Jólatilhlökkun á alvarlegu stigi

Ég held að þetta sé komið út fyrir öll eðlileg mörk hjá mér. Ég er búinn að standa sjálfan mig að því að hækka í útvarpinu í vinnunni þegar auglýsingalesturinn stendur yfir. Og til hvers? Jú, til að hlusta á jólastefið í bakgrunninum. Ég er sko ekkert að hlusta á upplesturinn sjálfann. Ég held að ég sé orðinn bilaður!

Bara kominn desember!

Sæl öll sömul. Ég er loksins farinn að uppfæra myndaalbúmin eitthvað, samt ekki búinn svo endilega bíðið bara róleg þar til ég klára hehe. Er að setja inn myndir frá Færeyjaferðinni minni sem ég veit að fæstir hafa séð, en flestir hafa verið að bíða eftir að sjá. Læt ykkur vita þegar allt er klappað og klárt!


Tiltektir

Loksins hafði ég mig í það að hreinsa dótið út úr herberginu sem ég er með á leigu hér á Hólmavík, svo ég geti farið að hafa herbergið eins og ég vil hafa það, og með mínu dóti. Það tók miklu styttri tíma en ég hafði ímyndað mér. Að ég skuli hafa dregið það svona lengi að ljúka þessu af, en þetta lýsir mér svosem ágætlega. Nú er bara að skúra og þurrka rykið, og skreppa svo suður og ná í eitthvað meira af dótinu mínu.

Ég virðist hafa verið eitthvað að flýta mér í síðustu skrifum. Ég var ekkert að segja frá því að Pálmi frændi minn reddaði mér alveg um síðustu helgi varðandi rúðuþurrkurnar. Ég náði ekki að útvega mér varahluti því að þeir eru víst ekki til hjá umboðinu þannig að ég mun þurfa að panta þá. Þetta er gallinn við að vera á tiltölulega sjaldgæfri týpu af bíl. En semsagt, hann náði að „skítmixa“ þetta fyrir mig eins og hann kallaði það, svo að ég komst alla leið til Hólmavíkur áður en skítmixið gaf sig svo. Það er alveg borin von að láta sig svo mikið sem dreyma um að reyna að keyra alla leið frá Reykjavík til Hólmavíkur með bilaðar rúðuþurrkur! Líkurnar á því að þú þyrftir aldrei að nota þurrkurnar á leiðinni eru þær sömu og að þú myndir vakna einn morguninn og finna eina milljón inni í koddanum þínum.


Slakað á

Hafði það ágætt fyrir sunnan. Gerði ekki helminginn af því sem ég ætlaði að gera. Verst var hvað ég var óduglegur í félagslífinu en þó hitti ég t.d. gömlu vinnufélagana hjá borginni sem var bara tær snilld, ég verð að halda sambandi við þetta úrvalsfólk.

Ég var eiginlega bara að slappa af, nákvæmlega eins og ég ætlaði því að ég var algerlega búinn að fá nóg af stressi og vinnu svo ég þurfti virkilega á þessu fríi að halda. Var bara edrú og nettur á því, skrapp bara í bíó með bróðir mínum Elvari og lék mér að því að gera skissur og teikna, eitthvað sem var orðið óralangt síðan ég gerði síðast. Ég var næstum búinn að gleyma hvað það er gaman að teikna maður.

Haldi'ði ekki að rúðuþurrkurnar á bílnum mínum hafi bilað á meðan ég var í Reykjavík. Alger klassi. Það virðist ætla að verða þrautin þyngri að komast á milli bæja í eitt skipti án þess að eitthvað smádót klikki sem samt er ekki hægt að vera án á Íslandi, eins og t.d. rúðuþurrkur! Síðan ég flutti þá hafa afturdempararnir klárast, mikilvæg baula dottið undan bílnum sem heldur við hjólabúnaðinn, ventill á einni felgunni hefur gefið sig og núna fór þurrkubúnaðurinn. En ég hef þó ennþá tröllatrú á þessum bíl, hann er þrátt fyrir allt sá besti sem ég hef átt, ég þarf bara að anda með nefinu og vera ekkert að æsa mig, klappa kvikindinu, mússímússí og allt það og þá klikkar hann ekki aftur.


Sund...alger snilld í kuldanum

Snjórinn virðist kominn til að vera hér. Eftir að ég kom með færsluna um snjóinn sem síðan bráðnaði samdægurs þá leið ekki nema einn eða tveir dagar þar til það snjóaði á ný. Jörðin hefur verið meira eða minna hvít síðan.

Það er geðveikt þægilegt að frændi minn sé í þessum bolta. Eins og ég hef sagt áður þá kem ég alltaf með honum þegar hann fer á boltaæfingarnar, en fer bara í sund í stað boltans. Undanfarnar vikur hefur það ansi oft gerst að ég hef verið farinn að dorma eftir vinnu þar til ég var farinn að reyna að hlaupast undan því að fara í sundið. „Æ, ég held ég sleppi þessu núna, er orðinn svo þreyttur eitthvað.“ Þá segir hann alltaf „þú „beilar“ ekkert á þessu, þú kemur með, það er ekki eins og það sé svona erfitt að fara í sund.“ Og auðvitað hætti ég alltaf við að hætta við eftir svona ræðu yfir manni! sem betur fer, því mér veitir svo sannarlega ekki af hreyfingunni, jafnvel þó ég sé núna í einu því erfiðasta starfi sem ég hef verið í. Sundið veitir mér þær hreyfingar sem vantar uppá í vinnunni þannig að það er alveg bráðnauðsynlegt fyrir mig svo ég sé ekki með grautlina vöðva innan um þá þjálfuðu.

Ég ætlaði bara að vera nettur á kantinum í dag og synda svona 20-30 ferðir hámark og slaka svo vel á í heita pottinum. En mér varð á að segja einum sundgestinum frá áformum mínum og þá sagði hann auðvitað „Það er nú alveg lágmark. Þú verður samt eiginlega að taka 40 ferðir, 41 til að toppa mig.“ Þetta var auðvitað ekkert annað en storkun svo auðvitað varð ég að taka að minnsta kosti 42 ferðir, bara út af kjaftinum í mér. En þetta þýddi að ég var kominn í tímahrak svo ég varð að synda eins og það væri óður hákarl á eftir mér. Kom mér svo uppá bakkann með oföndun dauðans, en sáttur. Það varð lítið úr heita pottinum.

Ég ætla suður eftir vinnu á fimmtudaginn. Löng helgi framundan. Flestir vinnufélagarnir mínir eru að fara í starfsmannaferð til Akureyrar að skemmta sér en ég vildi frekar fara til Reykjavíkur til að hitta vini og vandamenn og nýta tækifærið til að geta verið í bænum á virkum degi, en þetta er fyrsta tækifærið mitt til þess síðan ég flutti. Mér finnst ég ennþá eiga líka heima í Reykjavík þó mér líði ágætlega hér á nýja staðnum.


Mér leiddist

Horfði því á „The Gladiator“ um síðustu helgi til að drepa tímann. Sötraði kaldan öl. Var einn í húsinu, allir farnir á flakk. Fékk hugmynd. „Heyrðu, hvernig ætli ég líti út með svona skegg, eins og Maximus?“ Hvað gerist um næstu helgi? Fylgist með.


Vííí snjór!

Í vikunni þegar ég fór út til að ganga í vinnuna þá var nánast blankalogn og snjókoma með alveg risastórum dúnmjúkum snjóflygsum og jörðin var orðin alhvít. Mjög fögur sjón og mér að skapi, bara eins og í jólamyndunum sem maður horfir á í desember. En þetta entist stutt og var allt bráðnað eftir vinnu. Það er svosem ágætt líka, það er kannski aðeins of snemmt að fá þetta strax. En ég er vel til í að fá snjóinn í kringum desember svo ég geti farið að leika mér að festa bílinn í snjósköflunum eða kannski jafnvel prófa að fara á gönguskíði?

Skvamp!

Er að spá í að fara að stunda sund af alvöru eftir vinnu mánudaga til fimmtudaga. Ég og Haddi frændi fórum saman í íþróttahúsið, hann á fótboltaæfingu og ég í sund á meðan. Tók 30 ferðir sem er um 750 metrar og fór svo í heita pottinn í korter. Ég ætla að reyna að taka 40 ferðir í hvert skipti, semsagt einn kílómetra á dag af bringusundi. Tja, eða öðru sundi en ég er reyndar skítlélegur í öllu nema bringunni og kafsundi. Hmm, þetta eru pælingar.

Magnað dæmi, hér er allt krökkt af Rjúpum! Þær vappa hér um í hópum innanbæjar, eitthvað sem sést aldrei fyrir sunnan. Hvítar eru þær orðnar svo það hlýtur að taka af allan vafa um að veturinn sé kominn, ef einhver efast enn!


Októberfærslan...hehe

Líf mitt hefur einfaldast mikið við það að flytja hingað norður (já, Hólmvíkingar segjast flestir búa fyrir norðan þó á Vestfjörðum séu). Ég er ekki lengur andvaka á nóttunni og dauðþreyttur á daginn eins og fyrir sunnan. Og gott ef ég fæ ekki líka meira út úr svefninum hérna. Andleg þreyta hefur minnkað til muna en aftur á móti er ég alveg úrvinda í skrokkinum eftir daginn (mikil breyting). Hérna dotta ég aldrei í vinnunni, það er einfaldlega ekki fræðilegur möguleiki, enda er ég að gera eitthvað hverja einustu sekúndu, líka í kaffipásunum. Hjá borginni var vinnan í hrikalegum skorpum, en hér er jafnt álag allan daginn, sem mér líkar mun betur. Ég sat fastur í bílum í marga klukkutíma á dag í Reykjavík, bæði í vinnunni, og utan hennar. Hérna geta liðið 2-3 dagar án þess að ég svo mikið sem setjist inní bíl. Hér er ég rúma eina mínútu að fara gangandi í vinnuna (fyrir sunnan: 10-15 mínútur akandi,  tæplega 30 mínútur hjólandi, um og yfir klukkutími gangandi) og þegar Café Riis er opið (bar/veitingastaður) tekur það sömuleiðis ekki nema tæpa mínútu að komast þangað fótgangandi. Eina þjónustan (sem ég nota) sem er nógu langt í burtu frá heimilinu til að ég aki þangað er sjoppan, búðin og sundlaugin. Samt er varla að bílvélin nái að hitna á leiðinni þangað, kannski á bakaleiðinni! Svo ég minnist nú á eitthvað neikvætt þá er auðvitað leiðinlegt að geta ekki hitt fjölskylduna og vinina í Reykjavík hvenær sem er.

Sunnudaginn 7. október síðastliðinn keyrði ég á ref utarlega í Steingrímsfirðinum þegar ég var á leið heim frá Reykjavík. Ég er því núna búinn að aka yfir og drepa tvo refi á ekki nema rúmlega ári á þessum ferðum mínum á milli (hitt skiptið gerðist nálægt Bifröst/Hreðavatnsskála). Ég skil ekki þessa óheppni því að ég er viss um að sumir keyra um sveitirnar ævina út án þess að lenda í þessu í eitt skipti. Bæði tilfellin gerðust í myrkri og á þann hátt að þeir voru á harðaspretti yfir veginn og í bæði skiptin snarhemlaði ég en allt kom fyrir ekki. Annað hvort varð ég að sætta mig að keyra yfir þá, eða keyra út af á 90 kílómetra hraða. Maður verður að vera búinn að taka ákvörðun fyrirfram um það hvað maður gerir við svona aðstæður. Að sjálfsögðu fórnar maður ekki sjálfum sér fyrir dýr, en gerir það fyrir manneskju. Og maður ekur ekki út af vegna refs en gerir það ef stórt dýr eins og hestur er á veginum sem getur kastast inní bílinn. Sömuleiðis myndi maður ekki aka fram af þverhnípi, jafnvel þó að dýrið væri stórt.

En nú að bókamálum! Ég var að ljúka við bókina „Konungsbók“ eftir Arnald Indriðason á dögunum. Til að koma með stuttan dóm þá fannst mér hún frekar þung í lestri miðað við aðrar bækur eftir hann og hún innihélt mikið af nöfnum sem þurfti að melta. Aftur á móti hafði hún þau áhrif á mig að fá mig til að hugsa um og gera mig stoltan af þeim arfi sem forfeður okkar skildu eftir handa okkur, og þá er ég auðvitað að tala um skinnhandritin. Bókin byrjar mjög rólega en verður hörkuspennandi í lokin. En samt, ef þú hefur ekki kynnst Arnaldi áður, byrjaðu þá fyrst á að lesa sögurnar um Erlend og félaga. Í augnablikinu er ég að lesa bókina „Viltu vinna milljarð,“ eftir rithöfundinn Vikas Swarup og gerist hún að mestu í fátæktrahverfum Indlands. Hún verður sífellt meira spennandi með hverjum kaflanum og er skrifuð í hálfgerðum dagbókarstíl en þar sem ég er ekki búinn með hana ætla ég að bíða með frekari gagnrýni. Næst mun ég svo byrja á sakamálasögunni „Farþeginn,“ eftir Pál Kristin Pálsson. Hlakka til! En nóg í bili.


Jei!

Nú er ég sáttur! Búinn að koma bílnum í lag með aðstoð góðra ættingja, búinn að fá útborgað, helgin framundan og ég er ekki að vinna á sunnudaginn. En næsta vinnuvika verður samt verulega erfið því að við í móttökunni hjá Hólmadrangi erum að fara að vinna 12 tíma á dag, frá fimm á morgnana. Þetta gerum við til að vinna af okkur einn föstudag í nóvember svo það verði hægt að fara í starfsmannaferð til Akureyrar stresslaust. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég nenni ekki að fara og það er líklega orðið of seint fyrir mig að skrá mig núna til þáttöku. Æ, ég er einhvernvegin bara ekki í stuði núna þó að ég viti að þetta verði skemmtileg ferð og gott tækifæri til að kynnast annari hlið á nýju vinnufélögunum mínum. Mig langar bara ekki til að skrá mig ef ég er síðan líklega að fara að „beila“ á ferðinni. En ég fer pottþétt næst ef ég verð enn vinnandi hérna þá. Ég er að spá í að fara til Reykjavíkur um helgina þó að ég hafi verið þar síðustu helgi, því að ég veit að ég mun ekki hafa tækifæri til þess þá næstu. Ég þarf að kaupa dekk fyrir veturinn og svo þarf ég eiginlega að koma fiskunum mínum norður. Mér gafst heldur ekki tími til að kíkja í bíó síðast. En ég fór sko á djammið! Reyndar meira en það. Ég fór í smá teiti, síðan var ég allt í einu staddur á fjörugu Þróttaraballi og svo endaði ég í Ellefunni niðrí bæ þannig að ég fór sáttur norður. Jamms, jæja... geisp, ég nenni ekki að skrifa meira... hrooot... hrooot...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband