Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013
25.11.2013 | 23:21
Sjávarstuð
Nýliðin helgi var hressandi. Ég komst í mína fyrstu siglingu í vetur, en síðan ég kom hingað vestur hefur mig mikið langað til þess. Vinur minn sem er í björgunarsveitinni Björg hér á Suðureyri bauð mér að koma með í ferð á einum af björgunarbátunum en með í för var bróðir hans sem er líka í sveitinni, einn annar björgunarsveitarmaður og svo tveir bændur frá Botni sem er bærinn innst í Súgandafirði, en tilgangur siglingarinnar í þetta sinn var einmitt að skyggnast um eftir sauðfé sem gæti hafa orðið eftir frá því í leitunum í haust.
Reyndar byrjaði dagurinn hjá mér á því að ég þurfti að mæta í vinnuna frá 8-12 því það hafði verið svo mikill fiskmarningur eins og hann kallast, að það gafst ekki tími til að klára hann á föstudaginn. En hvað um það, ég náði smá dýfu í heita pottinum eftir vinnu áður en ég skellti mér með í bátsferðina. Siglt var út fjörðinn til norðurs og svo austurs alveg að Galtarvita nokkrum við heiðan himin. Það var auðvitað ægifagurt að sjá fjallgarðana frá hafinu og Súgandafjörðinn frá nýju sjónarhorni svo ég hóf að taka myndir í gríð og erg. Er ég var að smella af einni myndinni af fjallinu Gelti varð mér allt í einu snögg bumbult! Þarna fann ég i fyrsta sinn á ævinni fyrir sjóveiki, en þarna utan við fjörðinn var ágætis öldugangur þó að inni í honum væri á sama tíma spegilsléttur sjór að kalla. Það hefur heldur ekki hjálpað til að ég var nógu vitlaust til að skófla í mig piparkökum með mjólk rétt fyrir brottför, ekki gáfulegt það haha!
Ég jafnaði mig nú fljótt eftir að ég hætti að góna í myndavélina og horfði í staðinn á fasta punkta, sjóndeildarhringinn og strandlengjuna. Svo var ég orðinn það eiturhress er við snérum inn í fjörðinn að ég lagði í myndatökur á ný. Nú fórum við djúpt inn í fjörðinn en hann er afar grunnur á stórum svæðum, sérstaklega fyrir miðjunni, svo það varð að passa vel hvar siglt var. En um borð voru auðvitað menn sem þekkja svæðið inn og út og björgunarbáturinn vel búinn, með GPS korti og öllu, svo þetta var alveg skothelt. Ég fékk gott tækifæri til að sjá Norðureyrina (sem er beint á móti Suðureyri) bara nokkra metra frá strandlengjunni og svo aðeins innar voru selir á vappi. Er við komum að náttúrulegri höfn í Selárdal nokkrum stökk annar bóndinn frá borði og tók hindinn sinn með en hann vildi næla sér í smá hreyfingu og ganga heim að Botni. Sólin er víst ekki lengi á lofti svona seint í nóvembermánuði svo nú urðum við að fara að koma okkur til baka, en auk þess var byrjað að fjara. Við vorum allir kappklæddir, enda fimbulkuldi og meira að segja krap í sjónum, en fatnaðurinn hafði haldið á okkur hlýju fram að þessu. En nú hafði kuldaboli náð að naga í gegnum fatnaðinn um það leiti sem við komum inn í höfnina á Suðureyri. Ég hjálpaði svo fólkinu að ganga frá bátnum og þakkaði fyrir mig.
Fjörið þennan laugardag var ekki alveg búið því að um kvöldið fór ég með á körfuboltaleik þar sem öttu kappi KFÍ gegn Grindavík. Grindvíkingarnir unnu því miður ansi stórt þrátt fyrir harða baráttu KFÍ sem náði þó ansi mörgum stigum eins og lokatalan 94-122 sýnir. Alveg magnað að ég skuli vera að ræða um íþróttir, þetta er eitthvað nýtt hjá mér! En allavega, við héldum áfram stuðinu, fengum okkur að borða í Hamraborginni og spiluðum svo pool leiki í Edinborgarhúsinu og þar náði ég að bragða á einum jólabjór, þeim fyrsta á árinu og reyndar var þetta sá eini þetta kvöld því mig langaði bara aðeins að smakka.
Næsti mánuður verður frábær. Ég er nefninlega búinn að panta mér frí frá 20. desember til 6. janúar og er nú þegar byrjaður að telja niður dagana, því ég get ekki neitað því að ég hlakka til jólanna. Þá verður auk jólahaldsins sannarlega gert eitthvað skemmtilegt með fjölskyldu og vinum, alveg klárt mál. Sjáumst þá!
Bloggar | Breytt 3.12.2013 kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2013 | 01:03
Glataður laugardagsmorgunn
Í síðustu viku ákvað ég að skjótast á bílnum til Reykjavíkur í smá fjölskylduheimsókn, enda var ég farinn að sakna hennar svolítið eftir nokkurra vikna fjarveru. Ég var þreyttur eftir vinnudaginn á föstudeginum svo ég ákvað að vakna bara snemma næsta morgun og aka af stað þá. Mér tókst að rífa mig á fætur um sjöleitið og var farinn af stað klukkan átta. Aksturinn gekk vel þrátt fyrir hálku og naglalaus vetrardekkin en mér brá nú heldur betur þegar ég stansaði á Hólmavík til að koma við í kaffi hjá ömmu minni og afa í föðurættinni. Mér varð nefninlega þar litið aftan á bílinn minn og sá þá að hægra afturljósið var mölbrotið, stuðarinn rispaður að ofanverðu og skotthlerinn beyglaður og sprunginn og ónýtur að öllum líkindum.
Einhver hefur greinilega ekið á bílinn minn á Suðureyri og stungið af, en ég vissi ekki af því fyrr en nú vegna þess að það er alltaf komið myrkur þegar ég er búinn í vinnunni og ég hafði gengið í vinnuna alla vikuna og ekki hreyft bílinn síðan á þriðjudaginn. Þann dag stóð snjómokstur yfir á bílaplaninu hjá okkur í ,,bragganum," eins og húsið mitt er kallað, og ég hafði því verið beðinn um að færa bílinn á meðan. Ég ók honum yfir á sjoppuplanið og lagði þar, en sjoppan er bara næsta hús við braggann. En svo liðu dagarnir og ég hafði ekki haft fyrir því að færa bílinn til baka, enda taldi ég hann jafn öruggan á sjoppuplaninu eins og hinu bílastæðinu, en það var heldur betur rangt mat hjá mér.
Frændi minn í Reykjavík sem vinnur við bílaréttingar skoðaði bílinn fyrir mig og taldi að viðgerð gæti farið í 400.000 kallinn á almennu verkstæði. Semsagt, ég er kominn með tjón upp á sömu upphæð og ég keypti bílinn á, og það grátlegasta er að ég var að ljúka við að borga hann aðeins sextán dögum áður en ég uppgötvaði tjónið. Frítíminn hefur verið svo lítill hjá mér að ég hafði enn ekki sett hann í kaskótryggingu, en það hafði sannarlega verið á döfinni næst þegar tryggingamálin hefðu náð athygli minni.
Ef sá eða sú sem ók á bílinn minn hefði verið heiðarlegur og tilkynnt áreksturinn þá hefði tryggingafélagið borgað og manneskjan aðeins þurft að greiða í kringum 15.000 kall í sjálfsábyrgð (eða svo er mér sagt) og ég hefði sloppið við viðgerðarkostnaðinn. En því miður var þetta óheiðarleg manneskja og ég sit því uppi með þetta tjón sem er jafn dýrt og upphæðin sem ég ætlaði að vera búinn að spara fram á vor. Þetta er svo grátlegt fyrir mig að ég hef sjaldan eða aldrei verið eins vonsvikinn og óhappið með bloggið sem eyddist óvart var bara grín miðað við þetta! Ég biðst afsökunar á öllum þessum harmakveinum undanfarið, hér er ég vanur að blogga á léttu nótunum, eins og ég er nú næstum alla daga, því að ég er búinn að vera mjög hamingjusamur undanfarin 6-7 ár eða svo. En hvað get ég sagt, það er erfitt að brosa þegar hálfur vetur sem átti að fara í að koma mér loksins á rétt ról fjárhagslega svo ég kæmist áhyggjulaus í skóla aftur er farinn í vaskinn.
Svo ég segi frá því skemmtilega úr helginni þá var auðvitað yndislegt að eyða tíma í bænum með fjölskyldunni og ég naut þess í botn þrátt fyrir langan akstur og stuttan tíma. Ég reddaði mér líka loksins nýjum síma svo nú er ég ekki lengur með sprungu yfir miðjum skjánum, ónýta rafhlöðu og símasamband sem dettur út í tíma og ótíma vegna þess að SIM kortið tollir ekki nógu vel í, heldur er ég kominn með þennan fína ,,snjallsíma" með snertiskjá sem kostaði ekki nema um sextán þúsund. Ég verð alveg lágmark að geta verið í símasambandi við mitt fólk svo þetta var bráðnauðsynleg fjárfesting!
Jamm, ég læt þetta duga í bili. Þetta er kannski leiðindamál, en þessi bíll skiptir mig samt engu máli í stóra samhenginu, svo ég verð að reyna að stappa í mig stálinu og vera jákvæður. Ég er jú við hestaheilsu og á góða að sem er alltaf það eina sem skiptir í raun máli. Eigið góðan dag öllsömul!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2013 | 22:18
Urrandi pirrandi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.11.2013 | 21:26
Sindri Snær í heimsókn :)
Nú er ég búinn að fá Sindra Snæ ,,litla" bróður í heimsókn og heppnaðist sú helgi vonum framar! Ég hafði alveg eins búist við að honum myndi leiðast hjá mér á einhverjum tímapunkti en það kom ekki ein slík sekúnda. Hann vill strax ólmur koma aftur og mikið er ég nú ánægður með það! Ég get sagt það sama, ég myndi mjög svo vilja fá hann einhvern tíman aftur í heimsókn því ég skemmti mér alveg jafn vel þessa helgi.
Fyrst stefndi í að heimsóknin tæki enda áður en hún hæfist því það var frekar hvasst og tvísýnt með flug, en fluginu daginn áður hafði verið aflýst sem jók á áhyggjur mínar. En sem betur fer slapp þetta og Sindri lenti um sexleitið á föstudaginn eins og áætlað var. Steinar vinur minn hérna á Suðureyri kom með mér að sækja Sindra og við fórum beint af flugvellinum á rúntinn um Ísafjörð því við höfðum ákveðið að fara í bíó um áttaleitið á myndina Thor 2 og urðum því að drepa tímann í millitíðinni. En við komum líka við í Hamraborg, bestu sjoppunni á Ísafirði og tróðum okkur út, það er nú nauðsynlegt að gera vel við sig um helgar. Eftir bíóið fórum við svo á Suðureyri og tókum úr töskunum. Haldið þið ekki að það hafi leynst gjafir handa mér innan um dótið hans Sindra sem mamma og hann vildu færa mér: snakk, nammi, bakkelsi og fleira gúmmelaði, auk plastíláta sem mig hafði vantað! Ég þakka bara innilega fyrir mig!
Á laugardaginn byrjuðum við á að gefa öndum nokkrum brauð en ég stóðst ekki mátið að sýna Sindra kvikyndi þessi því að æstari öndum hef ég ekki kynnst annars staðar á minni ævi. Endurnar eru svo trylltar í brauð að um leið og einhver þeirra verður manns vör, þá gargar hún af öllum lífs- og sálarkrafti og þá tekur allur hópurinn við sér og þær koma á móti manni eins og herfylking og umkringja brauðgjafa/na og éta eins og þær hafi ekki fengið mat í viku. Stundum kemur fyrir að þær elti mann þó þær séu búnar að fá allt brauðið, og einu sinni var ég eltur á bílnum! Ég kalla þær því í gamni ,,drápsendurnar" og við Sindri sprungum úr hlátri yfir hamaganginum en tókum svo til fótanna að því loknu!
Að brauðgjöf þessari lokinni rúntuðum við yfir til Ísafjarðar og skoðuðum bæinn og tókum nokkrar vel heppnaðar myndir af okkur félögunum, en fórum svo yfir til Bolungarvíkur og skelltum okkur í sundlaugina, í heitan pott og fleira sem var mjög svo hressandi í kuldanum. Á bakaleiðinni var komið við í Bónus og keypt meira gúmmelaði fyrir helgina!! Um kvöldið var okkur Sindra boðið yfir til Steinars og þar eignaðist Sindri vin, Andra, sem er yngsti bróðir Steinars og kom þeim vel saman þó Andri sé nokkrum árum eldri. Grand Theft Auto var spilaður grimmt í þessari heimsókn og hafði ég gaman af að fylgjast með æsingnum, en ég er orðinn svo slappur tölvuleikjamaður að ég fylgdist bara með, allavega í þetta sinn! En ég ætti nú kannski, svona þegar ég hugsa málið, að dusta rykið af tölvuleikjaáhuganum, því það kemur alveg fyrir í þeim takmarkaða frítíma sem ég hef að mér leiðist. Þegar við komum heim í herbergið mitt að heimsókn lokinni horfðum við á uppáhalds bíómyndina mína ,,Office Space" og það kom mér skemmtilega á óvart að Sindri ,,fílaði" hana bara í botn þó svo að hún væri gamanmynd/grínmynd sem er aðallega stíluð á fullorðna fólkið. En ég skal líka segja ykkur að brósi hefur þroskast alveg svakalega bara á einu ári og hann er orðinn mjög mannalegur, enda er kallinn að fermast á árinu!
Sunnudagurinn tók á móti okkur með miklu blíðskaparveðri en það bærðist ekki strá um morguninn. Því miður var heimfarartíminn að bresta á fyrir Sindra en áður en það yrði ákváðum við að fara í sundlaugina á Suðureyri sem er ekki síðri en sú í Bolungarvík, en Suðureyri er eini bærinn á svæðinu sem býr við hitaveituvatn. Í hádeginu var komið að kveðjustundinni og Sindri fór með flugvélinni til Reykjavíkur. Við vorum sælir og glaðir eftir þessa vel heppnuðu helgi og hann sagði mér að hann hefði helst viljað vera lengur. En það kemur nú örugglega að því að hann komist aftur í heimsókn, áður en hann veit af.
Bloggar | Breytt 6.11.2013 kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Guðmundur B. Sigurðsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Gummi bloggar á spænsku Bloggið mitt þar sem ég æfi mig í að skrifa og tjá mig á spænsku.
Eldri færslur
2024
2021
2020
2019
2018
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Bloggin
Vinir, fjölskylda eða aðrir
- Haddi frændi
-
Pétur Olsen og co
Fyrrverandi vinnufélagi minn og vinir hans í sameiginlegu bloggi, bara flott hjá þeim! - Bergþór bróðir
- Elín frænka
- Þórhallur
- Ari
- Mary
- Anna Hendrix
- Mist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar