Sindri Snær í heimsókn :)

Nú er ég búinn að fá Sindra Snæ ,,litla" bróður í heimsókn og heppnaðist sú helgi vonum framar! Ég hafði alveg eins búist við að honum myndi leiðast hjá mér á einhverjum tímapunkti en það kom ekki ein slík sekúnda. Hann vill strax ólmur koma aftur og mikið er ég nú ánægður með það! Ég get sagt það sama, ég myndi mjög svo vilja fá hann einhvern tíman aftur í heimsókn því ég skemmti mér alveg jafn vel þessa helgi.

Fyrst stefndi í að heimsóknin tæki enda áður en hún hæfist því það var frekar hvasst og tvísýnt með flug, en fluginu daginn áður hafði verið aflýst sem jók á áhyggjur mínar. En sem betur fer slapp þetta og Sindri lenti um sexleitið á föstudaginn eins og áætlað var. Steinar vinur minn hérna á Suðureyri kom með mér að sækja Sindra og við fórum beint af flugvellinum á rúntinn um Ísafjörð því við höfðum ákveðið að fara í bíó um áttaleitið á myndina Thor 2 og urðum því að drepa tímann í millitíðinni. En við komum líka við í Hamraborg, bestu sjoppunni á Ísafirði og tróðum okkur út, það er nú nauðsynlegt að gera vel við sig um helgar. Eftir bíóið fórum við svo á Suðureyri og tókum úr töskunum. Haldið þið ekki að það hafi leynst gjafir handa mér innan um dótið hans Sindra sem mamma og hann vildu færa mér: snakk, nammi, bakkelsi og fleira gúmmelaði, auk plastíláta sem mig hafði vantað! Ég þakka bara innilega fyrir mig!

Á laugardaginn byrjuðum við á að gefa öndum nokkrum brauð en ég stóðst ekki mátið að sýna Sindra kvikyndi þessi því að æstari öndum hef ég ekki kynnst annars staðar á minni ævi. Endurnar eru svo trylltar í brauð að um leið og einhver þeirra verður manns vör, þá gargar hún af öllum lífs- og sálarkrafti og þá tekur allur hópurinn við sér og þær koma á móti manni eins og herfylking og umkringja brauðgjafa/na og éta eins og þær hafi ekki fengið mat í viku. Stundum kemur fyrir að þær elti mann þó þær séu búnar að fá allt brauðið, og einu sinni var ég eltur á bílnum! Ég kalla þær því í gamni ,,drápsendurnar" og við Sindri sprungum úr hlátri yfir hamaganginum en tókum svo til fótanna að því loknu!

Að brauðgjöf þessari lokinni rúntuðum við yfir til Ísafjarðar og skoðuðum bæinn og tókum nokkrar vel heppnaðar myndir af okkur félögunum, en fórum svo yfir til Bolungarvíkur og skelltum okkur í sundlaugina, í heitan pott og fleira sem var mjög svo hressandi í kuldanum. Á bakaleiðinni var komið við í Bónus og keypt meira gúmmelaði fyrir helgina!! Um kvöldið var okkur Sindra boðið yfir til Steinars og þar eignaðist Sindri vin, Andra, sem er yngsti bróðir Steinars og kom þeim vel saman þó Andri sé nokkrum árum eldri. Grand Theft Auto var spilaður grimmt í þessari heimsókn og hafði ég gaman af að fylgjast með æsingnum, en ég er orðinn svo slappur tölvuleikjamaður að ég fylgdist bara með, allavega í þetta sinn! En ég ætti nú kannski, svona þegar ég hugsa málið, að dusta rykið af tölvuleikjaáhuganum, því það kemur alveg fyrir í þeim takmarkaða frítíma sem ég hef að mér leiðist. Þegar við komum heim í herbergið mitt að heimsókn lokinni horfðum við á uppáhalds bíómyndina mína ,,Office Space" og það kom mér skemmtilega á óvart að Sindri ,,fílaði" hana bara í botn þó svo að hún væri gamanmynd/grínmynd sem er aðallega stíluð á fullorðna fólkið. En ég skal líka segja ykkur að brósi hefur þroskast alveg svakalega bara á einu ári og hann er orðinn mjög mannalegur, enda er kallinn að fermast á árinu!

Sunnudagurinn tók á móti okkur með miklu blíðskaparveðri en það bærðist ekki strá um morguninn. Því miður var heimfarartíminn að bresta á fyrir Sindra en áður en það yrði ákváðum við að fara í sundlaugina á Suðureyri sem er ekki síðri en sú í Bolungarvík, en Suðureyri er eini bærinn á svæðinu sem býr við hitaveituvatn. Í hádeginu var komið að kveðjustundinni og Sindri fór með flugvélinni til Reykjavíkur. Við vorum sælir og glaðir eftir þessa vel heppnuðu helgi og hann sagði mér að hann hefði helst viljað vera lengur. En það kemur nú örugglega að því að hann komist aftur í heimsókn, áður en hann veit af. Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf jafngaman að lesa bloggið þitt elsku strákurinn minn. Þú ert ábyggilega besti bróðir í heimi.

Sjáumst

amma

amma sín (IP-tala skráð) 11.11.2013 kl. 21:57

2 Smámynd: Guðmundur Björn Sigurðsson

Og hann líka :) Við erum góðir saman félagarnir. Bestu kveðjur yfir í Espigerðið, sjáumst fljótlega amma mín!

Guðmundur Björn Sigurðsson, 13.11.2013 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband