Sund...alger snilld í kuldanum

Snjórinn virðist kominn til að vera hér. Eftir að ég kom með færsluna um snjóinn sem síðan bráðnaði samdægurs þá leið ekki nema einn eða tveir dagar þar til það snjóaði á ný. Jörðin hefur verið meira eða minna hvít síðan.

Það er geðveikt þægilegt að frændi minn sé í þessum bolta. Eins og ég hef sagt áður þá kem ég alltaf með honum þegar hann fer á boltaæfingarnar, en fer bara í sund í stað boltans. Undanfarnar vikur hefur það ansi oft gerst að ég hef verið farinn að dorma eftir vinnu þar til ég var farinn að reyna að hlaupast undan því að fara í sundið. „Æ, ég held ég sleppi þessu núna, er orðinn svo þreyttur eitthvað.“ Þá segir hann alltaf „þú „beilar“ ekkert á þessu, þú kemur með, það er ekki eins og það sé svona erfitt að fara í sund.“ Og auðvitað hætti ég alltaf við að hætta við eftir svona ræðu yfir manni! sem betur fer, því mér veitir svo sannarlega ekki af hreyfingunni, jafnvel þó ég sé núna í einu því erfiðasta starfi sem ég hef verið í. Sundið veitir mér þær hreyfingar sem vantar uppá í vinnunni þannig að það er alveg bráðnauðsynlegt fyrir mig svo ég sé ekki með grautlina vöðva innan um þá þjálfuðu.

Ég ætlaði bara að vera nettur á kantinum í dag og synda svona 20-30 ferðir hámark og slaka svo vel á í heita pottinum. En mér varð á að segja einum sundgestinum frá áformum mínum og þá sagði hann auðvitað „Það er nú alveg lágmark. Þú verður samt eiginlega að taka 40 ferðir, 41 til að toppa mig.“ Þetta var auðvitað ekkert annað en storkun svo auðvitað varð ég að taka að minnsta kosti 42 ferðir, bara út af kjaftinum í mér. En þetta þýddi að ég var kominn í tímahrak svo ég varð að synda eins og það væri óður hákarl á eftir mér. Kom mér svo uppá bakkann með oföndun dauðans, en sáttur. Það varð lítið úr heita pottinum.

Ég ætla suður eftir vinnu á fimmtudaginn. Löng helgi framundan. Flestir vinnufélagarnir mínir eru að fara í starfsmannaferð til Akureyrar að skemmta sér en ég vildi frekar fara til Reykjavíkur til að hitta vini og vandamenn og nýta tækifærið til að geta verið í bænum á virkum degi, en þetta er fyrsta tækifærið mitt til þess síðan ég flutti. Mér finnst ég ennþá eiga líka heima í Reykjavík þó mér líði ágætlega hér á nýja staðnum.


Mér leiddist

Horfði því á „The Gladiator“ um síðustu helgi til að drepa tímann. Sötraði kaldan öl. Var einn í húsinu, allir farnir á flakk. Fékk hugmynd. „Heyrðu, hvernig ætli ég líti út með svona skegg, eins og Maximus?“ Hvað gerist um næstu helgi? Fylgist með.


Vííí snjór!

Í vikunni þegar ég fór út til að ganga í vinnuna þá var nánast blankalogn og snjókoma með alveg risastórum dúnmjúkum snjóflygsum og jörðin var orðin alhvít. Mjög fögur sjón og mér að skapi, bara eins og í jólamyndunum sem maður horfir á í desember. En þetta entist stutt og var allt bráðnað eftir vinnu. Það er svosem ágætt líka, það er kannski aðeins of snemmt að fá þetta strax. En ég er vel til í að fá snjóinn í kringum desember svo ég geti farið að leika mér að festa bílinn í snjósköflunum eða kannski jafnvel prófa að fara á gönguskíði?

Skvamp!

Er að spá í að fara að stunda sund af alvöru eftir vinnu mánudaga til fimmtudaga. Ég og Haddi frændi fórum saman í íþróttahúsið, hann á fótboltaæfingu og ég í sund á meðan. Tók 30 ferðir sem er um 750 metrar og fór svo í heita pottinn í korter. Ég ætla að reyna að taka 40 ferðir í hvert skipti, semsagt einn kílómetra á dag af bringusundi. Tja, eða öðru sundi en ég er reyndar skítlélegur í öllu nema bringunni og kafsundi. Hmm, þetta eru pælingar.

Magnað dæmi, hér er allt krökkt af Rjúpum! Þær vappa hér um í hópum innanbæjar, eitthvað sem sést aldrei fyrir sunnan. Hvítar eru þær orðnar svo það hlýtur að taka af allan vafa um að veturinn sé kominn, ef einhver efast enn!


Októberfærslan...hehe

Líf mitt hefur einfaldast mikið við það að flytja hingað norður (já, Hólmvíkingar segjast flestir búa fyrir norðan þó á Vestfjörðum séu). Ég er ekki lengur andvaka á nóttunni og dauðþreyttur á daginn eins og fyrir sunnan. Og gott ef ég fæ ekki líka meira út úr svefninum hérna. Andleg þreyta hefur minnkað til muna en aftur á móti er ég alveg úrvinda í skrokkinum eftir daginn (mikil breyting). Hérna dotta ég aldrei í vinnunni, það er einfaldlega ekki fræðilegur möguleiki, enda er ég að gera eitthvað hverja einustu sekúndu, líka í kaffipásunum. Hjá borginni var vinnan í hrikalegum skorpum, en hér er jafnt álag allan daginn, sem mér líkar mun betur. Ég sat fastur í bílum í marga klukkutíma á dag í Reykjavík, bæði í vinnunni, og utan hennar. Hérna geta liðið 2-3 dagar án þess að ég svo mikið sem setjist inní bíl. Hér er ég rúma eina mínútu að fara gangandi í vinnuna (fyrir sunnan: 10-15 mínútur akandi,  tæplega 30 mínútur hjólandi, um og yfir klukkutími gangandi) og þegar Café Riis er opið (bar/veitingastaður) tekur það sömuleiðis ekki nema tæpa mínútu að komast þangað fótgangandi. Eina þjónustan (sem ég nota) sem er nógu langt í burtu frá heimilinu til að ég aki þangað er sjoppan, búðin og sundlaugin. Samt er varla að bílvélin nái að hitna á leiðinni þangað, kannski á bakaleiðinni! Svo ég minnist nú á eitthvað neikvætt þá er auðvitað leiðinlegt að geta ekki hitt fjölskylduna og vinina í Reykjavík hvenær sem er.

Sunnudaginn 7. október síðastliðinn keyrði ég á ref utarlega í Steingrímsfirðinum þegar ég var á leið heim frá Reykjavík. Ég er því núna búinn að aka yfir og drepa tvo refi á ekki nema rúmlega ári á þessum ferðum mínum á milli (hitt skiptið gerðist nálægt Bifröst/Hreðavatnsskála). Ég skil ekki þessa óheppni því að ég er viss um að sumir keyra um sveitirnar ævina út án þess að lenda í þessu í eitt skipti. Bæði tilfellin gerðust í myrkri og á þann hátt að þeir voru á harðaspretti yfir veginn og í bæði skiptin snarhemlaði ég en allt kom fyrir ekki. Annað hvort varð ég að sætta mig að keyra yfir þá, eða keyra út af á 90 kílómetra hraða. Maður verður að vera búinn að taka ákvörðun fyrirfram um það hvað maður gerir við svona aðstæður. Að sjálfsögðu fórnar maður ekki sjálfum sér fyrir dýr, en gerir það fyrir manneskju. Og maður ekur ekki út af vegna refs en gerir það ef stórt dýr eins og hestur er á veginum sem getur kastast inní bílinn. Sömuleiðis myndi maður ekki aka fram af þverhnípi, jafnvel þó að dýrið væri stórt.

En nú að bókamálum! Ég var að ljúka við bókina „Konungsbók“ eftir Arnald Indriðason á dögunum. Til að koma með stuttan dóm þá fannst mér hún frekar þung í lestri miðað við aðrar bækur eftir hann og hún innihélt mikið af nöfnum sem þurfti að melta. Aftur á móti hafði hún þau áhrif á mig að fá mig til að hugsa um og gera mig stoltan af þeim arfi sem forfeður okkar skildu eftir handa okkur, og þá er ég auðvitað að tala um skinnhandritin. Bókin byrjar mjög rólega en verður hörkuspennandi í lokin. En samt, ef þú hefur ekki kynnst Arnaldi áður, byrjaðu þá fyrst á að lesa sögurnar um Erlend og félaga. Í augnablikinu er ég að lesa bókina „Viltu vinna milljarð,“ eftir rithöfundinn Vikas Swarup og gerist hún að mestu í fátæktrahverfum Indlands. Hún verður sífellt meira spennandi með hverjum kaflanum og er skrifuð í hálfgerðum dagbókarstíl en þar sem ég er ekki búinn með hana ætla ég að bíða með frekari gagnrýni. Næst mun ég svo byrja á sakamálasögunni „Farþeginn,“ eftir Pál Kristin Pálsson. Hlakka til! En nóg í bili.


Jei!

Nú er ég sáttur! Búinn að koma bílnum í lag með aðstoð góðra ættingja, búinn að fá útborgað, helgin framundan og ég er ekki að vinna á sunnudaginn. En næsta vinnuvika verður samt verulega erfið því að við í móttökunni hjá Hólmadrangi erum að fara að vinna 12 tíma á dag, frá fimm á morgnana. Þetta gerum við til að vinna af okkur einn föstudag í nóvember svo það verði hægt að fara í starfsmannaferð til Akureyrar stresslaust. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég nenni ekki að fara og það er líklega orðið of seint fyrir mig að skrá mig núna til þáttöku. Æ, ég er einhvernvegin bara ekki í stuði núna þó að ég viti að þetta verði skemmtileg ferð og gott tækifæri til að kynnast annari hlið á nýju vinnufélögunum mínum. Mig langar bara ekki til að skrá mig ef ég er síðan líklega að fara að „beila“ á ferðinni. En ég fer pottþétt næst ef ég verð enn vinnandi hérna þá. Ég er að spá í að fara til Reykjavíkur um helgina þó að ég hafi verið þar síðustu helgi, því að ég veit að ég mun ekki hafa tækifæri til þess þá næstu. Ég þarf að kaupa dekk fyrir veturinn og svo þarf ég eiginlega að koma fiskunum mínum norður. Mér gafst heldur ekki tími til að kíkja í bíó síðast. En ég fór sko á djammið! Reyndar meira en það. Ég fór í smá teiti, síðan var ég allt í einu staddur á fjörugu Þróttaraballi og svo endaði ég í Ellefunni niðrí bæ þannig að ég fór sáttur norður. Jamms, jæja... geisp, ég nenni ekki að skrifa meira... hrooot... hrooot...

Bílar eru samir við sig

Það er lítið að frétta af mér þessa dagana. Ég vinn bara og reyni að gera eitthvað af viti eins og t.d. að safna peningum, sem hefur reyndar reynst mér mun auðveldara hér en fyrir sunnan. Ég ætlaði samt að skreppa til Reykjavíkur um helgina til að heimsækja fólk, sóa peningum og sækja drasl, en þegar ég var rúmlega hálfnaður yfir Tröllatunguheiðina þá skemmdist eitthvað hægra megin að framan í hjólabúnaðinum á elskulega Applausinum mínum fallega, svo ég má eiginlega teljast heppinn að hafa náð að skrölta sömu leið til baka, ellegar hefði ég jafnvel þurft að dvelja nóttina í Króksfjarðarnesi, nema einhver hefði verið svo góður að sækja mig yfir þennan slóða sem eitthvað var búið að fenna í. Ég hef ekkert nennt að æsa mig yfir þessu, bíllinn yrði alveg jafn mikið bilaður fyrir því. Ég er orðinn ónæmur eftir allt það sem ég hef lent í á hinum ýmsu druslum síðan ég fékk bílprófið fyrir 6 árum. Ég er líka umkringdur fólki hérna sem hefur bæði áhuga og vit á bílum (ég hef hvorugt) og getur því hjálpað mér, og ég hef efni á varahlutunum svo „þetta reddast“ eins og alltaf á endanum. Ég ætla samt suður næstu helgi, hvernig sem ég kem mér þangað.


Smölun

Það hlaut að gerast. Það þýðir ekkert að flytja út í sveit og sleppa svo bara smölun og réttum! Nei, ég hitti varla þá manneskju sem spurði mig ekki „ferðu ekki í smölun um helgina?“ og svo er frændi minn kindabóndi hér rétt fyrir utan Hólmavík þannig að það var ekki um annað að ræða en að bretta upp ermarnar og skella sér í þetta. Mér finnst vinnan hjá Hólmadrangi alveg ágætlega erfið, en að elta þrjóskar kindur um öll fjöll, yfir læki, grjót, mýrar, skurði og risastórar þúfur, í vindi og frosti, og þar af leiðandi hálku, er einn sá erfiðasti hlutur sem ég hef gert. Ég vil samt alls ekki fæla fólk frá því að skella sér í smölun! Það eru til verkefni við allra hæfi, sama í hvernig formi þú ert eða á hvaða aldri þú ert. Og svo er auðvitað eitt í þessu, því fleiri sem taka þátt, því auðveldari verður smölunin. Og í ár var einmitt metþáttaka svo allt gekk þetta því mjög vel. Í þessum bransa virka hlutirnir þannig að því öflugri sem þú ert, þess erfiðara verkefni færðu. Og það vill einmitt svo til, að ég hef sjaldan verið í eins góðu formi og einmitt nú, svo ég færði mig alltaf uppá skaftið, Þar til ég var búinn að koma mér í þau vandræði að elta örugglega þrjóskustu kindur í heimi. Byrjum á byrjuninni. Það var smalað frá föstudeginum til sunnudagsins og þá tóku réttirnar við síðdegis. Ég var auðvitað að vinna á föstudaginn svo ég mætti snemma á laugardaginn og ég og bróðir minn ásamt fleirum byrjuðum efst í Norðurdal svokölluðum, og sem betur fer undir leiðsögn í gegnum talstöðvar, því að þetta var mín fyrsta smölun. Allt gekk með ágætum fyrri hluta dagsins og við gengum á jöfnum hraða í línu (semsagt, einn neðst í brekkunni, einn í miðjunni og einn ofar og svo framvegis) svo kindurnar söfnuðust fyrir framan okkur og gerðu fáar tilraunir til að fara framhjá okkur. En síðdegis tók verra við. Þá vorum við færri og kannski óreyndari, og lentum í þessum þrjóskuferfætlingum dauðans. Það var alveg sama hve mikið ég reyndi að koma fénu áfram í rétta átt, það vildi bara upp! Til að komast upp fyrir þær varð ég að taka margra tuga metra sveig framhjá þeim, en það lá við að fyrir hverja 5 metra sem mér heppnaðist að reka þær niður, þá enduðu þær 50 metrum ofar á endanum. Þær hlupu semsagt nokkra metra niður fjallið á undan mér, en síðan hlupu þær bara nógu langt meðfram hlíðinni til að ég væri ekki lengur fyrir ofan þær, og þá tóku þær bara sprettinn upp! Kvikindin enduðu semsagt nánast á toppnum og ég lá sigraður í mosanum, með asmakast og bullandi hjartslátt og gat mig hvergi hreyft fyrir mæði. Það var því ekki furða að ég var ekkert allt of spenntur fyrir sunnudeginum. En sá dagur varð mun skárri og bara þrælskemmtilegur, ég var í miklu minna puði, það voru aðrir að smala þeim hjörðum sem eftir voru á fjallinu og ég stóð bara vaktina niðri með mörgum öðrum að taka á móti þeim og koma þeim inn fyrir girðingu. Síðan tók við matur, og þegar allir voru búnir að hvíla sig aðeins hófust réttirnar. Allir sem hafa tekið þátt í réttum vita hve skemmtilegar þær eru, og þessar réttir voru engin undantekning. Í stuttu máli: Þetta var ERFIÐ helgi, en skemmtileg og ég mæti bara tvíefldur aftur að ári.

Innipúki

Ég hef ekki farið út fyrir hússins dyr í allan dag. Búinn að vera ótrúlega latur...alveg samkvæmt áætlun. Ég var að vinna síðasta sunnudag og er líka að fara að vinna næsta sunnudag og líklega fleiri þannig að ég nota þenna eina frídag á viku bara í algera afslöppun. Ég er með þreytta vöðva og sinaskeiðabólgu í hægri úlnlið ásamt bakverkjum en er samt alls ekki að kvarta þó ég sé að væla hér! Mig vantaði bara útrás einhversstaðar því að mér dettur ekki í hug að hafna neinni aukavinnu, enda er ég þvílíkt ánægður með kaupið sem ég er að fá. Mér dettur ekki í hug að kvarta yfir neinu í vinnunni, ég er búinn að ákveða að sama hvað gengur á, þá ætla ég aldrei framar að kvarta yfir álagi á vinnustað. Ef mér líkar ekki vinnan þá ætla ég frekar að segja upp heldur en að fara að væla. Læt þetta bara dynja á ykkur í staðinn, haha, gott á ykkur! Þetta er bara búinn að vera besti laugardagur í heimi. Ég svaf út, fór svo að horfa á bíómyndir og éta ruslfæði, át svo fiskrétt sem frændi minn eldaði af ágætri snilld, horfði síðan á landsleikinn milli Íslands og Spánar (hann endaði 1-1 fyrir stuttu, þvílík stemning á vellinum maður og markið okkar miklu fallegra) og sötraði bjór með leiknum (er reyndar enn að sötra). En já, vinna á morgun svo ég kveð.

Þreyta dauðans

Ég ætlaði að vera svo duglegur að blogga, alveg 2-4 sinnum í viku eða oftar! En svo ég segi sannleikann þá er ég alls ekki búinn að venjast þessu nýja starfi almenninlega, þá er ég að meina líkamlega, þannig að þegar ég kem heim eftir hvern dag, þá er líkaminn kominn í verkfall svo ég geri ekki helminginn af því sem ég ætla alltaf að gera. Ég er alveg búinn að læra ágætlega á þetta starf og finnst það alls ekki slæmt, en líkamlega séð er þetta algert sjokk, því að ég er að erfiða svo margfalt meira en hjá borginni. Samt ekki þannig að það bitni illa á bakinu, heldur er ég einfaldlega bara á fullu nánast hverja einustu sekúndu og maður stoppar hreinlega ekki nema í pásunum. Hjá borginni fór örugglega að minnsta kosti helmingurinn af tímanum í að keyra á milli verkstaða, líklega meira. Það var sífellt hopp inn og útúr bílum, mislangar og óreglulegar pásur, matarhléið var mislangt og vinnan var mun skrikkjóttari heldur en hjá Hólmadrangi (nafnið á rækjuvinnslu þessari). Þar var stundum rosalega mikið að gera einn daginn, en þann næsta kannski ekkert að gera. Hjá Hólmadrangi er alltaf jafn mikið að gera alla daga. Nú eru allar bakarísferðir á bak og burt, það er ekki nokkur einasti séns að svo mikið sem ná að dotta hérna (maður sofnaði stundum í bæjarvinnunni!), færibandið rúllar sífellt og það þarf sífellt að fylgjast með öllu í kringum sig. Ef ég gleymi mér í augnablik, þá er kannski farið að vanta rækju á bandið, eða jafnvel komið of mikið af henni, eða þá að ég er í þann mund að lenda í árekstri við lyftara! Ég þarf að mæla hitastigið á körunum og sýsla ýmislegt annað. Ef ég er röskur og vel vakandi þá gengur allt vel og mér líður ágætlega, annars fer allt í köku! Eitt er víst, ég á eftir að vera með mun meiri tekjur hér á Hólmavík og það er erfiðara að eyða hér í litlu þorpi, sem er bara snilld. Samt er alveg feikinóg hægt að gera hér og þér þarf aldrei að leiðast. Ég skrifa kannski meira um það seinna en í augnablikinu langar mig bara til að fara að sofa! Góða nótt...

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband