Er að sligast

Það er ekki gott hljóðið í mér núna því miður. Skrokkurinn á mér er að gefast upp á álaginu. Ég er að drepast í höndunum og það brakar í liðamótunum og bakið gæti verið betra. Það er ekki að ástæðulausu sem ég hef ekki einusinni gefið mér smá tíma til að skrifa þennan mánuðinn. Ég hef einfaldlega verið of þreyttur til að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég er undanfarið búinn að vinna 12-13 tíma á dag alla virka daga vikunnar og er þar að auki að fara að vinna næstu tvo sunnudaga líka. Ég þarf að vera mættur í seinasta lagi hálf sex á morgnana og ég er að vinna erfiða líkamlega vinnu allan daginn. Þar sem þetta er færibandavinna er auðvitað haldið áfram stanslaust á milli kaffitíma og hver einasta sekúnda nýtt.

Auðvitað gæti ég beðið um að einhver annar tæki morgnana og helgarnar fyrir mig. En þá væri ekki lengur neitt vit í því fyrir mig að vinna hérna því að án yfirvinnunnar væri ég kominn á þvílík lúsarlaun að þá hefði ég alveg eins getað unnið bara áfram hjá borginni. En ef hendurnar fara ekki að lagast á næstu vikum þá held ég að ég muni hreinlega neyðast til að hætta því að ekki ætla ég að verða örkumla bara fyrir eitthvað starf. Ég er að reyna að finna út hvernig ég get skilað vinnunni með sem minnstu álagi fyrir hendurnar, bara vonandi að það gangi upp. Ég nefninlega vil í raun alls ekki hætta strax, þrátt fyrir allt. Og ástæðan? Jú, ég hef aldrei áður þénað eins mikið á ævinni, en hef heldur aldrei svitnað eins mikið fyrir hverja krónu. Ef mér tekst að halda áætlun alveg fram á haust er ég í mjög góðum málum og þá get ég loksins gert næstum hvað sem ég vil án peningavandræða næsta árið eða svo. Skóli, frí, meirapróf eða bara gott ferðalag verður allt opinn möguleiki. Í sannleika sagt veit ég samt ekki í dag hvort skrokkurinn á mér muni hafa þetta af fram á haust.

En nú er ég búinn að fylla vælukvótann svo það er eins gott að fara að tala um eitthvað annað! Ég innleiddi tvo afskaplega sæta naggrísaunga á heimilið fyrir tæplega hálfum mánuði! Frétti af þeim í auglýsingadálki á síðunni www.strandir.is og þetta var einfaldlega tækifæri sem ég gat ekki sleppt því að það er ekki á hverjum degi sem manni bjóðast naggrísir á Hólmavík, hvað þá ungar. Ákvað að taka þá stóru áhættu að ég myndi kannski ekki þola þá því ég var með mjög slæmt dýraofnæmi sem barn. En til allrar lukku hef ég ekki orðið var við neitt ofnæmi (en reyndar tek ég eina ofnæmistöflu á dag en það hef ég gert í mörg ár). Gamall æskudraumur hefur semsagt ræst, ég er kominn með gæludýr sem ég get ekki bara horft á eins og fiskana mína, heldur klappað og tekið upp úr búrinu og jafnvel talað við! Kem með myndir fljótlega.


Helgin í stuttu máli

Jæja. Þá skrapp maður loksins suður, núna um helgina. Er bara nokkuð sáttur með hana. Náði að fara í bíó, í tvær heimsóknir, í sund, á rúntinn og svo fékk ég heimabakaðar bollur með súkkulaði og rjóma og öllum pakkanum. Ég þakka fyrir mig, þær voru æði (á báðum stöðunum!).

Það tók 26 daga

Það var mikið. Loksins á þessu ári sá ég sólina. Sú gula birtist þarna inn á milli skýjanna á milli tveggja húsa á laugardaginn og skein inn um stofugluggann. Nokkrum mínútum seinna var hún aftur horfin. Ég var nánast búinn að gleyma því hvernig þetta fyrirbrigði lítur út. Þetta er stóri mínusinn við það að vera í innivinnu. Ég er að vinna á einum af þeim stöðum vinnslunnar þar sem varla fyrirfinnast gluggar. Að vísu er stór skúrshurð í móttökunni alveg í hinum endanum, sem er stundum opnuð tímabundið til að taka á móti rækju og vörum, en sólin er enn ekki komin það hátt upp að hún nái að skína þar inn. Í stuttu máli þá fer ég í vinnuna í svartamyrkri, og kem heim í rökkri. Þetta sólarleysi hefur ekki farið vel í mig. Einu get ég reyndar ekki sleppt úr í samhengi við það að vinna inni. Stóri plúsinn hefur auðvitað verið sá að hafa sloppið við að starfa úti í þessu eilífa snarvitlausa veðri sem hefur dunið yfir landið.

Hér kemur ein góð spurning. Á ég að skreppa suður um helgina? Hmm.


Lífið komið í fastar skorður

Þá er allt komið í rútínu aftur, sem betur fer. Mér líkar það best virðist vera, allavega er ég oftast í góðu andlegu jafnvægi á þessum venjulegu dögum. Það er eins og allt geti stundum farið í rugl hjá mér á öðrum tímum en ég hef ekki hugmynd hvers vegna. Það er alltaf gott að fá frí samt, en það er alveg greinilegt að ég verð þá að hafa einhverja rútínu eða nóg að gera. 

Hvar er eiginlega sólin árið 2008? Mér hefur ekki tekist að sjá þá gulu í svo mikið sem sekúndu á þessu blessaða ári, þó ekki sé ýkja langt í að janúar sé hálfnaður. Maður er alltaf í vinnunni þegar hún hefur náð að skína, eða þá að það hefur einfaldlega verið skýjað, eða að maður hefur verið að sofa út um helgi. Ég nenni ekki að hafa þetta myrkur lengur, mér er alveg sama um kuldann og snjóinn, hef ekkert á móti því, vil bara fá birtu.


Ligg í dvala

Gleðileg jól! Ég vona að þið séuð búin að hafa það gott um hátíðirnar.

Ég get ekki útskýrt það fyrir ykkur hvað ég er búinn að þurfa mikið að fá þetta frí. Loksins, loksins er það komið! Loksins get ég safnað kröftum almenninlega og hvílt mig. Það besta við þetta frí er að ég er laus við alla dagskrá, fyrir utan jólin sjálf og gamlárskvöld auðvitað, en það er samt auðvitað bara skemmtileg dagskrá.

Ég lenti reyndar strax í vægu áfalli eftir að ég kom til Reykjavíkur. Þannig er mál með vöxtum að ég tók tölvuna mína með mér og alla fylgihluti, enda fer ég ekki til baka fyrr en fyrsta janúar. En þegar ég var búinn að tengja allt, uppgötva ég að annar af utanáliggjandi hörðu diskunum sem ég á, er ónýtur eftir ferðina suður. Hvernig er þetta hægt? Hvernig geta þessir diskar verið svona viðkvæmir að það sé ekki hægt að flytja þá á milli staða án þess að þurfa að naga á sér neglurnar af áhyggjum yfir því hvort þeir lifi ferðina af. Þessi diskur var varla orðinn árs gamall og þetta var í fyrsta sinn sem ég tek tölvuna með mér suður síðan ég flutti til Hólmavíkur í ágúst.

Ég var reyndar mjög heppinn að það var þessi diskur sem hrundi en ekki einhver annar, því að mest af gögnunum á honum voru vara afrit sem ég hafði gert ef eitthvað svona myndi gerast. En sumu er ég samt búinn að glata að eilífu og það mátti engu muna að allar myndirnar úr Færeyjaferðinni minni hefðu glatast, því að ég hafði sett þær á þennan disk til að skapa meira pláss á hinum diskunum, og þá auðvitað án þess að eiga þær annars staðar í tölvunni. En það var að rifjast upp fyrir mér að ég skrifaði þessar myndir einusinni á geisladisk til að sýna foreldrum mínum þær, núna verð ég bara að finna þennan disk og vona heitt og innilega að það sé í lagi með hann. Þær myndir sem ég var búinn að henda hingað inná myndaalbúmið eru bara í broti af gæðunum sem ég átti þær í á harða diskinum og ég var heldur ekki búinn að setja nema örfáar af myndunum hér inn.

Bíllinn minn er loksins kominn í topp stand... eða svona næstum því. Eftir margra mánaða bið er ég loksins búinn að skipta um afturdemparana. Ég hef einfaldlega aldrei tímt því fyrr en núna, en ég gat ekki frestað þessu lengur því að ég hef aldrei séð strandaveginn (á milli Hvk. og Rvk.) svona slæman áður. Er líka búinn að skipta um rúðuþurrkubúnaðinn, sem var ófáanlegur á landinu og þurfti að koma hingað langt að, því hann var ekki heldur til á einhverjum lager í Evrópu sem umboðið verslar venjulega við. En sagan er ekki öll skal ég segja ykkur! Haldið þið ekki að það hafi myndast þessi myndarlega sprunga á framrúðuna sama dag og allt var klappað og klárt. Og að sjálfsögðu stækkaði hún all rækilega strax daginn eftir. Það er alveg á hreinu að ég og bílar eigum ekki samleið.

Ég veit ekki hvað er málið með mig á þessum árstíma. Ég hef ekki haft löngun til að gera neitt í þessu fríi mínu. Ég keypti jólagjafirnar og pakkaði þeim inn. Var í faðmi fjölskyldunnar á aðfangadag, sem var alveg stórkostlegt. Fór með fjölskyldunni í nokkur matarboð. Hitti ættingjana. Allt alveg ágætt bara. En þess á milli hef ég varla stigið út fyrir hússins dyr, hef engan heimsótt, hef ekki haft samband við neinn, hef ekki kíkt í bíó, ekki farið á rúntinn... Það eina sem ég geri allan daginn er að horfa á bíómyndir, hanga í tölvunni, éta, hlusta á tónlist og svo geri ég alveg heilmikið af því að sofa. Ég er í dvala. Ætla samt að reyna eins og ég get að koma mér í gang á morgun, sjáum til hvernig það lukkast.


Trallala

Jæja, þá eru bílavarahlutirnir mínir komnir til Reykjavíkur og eiga bara eftir að koma hingað með næstu sendingu. Spánnýjir afturdemparar og rúðuþurrkubúnaður. Samtals rúmlega 70 þúsund kall, mig svimar af því að hugsa um þessa upphæð.

Um daginn heyrði ég um snarbrjálað veður fyrir sunnan og um fjúkandi brak og jólatré og 64 metra á sekúndu undir Hafnarfjallinu, vá! Hérna var í mesta lagi léttur andvari, bara besta veður. Maður var nú bara nokkuð sáttur þá. En í gærnótt  og í dag sluppum við ekki heldur við þetta brjálaða rok. Rafmagnið er búið að vera að fara af sí og æ, sem hafði auðvitað truflandi áhrif á vinnsluna, ekkert alvarlega þó, en við náðum samt ekki alveg að klára að keyra fullan skammt í gegn. 

Ég er alveg að missa mig núna af tilhlökkun, aðallega fyrir fríinu auðvitað hehe. Ég verð í 11 daga fríi, alveg frá 22. desember til 1. janúar. Getur lífið orðið betra? Jú kannski ef ég gæti losnað við bakverkinn, þá væri lífið því sem næst orðið fullkomið. Nenni ekki að skrifa meira, líka eins gott fyrir mig að klára áður en rafmagnið fer af rétt áður en ég vista...


Jólatilhlökkun á alvarlegu stigi

Ég held að þetta sé komið út fyrir öll eðlileg mörk hjá mér. Ég er búinn að standa sjálfan mig að því að hækka í útvarpinu í vinnunni þegar auglýsingalesturinn stendur yfir. Og til hvers? Jú, til að hlusta á jólastefið í bakgrunninum. Ég er sko ekkert að hlusta á upplesturinn sjálfann. Ég held að ég sé orðinn bilaður!

Bara kominn desember!

Sæl öll sömul. Ég er loksins farinn að uppfæra myndaalbúmin eitthvað, samt ekki búinn svo endilega bíðið bara róleg þar til ég klára hehe. Er að setja inn myndir frá Færeyjaferðinni minni sem ég veit að fæstir hafa séð, en flestir hafa verið að bíða eftir að sjá. Læt ykkur vita þegar allt er klappað og klárt!


Tiltektir

Loksins hafði ég mig í það að hreinsa dótið út úr herberginu sem ég er með á leigu hér á Hólmavík, svo ég geti farið að hafa herbergið eins og ég vil hafa það, og með mínu dóti. Það tók miklu styttri tíma en ég hafði ímyndað mér. Að ég skuli hafa dregið það svona lengi að ljúka þessu af, en þetta lýsir mér svosem ágætlega. Nú er bara að skúra og þurrka rykið, og skreppa svo suður og ná í eitthvað meira af dótinu mínu.

Ég virðist hafa verið eitthvað að flýta mér í síðustu skrifum. Ég var ekkert að segja frá því að Pálmi frændi minn reddaði mér alveg um síðustu helgi varðandi rúðuþurrkurnar. Ég náði ekki að útvega mér varahluti því að þeir eru víst ekki til hjá umboðinu þannig að ég mun þurfa að panta þá. Þetta er gallinn við að vera á tiltölulega sjaldgæfri týpu af bíl. En semsagt, hann náði að „skítmixa“ þetta fyrir mig eins og hann kallaði það, svo að ég komst alla leið til Hólmavíkur áður en skítmixið gaf sig svo. Það er alveg borin von að láta sig svo mikið sem dreyma um að reyna að keyra alla leið frá Reykjavík til Hólmavíkur með bilaðar rúðuþurrkur! Líkurnar á því að þú þyrftir aldrei að nota þurrkurnar á leiðinni eru þær sömu og að þú myndir vakna einn morguninn og finna eina milljón inni í koddanum þínum.


Slakað á

Hafði það ágætt fyrir sunnan. Gerði ekki helminginn af því sem ég ætlaði að gera. Verst var hvað ég var óduglegur í félagslífinu en þó hitti ég t.d. gömlu vinnufélagana hjá borginni sem var bara tær snilld, ég verð að halda sambandi við þetta úrvalsfólk.

Ég var eiginlega bara að slappa af, nákvæmlega eins og ég ætlaði því að ég var algerlega búinn að fá nóg af stressi og vinnu svo ég þurfti virkilega á þessu fríi að halda. Var bara edrú og nettur á því, skrapp bara í bíó með bróðir mínum Elvari og lék mér að því að gera skissur og teikna, eitthvað sem var orðið óralangt síðan ég gerði síðast. Ég var næstum búinn að gleyma hvað það er gaman að teikna maður.

Haldi'ði ekki að rúðuþurrkurnar á bílnum mínum hafi bilað á meðan ég var í Reykjavík. Alger klassi. Það virðist ætla að verða þrautin þyngri að komast á milli bæja í eitt skipti án þess að eitthvað smádót klikki sem samt er ekki hægt að vera án á Íslandi, eins og t.d. rúðuþurrkur! Síðan ég flutti þá hafa afturdempararnir klárast, mikilvæg baula dottið undan bílnum sem heldur við hjólabúnaðinn, ventill á einni felgunni hefur gefið sig og núna fór þurrkubúnaðurinn. En ég hef þó ennþá tröllatrú á þessum bíl, hann er þrátt fyrir allt sá besti sem ég hef átt, ég þarf bara að anda með nefinu og vera ekkert að æsa mig, klappa kvikindinu, mússímússí og allt það og þá klikkar hann ekki aftur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband