Sæl

Jæja, það er mikið að ég skrifa eitthvað hérna loksins. Það er allt fínt að frétta af mér. Ég er að fara í Góuveislu um helgina hér á Hólmavík og svo á ball á eftir sem verður örugglega fjör, annars er ég bara búinn að vera að þrælkast í vinnunni undanfarið, vinna um helgar og einhver leiðindi, og þessi helgi er engin undantekning á því (er að vinna á sunnudaginn svo eins gott að djamma ekki of mikið á ballinu, já...ég er að meina þetta þegar ég segist vera að þrælkast!). En  glætan að ég muni vinna næstu helgi og missa af afmæli bestu vinkonu minnar, það kemur bara ekki til greina...þannig að ég er að fara suður næstu helgi, loksins! Ég hlakka til :)

Allt gott að frétta :D

Sælt veri fólkið, langt síðan síðast! Það er svosem ekki mikið að frétta, nema bara að ég er enn í átakinu mínu síðan 12. janúar þegar ég byrjaði að hreyfa mig á hverjum degi. Ég hef ekki sleppt úr einum degi í að skokka eða synda síðan þá og ég er eiginlega bara að vona að mér sé búið að takast að breyta mínum lífsstíl til frambúðar, því það er svo ofboðslega sjaldan sem að fólki tekst það. Kílóin fara hægt en stöðugt, tæp 4 kg. síðan skokkið byrjaði í janúar en rúm 8 kg. síðan í október þegar ég hætti í gosi og drykkju þannig að ég er kominn niðrí 85 kíló, sem er orðið ansi nálægt markmiðinu mínu, vantar bara fimm kíló uppá, sem er auðvitað æðislegt! Skemmtilegustu tölurnar eru samt hvað ég er búinn að skokka og synda langa leið þegar tölurnar eru teknar saman. En já, ég er semsagt núna búinn að skokka u.þ.b. 113 kílómetra og synda 13 kílómetra síðan ég byrjaði fyrir 39 dögum! Lengsti skokkhringurinn sem ég hef lagt í ennþá var 9,6 kílómetrar og tók það mig sléttan klukkutíma en ég legg ekki í mikið meira enn sem komið er, enda var ég gjörsamlega búinn í fótunum þegar heim var komið. Vonandi nenni ég að gera eitthvað sniðugt við þessa síðu um helgina, eins og að kannski bæta við myndum, skrifa meira eða eitthvað, en þangað til verður þetta að duga og ekkert múður!!!


Þokkaleg helgi

Jammms, þessi helgi var bara ágæt, enda var hún án sunnudagsvinnu en maður er orðinn hálf latur í þessu helgarvinnubrölti þó maður hafni aldrei helgarvinnu sé maður beðinn um að vinna. Ég fór suður og gerði ýmislegt skemmtilegt þar eins og að skralla með fjölskyldunni, fara í sund með góðu fólki og í eina heimsókn, versla (sem flokkast reyndar ekki sem skemmtilegt) og ýmislegt fleira en það var samt eiginlega næstum því skandall að hafa farið suður því það var ýmislegt skemmtilegt að gerast á Hólmavík um helgina eins og t.d. þorrablót og afmæli bróður míns og líka frænda míns en ég vona að mér sé fyrirgefið, ég var þó búinn að gefa brósa afmælisgjöf hehe!

Slapp við að drepa rebba

Hvað er þetta með þessi blessuðu villidýr og mig. Ég skrapp til Reykjavíkur á föstudaginn til að vesenast eitthvað en var samt að vinna í dag svo ég fór aftur til Hólmavíkur á laugardaginn. En það vildi ekki betur til en að enn einusinni stekkur rebbi í veg fyrir mig inn á veginn þegar ég átti leið hjá á 90 kílómetra hraða, ég varð því að negla niður enn eitt skiptið. Mér tókst þó í þetta sinn að hemla nógu fljótt til að drepa ekki þriðja refinn á innan við tveimur árum. Það er ekki eðlilegt hvað ég hef verið óheppinn með þetta, fæstir lenda í því að keyra á ref í eitt skipti þó þeir aki um þjóðvegina alla æfina en ég drap tvo á innan við ári. Þessi kvikindi eru bara með einhverja sjálfsmorðssýki og þurfa endilega að hlaupa yfir vegina ákkúrat á því augnabliki þegar maður er að koma, í stað þess að bíða eitt augnablik. Og ég virkilega reyndi að bjarga þeim í bæði skiptin, svoleiðis snarhemlaði um leið og ég sá þá.

Skokk

Haldið þið ekki að ég sé farinn að skokka! Jú, ég hef ákveðið að láta reyna á það hvað ég búi yfir mikilli hörku. Ég tók einn hring í kvöld og einn í gær, frá húsinu þar sem ég bý í gamla bænum upp að vegamótunum í hinum enda bæjarins og til baka. Þetta er einhver einn kílómetri eða svo, með brekku smá hluta af leiðinni og vá hvað þetta tekur á! Þegar ég er kominn til baka er ég gjörsamlega búinn á því, hjartað á fullu og ég er svo sveittur að innri klæðnaðurinn er orðin rennblautur og svitadroparnir leka eftir andlitinu. En svakalega er þetta gott eftir á, manni líður alveg rosalega vel þegar maður er búinn, eins erfitt og þetta er á meðan á því stendur (en samt gaman). Ég mæli með þessu fyrir þá sem þora! Maður verður bara að klæða sig rétt í kuldanum og setja húfu á hausinn til að drepa sig ekki alveg, og já nota endurskinsmerki í myrkrinu til að láta ekki keyra yfir sig þegar maður skokkar yfir göturnar. Ég er búinn að finna einhver ómerkileg föt til að klæðast innan undir útifötunum því ég svitna svo rosalega að það er ekki hjá því komist að nota sér fatnað í þetta, fara svo í sturtu eftir hringinn og svo í hversdags fötin á eftir. En ég vil endilega prófa að leggja þetta á mig, eins oft í viku og ég get og sjá hvort ég endist nógu lengi til að sjá árangur. Ég get svo kannski tekið sund inn á milli til tilbreytingar. En semsagt, ég ákvað að prófa þetta vegna þess að ég hef lengi gengið þessa sömu leið en mér er farið að finnast það ekki nóg lengur. Svo var líka sagt við mig um daginn að til að ná einhverri alvöru brennslu væri bara ekki nóg að ganga, hjartað yrði að fá að pumpa svolítið, þá væri eitthvað að gerast, jafnvel þó það sé ekki endilega farin löng leið, það er ekki aðal málið. Aðal málið er að ná einhverjum 20-30 mínútum helst án þess að stoppa til að ná sem mestu úr þessu. En úps, nóg komið af þessu í bili, ætla ekki að drepa lesendur úr leiðindum með endalausu blaðri um skokk! Svona er ég bara þegar ég byrja að skrifa, ég virðist eiga frekar auðvelt með að hamast á þessum lyklaborðum ef þannig stendur á mér! 

Jóla eitthvað

Jæja, er fólk ekki bara búið að hafa það Þokkalegt eða allavega skítsæmilegt þessi jólin? Auðvitað! Það er allavega tilfellið hjá mér, ég er búinn að hitta haug af vinum og ættingjum, síðasta jólagjöfin hafðist ekki fyrr en á Þorláksmessu eins og alltaf, jólamaturinn var mjög fínn og ég fékk bók, föt, herrailm, málverk og einhver fleiri skemmtilegheit í jólagjöf. Búinn að kíkja í eitt smá partí og vonandi verður eitthvað skrall líka á morgun. Núna er ég að vinna í að klára meiraprófið en ég fer líklega í síðasta trailer og rútutímann á morgun og þá eru bara prófin eftir sem ég fer í annan janúar á nýja árinu. Það er enn óvissa með hvort ég nái að klára leigubílinn líka í þessu holli en það væri nú ekki amarlegt. Ég vona að þið hafið haft það gott um jólin og segi bara, gleðilegt nýtt ár!


Hólmadrangsferðin

Það er orðið svo stutt núna í jólafríið mitt að ég finn næstum lyktina af því. Ekki á morgun heldur hinn! Dvölin á Akureyri var bara þokkaleg, enda er sjaldan eða aldrei leiðinlegt í þeim góða bæ. Ég skildi bílinn bara eftir á Hólmavík og fór með Hadda frænda sem var auðvitað mun þægilegra enda þá hægt að spjalla eða bara leggja sig á leiðinni. Innifalið í ferðinni var hótelgisting hjá KEA fyrir laugardaginn en flestir vildu koma strax á föstudaginn til að skralla eitthvað um kvöldið og redduðu sér þá gistingu fyrir það kvöld.

Seinnipart laugardagsins fórum við flest í keilu og náði ég þar þeim óviðbúna árangri að vinna einn leikinn...þokkalega sáttur sko! Eftir það kíktum við snöggvast inná hótel og svo fórum við á hinn fína veitingastað Friðrik fimmta þar sem hver rétturinn á eftir öðrum bráðnaði í munni, Mmm! En eins og siður er á fínum veitingastöðum var vín með matnum svo ég ákvað að sveigja reglurnar örlítið og smakka aðeins á þessu. En það komu fleiri vín og það var fyllt á glösin, þannig að það má eiginlega segja að óformlegt (u.þ.b. tveggja mánaða gamla) vínleysi mitt hafi farið í vaskinn það kvöldið en ég er þá bara byrjaður aftur með nýtt núna!!! Eftir matinn tók næturlífið að sjálfsögðu við og við skrölluðum á Sjallanum fram eftir nóttu, allavega þau okkar sem eitthvað stuð var í.

Á sunnudeginum náði Gógó frænka mín á Akureyri að ýta mér af stað í jólagjafainnkaupin og sá ótrúlegi árangur náðist að ég er núna búinn að versla næstum allar gjafirnar fyrir þessi jól sem er ekkert annað en kraftaverk því að venjulega er ég að klára þetta seint á þorláksmessu eða jafnvel á aðfangadag, alveg kolsveittur á harðahlaupum, lítandi á klukkuna með mínútu millibili. 


Get ekki hreyft mig

Vá, svakalega át ég yfir mig á þessu blessaða jólahlaðborði í kvöld. Ég er þokkalega búinn að njóta þessa fyrsta frídags sem ég hef haft hér á Hólmavík síðan 18. eða 19. október. Ég sleppti því að stilla vekjaraklukkuna á föstudagskvöldinu og gat því sofið í friði þar til ég vaknaði um tvöleitið í dag. Skrapp þá í stutta heimsókn til ömmu og afa, svo til bróður míns, fór síðan á Stakkanesið og hékk þar í einhvern tíma þar til jólahlaðborðið með vinnufélögum mínum hófst á Café Riis. Ég er svo að vinna núna á sunnudaginn en það veitir svosem ekki af, þetta meirapróf er búið að vera djöfull dýrt. Ég á reyndar eftir að fá einhvern hundrað þúsund kall eða svo endurgreiddan frá Verk Vest sem er reyndar bara brot af kostnaðinum en það á eftir að koma sér vel þar sem ég þarf að lappa lítils háttar upp á bílinn minn, skipta um framdemparana og eitthvað en ég er samt byrjaður að safna aftur, búinn að semja einhverja voða flotta sparnaðaráætlun sem gildir fram á sumar. Sjáum til hvernig það fer hehe, er samt þokkalega bjartsýnn þar sem mér gekk mjög vel í þessu síðast. Lítur út fyrir að ég sé kominn í eitthvað óformlegt gos og áfengis straff en ég hef hvorugt smakkað síðan í október og fyrst ég er enn ekki farinn að sakna þess neitt voðalega mikið er ég ekkert að flýta mér að byrja aftur. Vatnið er bara svo hrikalega gott, og ókeypis líka, það bara verður ekki betra! Dagskráin hjá mér heldur áfram að vera ansi þétt, næstu helgi er ég nefninlega að fara í skemmtiferð með Hólmadrangi til Akureyrar og verður skrallað eitthvað þar og kíkt í heimsókn til frænku líka. Helgina þar á eftir verð ég kominn í jólafrí en þá verður ekki slakað á frekar en fyrri daginn því þá fer ég að hamast við að klára trailer og rútutímana auk leigubílatímanna og prófanna auðvitað!

Þreyttur en ánægður

Þá fer þetta loksins að klárast. Ég er búinn með allt bóklegt núna og líka fyrsta verklega prófið, sem þýðir að ég er núna kominn með vörubílaréttindin! Þetta er enginn smá léttir og bara æðisleg tilfinning, ég er búinn að vera í skýjunum yfir þessu alla helgina. En það var samt ekki auðvelt að fara í próf á vörubíl rétt á eftir erfiðustu jarðarför sem ég hef farið í. En það þýddi ekkert annað en að draga bara djúpt andann fyrst og ljúka þessu svo af. Ég var heppinn að geta seinkað prófinu um nokkra klukkutíma svo ég þyrfti ekki að fresta prófinu um viku. Nú á ég bara eftir að fara í nokkra trailer (vagn), rútu og leigubílatíma sem ættu að geta klárast á næstu 2-3 vikum og síðan tek ég síðustu 3 prófin bara í jólafríinu og þá er þetta komið! Ég ætlaði ekki að trúa því hvað mér gekk vel í vörubílaprófinu en það eina sem olli því að ég fékk einhvern mínus var það að ég var ekki sérlega góður í að skipta um gír á réttum tíma og halda réttum snúningi, en það kemur bara með æfingunni held ég. Verð örugglega ekki lengi að laga það. Eitt get ég þó sagt ykkur núna, en það er að ég get ekki beðið eftir því þegar ég fer að vera laus um helgar. Er orðinn pínu þreyttur á allri þessari helgardagskrá alltaf og ferðalögum milli Hvk. og Rvk. hverja einustu helgi.

Kristinn Ísfeld Andreasen

Á mánudaginn (17. nóv.) fékk ég þær hræðilegu fréttir að góður vinur minn, Kristinn Ísfeld Andreasen (f. 1981), lést um helgina. Honum var ég svo lánsamur að kynnast þegar ég fékk vinnu hjá Framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar (Miklatúni) og vorum við oft saman í flokki þar og unnum hin margvíslegustu störf saman.

Ég var ekki búinn að þekkja Kidda nema í nokkrar vikur þegar tilfinningin var orðin þannig að mér fannst eins og ég hefði alltaf þekkt hann. Auðvitað átti hann eins og flestir sína góðu og slæmu daga, en þegar ég hugsa til hans, eru fyrstu minningarnar sem koma upp í hugann ætíð af þeim fjöruga, opna, skemmtilega og uppátækjasama húmorista sem hann að jafnaði var. Ég kann ekki á því skýringu, en eins ólíka fortíð og við áttum okkur og eins ólíkar persónur og við vorum, þá áttum við vel saman og við gátum treyst hvor öðrum fullkomlega, líka fyrir leyndarmálum og persónulegum vandamálum. Við áttum ákveðna eiginleika sameiginlega þó æska okkar hafi verið gjörólík. Báðir gátum við verið haldnir svolitlum athyglisbresti suma dagana, svo vægt sé til orða tekið, sem gat gert vinnudagana ansi skrautlega stundum, kannski sérstaklega ef við vorum að vinna einir saman, en það var nú alltaf hægt að hlæja að því eftirá! Hitt var það að geðið átti það til að hrella okkur stundum en það fór nú samt ekki bara í dýfu, heldur líka upp sem betur fer.

Þeir eru mjög fáir vinnufélagarnir sem ég hef um æfina tengst það sterkum böndum að ég hafi heimsótt þá utan vinnutíma eða skroppið út á lífið með þeim (utan alls vinnustaðadjamms), en þú varst einn af þeim Kiddi, þó það hafi reyndar verið allt of fá skipti. Þú stappaðir í mig stálinu oftar en einusinni þegar ég átti mína slæmu daga, þú reyndir meira að segja að hjálpa mér með stelpur eitt sinn.

Kiddi, ég kveð þig með söknuði, það hryggir mig að þú hafir farið svo snemma en gleður mig innilega að hafa kynnst þér. Nú færðu ró og frið.

Guðmundur Björn Sigurðsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband