Mæli með þessu, það er æðislega hressandi, vetur sem sumar.


Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband