2.11.2008 | 03:04
Fyrirgefið mér fjarveruna!
Ég lenti í því óhappi fyrir rúmum mánuði síðan að hella... ehem, drykk nokkrum yfir lyklaborðið á nýju fartölvunni minni... Sá kostulegi drykkur er oft nefndur Vodka í Burn og er afar bragðgóður af vodkadrykk að vera en passar ekkert sérstaklega vel með tölvum. Þegar þetta gerðist var orðið ansi langt síðan ég skrifaði eitthvað hérna síðast og ég var þó búinn að gera eitthvað smá uppkast því ég vissi uppá mig skömmina hehe, en þá var ég plataður á mjög skemmtilegt fyllerí á Hólmavík sem endaði samt óvart með þessum ósköpum. Semsagt, ég eyðilagði lyklaborðið mitt og það er víst enginn barnaleikur að gera við lyklaborð á fartölvum sem klístraður drykkur hefur hellst yfir, en sem betur fer skemmdist ekkert meira og ég keypti mér svona aulatryggingu á sínum tíma ef svona atvik myndi gerast.
Jæja, eftir þetta aulaóhapp fór ég ekki suður fyrr en um það bil hálfum mánuði seinna (5. október) og þá fyrst gat ég komið tölvunni í viðgerð hjá Elko þar sem ég keypti hana (en þeir gera víst ekki við svo þeir sendu tölvuna til EJS). Svo fór ég aftur norður og kom ekki aftur suður fyrr en hálfum mánuði seinna. Komst þá að því að það er víst aldrei opið hjá þessum viðgerðarverkstæðum nema á virkum dögum svo ég hafði farið fýluferð. Ég fór aftur norður og komst svo aftur til Reykjavíkur fyrir lokun föstudaginn 24. október (kom raunar suður til að byrja á meiraprófsnámskeiði sem er bara á góðu skriði hjá mér í augnablikinu) og hugsaði með mér að eftir allan þennan tíma gæti ekki annað verið en að tölvan mín væri löngu tilbúin. Nei aldeilis ekki. Þau hjá EJS sögðu mér að Elko liðið hafi sent þeim tölvuna mína með miða þar sem stóð að þau ættu að gera kostnaðarmat... en það stóð auðvitað ekkert um viðgerðir, já að sjálfsögðu gleymdist að taka það fram. Þau hjá EJS gerðu kostnaðarmatið en þó að það væri auðvitað augljóst að það þyrfti að gera við tölvuna gátu þau ekki gert það fyrst það stóð ekki svo tölvan var send til baka. Einhver tími leið víst áður en EJS fékk svo tölvuna aftur til sín með fyrirmælum um viðgerð. Jæja, þá kom víst í ljós að það var ekki til annað svona lyklaborð á landinu svo það þurfti að panta nýtt frá útlöndum sem tekur auðvitað sinn tíma. Ég er semsagt enn ekki búinn að fá tölvuna mína til baka og það er í raun ótrúlegt að mér hafi tekist að halda mér rólegum yfir þessu svona lengi, en ég er að vona að ég fái kvikindið loksins núna á mánudaginn. Þá fer ég nú örugglega að verða duglegri að blogga nema ég verði of upptekinn í meiraprófinu en það er nú alltaf hægt að finna tíma. Það er ansi margt búið að drífa á daga mína svo það á eftir að koma einhver risaritgerð hingað inn þegar mér gefst tími! Lifið heil!
E.S. verð í Reykjavík um hverja helgi og gott betur vegna meiraprófsins, alveg út þennan mánuð. Er til í hitting eða bíó eða kaffi eða hvað sem er nema kannski feitt djamm því það passar ekki beinlínis með námi eða akstri á einhverjum risa trukkum!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2008 | 19:10
Spann
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2008 | 02:41
Mánaðar frí
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2008 | 00:04
Það beit á!
Ég er þokkalega sáttur við tilveruna núna. Ég skellti mér í sumarbústað við Úlfljótsvatn um helgina sem foreldrar mínir tóku þar á leigu. Öll fjölskyldan skellti sér uppí bústað og nokkrir ættingjar og vinir kíktu líka. Ég nældi mér í fyrsta sólbrunann á þessu sumri og veiddi minn fyrsta silung (með góðri aðstoð) og var þetta fyrsti aflinn minn í tvö ár ef minnið er ekki að bregðast. Það var alveg hrikalega spennandi að komast loksins í veiði og ég trúði því varla fyrst þegar ég fann að það var búið að bíta á því að ég var svo viss um að ég myndi ekkert fá. Ég landaði samtals þremur, og voru tveir af þeim mjög vænir. Ég fékk þá alla á spún á báti nálægt landi en mér hefur aldrei áður tekist að veiða á spún í ferskvatni. En fyrir utan það að veiða var slakað á í heita pottinum og farið í gönguferð og það var grillað, hvað annað! Ég skrapp líka á Selfoss til að versla og skoða mig um. Skrítið að hugsa til þess að ég hafi komið svona nálægt Reykjavík án þess að hafa einusinni keyrt þar framhjá en ég beygði nefninlega úr Hvalfirðinum á veg sem liggur þaðan yfir á Þingvallaveg en það var styttra fyrir mig en að beygja inná hann frá Mosó. En það er orðið skuggalega langt síðan ég skrapp í borgina síðast svo ég hlýt að fara að fá fráhvarfseinkenni bráðum. Bara þessi og næsta vika eftir og svo er ég kominn í frí :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2008 | 02:30
Allt á fullu
Nýjustu fréttir! Roskilde bandið mitt er dottið af hendinni á mér. Það tolldi næstum því í þrjú ár en ég ætlaði ekki að klippa það af hendinni fyrr en ég færi aftur á Hróa. Þetta þýðir auðvitað bara að ég verð að fara að drífa mig aftur á Hróann! Samt ekki fyrr en 2009 því að í ár er það víst Spánn.
Aðrar nýjustu fréttir og eiginlega stórmerkilegar! Ég er loksins búinn að kaupa mér nýja tölvu, nánar tiltekið fartölvu. Ég gerði það samt í neyð því að það er farið að heyrast óhljóð úr harða diskinum á gömlu borðtölvunni minni sem er orðin ef ég man rétt, fjagra eða fimm ára, hreinlega frá steinöld. Ég vona bara að ég nái að bjarga gögnunum mínum yfir í fartölvuna áður en diskurinn hrynur, en það væri hræðilegt því að ég er með stafrænar myndir og fleira á honum sem eru hvergi annars staðar til og gætu því glatast. Nýskupúkinn ég er búinn að vera að spara svo mikið að ég keypti aldrei auka harðan disk til að nota fyrir varaafrit af öllu. En aftur að nýja gripnum. Þar sem ég geri þetta svo sjaldan ákvað ég að kaupa bara almenninlega græju og hugsa ekki um kostnaðinn. Þetta er Dell tölva (það hafa svo margir sem ég þekki mælt með Dell svo það varð fyrir valinu) með Intel Core Duo 2,5 gígariða örgjörfa, 2046 MB innra minni, 136 GB hörðum diski, 15 tommu skjá, innbyggðri netmyndavél og ýmsu öðru sem ég nenni ekki að telja upp núna (vonandi er ég með það rétt sem ég þó skrifaði). Bara fín græja fyrir mig allavega og hún kostaði sko alveg nóg, heilan 180.000 kall, glomm! Keypti að sjálfsögðu líka góða tösku og mús.
Þó ég sé núna búinn að dvelja hér á Vestfjörðum ansi lengi þá hef ég eiginlega ekki haft nein tækifæri til að ferðast um þá. Hólmavík er eins einangruð frá annarri byggð á Vestfjörðum og hægt er að vera, að Drangsnesi einu undanskildu. Að komast í nokkra aðra byggð tekur að minnsta kosti 2-3 tíma akandi, og þá er ég að tala um á sumrin. En tækifærið gafst loksins núna þegar Þorskafjarðarheiðin (leiðarstytting) sem er einungis sumarvegur opnaði rétt fyrir seinustu helgi. Ég var ákveðinn í að skella mér á einn alvöru rúnt, sama þó ég væri að fara að vinna daginn eftir og þó að enginn nennti með mér. Ég náði í myndavélina, sólgleraugun, fyllti flösku af vatni, fyllti tankinn, skoðaði dekkin og lagði svo í hann. Ég varð að gera ráð fyrir tíma til að komast til baka samdægurs, semsagt að margfalda tímann með tveimur sem olli því að ég komst aldrei í næstu byggð. En ég náði að keyra rúmlega 125 kílómetra frá Hólmavík og náði að gamla vinnustaðnum mínum, Klettshálsinum en þar vann ég ýmis vegavinnustörf þegar verið var að byggja hálsinn upp á nýtt og breyta í slitlagsveg. Sá vegur byrjar í Kollafirðinum, liggur yfir heiðina (Klettshálsinn) og endar í Vattarfirði. Sýni ykkur kannski myndir seinna en þetta svæði er afar fallegt.
En meira um vegi. Strandavegirnir eru búnir að leika mig grátt. Ég lenti í því þegar ég fór einhvern tíman suður í maí að á bakaleiðinni ók ég óvart yfir einhverja steinahrúgu á einum malarkaflanum sem skrapaði botninn á Applausinum mínum all hressilega, nógu hressilega til að einn steinninn náði að skjótast upp í alternators og vökvastýrisreimina og gerði sig heimakominn þar í nokkra daga án þess að ég hefði hugmynd um hvað ylli þessari vondu lygt sem gaus alltaf upp úr miðstöðinni ef ég kveikti á bílnum. Ég reyndi að sjálfsögðu eins og ég gat að finna orsökina og var ekkert að nota bílinn að óþörfu en það var ekki fyrr en reimin stoppaði að ég og frændi minn fundum loks út hvað hafði gerst, en þá var reimin næstum því farin í sundur.
Haldið þið ekki að hjólinu mínu hafi verið stolið fyrir nokkrum vikum, og það hér á þessum litla stað. Ég hefði aldrei búist við þessu fyrr en það gerðist. Ég fann það reyndar sem betur fer aftur eftir dauðaleit, liggjandi á öðrum stað í bænum og búið að skekkjast, en var heppinn að því leiti að ég gat lagað það svo það er í góðu lagi núna. Ég þurfti endilega að lenda í því nýlega að brjóta lykilinn að lásnum en hélt að það yrði nú í góðu lagi fyrst ég bý ekki lengur í Reykjavíkinni, en nei, aldeilis ekki. Það leið varla hálfur mánuður frá því að lykillinn brotnaði þar til hjólið hvarf. Munið að læsa öllu alls staðar og alltaf, enginn staður er öruggur.
Ég biðst velvirðingar á því hvað það hefur lítið sést af mér undanfarið, hvort sem er í persónu eða á netinu. En það á eftir að breytast í sumar. Það var nefninlega mjög ánægjulegur fundur í vinnunni á föstudaginn þar sem tókst að smala saman nægum mannskap til að mynda þrjú sunnudagslið sem þýðir að ég þarf ekki lengur að vinna annan hvorn sunnudag í sumar, heldur einungis þriðja hvern sunnudag, alger draumur! Samkvæmt þessu plani þarf ég ekki að vinna neinn sunnudag það sem eftir er af júní og get því rólegur elt alla hólmvíkingana til Akureyrar á bíladagana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.5.2008 | 15:48
Læt mér leiðast
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2008 | 21:22
Lyftararéttindin í höfn
Þetta er frábær dagur. Í dag fékk ég skírteinið mitt í pósti, ég er kominn með réttindi á lyftara, upp að tíu tonna lyftigetu. Að ná mér í þessi réttindi er eiginlega það eina sem ég hef gert af viti síðan ég hætti í skóla fyrir rúmlega 5 árum síðan. Það mætti í vinnuna maður frá vinnueftirlitinu til að fara yfir lyftarana og að sjálfsögðu nýtti ég tækifærið og fór í verklega prófið.
Ég get hætt að vandræðast með sumarfríið mitt. Ég fékk þær skemmtilegu fréttir að fjölskyldan ætlar að skella sér suður til Spánar í sumar (24. júlí - 7. ágúst) og mér er víst boðið með! Þó ég tæki líklega seint upp á því sjálfur að græja sólarlandaferð (en aldrei að segja aldrei) þá get ég ekki misst af þessu góða tækifæri til að hafa það gott með fjölskyldunni í tvær vikur, og Spánn hefur jú sína kosti. Eins og að liggja í letikasti allan daginn og kannski sötra bjór eða að fá sér góða steik!!!
En... það er alveg á hreinu, að mig langar líka til að fara í styttri ferðir í sumar og ferðast um landið, svo ég er opinn fyrir uppástungum. Það verður víst vinnslustopp í vinnunni fyrstu tvær vikurnar í ágúst svo ég hef eina aukaviku eftir að ég kem heim sem er alveg óplönuð. En svo mun maður nú reyna líka að skreppa í einhver helgarferðalög.
Eitt enn gott fólk... Gleðilegt sumar!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2008 | 16:41
Tíminn líður, hann hreinlega flýgur!
Það eru núna rúmlega átta mánuðir síðan ég flutti hingað til Hólmavíkur til að vinna. Eða til að vera nákvæmur, 236 dagar! Ég hef hreinlega ekki tekið eftir því hvað tíminn hefur liðið hratt fyrr en allt í einu núna að ég fór að hugsa til baka. Líf mitt hefur gerbreyst. Þrátt fyrir 3 ára starf hjá borginni átti ég enga peninga og það beið mín ekkert annað en að halda áfram og gera ekki neitt af viti í lífinu. Ég var alltaf að gera áætlanir og ákveða að gera hitt og þetta, en aldrei varð neitt úr neinu. Ég var farinn að vera þunglyndur yfir þessu þar til allt í einu að ég sá í hverju vandinn fólst. Ég var orðinn værukær. Lífið var greinilega orðið of auðvelt, ég var búinn að læra öll handtökin í vinnunni of vel, og allt var orðið of öruggt. Ég ákvað því að eina leiðin væri að stokka öllu upp. Það eina sem mér datt fyrst um sinn í hug að gera sem væri eitthvað nýtt fyrir mér, var að fara einn til útlanda. Það væri ágætis byrjunaráskorun (var reyndar byrjaður á annarri áskorun en það er önnur saga sem ég segi kannski seinna hehe). Ekki fór ég reyndar langt, en útlönd eru Færeyjar nú samt. Var voða stressaður dagana fyrir ferðina, en ef ég hefði ekki verið stressaður þá hefði ég þurft að gera eitthvað annað sem dygði til þess. Að sjálfsögðu var alveg brjálæðislega gaman úti, meira að segja skemmtilegra en mig hefði grunað. En svo var sú ferð búin og gamla lífið byrjað aftur. En ekki lengi, því að rétt áður en ég fór í Færeyjaferðina hafði ég sagt upp starfinu mínu án þess að vera búinn að tryggja mér vinnu annars staðar fyrst. Semsagt, það var ekki nóg að skreppa bara út einsamall og þá væri ég bara voða svalur og búinn að gera nóg. En förum aðeins til baka aftur: Áður en ég fór til Færeyja þá hafði ég enn sem komið var bara sótt um vinnu á einum stað, svo óvissan var alger þegar ég kæmi til baka. En viti menn, þegar ég var einn daginn staddur í keiluhöll Þórshafnar, nýbúinn að spila keilu við einhverja Ísfirðinga sem ég hafði kynnst nokkrum dögum áður á tjaldsvæðinu, og var að borða með þeim á veitingastað í sama húsi, þá hringdi síminn. Ég var búinn að fá vinnu! Þetta var ævintýri líkast. Nú var ekki til vottur af óvissu eða stressi í mér lengur, allavega ekki í bili! Stressið kom auðvitað aftur þegar ég var kominn heim og hafði tíma til að hugsa út í hvað ég var búinn að gera. Hætta í öruggu starfi til þriggja ára? Fara að vinna úti á landi við eitthvað sem ég hef aldrei gert áður?! Ég hlýt að vera klikkaður! En hér er ég nú, og hef verið í 236 daga, búinn að læra að spara og búinn að læra á lyftara (og fullt af öðrum hlutum)! Stefni á að halda hér áfram um stund, en hætta svo einhverntíman milli júlí og október og snúa mér að öðru (og þá með nóg af peningum í fyrsta sinn). Að öllum líkindum verður það skóli, ó já, ó já!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2008 | 16:15
Næturhrafninn í mér endurkominn
Eftir næstum tvær vikur frá vinnu er næturhrafninn í mér endanlega snúinn aftur. Ég er steinhættur að vakna fyrir hádegi og sömuleiðis aldrei sofnaður fyrir miðnætti. Hef haft það gott hér í borginni en fer líklega aftur norður á laugardaginn. Svo byrja ég að vinna aftur á undan flestum öðrum, annan í páskum en það er vegna þess að einhverjir þurfa að undirbúa vinnsluna daginn eftir.
Það sem hefur verið að hrjá mig, sem er aðal ástæðan fyrir að ég er búinn að vera frá vinnu svona lengi er sinaslíðursbólga í verri kantinum og hálsbólga og ég var settur á tíu daga bólgueyðandi kúr (fyrir hendurnar). Hálsbólgan er loks farin en mig verkjar enn eitthvað í vinstri hendina sem er ótrúlegt eftir allan þennan tíma. En þetta hlýtur samt að hafa haft eitthvað að segja svo ég skelli mér bara aftur í vinnuna á mánudaginn, og það liggur líka við að maður sé loksins farinn að verða örlítið þreyttur á að gera ekki neitt, ótrúlegt en satt! Samt gæti ég alveg vanist því hehe.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2008 | 12:43
Allt á réttri leið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðmundur B. Sigurðsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Gummi bloggar á spænsku Bloggið mitt þar sem ég æfi mig í að skrifa og tjá mig á spænsku.
Eldri færslur
2025
2024
2021
2020
2019
2018
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Bloggin
Vinir, fjölskylda eða aðrir
- Haddi frændi
-
Pétur Olsen og co
Fyrrverandi vinnufélagi minn og vinir hans í sameiginlegu bloggi, bara flott hjá þeim! - Bergþór bróðir
- Elín frænka
- Þórhallur
- Ari
- Mary
- Anna Hendrix
- Mist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar