Vetur konungur neitar að fara

Þá er kominn maí og með þeim mánuði kviknar von um að nú fari veturinn að gefa eftir fyrir sumrinu. Enn sjást þó engin merki um það hér á Króknum að það sé að koma sumar, ef birtan er undanskilin. Það snjóaði í dag og var skítkalt úti og þó ég hafi yfirleitt lítið á móti vetrinum er ég alveg kominn með nóg í bili. Ég verð að þrauka í eina til tvær vikur í viðbót, þá hlýtur þetta að fara að koma. Ég get farið að gleðjast yfir öðru á meðan ég bíð, en það er það að ég er loksins að verða laus við mínusinn í fjármálunum. Á næstu 1-2 vikum verð ég hættur að nota yfirdráttarheimildina og þá get ég loks farið að safna, en það er betra að eiga einhverjar krónur ef ég ætla að reyna að skipta um bíl, sem er löngu orðið tímabært, eða ef ég verð heppinn og fæ vinnu á Ísafirði en kemst ekki strax í hentugt húsnæði, þá er betra að hafa úr einhverju að moða.

Ég hafði það gott á baráttudegi verkalýðsins og notaði frídaginn í afslöppun og eins í breytingar á herberginu mínu, svo það má segja að ég hafi skipt deginum í tvennt. Ég reisti gestarúmið við á langhliðinni til að stækka gólfplássið hjá mér, en þetta lítur samt snyrtilega út því ég tók lappirnar af og hef teppi yfir og rúmið mitt liggur upp við, þannig að það er komið með bak og virkar því eins og sófi líka. Svo ef ég fæ gest yfir nótt þá er minnsta mál að leggja aukarúmið niður á meðan á heimsókninni stendur.

Það er áhugaverð helgi framundan því vinnufélagi minn ætlar að plötusnúðast á veitingastað einum í miðbæ Króksins á laugardaginn, en staðurinn verður þá væntanlega í kráarbúningi á  meðan. Náungi þessi er frá Ástralíu en flutti hingað með íslenskri konu sinni og er víst flinkur trommari, en hann mun hvíla kjuðana í þetta sinn og spila í staðin sálar, funk og hip hop tónlist eða eins og hann orðar það sjálfur á fésbókarviðburðinum fyrir kvöldið: ,,Come listen to some decent tunes and drink."


Sumardagurinn fyrsti í höfn

Þetta var ágætur fyrsti sumardagur, ég gef honum svona þrjár stjörnur af fimm (kannski aðeins of góður dómur, og þó). Hann hefði fengið fleiri stjörnur ef ég hefði komist í heimsókn til fjölskyldunnar en það bíður betri tíma. Ég breytti út af venjunni svona í þetta sinn og fékk mér hamborgara og franskar og fékk mér svo einn ískaldan léttöl þegar heim var komið. Annars hef ég í marga daga bara eldað eitthvað ódýrt heima eins og grjónagraut, kjötfarsbrauð með pasta, núðlur og slíkt og bíllinn hefur svo gott sem ekki hreyfst... og sjoppur eru algjört bann. Haddi yngri frændi minn gaf mér snilldar ráð til að hafa eitthvað virkilega gott að narta í fyrir lítið af peningum en það er ekki flóknara en að þú kaupir vínber... og setur þau í frysti!!! Þetta er algjört lostæti, að borða frosin vínber er eins og að vera með nammi uppi í sér og það er miklu hollara og ódýrara og svo skemmast vínberin ekki í frystinum. Prófið þetta, namm! Það var svo sannarlega ekki sumarlegt um að litast hérna á Sauðárkróki þennan fyrsta sumardag, en mér var svosem sama, svona er þetta venjulega á Íslandi og alvöru sumarið með hita og sól kemur á endanum, það er alveg öruggt. Ég klæddi mig vel upp, fór í ullarpeysu yfir aðra peysu og setti á mig húfu og vettlinga og skrapp í smá göngutúr og fannst bara hressandi að finna kuldann í andlitinu, þangað til það kom hálfgert haglél í andlitið á mér, það var svona full mikið af því góða. Þetta var svona millistig snjókorna og hagla, frekar sérstakt. Fyrir utan þetta rölt, sem endaði í heilum fimm kílómetrum þvers og kruss um bæinn þá hélt ég mig innandyra í hlýjunni og hafði það bara fínt þar restina af deginum. Ég óska ykkur gleðilegs sumars og vonandi áttuð þið góðan dag. Cool

Hausinn á mér fullur af áætlunum

Þá er enn ein helgin hafin og ég bíð og bíð eftir sumrinu, eins og svo margir. En biðin núna hefur verið erfiðari en áður því að það er mikil óvissa framundan hjá mér. Ég er nefninlega kominn með það á heilann að komast til Ísafjarðar eða nágrennis. Vestfirðirnir kalla á mig, eins og þeir hafa reyndar alltaf gert. Þó Sauðárkrókur sé góður staður þá var það aldrei ætlunin að flytja hingað, heldur aðeins að dvelja hér um skamma hríð (af því að hér fékk ég vinnu) á meðan ég losnaði við yfirdráttinn og fyndi mér vinnu þar sem ég vildi búa til frambúðar og kaupa mér íbúð. Vestfirðir og Strandir hafa alltaf verið þeir staðir sem ég hef fyrst og fremst viljað búa á, en ég væri líka hæstánægður með að búa á Austfjörðum eða á Eyjafjarðarsvæðinu. En ég hringla ekki meir með þetta, Ísafjörður eða nágrenni skal það vera. Þaðan er styttra fyrir mig á þá staði sem ég sæki mest í og góðar flugsamgöngur til Reykjavíkur, þar er ódýrt húsnæði og lágvöruverðsverslun, gott aðgengi að námi, frábær menning og svo margt fleira sem heillar, eins og t.d. fjöllin. Ég er byrjaður að sækja um störf og vona það besta og ef heppnin er með, þá kemst ég vestur í sumar eða haust.

Fyrir utan þetta þá er svona helst að frétta að ég er byrjaður að skokka aftur eftir að hafa jafnað mig á öfga skokkinu fyrr í vetur sem fór alveg með mig. Nú verður vegalengdin höfð styttri og hún verður ekki lengd í bráð. Svo stofnaði ég auka sparireikning til að nota sem ferða- og neyðarsjóð (og söfnunarsjóð til að geta skipt um bíl) en ég held að þetta sé bráðsniðug hugmynd hjá mér, og ég vona bara að ég nái fljótlega að gauka nógu í hann til að gera eitthvað skemmtilegt. Ég held að bílakaup verði það fyrsta sem ég fer í en nú finnst mér loks vera kominn tími til að skipta um bíl eftir að hafa átt Applausinn minn í einhver sjö ár, mér er í fyrsta sinn farið að leiðast bíllinn þó ég beri samt tilfinningar til hans, þetta er klárlega bíll með sál.

Það er líf og fjör í fiskabúrinu mínu en gúbbunum mínum fækkaði fyrst úr sex í fimm að því er virðist (einn karlinn hvarf bara á dularfullan hátt), en fjölgaði á móti um all nokkur seyði og nú hafa fjögur þeirra komist á legg og eitt þeirra er komið með lit í sporðinn. Í vikunni fór ég í göngutúr um bæinn og ákvað að kanna hann betur, og mér til ánægju uppgötvaði ég brattan malarveg sem fer beint upp af húsinu sem ég bý í og alveg upp á hæðina fyrir ofan, og þar er magnað útsýni yfir allan bæinn og hestar á beit sem sýndu mér mikinn áhuga! Alveg ótrúlegt að ég hafi fyrst núna fundið þessa leið, ekki slæmt það þó!

Vonandi fara bræður mínir að geta kíkt í heimsókn til mín, en af þeim þá hafa Bergþór og Sindri haft mestan áhuga og það væri reglulega gaman að fá þá hingað yfir helgi eða lengur. Ég býst þó fastlega við því að þeir komi í sitt hvoru lagi en varðandi Sindra þá verð ég að plana það ferðalag svolítið fyrir hann kallinn. Vonandi verður af þessu í sumar. Jæja, þetta fer að verða heil fréttasíða ef ég hætti ekki núna, hafið það gott og meira seinna. Smile


Laumaðist á Akureyri

Ég stóðst ekki mátið, ákvað að skreppa bara til Akureyrar núna í góða veðrinu þó ég sé í stífum sparnaði þessa dagana. Mig langaði svo að gera mér dagamun. Það er auðvitað lang ódýrast fyrir mig að kíkja þangað ef ég vil kíkja einhvert, aðeins um klukkutíma akstur frá Króknum svo það er töluvert minna mál en að fara til Reykjavíkur eða á Hólmavík. Ég fékk gistingu hjá frænku minni og hef enga sérstaka dagskrá, sem er frábært, þá slappar maður bara af. Það er nú líklega sniðugt að nota tækifærið og versla í Bónus áður en ég fer til baka, það gæti sparað mér einhvern aurinn því það er því miður engin lágvöruverðsverslun á Króknum enn sem komið er. Ég fór til læknis um daginn og er kannski loksins að fara að komast í handagreiningu hjá sérfræðingi. Kannski fæ ég nú loks að vita hvað er að höndunum en ég fór að finna fyrir óþægindum og braki í höndunum á mér svona upp úr 2006, og það hefur hægt og rólega versnað síðan þá og læknarnir í Reykjavík hafa alla tíð hundsað mig og tafið það að ég kæmist í skoðun til bæklunarlæknis, þrátt fyrir að ég hafi trekk í trekk reynt að fá bót minna mála. Vonandi kemur eitthvað út úr þessu núna, ég get ekki beðið eftir að losna við þessa óvissu, ,,hvað er að mér?" og ,,er hægt að gera eitthvað við þessu, eða ekki?" Jæja, ég læt þessi ,,úr einu í annað" skrif mín duga í bili FootinMouth . Góða helgi öll!

Fjúff, bara martröð...

Úff, ég fékk þessa svaka martröð núna, dreymdi þennan líka hrikalega jarðskjálfta í herberginu mínu og hrökk upp úr svefni. Herbergið kastaðist til eins og í stórsjó. Hélt að hann hefði jafnvel orðið í alvörunni, var smá stund að átta mig. Ég steinsofnaði óvart í rúminu í fötunum strax eftir kvöldmat, hef greinilega verið ansi þreyttur. Stundum er raunveruleikinn betri en svefnheimar. En jæja, best að fá sér vatnsglas og fara aftur að sofa! Góða nótt gott fólk og vonandi eigið þið góða drauma!!!

Jæja, vinnan á ný

Frábærir páskar að baki. Ég þvældist út um allar koppagrundir, fór sem fyrr segir til Reykjavíkur, skrapp svo á Akranes í stutta heimsókn til Hadda frænda (yngri) og fór svo til Hólmavíkur og loks til baka á Krókinn og var ég þá búinn að aka samtals um 860 km þessa páska! Á Hólmavík var ég mest með vini mínum og fjölskyldu sem ég kynntist þegar ég var að vinna hjá Hólmadrangi en auðvitað kíkti ég líka á Stakkanes til Hadda frænda (eldri) og hitti líka afa minn á vappi um Hólmavík og hann var bara í góðu skapi og gaman að tala við hann. Ég seldi einum vini mínum á Hólmavík rafmagnshjólið mitt því að þó mér hafi fundist virkilega skemmtilegt að eiga það og ég hafi notað það mikið í Reykjavík, þá býður húsnæðið sem ég er í núna því miður ekki upp á neinn stað til að geyma hjól á, svo ég hef ekkert getað notað hjólið hér á Króknum. Þá vildi ég frekar selja gripinn og láta hann nýtast einhverjum öðrum, en það er samt alveg á hreinu að ég fæ mér aftur svona hjól þegar betur stendur á. Mér veitir líka ekki af krónunum núna til að hjálpa mér að koma fjárhagnum loksins í plús svo ég geti loksins farið að safna eitthvað. Þetta er alveg glatað ástand og nýja vinnan mín hefur því miður ekki boðið upp á nógu góðar tekjur svo það er spurning hvað ég geri. Hvað sem ég geri þó, þá er ég alveg ákveðinn í því að ég verð áfram hér á Sauðárkróki eða annars staðar á landsbyggðinni því að þó mér finnist Reykjavík líka vera góður staður til að vera á, þá er bara of notalegt að vera á litlum stað þar sem fólk þekkir hvort annað og að vera með fjöllin og hafið og sveitirnar, dýralífið og allt hitt allt í kringum sig.

Páskarnir

Jæja, þá er páskafríið á fullu róli og ég er kominn aftur til Reykjavíkur. Ég byrjaði fríið eftir vinnu á því að hitta nokkra vini mína á Króknum (sem ég er að vinna með) og við sötruðum saman öl. Daginn eftir ók ég til Reykjavíkur í blíðskapar veðri og útsýnið á leiðinni var óaðfinnanlegt, sól mest alla leiðina og vegurinn þurr og auður, en fjöllin öll hulin snjó og skyggnið var svo gott að ég sá Strandafjöllin mjög vel í fjarska þegar ég var að keyra í nágrenni Blönduóss og sá meðal annars Kaldbakshornið og Reykjaneshyrnuna afar vel hinum megin við Húnaflóann þó að ég væri í um 65 km fjarlægð í beinni sjónlínu! Nú er planið að dvelja í Reykjavík fram á laugardagskvöld eða sunnudagsmorgun og aka þá til Hólmavíkur og vera þar síðustu tvo frídagana með góðum vini og vonandi að hitta einhverja ættingja ef þeir eru þá ekki sjálfir á flakki eins og ég. En nú er best að halla sér aðeins, enda klukkan núna rúmlega hálf fimm að morgni! Ég segi bara gleðilega páska öll sömul. Smile

Föstudagur!

Þá er að skjótast í borgina. Fermingarveisla hjá frænda mínum sem ég vil nú ekki missa af þó að ég hefði annars ekkert verið að fara þessa helgina, enda páskafríið á næsta leiti og mun hentugra að fara þá. Erfið vinnuvika að baki, þetta var fyrsta vikan þar sem ég var að vinna í 11-12 tíma hvern einasta dag nema í dag og ég hef verið að leka niður úr þreytu því að það er bara ekki hægt að vinna eingöngu og sofa og gera ekkert til að lyfta upp andanum þess á milli. Ég er mjög sáttur við að fá góða útborgun næsta fimmtudag en bakinu veitir þó ekki af venjulegum vinnutíma næstkomandi viku. Samt á ég eftir að segja já við allri vinnu sem ég fæ til að hjálpa mér að komast loks í sparnað. En jæja, best að leggja í hann og ná smá akstri í dagsbirtu, góða helgi. Smile

Fjölbreytt helgi á Króknum

Þá er þessi afbragðsgóða helgi að baki. Ég tók því rólega til að byrja með og kíkti í sundlaugina í Varmahlíð í fyrsta sinn á föstudaginn og þetta er bara fínasta laug, þótt hún skáki seint lauginni á Hofsósi þar sem hægt er að sjá eitt fallegasta landslag sem hægt er að sjá úr sundlaug, með Drangey, Málmey og Þórðarhöfðann ásamt sænum og fjöllunum í kring í sjónmáli. Ég fór líka í göngutúr meðfram ströndinni eða Sandinum eins og fjaran við Krókinn er kölluð, og sá þar nokkra forvitna seli sem voru í sífellu að gægjast upp úr sjónum, eins hátt upp og þeir komust, til að forvitnast um hvað væri að gerast á þurru landi og ég vona að ég hafi ekki valdið þeim vonbrigðum sem áhorfsefni! Á laugardagskvöldið kíkti ég út á lífið sem var mikið fjör og ég kom frekar seint heim, þannig að ég tók því rólega á sunnudaginn og eyddi deginum aðallega heima og hélt loksins áfram lestrinum á Reykjavíkurnóttum eftir Arnald Indriðason eftir næstum því mánaðar pásu. Nú verð ég að fara að herða mig í að klára bókina svo fólk fari ekki að hætta að gefa mér bækur í jólagjöf, það vil ég ekki því það er fátt betra en að geta losnað aðeins úr raunveruleikanum með því að sökkva sér í góða sögu, ekki síst á leiðinlegum dögum þó þeir séu sem betur fer sjaldgæfir. Ég klikkaði á einu um helgina því ég ætlaði loksins að sýna smá lit og fara á íþróttaleik í Síkinu hér á Króknum en Tindastóll og Grindavík öttu kappi saman í körfuboltaleik í kvöld og var víst þrusumæting og frítt á leikinn í boði Fisk Seafood og Kaupfélags Skagfirðinga. Leikurinn endaði víst með sigri Grindvíkinga 97-91 en mér skilst að Stólarnir hafi þó aldrei hleypt Grindvíkingum langt á undan sér. Sko mig... bara farinn að fylgjast pínu með íþróttum og vera ekki týndur, undur og stórmerki! Happy

Væl, kvein og leiðindi

Jæja, þá er maður búinn að ganga frá skattaskýrslunni fyrir 2012, það var nú reyndar ekki flókið en gott að vera búinn að þessu. Þetta er orðið allt annað líf eftir að hægt er að gera þetta rafrænt alfarið. Ég er allur að koma til núna, mér finnst kvefið vera að skána og ég er á verkjalyfjum við bakverkinum en ég held að hann sé líka að lagast. Ég var alveg að farast á þriðjudaginn, fékk mikla verki við að rísa upp úr rúminu og það var vont að ganga og sömuleiðis að setjast og standa upp. Ég ákvað því að vera heima þann daginn, sem var eini dagurinn minn frá vinnu síðan ég byrjaði í Fiskiðjunni. Ég skellti mér til læknis og í lyfjabúð að fá verkjalyf og var svo heima mest allan daginn fyrir utan að ég fór út í stuttan göngutúr, samkvæmt læknisráði, áður en ég fór að sofa. Svo er gott að fara í heita pottinn líka og það er sannarlega ekki vandamál fyrir mig því ég hef farið í sund að minnsta kosti einu sinni til tvisvar í viku í all nokkur ár. En jæja, ég læt þetta duga í dag áður en einhver hringir í vælubílinn fyrir mig eða deyr jafnvel úr leiðindum á undan. Lifið heil Sideways


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband