Júní mættur!

Það er heldur betur orðið bongó núna. Það er farið að vera hlýtt dag eftir dag og snjórinn í fjöllunum bráðnar ógnar hratt þó af nógu sé að taka ennþá reyndar. Ég er búinn að ganga tvisvar á Molduxa, 706  metra fjall sem Sauðárkrókur stendur við (ásamt fjallinu Tindastóli, sem er mun frægara fjall og hærra) og ég er kominn með ferðasýki þó ég sé að reyna að halda aftur af mér eins og ég get til að halda í peningana. Margir vinir mínir eru nýbúnir í prófum og því eflaust ferðasjúkir líka svo ég er vongóður um að rekast á einhverja von bráðar. Við hengdum þorskshausa upp í hjalla til þurrkunar í síðasta sinn í dag í skreiðinni. Það var vissulega mjög forvitnilegt að prófa þessa vinnu og jafnvel gaman á köflum, sérstaklega í góðra manna hópi og í góðu veðri, en ekki á ég eftir að sakna þessarar vinnu að öðru leyti, enda er þetta þungavinna sem er unnin í alls kyns veðri (jafnvel snjóbyl) og maður er með slorið um sig allan, jafnvel í andlitinu. Ef ég hætti hjá Fisk þegar stoppið hefst, sem er lang líklegast, þá eru bara um fimm vikur eftir hjá mér og þá held ég á vit nýrra ævintýra, og satt best að segja þá veit ég enn ekki hvort ég enda á Ísafirði eins og mig langar mest til, eða ég sný aftur á Hólmavík, fer eitthvað allt annað eða fæ jafnvel aðra vinnu hér á Króknum og þá fer ég ekki fet! Þetta veltur allt á því hversu heppinn ég verð með að fá vinnu en ég er opinn fyrir flestu svo lengi sem ég er að vinna mig upp á við á einhvern hátt (eitthvað af þessu eða allt: betri laun, óskastaðsetning, húsnæði sem kostar ekki annan handlegginn, matur í hádeginu, kvöldskóli eða aðrir námsmöguleikar, lágvöruverðsverslun!) Ekki á morgun heldur hinn skrepp ég til Akureyrar í segulómskoðun en þá tekst vonandi að greina hvað er að hrjá mig í höndunum, en greiningarferlið er búið að taka ansi langan tíma. Svo lengi sem ég þrjóskast við en gefst ekki upp á heilbrigðiskerfinu þá hefst þetta á endanum og vonandi á þessu ári. Jæja, ég sé að ég er búinn að skrifa hér í belg og biðu án þess að hafa greinaskil á milli (já ég veit, leti! En ég bloggaði þó Happy ) svo það er best að stoppa núna, ég hendi inn fleiru við tækifæri!

E.S. Ég var að lesa að Hermann Gunnarsson er látinn. Ég á eftir að sakna þess að heyra í honum eða sjá hann í fjölmiðlum. Hann var sannarlega frábær maður, hláturmildur og með hjartað á réttum stað og góð fyrirmynd á svo margan hátt. Mamma mín gerðist svo fræg í vetur að vera í þættinum hans á Bylgjunni í smá stund þar sem hún tók þátt í spurningakeppni ásamt annarri konu og stóð sig auðvitað með glæsibrag og ég get ímyndað mér að það hafi verið gaman að tala við Hemma í eigin persónu. Enginn getur komið í annars stað en allir hafa víst sinn tíma á jörðinni og hans spor á heiminn munu ekki hverfa sem betur fer.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband