Hólmadrangsferðin

Það er orðið svo stutt núna í jólafríið mitt að ég finn næstum lyktina af því. Ekki á morgun heldur hinn! Dvölin á Akureyri var bara þokkaleg, enda er sjaldan eða aldrei leiðinlegt í þeim góða bæ. Ég skildi bílinn bara eftir á Hólmavík og fór með Hadda frænda sem var auðvitað mun þægilegra enda þá hægt að spjalla eða bara leggja sig á leiðinni. Innifalið í ferðinni var hótelgisting hjá KEA fyrir laugardaginn en flestir vildu koma strax á föstudaginn til að skralla eitthvað um kvöldið og redduðu sér þá gistingu fyrir það kvöld.

Seinnipart laugardagsins fórum við flest í keilu og náði ég þar þeim óviðbúna árangri að vinna einn leikinn...þokkalega sáttur sko! Eftir það kíktum við snöggvast inná hótel og svo fórum við á hinn fína veitingastað Friðrik fimmta þar sem hver rétturinn á eftir öðrum bráðnaði í munni, Mmm! En eins og siður er á fínum veitingastöðum var vín með matnum svo ég ákvað að sveigja reglurnar örlítið og smakka aðeins á þessu. En það komu fleiri vín og það var fyllt á glösin, þannig að það má eiginlega segja að óformlegt (u.þ.b. tveggja mánaða gamla) vínleysi mitt hafi farið í vaskinn það kvöldið en ég er þá bara byrjaður aftur með nýtt núna!!! Eftir matinn tók næturlífið að sjálfsögðu við og við skrölluðum á Sjallanum fram eftir nóttu, allavega þau okkar sem eitthvað stuð var í.

Á sunnudeginum náði Gógó frænka mín á Akureyri að ýta mér af stað í jólagjafainnkaupin og sá ótrúlegi árangur náðist að ég er núna búinn að versla næstum allar gjafirnar fyrir þessi jól sem er ekkert annað en kraftaverk því að venjulega er ég að klára þetta seint á þorláksmessu eða jafnvel á aðfangadag, alveg kolsveittur á harðahlaupum, lítandi á klukkuna með mínútu millibili. 


Get ekki hreyft mig

Vá, svakalega át ég yfir mig á þessu blessaða jólahlaðborði í kvöld. Ég er þokkalega búinn að njóta þessa fyrsta frídags sem ég hef haft hér á Hólmavík síðan 18. eða 19. október. Ég sleppti því að stilla vekjaraklukkuna á föstudagskvöldinu og gat því sofið í friði þar til ég vaknaði um tvöleitið í dag. Skrapp þá í stutta heimsókn til ömmu og afa, svo til bróður míns, fór síðan á Stakkanesið og hékk þar í einhvern tíma þar til jólahlaðborðið með vinnufélögum mínum hófst á Café Riis. Ég er svo að vinna núna á sunnudaginn en það veitir svosem ekki af, þetta meirapróf er búið að vera djöfull dýrt. Ég á reyndar eftir að fá einhvern hundrað þúsund kall eða svo endurgreiddan frá Verk Vest sem er reyndar bara brot af kostnaðinum en það á eftir að koma sér vel þar sem ég þarf að lappa lítils háttar upp á bílinn minn, skipta um framdemparana og eitthvað en ég er samt byrjaður að safna aftur, búinn að semja einhverja voða flotta sparnaðaráætlun sem gildir fram á sumar. Sjáum til hvernig það fer hehe, er samt þokkalega bjartsýnn þar sem mér gekk mjög vel í þessu síðast. Lítur út fyrir að ég sé kominn í eitthvað óformlegt gos og áfengis straff en ég hef hvorugt smakkað síðan í október og fyrst ég er enn ekki farinn að sakna þess neitt voðalega mikið er ég ekkert að flýta mér að byrja aftur. Vatnið er bara svo hrikalega gott, og ókeypis líka, það bara verður ekki betra! Dagskráin hjá mér heldur áfram að vera ansi þétt, næstu helgi er ég nefninlega að fara í skemmtiferð með Hólmadrangi til Akureyrar og verður skrallað eitthvað þar og kíkt í heimsókn til frænku líka. Helgina þar á eftir verð ég kominn í jólafrí en þá verður ekki slakað á frekar en fyrri daginn því þá fer ég að hamast við að klára trailer og rútutímana auk leigubílatímanna og prófanna auðvitað!

Þreyttur en ánægður

Þá fer þetta loksins að klárast. Ég er búinn með allt bóklegt núna og líka fyrsta verklega prófið, sem þýðir að ég er núna kominn með vörubílaréttindin! Þetta er enginn smá léttir og bara æðisleg tilfinning, ég er búinn að vera í skýjunum yfir þessu alla helgina. En það var samt ekki auðvelt að fara í próf á vörubíl rétt á eftir erfiðustu jarðarför sem ég hef farið í. En það þýddi ekkert annað en að draga bara djúpt andann fyrst og ljúka þessu svo af. Ég var heppinn að geta seinkað prófinu um nokkra klukkutíma svo ég þyrfti ekki að fresta prófinu um viku. Nú á ég bara eftir að fara í nokkra trailer (vagn), rútu og leigubílatíma sem ættu að geta klárast á næstu 2-3 vikum og síðan tek ég síðustu 3 prófin bara í jólafríinu og þá er þetta komið! Ég ætlaði ekki að trúa því hvað mér gekk vel í vörubílaprófinu en það eina sem olli því að ég fékk einhvern mínus var það að ég var ekki sérlega góður í að skipta um gír á réttum tíma og halda réttum snúningi, en það kemur bara með æfingunni held ég. Verð örugglega ekki lengi að laga það. Eitt get ég þó sagt ykkur núna, en það er að ég get ekki beðið eftir því þegar ég fer að vera laus um helgar. Er orðinn pínu þreyttur á allri þessari helgardagskrá alltaf og ferðalögum milli Hvk. og Rvk. hverja einustu helgi.

Kristinn Ísfeld Andreasen

Á mánudaginn (17. nóv.) fékk ég þær hræðilegu fréttir að góður vinur minn, Kristinn Ísfeld Andreasen (f. 1981), lést um helgina. Honum var ég svo lánsamur að kynnast þegar ég fékk vinnu hjá Framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar (Miklatúni) og vorum við oft saman í flokki þar og unnum hin margvíslegustu störf saman.

Ég var ekki búinn að þekkja Kidda nema í nokkrar vikur þegar tilfinningin var orðin þannig að mér fannst eins og ég hefði alltaf þekkt hann. Auðvitað átti hann eins og flestir sína góðu og slæmu daga, en þegar ég hugsa til hans, eru fyrstu minningarnar sem koma upp í hugann ætíð af þeim fjöruga, opna, skemmtilega og uppátækjasama húmorista sem hann að jafnaði var. Ég kann ekki á því skýringu, en eins ólíka fortíð og við áttum okkur og eins ólíkar persónur og við vorum, þá áttum við vel saman og við gátum treyst hvor öðrum fullkomlega, líka fyrir leyndarmálum og persónulegum vandamálum. Við áttum ákveðna eiginleika sameiginlega þó æska okkar hafi verið gjörólík. Báðir gátum við verið haldnir svolitlum athyglisbresti suma dagana, svo vægt sé til orða tekið, sem gat gert vinnudagana ansi skrautlega stundum, kannski sérstaklega ef við vorum að vinna einir saman, en það var nú alltaf hægt að hlæja að því eftirá! Hitt var það að geðið átti það til að hrella okkur stundum en það fór nú samt ekki bara í dýfu, heldur líka upp sem betur fer.

Þeir eru mjög fáir vinnufélagarnir sem ég hef um æfina tengst það sterkum böndum að ég hafi heimsótt þá utan vinnutíma eða skroppið út á lífið með þeim (utan alls vinnustaðadjamms), en þú varst einn af þeim Kiddi, þó það hafi reyndar verið allt of fá skipti. Þú stappaðir í mig stálinu oftar en einusinni þegar ég átti mína slæmu daga, þú reyndir meira að segja að hjálpa mér með stelpur eitt sinn.

Kiddi, ég kveð þig með söknuði, það hryggir mig að þú hafir farið svo snemma en gleður mig innilega að hafa kynnst þér. Nú færðu ró og frið.

Guðmundur Björn Sigurðsson


Fyrirgefið mér fjarveruna!

Ég lenti í því óhappi fyrir rúmum mánuði síðan að hella... ehem, drykk nokkrum yfir lyklaborðið á nýju fartölvunni minni... Sá kostulegi drykkur er oft nefndur Vodka í Burn og er afar bragðgóður af vodkadrykk að vera en passar ekkert sérstaklega vel með tölvum. Þegar þetta gerðist var orðið ansi langt síðan ég skrifaði eitthvað hérna síðast og ég var þó búinn að gera eitthvað smá uppkast því ég vissi uppá mig skömmina hehe, en þá var ég plataður á mjög skemmtilegt fyllerí á Hólmavík sem endaði samt óvart með þessum ósköpum. Semsagt, ég eyðilagði lyklaborðið mitt og það er víst enginn barnaleikur að gera við lyklaborð á fartölvum sem klístraður drykkur hefur hellst yfir, en sem betur fer skemmdist ekkert meira og ég keypti mér svona aulatryggingu á sínum tíma ef svona atvik myndi gerast.

Jæja, eftir þetta aulaóhapp fór ég ekki suður fyrr en um það bil hálfum mánuði seinna (5. október) og þá fyrst gat ég komið tölvunni í viðgerð hjá Elko þar sem ég keypti hana (en þeir gera víst ekki við svo þeir sendu tölvuna til EJS). Svo fór ég aftur norður og kom ekki aftur suður fyrr en hálfum mánuði seinna. Komst þá að því að það er víst aldrei opið hjá þessum viðgerðarverkstæðum nema á virkum dögum svo ég hafði farið fýluferð. Ég fór aftur norður og komst svo aftur til Reykjavíkur fyrir lokun föstudaginn 24. október (kom raunar suður til að byrja á meiraprófsnámskeiði sem er bara á góðu skriði hjá mér í augnablikinu) og hugsaði með mér að eftir allan þennan tíma gæti ekki annað verið en að tölvan mín væri löngu tilbúin. Nei aldeilis ekki. Þau hjá EJS sögðu mér að Elko liðið hafi sent þeim tölvuna mína með miða þar sem stóð að þau ættu að gera kostnaðarmat... en það stóð auðvitað ekkert um viðgerðir, já að sjálfsögðu gleymdist að taka það fram. Þau hjá EJS gerðu kostnaðarmatið en þó að það væri auðvitað augljóst að það þyrfti að gera við tölvuna gátu þau ekki gert það fyrst það stóð ekki svo tölvan var send til baka. Einhver tími leið víst áður en EJS fékk svo tölvuna aftur til sín með fyrirmælum um viðgerð. Jæja, þá kom víst í ljós að það var ekki til annað svona lyklaborð á landinu svo það þurfti að panta nýtt frá útlöndum sem tekur auðvitað sinn tíma. Ég er semsagt enn ekki búinn að fá tölvuna mína til baka og það er í raun ótrúlegt að mér hafi tekist að halda mér rólegum yfir þessu svona lengi, en ég er að vona að ég fái kvikindið loksins núna á mánudaginn. Þá fer ég nú örugglega að verða duglegri að blogga nema ég verði of upptekinn í meiraprófinu en það er nú alltaf hægt að finna tíma. Það er ansi margt búið að drífa á daga mína svo það á eftir að koma einhver risaritgerð hingað inn þegar mér gefst tími! Lifið heil!

E.S. verð í Reykjavík um hverja helgi og gott betur vegna meiraprófsins, alveg út þennan mánuð. Er til í hitting eða bíó eða kaffi eða hvað sem er nema kannski feitt djamm því það passar ekki beinlínis með námi eða akstri á einhverjum risa trukkum!!!


Spann

Hef haft thad fint her a Spani, solin buin ad brenna mig eins og vid var ad buast og vid erum buin ad kikja t.d. a Guadalest sem var alveg aedislega gaman og i vatnagard, hofum svo ad sjalfsogdu lika kikt a allt thetta venjulega eins og strondina og i sund og bordad godan mat. Hlakka samt til ad koma heim og hitta alla og keyra um Island i eina viku....sjaumst a fimmtudaginn...

Mánaðar frí

Jæja, þá er ég loks kominn í fríið sem ég hef beðið eftir frá því í vor, eða raunar lengur. Er enn að klípa mig í kinnina yfir þessu. Ég ætlaði að nota þessa nokkru frídaga sem ég hef fyrir Spánarferðina til að ferðast um Vestfirðina og túristast svolítið hérna á Íslandi, en ég hef hætt við vegna grenjandi úrhellis rigninga en ég hafði hugsað mér að tjalda! Þannig að ég kem bara í staðinn fyrr til Reykjavíkur, ætli ég leggi ekki bara af stað suður í dag, svona seinnipartinn. Vonandi get ég notað þessa rigningardaga í heimsóknir eða hitting áður en við fjölskyldan förum út. Hlakka til að hitta alla!

Það beit á!

Ég er þokkalega sáttur við tilveruna núna. Ég skellti mér í sumarbústað við Úlfljótsvatn um helgina sem foreldrar mínir tóku þar á leigu. Öll fjölskyldan skellti sér uppí bústað og nokkrir ættingjar og vinir kíktu líka. Ég nældi mér í fyrsta sólbrunann á þessu sumri og veiddi minn fyrsta silung (með góðri aðstoð) og var þetta fyrsti aflinn minn í tvö ár ef minnið er ekki að bregðast. Það var alveg hrikalega spennandi að komast loksins í veiði og ég trúði því varla fyrst þegar ég fann að það var búið að bíta á því að ég var svo viss um að ég myndi ekkert fá. Ég landaði samtals þremur, og voru tveir af þeim mjög vænir. Ég fékk þá alla á spún á báti nálægt landi en mér hefur aldrei áður tekist að veiða á spún í ferskvatni. En fyrir utan það að veiða var slakað á í heita pottinum og farið í gönguferð og það var grillað, hvað annað! Ég skrapp líka á Selfoss til að versla og skoða mig um. Skrítið að hugsa til þess að ég hafi komið svona nálægt Reykjavík án þess að hafa einusinni keyrt þar framhjá en ég beygði nefninlega úr Hvalfirðinum á veg sem liggur þaðan yfir á Þingvallaveg en það var styttra fyrir mig en að beygja inná hann frá Mosó. En það er orðið skuggalega langt síðan ég skrapp í borgina síðast svo ég hlýt að fara að fá fráhvarfseinkenni bráðum. Bara þessi og næsta vika eftir og svo er ég kominn í frí :)


Allt á fullu

Nýjustu fréttir! Roskilde bandið mitt er dottið af hendinni á mér. Það tolldi næstum því í þrjú ár en ég ætlaði ekki að klippa það af hendinni fyrr en ég færi aftur á Hróa. Þetta þýðir auðvitað bara að ég verð að fara að drífa mig aftur á Hróann! Samt ekki fyrr en 2009 því að í ár er það víst Spánn.

Aðrar nýjustu fréttir og eiginlega stórmerkilegar! Ég er loksins búinn að kaupa mér nýja tölvu, nánar tiltekið fartölvu. Ég gerði það samt í neyð því að það er farið að heyrast óhljóð úr harða diskinum á gömlu borðtölvunni minni sem er orðin ef ég man rétt, fjagra eða fimm ára, hreinlega frá steinöld. Ég vona bara að ég nái að bjarga gögnunum mínum yfir í fartölvuna áður en diskurinn hrynur, en það væri hræðilegt því að ég er með stafrænar myndir og fleira á honum sem eru hvergi annars staðar til og gætu því glatast. Nýskupúkinn ég er búinn að vera að spara svo mikið að ég keypti aldrei auka harðan disk til að nota fyrir varaafrit af öllu. En aftur að nýja gripnum. Þar sem ég geri þetta svo sjaldan ákvað ég að kaupa bara almenninlega græju og hugsa ekki um kostnaðinn. Þetta er Dell tölva (það hafa svo margir sem ég þekki mælt með Dell svo það varð fyrir valinu) með Intel Core Duo 2,5 gígariða örgjörfa, 2046 MB innra minni, 136 GB hörðum diski, 15 tommu skjá, innbyggðri netmyndavél og ýmsu öðru sem ég nenni ekki að telja upp núna (vonandi er ég með það rétt sem ég þó skrifaði). Bara fín græja fyrir mig allavega og hún kostaði sko alveg nóg, heilan 180.000 kall, glomm! Keypti að sjálfsögðu líka góða tösku og mús.

Þó ég sé núna búinn að dvelja hér á Vestfjörðum ansi lengi þá hef ég eiginlega ekki haft nein tækifæri til að ferðast um þá. Hólmavík er eins einangruð frá annarri byggð á Vestfjörðum og hægt er að vera, að Drangsnesi einu undanskildu. Að komast í nokkra aðra byggð tekur að minnsta kosti 2-3 tíma akandi, og þá er ég að tala um á sumrin. En tækifærið gafst loksins núna þegar Þorskafjarðarheiðin (leiðarstytting) sem er einungis sumarvegur opnaði rétt fyrir seinustu helgi. Ég var ákveðinn í að skella mér á einn alvöru rúnt, sama þó ég væri að fara að vinna daginn eftir og þó að enginn nennti með mér. Ég náði í myndavélina, sólgleraugun, fyllti flösku af vatni, fyllti tankinn, skoðaði dekkin og lagði svo í hann. Ég varð að gera ráð fyrir tíma til að komast til baka samdægurs, semsagt að margfalda tímann með tveimur sem olli því að ég komst aldrei í næstu byggð. En ég náði að keyra rúmlega 125 kílómetra frá Hólmavík og náði að gamla vinnustaðnum mínum, Klettshálsinum en þar vann ég ýmis vegavinnustörf þegar verið var að byggja hálsinn upp á nýtt og breyta í slitlagsveg. Sá vegur byrjar í Kollafirðinum, liggur yfir heiðina (Klettshálsinn) og endar í Vattarfirði. Sýni ykkur kannski myndir seinna en þetta svæði er afar fallegt.

En meira um vegi. Strandavegirnir eru búnir að leika mig grátt. Ég lenti í því þegar ég fór einhvern tíman suður í maí að á bakaleiðinni ók ég óvart yfir einhverja steinahrúgu á einum malarkaflanum sem skrapaði botninn á Applausinum mínum all hressilega, nógu hressilega til að einn steinninn náði að skjótast upp í alternators og vökvastýrisreimina og gerði sig heimakominn þar í nokkra daga án þess að ég hefði hugmynd um hvað ylli þessari vondu lygt sem gaus alltaf upp úr miðstöðinni ef ég kveikti á bílnum. Ég reyndi að sjálfsögðu eins og ég gat að finna orsökina og var ekkert að nota bílinn að óþörfu en það var ekki fyrr en reimin stoppaði að ég og frændi minn fundum loks út hvað hafði gerst, en þá var reimin næstum því farin í sundur.

Haldið þið ekki að hjólinu mínu hafi verið stolið fyrir nokkrum vikum, og það hér á þessum litla stað. Ég hefði aldrei búist við þessu fyrr en það gerðist. Ég fann það reyndar sem betur fer aftur eftir dauðaleit, liggjandi á öðrum stað í bænum og búið að skekkjast, en var heppinn að því leiti að ég gat lagað það svo það er í góðu lagi núna. Ég þurfti endilega að lenda í því nýlega að brjóta lykilinn að lásnum en hélt að það yrði nú í góðu lagi fyrst ég bý ekki lengur í Reykjavíkinni, en nei, aldeilis ekki. Það leið varla hálfur mánuður frá því að lykillinn brotnaði þar til hjólið hvarf. Munið að læsa öllu alls staðar og alltaf, enginn staður er öruggur.

Ég biðst velvirðingar á því hvað það hefur lítið sést af mér undanfarið, hvort sem er í persónu eða á netinu. En það á eftir að breytast í sumar. Það var nefninlega mjög ánægjulegur fundur í vinnunni á föstudaginn þar sem tókst að smala saman nægum mannskap til að mynda þrjú sunnudagslið sem þýðir að ég þarf ekki lengur að vinna annan hvorn sunnudag í sumar, heldur einungis þriðja hvern sunnudag, alger draumur! Samkvæmt þessu plani þarf ég ekki að vinna neinn sunnudag það sem eftir er af júní og get því rólegur elt alla hólmvíkingana til Akureyrar á bíladagana.

 


Læt mér leiðast

Þá er seinni hálsbólga vetrarins komin, hún kom alveg á síðustu stundu. Henni tókst að halda aftur af sér rétt nógu lengi til að sannfæra mig með hundrað prósent vissu um að ég væri sloppinn. Þetta hálsbólguvesen hefur ekki smitað mig svona seint áður, ekki svo ég muni allvega, núna eru þær báðar á ferðinni eftir áramót. Það hefur alltaf verið fastur tími á þessu, alltaf í kringum nóvember fyrir áramót og svo í kringum febrúar eftir áramót, alveg óbrigðult. En allavega, ég er búinn að liggja mest megnis í rúminu frá því á sunnudaginn, átti reyndar að vinna þá og var meira að segja mættur í vinnuna en var svo heppinn að fyrir einhvern misskilning var einum manni ofaukið og um leið og ég vissi það var ég ekki lengi að bjóða mig fram til að fara heim! Síðan fór mér versnandi þannig að ég hef bara verið heima. Ætla samt að prufa að mæta á morgun, enda leið mér vel í morgun þegar ég vaknaði þó hóstinn sé ennþá. Ég keypti þá frábæru náttúrumyndaseríu „Planet Earth,“ þegar ég var síðast fyrir sunnan svo ég hef haft eitthvað að gera. Það tók mig ekki nema um það bil þrjá daga að klára alla ellefu þættina, enda eru þeir algert meistaraverk og með góðum íslenskum þuli og alles.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband