Prófatíminn

Nú er allt að gerast. Lokapróf vorannar standa nú yfir af fullum krafti og ég er að fara í síðasta prófið mitt á morgun. Mér hefur gengið ágætlega, bara svona eins og gengur og gerist líklega, mjög vel í sumu en illa í öðru. Ég er búinn að vera sterkur í sögunni, félagsfræðinni, dönskunni og enskunni en veikur í íslenskunni og stærðfræðinni. Það gæti farið svo að ég falli í öðru hvoru af veiku fögunum mínum en ég vona auðvitað það besta. En ef svo fer þá er ég að spá í að athuga hvort ég geti þá ekki tekið það nám í sumarskóla í gegnum netið til að halda áætluninni minni um að útskrifast árið 2012! Ahh, ég finn hreinlega lygtina af sumarfríinu mínu, get ekki beðið eftir að ganga út úr prófinu á morgun og þá kominn í frí með allt stressið að baki. Ég fæ að vita einkunnirnar mínar þann 20. maí en þá verð ég samt byrjaður að vinna þá hjá Hólmadrangi á Hólmavík (byrja 17. maí) en ég ætla bara að leyfa mér að taka mér frí á afhendingardeginum til að geta tekið við einkunnunum beint og farið á prófsýninguna. Ég er enn að hjóla á fullu og í dag náði ég þeim áfanga að vera búinn að hjóla 1003 kílómetra síðan 8. janúar í ár. En jæja, eins gott að halda sig við efnið og klára að læra fyrir félagsfræðiprófið!

Páskar og hjólamennska

Það er eiginlega fyndið að hlakka svona til páskanna þegar maður ætlar ekki einusinni í ferðalag eða að gera neitt sérstakt í fríinu. En málið er að þegar maður er í skóla eins og er tilfellið með mig núna, þá er fríið svo gullið tækifæri fyrir mig til að undirbúa mig fyrir prófin svo ég geti síðan bara verið rólegur og áhyggjulaus í prófunum sjálfum sem verða ekki svo löngu eftir páska. Semsagt, ég ætla bara að slappa af heima og fara yfir námsefnið og jú líka stunda heimsóknir og ekki síst, hjóla á fullu.

Það greip mig algjört hjólaæði eftir jól þegar ég ákvað að fara að spara peninga og taka fram hjólið mitt góða og skella undir það nagladekkjum. Ég smurði það líka og styllti og keypti á það blikkljós að framan og aftan sem fara sjálfvirkt í gang þegar ég hjóla af stað og hætta einnig sjálfvirkt að blikka svona 2 mínútum eftir að ég stöðva hjólið, þau eru líka með skær díóðuljós sem eru nánast eilíf svo ég þarf aldrei að skipta um peru og ég þarf ekki einusinni að skipta um rafhlöður því að ljósin nota segla til að hlaða sig á meðan ég hjóla. Þægindin í kringum þessi ljós gætu semsagt ekki verið meiri, og þessi ljós fást í Íslensku fjallahjólabúðinni (GÁP) ef einhver er áhugasamur! Nagladekkin hafa einnig gefist mjög vel og ég hef getað hjólað í alveg glærahálku af öryggi í þau fáu skipti sem það hefur komið einhver hálka í vetur.

Fatnað þurfti ég ekki að kaupa mér því ég hef átt lengi ágætis vind og regnheldan jakka og buxur og Elsa Rut prjónaði á mig þessa fínu húfu líka. Annars er betra að vera frekar minna klæddur en meira, en hanska nota ég alltaf, sama hvernig viðrar því vindkælingin á puttana getur orðið svakaleg. Að sjálfsögðu gat ég ekki sleppt því að kaupa líka mæli á hjólið fyrst ég var farinn af stað í þetta allt en mælirinn hefur hvatt mig mikið áfram í hjólamennskunni því að ef maður sér kílómetrana tikka inn þá á maður oft erfitt með að fara ekki að keppa við sjálfan sig. Til sönnunar á því þá hef ég núna hjólað samtals 563 kílómetra síðan ég tók hjólið í notkun í janúar!

Mest hef ég hjólað um 50 km. á einum degi en oftast hafa löngu hjólatúrarnir mínir verið í kringum 30 km. Ég er farinn að fara flestra minna ferða á hjólinu, ég hjóla í skólann (bara 1,6 km. leið), út í búð (ef ég er að versla eitthvað smálegt), í bankann, lyfjabúð, í heimsóknir og svo framvegis. Bara síðan í janúar er ég búinn að spara mér 9.000 krónur með því að velja oftar hjólið en bílinn.

Og brekkurnar? Finn ekki fyrir þeim, ég fer í lægsta gírinn og svo sný ég pedölunum bara hægt og rólega upp brekkurnar og maður er kominn á jafnsléttu aftur áður en maður veit af. Maður á ekki að hamast upp brekkurnar, annars hættir maður að nenna þessu. Það er miklu skemmtilegra að hamast þegar komið er á jafnsléttu eða maður er að fara niður á við! Þá er minnsta mál að halda allt að 30 kílómetra hraða á jafnsléttunni án mikillar fyrirhafnar og enn meiri hraða á niðurleið, allt að 50-60. Metið mitt er reyndar 70 (ohh, það var æðislegt og mér fannst hraðinn miklu meiri!!) en á slíkum hraða á reiðhjóli er líka eins gott að vera vakandi fyrir umhverfinu svo að ekki hljótist slys af! En neinei, þetta eru auðvitað bara öfgarnar, meðalhraðinn er oftast mun lægri en þó tekur enga stund að skjótast á milli á fjallahjólinu. Mæli með þessu, það er æðislega hressandi, vetur sem sumar.


Nýtt ár!

Jæja, á maður ekki að reyna að halda þessu bloggi eitthvað lifandi. Það er meira búið að gerast undanfarna mánuði en ég nenni að telja upp núna í einni færslu svo ég læt það bara bíða. Ætli ég mjatli því ekki frekar hingað bara smám saman. Það merkilegasta sem er búið að gerast hjá mér síðan ég bloggaði síðast er auðvitað það að ég náði öllum prófunum í þessu námi mínu. Ég fékk semsagt 5 í stærðfræði, 6 í íslensku, 7 í upplýsingatækni, 8 í félagsfræði, íþróttum og fjölmiðlafræði og svo fékk ég heila 9 í dönsku sem er náttúrulega bara magnað miðað við hversu illa mér gekk í henni í Iðnskólanum á sínum tíma! En sú einkunn sem ég grét samt af gleði yfir að fá, jafnvel þótt það hafi verið sú lægsta, var fimman í stærðfræðinni, enda hef ég áður fallið tvisvar í áfanganum en hef nú loksins komist yfir þann erfiða þröskuld. Ég get ekki hugsað til þess ef ég hefði orðið að taka stærðfræði 102 í fjórða skiptið, það hefði verið svo ömurlegt. En semsagt, ég er bara hress og kátur á nýja árinu og óska öllum sem ég þekki gleðilegs nýs árs og takk fyrir það gamla :)

Smölun :)

Jæja, þá er loksins komið að því, ég er að fara norður á Hólmavík, í fyrsta sinn síðan 7. ágúst (átti leið þar um þegar ég var að keyra frá Flókalundi til Dalvíkur, löng saga!). Þetta er hræðilegt, enda er ég kominn með „heimþrá“ á háu stigi. Mér mun alltaf finnast að ég eigi líka heima á Hólmavík eftir þessi tvö ár sem ég bjó þar. Reyndar hef ég búið mun lengur þar, því ef allt er tekið saman hef ég átt heima þarna í u.þ.b. 5 ár eða 1/5 æfinnar, því ég bjó þarna sem smápolli líka, hér og þar um bæinn (í Höfðagötunni, Lækjartúninu og Brunnagötunni). Allavega, ég er að fara í smölun og réttir um helgina og þá get ég líka notað tækifærið og sótt vonandi restina af dótinu mínu sem er ennþá í gamla herberginu mínu í Brunnagötunni, svo ekki sé talað um nagladekkin, má ekki gleyma þeim! Mér gengur ágætlega í skólanum og mér líður vel í honum, en það verður gott fyrir mig að komast núna í annað umhverfi um helgina því að síðan skólinn byrjaði hefur eiginlega allur minn vökutími snúist um hann, líka um helgar því maður er alltaf eitthvað að stússast í blessuðu heimanáminu. En meira seinna, skrifa örugglega góða færslu hingað fljótlega, um sumarið og öll ferðalögin, næst þegar ég er í stuði :)


Júlíbloggfærslan :P

Alveg magnað, þetta sumar hættir ekki að koma á óvart :)

Það hefur sjaldan eins margt gerst hjá mér á einu sumri og núna, og það á sama tíma og ég er ekkert að skrifa hérna! En þið verðið að sætta ykkur við það, ég hef bara haft um allt of mikið að hugsa og gera til að hafa haft tíma í eitthvað svona. En hér kemur þó það helsta sem er að frétta af mér.

Síðasta vinnudeginum mínum hjá Hólmadrangi lauk núna á sunnudaginn, og lýkur þar með tveggja ára starfsferli mínum þar, en ég er líka að fara af vinnumarkaðnum núna í fyrsta sinn í 6 ár. Og ég sem ætlaði bara að taka mér árs frí eða svo frá skóla! Vúps, eitthvað teygðist úr þessu ári, en jæja, ég er allavega að bæta úr þessu núna :)

Að sjálfsögðu hélt ég upp á þessi tímamót að vera hættur með nokkrum öllurum um kvöldið, en svo tók það strax við daginn eftir að pakka niður og byrja að flytja mína fátæklegu búslóð suður, en ég er semsagt nýfluttur núna til Reykjavíkur bara síðan á mánudaginn. Ég og fleiri erum búnir að flytja nokkra bílfarma af draslinu mínu suður, en ég á samt eina ferð eftir til að sækja restina, en svo verður nú líka smölun í haust og svona, þannig að ég fer nú aldrei alveg í burtu! Ég þakka Hafþóri kærlega fyrir herbergið á Hólmavík, það var alveg frábært að búa þarna og ég á eftir að sakna þessa litla en huggulega herbergis, og bara íbúðarinnar í heild...já og auðvitað Hólmavíkur...og fólksins! :)

Nú get ég varla beðið. Ég er að fara á Þjóðhátíð í Eyjum með kærustunni (já ég er kominn í samband ef einhver ekki veit) og ég er ekkert smá spenntur, enda er þetta mín fyrsta ferð til Eyja! Kærastan fór með Herjólfi núna í nótt en ég fer með flugi í dag því ég var svo seinn að ákveða að skella mér að það var allt orðið uppselt með Herjólfi og ég var ekki nógu duglegur að redda mér miðum. En ef ég hefði verið fyrr á ferðinni hefði ég frekar kosið Herjólf, aðallega bara uppá stemninguna að gera :) Ég er búinn að frétta það að það verður fullt af fólki þarna sem ég þekki og svo segja allir að Þjóðhátíð sé eina vitið í ár þannig að það er eins gott að ég ákvað að skella mér! Þetta er allt saman mjög spennó :D

En þetta verður að duga í bili. Meira í ágúst, vonandi :P


Gleeeði! :D

Ég er kominn inn! Ég fékk greisluseðil frá Fjölbraut í Breiðholti í pósti í dag og náði að skjótast í banka í einni vinnupásunni svo að núna er þetta orðin brakandi staðreynd og ég er bara að missa mig af gleði, þetta er svo spennó hehe :D

Ég sótti annars líka um í 3 öðrum skólum til vara: Fjölbraut í Ármúla, Flensborg í Hafnarfirði og Borgarholtsskóla og sótti meira að segja um á Hvanneyri þar að auki (en komst ekki inn) sem hefði verið dýrast fyrir mig en auðvitað lang mest spennandi því að ég verð nú bara að viðurkenna að ég er bara orðinn ansi hrifinn af sveitinni eftir þessi tvö ár sem ég hef verið hérna á Hólmavík og helst vil ég enda í sveitinni aftur einhvern tíman, bara vonandi sem fyrst.

En það var mjög gott að ég komst í FB frekar en hina þrjá skólana því það verður lang ódýrast fyrir mig (og ekki veitir af) því að ég mun geta gengið í skólann og gæti þess vegna lagt bílnum og notað hann eingöngu ef ég þarf að skreppa eitthvað sérlega langt og svo hef ég líka bara ágætis tilfinningu fyrir þessum skóla.

Fyrst var ég að velta því fyrir mér að fara í náttúrufræði, en ákvað eftir samtal við námsráðgjafa að það væri kannski betra fyrir mig að velja félagsfræðina því að hún inniheldur mun minni stærðfræði en fleytir mér í gegnum stúdentinn, sem skiptir mig miklu máli því að mig virkilega langar til að sanna fyrir sjálfum mér að ég hafi það í mér að klára loksins eitthvað í skóla. Semsagt, ég stefni á stúdentinn hvað svo sem ég mun á endanum finna að mig langi mest til að læra. Ég valdi líka málabraut til vara ef ég kemst ekki í félagsfræðina, það væri ekkert síðra því ég hef mikinn áhuga á tungumálum en samt held ég að það nám sé líklega erfiðara.

Í raun veit ég ekkert hvað ég er að fara út í, en ég veit að þetta var rétt ákvörðun því að það er orðið svo skelfilega langt síðan ég hætti í skóla (6 ár ef ég man rétt) að ef ég fer ekki að drattast í þetta núna þá fer ég líklega aldrei. En ég þurfti svo sannarlega að fá pásu á sínum tíma og vinna frekar í einhvern tíma. Ég var í engu ástandi til að læra í Iðnskólanum, ég átti við ýmis vandamál að stríða, var með mikinn skólaleiða, þunglyndur og langaði í raun ekki til að verða neitt sérstakt. Ég valdi eiginlega múrsmíðina bara til að velja eitthvað (sem væri búið sem fyrst og með lítilli stærðfræði)!!! Líf mitt er búið að gjörbreytast síðan þetta var og ég er lífsglaður og með metnað svo að ég er tilbúinn í þetta núna. Og svo hef ég líka náð að skrapa saman nokkrum krónum sem ættu að duga mér út veturinn, þó ég fái enga vinnu í vetur eða ákveði að sleppa því að vinna til að geta einbeitt mér alveg að náminu. Mér veitir kannski ekki af því svona fyrst um sinn, eftir allan þennan tíma frá námi. Vá, ég hlakka svo til! Skóóóli, hér kem ég! :D


Fréttir!!!

Nýjustu fréttir!!! Haldið þið ekki að ég sé búinn að sækja um í nám í haust! Vá, ég trúi því ekki enn sjálfur! Ég er kannski að fara í skóla aftur...og það í fyrsta sinn í sex ár!!! Vááá hehe, gleeeði!!!!!! Jájá, ég veit, ég veit, ég er að missa mig af spenningi! Úff, ég þarf að slaka aðeins á... Eins gott að ég komist einhversstaðar inn segi ég bara, vonbrigðin yrðu svo þvílík ef ég kæmist ekki, vil ekki einusinni hugsa um það. Skyndiákvarðanir eru snilld og þessi er það svo sannarlega :D

Ég er annars kominn í viku frí og ætla að skreppa með fjölskyldunni í sumarbústaðarferð austur á Kirkjubæjarklaustur einhvern tíman eftir hádegi í dag, þannig að ef ég svara ykkur engu á netinu þá vitið þið ástæðuna. Sjáumst! :D


Skemmtileg helgi

Svona þróast hlutirnir. Ég ætlaði að vera voðalegur fýlupúki og hanga bara á Hólmavík um helgina (þó allir væru að fara suður) og gera ekki neitt, en svo lenti ég sem betur fer í nógu kröftugum hópþrýstingi til að fá mig til að drösla mér af stað. Bæði vantaði mönnum far suður og svo var orðið nokk langt síðan ég hitti á vini mína í bænum síðast. Það rættist heldur betur úr þessari helgi og ég endaði meira að segja niðrí bæ, alveg ágætlega í glasi og hitti fullt af góðu fólki þar að auki. Engin eftirsjá! Reyndar endaði ég líka í Keflavík og Þorlákshöfn þessa sömu helgi en það er önnur saga!!!

Páskaletin

Loksins, loksins fékk ég eitthvað frí. Þessir páskar voru hrein himnasending fyrir mig, svo algjörlega það sem mig vantaði núna því að ég var svo fullkomlega kominn með upp í kok af vinnu, sérstaklega af þessari endalausu helgarvinnu alltaf hreint. Ég er orðinn fínn í fætinum og er byrjaður að hreyfa mig aftur og það er líka eins gott, því að ég gjörsamlega missti mig í leti og ruslfæði og jafnvel sötri um páskana! Þessi naglaskratti sló mig alveg út af laginu því að það er svo erfitt að byrja aftur að hreyfa sig ef maður neyðist til að taka hlé út af einhverju svona. Þetta er í fyrsta sinn síðan 12. janúar sem ég hef sleppt því að fara út að hlaupa eða synda daglega og jú, það er ekki að spyrja að því, ég bætti á mig 3 kílóum á þessum 12 letilífs dögum.

Ég sat þó ekki alveg aðgerðarlaus því ég náði að koma bílnum í stand til að geta komið honum í gegnum skoðun (sem ég svo fékk, jibbí!!!), en það kostaði heilan helling af peningum, jafnvel þó að pabbi og ég skiptum sjálfir um varahlutina en ég varð að skipta um báða bremsuklossana og bremsudiskana að framan og báða demparana að framan líka, auk þess sem ég þurfti að láta gera við pústið. Heildarkostnaðurinn fór upp í einhvern hundrað þúsund kall en ég neyddist til dæmis til að kaupa demparana hjá rándýru umboðinu á tæpan 30 þúsund kall stykkið, svona til að nefna eitthvað verðdæmi. Hvað get ég sagt, kannski er mér bara farið að þykja vænt um þennan bíl? Það væri líka svo mikið 2007 að skipta um bíl hehe.

Ég flakkaði mikið um páskana og fór í heil tvö skipti í bæinn. En það hafði þó sínar ástæður. Í fyrra skiptið fór ég í bæinn til að vesenast þetta með bílinn og versla eitthvað og svona. Síðan elti ég fjölskylduna mína aftur til Hólmavíkur því að þau höfðu ákveðið að kíkja í heimsókn í sveitina, sem var alveg frábært. En svo fór ég aftur í bæinn í von um að ná að hitta á vini mína áður en fríið væri á enda og kannski jafnvel fara á djammið með þeim. Og jú, mér varð að ósk minni, svo þetta var alveg akstursins virði. En svo ég slúðri nú eitthvað um Hólmavíkurleiðangurinn hjá fjölskyldunni þá kíktum við meðal annars í heimsókn á Stakkanesið en þar fengum við að taka í snjósleðann hans frænda, og það var í fyrsta sinn á æfinni sem ég prófa slíka græju. Ég ætla ekkert að ljúga núna, mér fannst það bara geðveikt gaman og vá, þvílíkur kraftur í þessu, ég rétt prófaði að gefa alveg í botn og ég fékk sko bara fiðring í magann hehe! Ég fór nú samt frekar varlega á sleðanum en það er eins gott að fá ekki að prófa svona tæki mikið vegna þess að að ég má ekki við því að fá dýrar bakteríur núna! Ætla helst bara að halda mig við ódýr áhugamál á næstunni eins og t.d. að teikna eða eitthvað því að ég eyddi allt of miku um páskana, eiginlega bara kláraði peningana mína alveg. Það er eitthvað sem hefur ekki gerst í laaangan tíma. Það er frekar óþægileg tilfinning að eiga í fyrsta sinn síðan árið 2007 minna en hundrað þúsund kall. Tja, ég er þó skuldlaus og enn með vinnu.


Suður á sunnudaginn :D

Það eru alltaf allir að kvarta yfir því að ég láti aldrei vita þegar ég skrepp í bæinn svo nú er ég bara að koma því til skila alls staðar og þá getur fólk hætt að kvarta! Næst fer ég á Facebookið og hmm, hvað svo, sms? Allavega, ég er semsagt kominn í páskafrí (jei!!!) en ég ætla samt að slugsast eitthvað á Hólmavík fram á sunnudag, það bara er svo gott að hanga og gera ekki neitt, ég veit ekkert betra! Ég til dæmis fór bara að sofa eftir vinnu í dag og svaf svo bara alveg þar til mig langaði af einhverri ástæðu aftur á fætur og þá var klukkan að ganga ellefu í kvöld! Svona á lífið að vera :D Annars hef ég ekki átt tvo dagana sæla því ég er búinn að vera með kvef og svo bættist ofan á það að það stakkst ryðgaður nagli langt inní hælinn á vinstri fætinum á mér á þriðjudaginn í vinnunni og svo um kvöldið var ég kominn með sýkingu, nógu slæma til að ég gat ekki gengið og var að drepast þó ég snerti hann ekki einusinni, þannig að ég er búinn að vera á sýklalyfi og var frá vinnu á miðviku og fimmtudag en mætti svo í vinnuna á föstudaginn enda var búið að lofa mér að ég gæti setið við hreinsibandið allan daginn og það gekk líka eftir. Ég er alveg í mega stuði yfir þessu fríi, það er samt ekkert sérstakt planað þannig að nú er bara spurningin hvað maður á eftir að gera af sér haha...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband