Lyftararéttindin í höfn

Þetta er frábær dagur. Í dag fékk ég skírteinið mitt í pósti, ég er kominn með réttindi á lyftara, upp að tíu tonna lyftigetu. Að ná mér í þessi réttindi er eiginlega það eina sem ég hef gert af viti síðan ég hætti í skóla fyrir rúmlega 5 árum síðan. Það mætti í vinnuna maður frá vinnueftirlitinu til að fara yfir lyftarana og að sjálfsögðu nýtti ég tækifærið og fór í verklega prófið.

Ég get hætt að vandræðast með sumarfríið mitt. Ég fékk þær skemmtilegu fréttir að fjölskyldan ætlar að skella sér suður til Spánar í sumar (24. júlí - 7. ágúst) og mér er víst boðið með! Þó ég tæki líklega seint upp á því sjálfur að græja sólarlandaferð (en aldrei að segja aldrei) þá get ég ekki misst af þessu góða tækifæri til að hafa það gott með fjölskyldunni í tvær vikur, og Spánn hefur jú sína kosti. Eins og að liggja í letikasti allan daginn og kannski sötra bjór eða að fá sér góða steik!!!

En... það er alveg á hreinu, að mig langar líka til að fara í styttri ferðir í sumar og ferðast um landið, svo ég er opinn fyrir uppástungum. Það verður víst vinnslustopp í vinnunni fyrstu tvær vikurnar í ágúst svo ég hef eina aukaviku eftir að ég kem heim sem er alveg óplönuð. En svo mun maður nú reyna líka að skreppa í einhver helgarferðalög.

Eitt enn gott fólk... Gleðilegt sumar!


Tíminn líður, hann hreinlega flýgur!

Það eru núna rúmlega átta mánuðir síðan ég flutti hingað til Hólmavíkur til að vinna. Eða til að vera nákvæmur, 236 dagar! Ég hef hreinlega ekki tekið eftir því hvað tíminn hefur liðið hratt fyrr en allt í einu núna að ég fór að hugsa til baka. Líf mitt hefur gerbreyst. Þrátt fyrir 3 ára starf hjá borginni átti ég enga peninga og það beið mín ekkert annað en að halda áfram og gera ekki neitt af viti í lífinu. Ég var alltaf að gera áætlanir og ákveða að gera hitt og þetta, en aldrei varð neitt úr neinu. Ég var farinn að vera þunglyndur yfir þessu þar til allt í einu að ég sá í hverju vandinn fólst. Ég var orðinn værukær. Lífið var greinilega orðið of auðvelt, ég var búinn að læra öll handtökin í vinnunni of vel, og allt var orðið of öruggt. Ég ákvað því að eina leiðin væri að stokka öllu upp. Það eina sem mér datt fyrst um sinn í hug að gera sem væri eitthvað nýtt fyrir mér, var að fara einn til útlanda. Það væri ágætis byrjunaráskorun (var reyndar byrjaður á annarri áskorun en það er önnur saga sem ég segi kannski seinna hehe). Ekki fór ég reyndar langt, en útlönd eru Færeyjar nú samt. Var voða stressaður dagana fyrir ferðina, en ef ég hefði ekki verið stressaður þá hefði ég þurft að gera eitthvað annað sem dygði til þess. Að sjálfsögðu var alveg brjálæðislega gaman úti, meira að segja skemmtilegra en mig hefði grunað. En svo var sú ferð búin og gamla lífið byrjað aftur. En ekki lengi, því að rétt áður en ég fór í Færeyjaferðina hafði ég sagt upp starfinu mínu án þess að vera búinn að tryggja mér vinnu annars staðar fyrst. Semsagt, það var ekki nóg að skreppa bara út einsamall og þá væri ég bara voða svalur og búinn að gera nóg. En förum aðeins til baka aftur: Áður en ég fór til Færeyja þá hafði ég enn sem komið var bara sótt um vinnu á einum stað, svo óvissan var alger þegar ég kæmi til baka. En viti menn, þegar ég var einn daginn staddur í keiluhöll Þórshafnar, nýbúinn að spila keilu við einhverja Ísfirðinga sem ég hafði kynnst nokkrum dögum áður á tjaldsvæðinu, og var að borða með þeim á veitingastað í sama húsi, þá hringdi síminn. Ég var búinn að fá vinnu! Þetta var ævintýri líkast. Nú var ekki til vottur af óvissu eða stressi í mér lengur, allavega ekki í bili! Stressið kom auðvitað aftur þegar ég var kominn heim og hafði tíma til að hugsa út í hvað ég var búinn að gera. Hætta í öruggu starfi til þriggja ára? Fara að vinna úti á landi við eitthvað sem ég hef aldrei gert áður?! Ég hlýt að vera klikkaður! En hér er ég nú, og hef verið í 236 daga, búinn að læra að spara og búinn að læra á lyftara (og fullt af öðrum hlutum)! Stefni á að halda hér áfram um stund, en hætta svo einhverntíman milli júlí og október og snúa mér að öðru (og þá með nóg af peningum í fyrsta sinn). Að öllum líkindum verður það skóli, ó já, ó já!!!


Næturhrafninn í mér endurkominn

Eftir næstum tvær vikur frá vinnu er næturhrafninn í mér endanlega snúinn aftur. Ég er steinhættur að vakna fyrir hádegi og sömuleiðis aldrei sofnaður fyrir miðnætti. Hef haft það gott hér í borginni en fer líklega aftur norður á laugardaginn. Svo byrja ég að vinna aftur á undan flestum öðrum, annan í páskum en það er vegna þess að einhverjir þurfa að undirbúa vinnsluna daginn eftir.

Það sem hefur verið að hrjá mig, sem er aðal ástæðan fyrir að ég er búinn að vera frá vinnu svona lengi er sinaslíðursbólga í verri kantinum og hálsbólga og ég var settur á tíu daga bólgueyðandi kúr (fyrir hendurnar). Hálsbólgan er loks farin en mig verkjar enn eitthvað í vinstri hendina sem er ótrúlegt eftir allan þennan tíma. En þetta hlýtur samt að hafa haft eitthvað að segja svo ég skelli mér bara aftur í vinnuna á mánudaginn, og það liggur líka við að maður sé loksins farinn að verða örlítið þreyttur á að gera ekki neitt, ótrúlegt en satt! Samt gæti ég alveg vanist því hehe.


Allt á réttri leið

Er kominn í frí fram yfir páska. Er búinn að vera slappur á ýmsa vegu svo mér veitir ekki af hvíldinni til að jafna mig almenninlega svo ég geti farið að vinna aftur án þess að vera að pína mig áfram. Nú er bara spurning hvað maður gerir við tímann, hvort maður eyði hluta af honum fyrir norðan eða dvelji bara allan tíman fyrir sunnan? Mér er allavega farið að líða betur, þetta er allt að koma.

Er að sligast

Það er ekki gott hljóðið í mér núna því miður. Skrokkurinn á mér er að gefast upp á álaginu. Ég er að drepast í höndunum og það brakar í liðamótunum og bakið gæti verið betra. Það er ekki að ástæðulausu sem ég hef ekki einusinni gefið mér smá tíma til að skrifa þennan mánuðinn. Ég hef einfaldlega verið of þreyttur til að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég er undanfarið búinn að vinna 12-13 tíma á dag alla virka daga vikunnar og er þar að auki að fara að vinna næstu tvo sunnudaga líka. Ég þarf að vera mættur í seinasta lagi hálf sex á morgnana og ég er að vinna erfiða líkamlega vinnu allan daginn. Þar sem þetta er færibandavinna er auðvitað haldið áfram stanslaust á milli kaffitíma og hver einasta sekúnda nýtt.

Auðvitað gæti ég beðið um að einhver annar tæki morgnana og helgarnar fyrir mig. En þá væri ekki lengur neitt vit í því fyrir mig að vinna hérna því að án yfirvinnunnar væri ég kominn á þvílík lúsarlaun að þá hefði ég alveg eins getað unnið bara áfram hjá borginni. En ef hendurnar fara ekki að lagast á næstu vikum þá held ég að ég muni hreinlega neyðast til að hætta því að ekki ætla ég að verða örkumla bara fyrir eitthvað starf. Ég er að reyna að finna út hvernig ég get skilað vinnunni með sem minnstu álagi fyrir hendurnar, bara vonandi að það gangi upp. Ég nefninlega vil í raun alls ekki hætta strax, þrátt fyrir allt. Og ástæðan? Jú, ég hef aldrei áður þénað eins mikið á ævinni, en hef heldur aldrei svitnað eins mikið fyrir hverja krónu. Ef mér tekst að halda áætlun alveg fram á haust er ég í mjög góðum málum og þá get ég loksins gert næstum hvað sem ég vil án peningavandræða næsta árið eða svo. Skóli, frí, meirapróf eða bara gott ferðalag verður allt opinn möguleiki. Í sannleika sagt veit ég samt ekki í dag hvort skrokkurinn á mér muni hafa þetta af fram á haust.

En nú er ég búinn að fylla vælukvótann svo það er eins gott að fara að tala um eitthvað annað! Ég innleiddi tvo afskaplega sæta naggrísaunga á heimilið fyrir tæplega hálfum mánuði! Frétti af þeim í auglýsingadálki á síðunni www.strandir.is og þetta var einfaldlega tækifæri sem ég gat ekki sleppt því að það er ekki á hverjum degi sem manni bjóðast naggrísir á Hólmavík, hvað þá ungar. Ákvað að taka þá stóru áhættu að ég myndi kannski ekki þola þá því ég var með mjög slæmt dýraofnæmi sem barn. En til allrar lukku hef ég ekki orðið var við neitt ofnæmi (en reyndar tek ég eina ofnæmistöflu á dag en það hef ég gert í mörg ár). Gamall æskudraumur hefur semsagt ræst, ég er kominn með gæludýr sem ég get ekki bara horft á eins og fiskana mína, heldur klappað og tekið upp úr búrinu og jafnvel talað við! Kem með myndir fljótlega.


Helgin í stuttu máli

Jæja. Þá skrapp maður loksins suður, núna um helgina. Er bara nokkuð sáttur með hana. Náði að fara í bíó, í tvær heimsóknir, í sund, á rúntinn og svo fékk ég heimabakaðar bollur með súkkulaði og rjóma og öllum pakkanum. Ég þakka fyrir mig, þær voru æði (á báðum stöðunum!).

Það tók 26 daga

Það var mikið. Loksins á þessu ári sá ég sólina. Sú gula birtist þarna inn á milli skýjanna á milli tveggja húsa á laugardaginn og skein inn um stofugluggann. Nokkrum mínútum seinna var hún aftur horfin. Ég var nánast búinn að gleyma því hvernig þetta fyrirbrigði lítur út. Þetta er stóri mínusinn við það að vera í innivinnu. Ég er að vinna á einum af þeim stöðum vinnslunnar þar sem varla fyrirfinnast gluggar. Að vísu er stór skúrshurð í móttökunni alveg í hinum endanum, sem er stundum opnuð tímabundið til að taka á móti rækju og vörum, en sólin er enn ekki komin það hátt upp að hún nái að skína þar inn. Í stuttu máli þá fer ég í vinnuna í svartamyrkri, og kem heim í rökkri. Þetta sólarleysi hefur ekki farið vel í mig. Einu get ég reyndar ekki sleppt úr í samhengi við það að vinna inni. Stóri plúsinn hefur auðvitað verið sá að hafa sloppið við að starfa úti í þessu eilífa snarvitlausa veðri sem hefur dunið yfir landið.

Hér kemur ein góð spurning. Á ég að skreppa suður um helgina? Hmm.


Lífið komið í fastar skorður

Þá er allt komið í rútínu aftur, sem betur fer. Mér líkar það best virðist vera, allavega er ég oftast í góðu andlegu jafnvægi á þessum venjulegu dögum. Það er eins og allt geti stundum farið í rugl hjá mér á öðrum tímum en ég hef ekki hugmynd hvers vegna. Það er alltaf gott að fá frí samt, en það er alveg greinilegt að ég verð þá að hafa einhverja rútínu eða nóg að gera. 

Hvar er eiginlega sólin árið 2008? Mér hefur ekki tekist að sjá þá gulu í svo mikið sem sekúndu á þessu blessaða ári, þó ekki sé ýkja langt í að janúar sé hálfnaður. Maður er alltaf í vinnunni þegar hún hefur náð að skína, eða þá að það hefur einfaldlega verið skýjað, eða að maður hefur verið að sofa út um helgi. Ég nenni ekki að hafa þetta myrkur lengur, mér er alveg sama um kuldann og snjóinn, hef ekkert á móti því, vil bara fá birtu.


Ligg í dvala

Gleðileg jól! Ég vona að þið séuð búin að hafa það gott um hátíðirnar.

Ég get ekki útskýrt það fyrir ykkur hvað ég er búinn að þurfa mikið að fá þetta frí. Loksins, loksins er það komið! Loksins get ég safnað kröftum almenninlega og hvílt mig. Það besta við þetta frí er að ég er laus við alla dagskrá, fyrir utan jólin sjálf og gamlárskvöld auðvitað, en það er samt auðvitað bara skemmtileg dagskrá.

Ég lenti reyndar strax í vægu áfalli eftir að ég kom til Reykjavíkur. Þannig er mál með vöxtum að ég tók tölvuna mína með mér og alla fylgihluti, enda fer ég ekki til baka fyrr en fyrsta janúar. En þegar ég var búinn að tengja allt, uppgötva ég að annar af utanáliggjandi hörðu diskunum sem ég á, er ónýtur eftir ferðina suður. Hvernig er þetta hægt? Hvernig geta þessir diskar verið svona viðkvæmir að það sé ekki hægt að flytja þá á milli staða án þess að þurfa að naga á sér neglurnar af áhyggjum yfir því hvort þeir lifi ferðina af. Þessi diskur var varla orðinn árs gamall og þetta var í fyrsta sinn sem ég tek tölvuna með mér suður síðan ég flutti til Hólmavíkur í ágúst.

Ég var reyndar mjög heppinn að það var þessi diskur sem hrundi en ekki einhver annar, því að mest af gögnunum á honum voru vara afrit sem ég hafði gert ef eitthvað svona myndi gerast. En sumu er ég samt búinn að glata að eilífu og það mátti engu muna að allar myndirnar úr Færeyjaferðinni minni hefðu glatast, því að ég hafði sett þær á þennan disk til að skapa meira pláss á hinum diskunum, og þá auðvitað án þess að eiga þær annars staðar í tölvunni. En það var að rifjast upp fyrir mér að ég skrifaði þessar myndir einusinni á geisladisk til að sýna foreldrum mínum þær, núna verð ég bara að finna þennan disk og vona heitt og innilega að það sé í lagi með hann. Þær myndir sem ég var búinn að henda hingað inná myndaalbúmið eru bara í broti af gæðunum sem ég átti þær í á harða diskinum og ég var heldur ekki búinn að setja nema örfáar af myndunum hér inn.

Bíllinn minn er loksins kominn í topp stand... eða svona næstum því. Eftir margra mánaða bið er ég loksins búinn að skipta um afturdemparana. Ég hef einfaldlega aldrei tímt því fyrr en núna, en ég gat ekki frestað þessu lengur því að ég hef aldrei séð strandaveginn (á milli Hvk. og Rvk.) svona slæman áður. Er líka búinn að skipta um rúðuþurrkubúnaðinn, sem var ófáanlegur á landinu og þurfti að koma hingað langt að, því hann var ekki heldur til á einhverjum lager í Evrópu sem umboðið verslar venjulega við. En sagan er ekki öll skal ég segja ykkur! Haldið þið ekki að það hafi myndast þessi myndarlega sprunga á framrúðuna sama dag og allt var klappað og klárt. Og að sjálfsögðu stækkaði hún all rækilega strax daginn eftir. Það er alveg á hreinu að ég og bílar eigum ekki samleið.

Ég veit ekki hvað er málið með mig á þessum árstíma. Ég hef ekki haft löngun til að gera neitt í þessu fríi mínu. Ég keypti jólagjafirnar og pakkaði þeim inn. Var í faðmi fjölskyldunnar á aðfangadag, sem var alveg stórkostlegt. Fór með fjölskyldunni í nokkur matarboð. Hitti ættingjana. Allt alveg ágætt bara. En þess á milli hef ég varla stigið út fyrir hússins dyr, hef engan heimsótt, hef ekki haft samband við neinn, hef ekki kíkt í bíó, ekki farið á rúntinn... Það eina sem ég geri allan daginn er að horfa á bíómyndir, hanga í tölvunni, éta, hlusta á tónlist og svo geri ég alveg heilmikið af því að sofa. Ég er í dvala. Ætla samt að reyna eins og ég get að koma mér í gang á morgun, sjáum til hvernig það lukkast.


Trallala

Jæja, þá eru bílavarahlutirnir mínir komnir til Reykjavíkur og eiga bara eftir að koma hingað með næstu sendingu. Spánnýjir afturdemparar og rúðuþurrkubúnaður. Samtals rúmlega 70 þúsund kall, mig svimar af því að hugsa um þessa upphæð.

Um daginn heyrði ég um snarbrjálað veður fyrir sunnan og um fjúkandi brak og jólatré og 64 metra á sekúndu undir Hafnarfjallinu, vá! Hérna var í mesta lagi léttur andvari, bara besta veður. Maður var nú bara nokkuð sáttur þá. En í gærnótt  og í dag sluppum við ekki heldur við þetta brjálaða rok. Rafmagnið er búið að vera að fara af sí og æ, sem hafði auðvitað truflandi áhrif á vinnsluna, ekkert alvarlega þó, en við náðum samt ekki alveg að klára að keyra fullan skammt í gegn. 

Ég er alveg að missa mig núna af tilhlökkun, aðallega fyrir fríinu auðvitað hehe. Ég verð í 11 daga fríi, alveg frá 22. desember til 1. janúar. Getur lífið orðið betra? Jú kannski ef ég gæti losnað við bakverkinn, þá væri lífið því sem næst orðið fullkomið. Nenni ekki að skrifa meira, líka eins gott fyrir mig að klára áður en rafmagnið fer af rétt áður en ég vista...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband