Sjávarstuð

Nýliðin helgi var hressandi. Ég komst í mína fyrstu siglingu í vetur, en síðan ég kom hingað vestur hefur mig mikið langað til þess. Vinur minn sem er í björgunarsveitinni Björg hér á Suðureyri bauð mér að koma með í ferð á einum af björgunarbátunum en með í för var bróðir hans sem er líka í sveitinni, einn annar björgunarsveitarmaður og svo tveir bændur frá Botni sem er bærinn innst í Súgandafirði, en tilgangur siglingarinnar í þetta sinn var einmitt að skyggnast um eftir sauðfé sem gæti hafa orðið eftir frá því í leitunum í haust.

Reyndar byrjaði dagurinn hjá mér á því að ég þurfti að mæta í vinnuna frá 8-12 því það hafði verið svo mikill fiskmarningur eins og hann kallast, að það gafst ekki tími til að klára hann á föstudaginn. En hvað um það, ég náði smá dýfu í heita pottinum eftir vinnu áður en ég skellti mér með í bátsferðina. Siglt var út fjörðinn til norðurs og svo austurs alveg að Galtarvita nokkrum við heiðan himin. Það var auðvitað ægifagurt að sjá fjallgarðana frá hafinu og Súgandafjörðinn frá nýju sjónarhorni svo ég hóf að taka myndir í gríð og erg. Er ég var að smella af einni myndinni af fjallinu Gelti varð mér allt í einu snögg bumbult! Þarna fann ég i fyrsta sinn á ævinni fyrir sjóveiki, en þarna utan við fjörðinn var ágætis öldugangur þó að inni í honum væri á sama tíma spegilsléttur sjór að kalla. Það hefur heldur ekki hjálpað til að ég var nógu vitlaust til að skófla í mig piparkökum með mjólk rétt fyrir brottför, ekki gáfulegt það haha!

Ég jafnaði mig nú fljótt eftir að ég hætti að góna í myndavélina og horfði í staðinn á fasta punkta, sjóndeildarhringinn og strandlengjuna. Svo var ég orðinn það eiturhress er við snérum inn í fjörðinn að ég lagði í myndatökur á ný. Nú fórum við djúpt inn í fjörðinn en hann er afar grunnur á stórum svæðum, sérstaklega fyrir miðjunni, svo það varð að passa vel hvar siglt var. En um borð voru auðvitað menn sem þekkja svæðið inn og út og björgunarbáturinn vel búinn, með GPS korti og öllu, svo þetta var alveg skothelt. Ég fékk gott tækifæri til að sjá Norðureyrina (sem er beint á móti Suðureyri) bara nokkra metra frá strandlengjunni og svo aðeins innar voru selir á vappi. Er við komum að náttúrulegri höfn í Selárdal nokkrum stökk annar bóndinn frá borði og tók hindinn sinn með en hann vildi næla sér í smá hreyfingu og ganga heim að Botni. Sólin er víst ekki lengi á lofti svona seint í nóvembermánuði svo nú urðum við að fara að koma okkur til baka, en auk þess var byrjað að fjara. Við vorum allir kappklæddir, enda fimbulkuldi og meira að segja krap í sjónum, en fatnaðurinn hafði haldið á okkur hlýju fram að þessu. En nú hafði kuldaboli náð að naga í gegnum fatnaðinn um það leiti sem við komum inn í höfnina á Suðureyri. Ég hjálpaði svo fólkinu að ganga frá bátnum og þakkaði fyrir mig.

Fjörið þennan laugardag var ekki alveg búið því að um kvöldið fór ég með á körfuboltaleik þar sem öttu kappi KFÍ gegn Grindavík. Grindvíkingarnir unnu því miður ansi stórt þrátt fyrir harða baráttu KFÍ sem náði þó ansi mörgum stigum eins og lokatalan 94-122 sýnir. Alveg magnað að ég skuli vera að ræða um íþróttir, þetta er eitthvað nýtt hjá mér! En allavega, við héldum áfram stuðinu, fengum okkur að borða í Hamraborginni og spiluðum svo pool leiki í Edinborgarhúsinu og þar náði ég að bragða á einum jólabjór, þeim fyrsta á árinu og reyndar var þetta sá eini þetta kvöld því mig langaði bara aðeins að smakka.

Næsti mánuður verður frábær. Ég er nefninlega búinn að panta mér frí frá 20. desember til 6. janúar og er nú þegar byrjaður að telja niður dagana, því ég get ekki neitað því að ég hlakka til jólanna. Þá verður auk jólahaldsins sannarlega gert eitthvað skemmtilegt með fjölskyldu og vinum, alveg klárt mál. Sjáumst þá! Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband