Fjúff, bara martröð...

Úff, ég fékk þessa svaka martröð núna, dreymdi þennan líka hrikalega jarðskjálfta í herberginu mínu og hrökk upp úr svefni. Herbergið kastaðist til eins og í stórsjó. Hélt að hann hefði jafnvel orðið í alvörunni, var smá stund að átta mig. Ég steinsofnaði óvart í rúminu í fötunum strax eftir kvöldmat, hef greinilega verið ansi þreyttur. Stundum er raunveruleikinn betri en svefnheimar. En jæja, best að fá sér vatnsglas og fara aftur að sofa! Góða nótt gott fólk og vonandi eigið þið góða drauma!!!

Jæja, vinnan á ný

Frábærir páskar að baki. Ég þvældist út um allar koppagrundir, fór sem fyrr segir til Reykjavíkur, skrapp svo á Akranes í stutta heimsókn til Hadda frænda (yngri) og fór svo til Hólmavíkur og loks til baka á Krókinn og var ég þá búinn að aka samtals um 860 km þessa páska! Á Hólmavík var ég mest með vini mínum og fjölskyldu sem ég kynntist þegar ég var að vinna hjá Hólmadrangi en auðvitað kíkti ég líka á Stakkanes til Hadda frænda (eldri) og hitti líka afa minn á vappi um Hólmavík og hann var bara í góðu skapi og gaman að tala við hann. Ég seldi einum vini mínum á Hólmavík rafmagnshjólið mitt því að þó mér hafi fundist virkilega skemmtilegt að eiga það og ég hafi notað það mikið í Reykjavík, þá býður húsnæðið sem ég er í núna því miður ekki upp á neinn stað til að geyma hjól á, svo ég hef ekkert getað notað hjólið hér á Króknum. Þá vildi ég frekar selja gripinn og láta hann nýtast einhverjum öðrum, en það er samt alveg á hreinu að ég fæ mér aftur svona hjól þegar betur stendur á. Mér veitir líka ekki af krónunum núna til að hjálpa mér að koma fjárhagnum loksins í plús svo ég geti loksins farið að safna eitthvað. Þetta er alveg glatað ástand og nýja vinnan mín hefur því miður ekki boðið upp á nógu góðar tekjur svo það er spurning hvað ég geri. Hvað sem ég geri þó, þá er ég alveg ákveðinn í því að ég verð áfram hér á Sauðárkróki eða annars staðar á landsbyggðinni því að þó mér finnist Reykjavík líka vera góður staður til að vera á, þá er bara of notalegt að vera á litlum stað þar sem fólk þekkir hvort annað og að vera með fjöllin og hafið og sveitirnar, dýralífið og allt hitt allt í kringum sig.

Páskarnir

Jæja, þá er páskafríið á fullu róli og ég er kominn aftur til Reykjavíkur. Ég byrjaði fríið eftir vinnu á því að hitta nokkra vini mína á Króknum (sem ég er að vinna með) og við sötruðum saman öl. Daginn eftir ók ég til Reykjavíkur í blíðskapar veðri og útsýnið á leiðinni var óaðfinnanlegt, sól mest alla leiðina og vegurinn þurr og auður, en fjöllin öll hulin snjó og skyggnið var svo gott að ég sá Strandafjöllin mjög vel í fjarska þegar ég var að keyra í nágrenni Blönduóss og sá meðal annars Kaldbakshornið og Reykjaneshyrnuna afar vel hinum megin við Húnaflóann þó að ég væri í um 65 km fjarlægð í beinni sjónlínu! Nú er planið að dvelja í Reykjavík fram á laugardagskvöld eða sunnudagsmorgun og aka þá til Hólmavíkur og vera þar síðustu tvo frídagana með góðum vini og vonandi að hitta einhverja ættingja ef þeir eru þá ekki sjálfir á flakki eins og ég. En nú er best að halla sér aðeins, enda klukkan núna rúmlega hálf fimm að morgni! Ég segi bara gleðilega páska öll sömul. Smile

Föstudagur!

Þá er að skjótast í borgina. Fermingarveisla hjá frænda mínum sem ég vil nú ekki missa af þó að ég hefði annars ekkert verið að fara þessa helgina, enda páskafríið á næsta leiti og mun hentugra að fara þá. Erfið vinnuvika að baki, þetta var fyrsta vikan þar sem ég var að vinna í 11-12 tíma hvern einasta dag nema í dag og ég hef verið að leka niður úr þreytu því að það er bara ekki hægt að vinna eingöngu og sofa og gera ekkert til að lyfta upp andanum þess á milli. Ég er mjög sáttur við að fá góða útborgun næsta fimmtudag en bakinu veitir þó ekki af venjulegum vinnutíma næstkomandi viku. Samt á ég eftir að segja já við allri vinnu sem ég fæ til að hjálpa mér að komast loks í sparnað. En jæja, best að leggja í hann og ná smá akstri í dagsbirtu, góða helgi. Smile

Fjölbreytt helgi á Króknum

Þá er þessi afbragðsgóða helgi að baki. Ég tók því rólega til að byrja með og kíkti í sundlaugina í Varmahlíð í fyrsta sinn á föstudaginn og þetta er bara fínasta laug, þótt hún skáki seint lauginni á Hofsósi þar sem hægt er að sjá eitt fallegasta landslag sem hægt er að sjá úr sundlaug, með Drangey, Málmey og Þórðarhöfðann ásamt sænum og fjöllunum í kring í sjónmáli. Ég fór líka í göngutúr meðfram ströndinni eða Sandinum eins og fjaran við Krókinn er kölluð, og sá þar nokkra forvitna seli sem voru í sífellu að gægjast upp úr sjónum, eins hátt upp og þeir komust, til að forvitnast um hvað væri að gerast á þurru landi og ég vona að ég hafi ekki valdið þeim vonbrigðum sem áhorfsefni! Á laugardagskvöldið kíkti ég út á lífið sem var mikið fjör og ég kom frekar seint heim, þannig að ég tók því rólega á sunnudaginn og eyddi deginum aðallega heima og hélt loksins áfram lestrinum á Reykjavíkurnóttum eftir Arnald Indriðason eftir næstum því mánaðar pásu. Nú verð ég að fara að herða mig í að klára bókina svo fólk fari ekki að hætta að gefa mér bækur í jólagjöf, það vil ég ekki því það er fátt betra en að geta losnað aðeins úr raunveruleikanum með því að sökkva sér í góða sögu, ekki síst á leiðinlegum dögum þó þeir séu sem betur fer sjaldgæfir. Ég klikkaði á einu um helgina því ég ætlaði loksins að sýna smá lit og fara á íþróttaleik í Síkinu hér á Króknum en Tindastóll og Grindavík öttu kappi saman í körfuboltaleik í kvöld og var víst þrusumæting og frítt á leikinn í boði Fisk Seafood og Kaupfélags Skagfirðinga. Leikurinn endaði víst með sigri Grindvíkinga 97-91 en mér skilst að Stólarnir hafi þó aldrei hleypt Grindvíkingum langt á undan sér. Sko mig... bara farinn að fylgjast pínu með íþróttum og vera ekki týndur, undur og stórmerki! Happy

Væl, kvein og leiðindi

Jæja, þá er maður búinn að ganga frá skattaskýrslunni fyrir 2012, það var nú reyndar ekki flókið en gott að vera búinn að þessu. Þetta er orðið allt annað líf eftir að hægt er að gera þetta rafrænt alfarið. Ég er allur að koma til núna, mér finnst kvefið vera að skána og ég er á verkjalyfjum við bakverkinum en ég held að hann sé líka að lagast. Ég var alveg að farast á þriðjudaginn, fékk mikla verki við að rísa upp úr rúminu og það var vont að ganga og sömuleiðis að setjast og standa upp. Ég ákvað því að vera heima þann daginn, sem var eini dagurinn minn frá vinnu síðan ég byrjaði í Fiskiðjunni. Ég skellti mér til læknis og í lyfjabúð að fá verkjalyf og var svo heima mest allan daginn fyrir utan að ég fór út í stuttan göngutúr, samkvæmt læknisráði, áður en ég fór að sofa. Svo er gott að fara í heita pottinn líka og það er sannarlega ekki vandamál fyrir mig því ég hef farið í sund að minnsta kosti einu sinni til tvisvar í viku í all nokkur ár. En jæja, ég læt þetta duga í dag áður en einhver hringir í vælubílinn fyrir mig eða deyr jafnvel úr leiðindum á undan. Lifið heil Sideways


Góan

Lífið er misgott eftir dögum, ekki hægt að segja annað eftir þennan dag. Ég er búinn að næla mér í hörku kvef og bakið er í rúst líka. Þetta byrjaði á föstudaginn strax eftir vinnu, en á leiðinni til Hólmavíkur (á Góufagnaðinn) þá fór ég að finna fyrir kvefinu. Svo í veislunni var mér farið að líða ansi illa þannig að eftir matinn og skemmtiatriðin var lítið kíkt á dansgólfið þegar hljómsveitin Matti og Draugabanarnir (frá Stykkishólmi) byrjuðu að spila. Ég fór svo bara á Stakkanesið þar sem ég fékk gistingu hjá frænda mínum, svona um tólf eða eittleitið þó hljómsveitin hafi eflaust spilað til rúmlega þrjú. Fyrir utan kvefvesenið var þetta þó hin ágætasta ferð. Ég hjálpaði vini mínum með smíðar/endurbætur á herbergi og passaði krakkana hans líka þegar hann varð að skjótast í smá sunnudagsvinnu svo að ég kom að ágætis gagni þarna á Hólmavík sem var bara hið besta mál. Ég varð fyrir ótrúlegri tilviljun tvisvar í þessari helgarferð minni. Á leiðinni til Hólmavíkur kom ég við í Staðarskála og hitti þar frænku mína og fjölskyldu sem var nógu magnað út af fyrir sig... ef ég hefði svo ekki rekist á þau líka í Staðarskála á leiðinni til baka á Krókinn!! Þau voru sjálf að skreppa til Siglufjarðar í skíðaferð. En svo ég vindi mér að deginum í dag svona að lokum að þá vaknaði ég í morgun og leið skítlega af kvefinu og var búinn að ákveða að vera bara heima, en ég hætti við á síðustu stundu og fór í vinnuna því ég nennti ekki að skreppa þetta til læknisins að fá veikindavottorðið, já ég er sérstakur!!! Ég fékk að vera inni og fór að seila og svo að þrífa kör en fór því miður að vesenast með að henda körunum sjálfur upp á hvort annað, eitthvað sem ég hefði bara getað látið lyftaramanninn gera, og já, ég rústaði á mér bakinu og get engum kennt um nema sjálfum mér! Ég er snilli Wink

Borgarleiðangur og fleira

Nú er bíllinn minn loksins í lagi, tja, allavega nógu mikið til að ég komst til Reykjavíkur um helgina. Þetta var skemmtileg ferð og ég heimsótti vini og fjölskyldu og endaði meira að segja á ,,djamminu'' þó það hafi reyndar ekki verið í planinu. Ég fékk líka heldur betur adrenalín spark í ferðinni en ég fór nefninlega í heimsókn til ömmu og afa í móðurætt, sem er venjulega mjög róandi og notalegt... og það var það, þangað til að ég kvaddi þau og tók lyftuna niður af 6. hæð í húsinu þar sem þau búa. Um leið og lyftan fór af stað þá heyrði ég mikla skruðninga og lyftan hristist til og ég fann hvernig hún datt skyndilega niður og ég hugsaði nú bara ,,nú er þetta búið, ég er dauður!'' En hún fór reyndar ekki mjög langt, bara einn og hálfan metra en það vissi ég ekki og var með hjartað í buxunum og beið eftir því sem koma skyldi, hvort lyftan dytti aftur niður eða yrði kyrr þar til mér yrði bjargað. Ég þorði allavega varla að hreyfa mig og hjartað var á fullu, og þó að skynsemin segi manni að lyftur séu með þrefallt öryggiskerfi þá er erfitt að hugsa rökrétt við þessar aðstæður fastur inni í þröngu rými með nokkra tugi metra af frjálsu falli fyrir neðan sig. En það var auðvitað ekkert að óttast og lyftuviðgerðarmaður opnaði hurðina fyrir mig og ég skreið úr lyftunni sem hafði staðnæmst á milli hæða. Ég tók stigann niður, takk fyrir, þó að kallinn hafi verið búinn að laga vandamálið áður en ég fór!! En jú, að sjálfsögðu tekur maður lyftuna í næstu heimsókn, það er eins gott til að þróa ekki einhverja lyftufælni!!!

Góan er hafin og það þýðir bara eitt... að það styttist í góuveisluna á Hólmavík, nánar tiltekið næsta laugardag. Ég verð nú eiginlega að leyfa mér að fara, ég missti jú af þorraveislunni sem ég var búinn að hlakka svo til að mæta í. Svo er maturinn líka miklu betri á góunni, lambakjöt og fleiri tegundir af kjöti, djúpsteiktar rækjur og fleira og skemmtiatriði og ball eftir matinn. Ég vona bara að veðrið leyfi mér að fara, en eins og er þá er alveg brjálað veður hér á Sauðárkróki og þegar ég fór heim eftir vinnu í dag þá var skyggnið á köflum núll metrar svo að ég varð oft að stöðva bílinn og bíða eftir að sjá einn eða tvo metra fyrir framan bílinn. Þetta er með því verra sem ég hef séð innanbæjar hvað skyggni varðar en þannig lagað ekkert svo svakalegur snjór, allavega ekki enn. Ég var satt best að segja steinheppinn að sleppa frá Reykjavík á Krókinn því að bara rétt eftir að ég renndi í bæinn var orðið brjálað veður og allar leiðir ófærar. Meira næst Smile


Margt að ,,ske"

Þetta er búin að vera skrautleg vika hjá mér en samt er hún ekki nema rúmlega hálfnuð. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á Óskarsverðlaunahátíðinni og reynt að sjá hana sem oftast, en það er oft þrautin þyngri því að þau þurfa endilega að hafa hana á sunnudagskvöldi í stað laugardagskvölds. Það að hátíðin sé haldin á sunnudagskvöldi þýðir það að í mörgum löndum austan við Bandaríkin er klukkan einfaldlega orðin allt of margt ef fólk á að geta sofið eitthvað áður en það mætir til vinnu daginn eftir. Ísland, sem er vestasta Evrópulandið er í raun í bestu stöðunni innan álfunnar hvað þetta varðar, en í löndum á borð við Indland þá er nú bara næsti vinnudagur hafinn á meðan á hátíðinni stendur. En ef Óskarinn væri hafður á laugardegi gætu allir jarðarbúar sem eru í helgarfríi horft á hátíðina. En nú er þetta orðin örlítil lengri langloka en ég hafði ætlað mér.

Það sem ég ætlaði að segja er að til að geta horft á Óskarinn án þess að vera eins og liðið lík af þreytu í vinnunni þá ákvað ég að prófa hreinlega að sofa ekkert um laugardagsnóttina, ekki fyrr en í fyrsta lagi klukkan 7 að morgni sunnudags, og sofa svo mest allan daginn. Það gerði ég og ég vaknaði ekki fyrr en að nálgast fjögur eftir hádegi en þá varð ég nú að vakna til að hlusta á þáttinn ,,Og svaraðu nú'' á Bylgjunni með Hemma Gunn, því að mamma var í þættinum í þetta skiptið (og stóð sig bara vel í spurningunum), ég hefði ekki viljað missa af því!! En svo ég haldi áfram; síðan hófst útsendingin frá Óskarnum á miðnætti að íslenskum tíma og ég horfði á hann allt til enda þegar klukkan var orðin svona fimm um morguninn! Það þýddi að ef ég vildi leggja mig hafði ég bara rúman klukkutíma til þess, en þetta átti að vera í fínu lagi því ég hafði jú sofið allan sunnudaginn til undirbúnings. En mjög fljótlega í vinnunni var ég orðinn dauð, dauðþreyttur og var gjörsamlega að leka niður  í lok dags, þannig að þetta hafði af einhverjum ástæðum mistekist hjá mér. Líklega svaf ég ekki nógu lengi út, nema þá að líkamsklukkan mín vilji bara ekki leyfa mér svona hringl!

Á þriðjudaginn rölti ég þvert yfir bæinn til að komast í iðnaðarhverfið í þeim endanum, í þeim erindagjörðum að gera aðra tilraun með að fá eitthvað bílaverkstæðið til að skipta um bensínleiðsluna á Applausinum. Ég hitti Nonna nokkurn sem tók að sér verkið og var til í að sjá um að draga bílinn frá staðnum þar sem ég hafði þurft að skilja bílinn eftir við hliðina á fyrra verkstæðinu, yfir á sitt verkstæði! Í stuttu máli ætti bíllinn að vera tilbúinn á morgun, föstudag, og þá er ég loksins kominn á bíl eftir tæplega þriggja vikna bílleysi. Ég er staðráðinn í að komast til Reykjavíkur í þetta skiptið, það skal takast, ef ekki á mínum bíl, þá bara hreinlega með næstu rútu.

Ég gerði góðan ,,díl'' í vinnunni í dag. Ég keypti eina öskju af ýsu nánast beint úr skipinu á góðu verði, en þó að Fiskiðjan (Fisk Seafood ehf.) sé ekki með landvinnslu á ýsu þá er hún veidd af skipum vinnslunnar en verkuð um borð og fryst í 9 kílóa öskjum, roð og beinlaus. Ég er með vatn í munninum að komast í að elda mér nokkur flök, en ég ætla klárlega að raspsteikja hana og borða með soðnum kartöflum og kokteilsósu, namm! En heil askja er full mikið fyrir mig ef ég vil hafa pláss fyrir eitthvað annað líka í frystihólfinu mínu svo ég ætla að láta fjölskylduna fá ,,smá" í soðið.

Svakalega get ég blaðrað mikið nú orðið, þetta er gott í bili, meira seinna Happy


Heppinn!

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi í kvöld að komast á fyrirlestur hjá Vilborgu Örnu Gissurardóttur suðurpólsfara. Ég fór í sund í dag og frétti þar fyrir hreina tilviljun að hún væri komin á Sauðárkrók til að halda fyrirlestur um ferðina sína klukkan átta í kvöld, og ég var ekki eina sekúndu að ákveða að mæta. Ég fylgdist með henni öðru hvoru á meðan hún var í leiðangrinum og dáðist að ákveðninni og viljastyrknum. Hún var komin á þægilegan stað í lífinu og komin í eigið húsnæði en fórnaði öllu til að láta draum sinn rætast sem hafði kviknað um tíu árum fyrr. Hún eyddi öllum þeim tíma í ýmiss konar undirbúning, líkamlegan, fjárhagslegan og andlegan. Hún gat þó með ferðinni líka látið gott af sér leiða með söfnun sinni fyrir kvennadeild LSH. Meðal annars dvaldi hún ein á Grænlandi í nokkrar vikur án sambands við umheiminn, fór í göngur yfir stóra jökla og fleira. Hún sagðist hafa þurft að yfirstíga endalausar hindranir til að úr ferðinni yrði, þannig að hún hefði getað verið búin að gefast upp mörgum sinnum í ferlinu... en gerði það ekki! En svo ég sé ekki að kjafta of mikið frá, því hún er væntanlega enn að halda fyrirlestra ef einhver hefur áhuga, þá segi ég ekki meira í bili! Í stuttu máli þá er Vilborg mér mikil hvatning til að gera nú eitthvað krefjandi í lífinu og að setja mér markmið og láta þau rætast, hún er manneskja sem ég lít upp til. Þetta hefur verið næstum það eina sem ég hef litið á sem ókost við að búa úti á landi, að missa reglulega af einhverju svona, þannig að ég bjóst síður en svo við að komast á þennan fyrirlestur, verandi í smá mínus, með bilaðan bíl og fastur hér. Ég segi því beint: Takk fyrir að koma! Flott kona og heppinn ég.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband