Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Slæmar fréttir

Ég fékk hræðilegar fréttir í gær. Það kviknaði í húsi ömmu minnar og afa (í föðurætt) á Hólmavík um hádegisbilið í gær og tjónið varð verulegt áður en náðist að slökkva eldinn. Húsið er líklega ónýtt. Til allrar hamingju sluppu þau heil frá þessu, það er fyrir öllu. En það er hörmulegt og ósanngjarnt að fólk þurfi að lenda í svona hlutum á gamals aldri þegar það á að geta haft það gott það sem eftir er ævinnar, en í staðinn er skyndilega allt í uppnámi. Ég ólst þarna upp að hluta, en þegar ég var smástrákur bjuggu foreldrar mínir þarna um tíma. Ég hef alltaf heimsótt afa og ömmu með reglulegu millibili, hvort sem ég hef búið á Hólmavík eða í Reykjavík þá stundina. Mér finnst þetta svo leiðinlegt og þau áttu þetta svo sannarlega ekki skilið. Ég vona að húsnæðismálin hjá þeim bjargist sem fyrst og að þau fái nú eitthvað út úr tryggingum, en því miður held ég að það sé mikil tilhneiging fyrir því að undirverðmeta alltaf húsnæði úti á landi, alveg sama hvort þar gengur vel eða illa. En ég vil vera bjartsýnn, og ef ég væri nú bara vellauðugur maður myndi ég kaupa handa þeim nýtt hús á morgun! En svo er víst ekki. Ég vona bara það besta fyrir þeirra hönd og vona að fólk taki sig nú saman og veiti þeim þá hjálp sem það getur.

Þvottur

Ég prófaði að handþvo fötin mín í dag. Ég hef aðgang að þvottavél en hún er því miður ekki í sameiginlega rýminu og vegna þess að mig grunaði að það væri ekki mikið mál að gera þetta bara á gamla mátann í staðinn, þá ákvað ég bara að prófa það. Þetta var ekkert mál, ég skellti fötunum í bala ásamt heitu vatni, stráði yfir þvottaefni og velti fötunum uppúr þessu og hnoðaði vel, skolaði svo með heitu vatni, vatt fötin og hengdi þau upp á þurrkgrind. Ég hefði notað mýkingarefni líka ef ég hefði ekki gleymt að kaupa það. Þetta tók kannski 15-20 mínútur og fötin ilma alveg jafn vel og úr þvottavél svo ég held að ég þvoi bara svona þar til ég flyt í íbúð. Þetta er ekkert mál fyrir einstakling þó að öðru máli gildi auðvitað þegar verið er að þvo af heilli fjölskyldu. Ég gekk sandinn í dag (þessa ~7 kílómetra) en sleppti því í gær því að mér leið mjög illa í fótunum eftir að hafa reynt að skokka þetta í nokkur skipti. Ég átti mjög erfitt með að hemja mig og rjúka ekki út, því mig langar svo að komast í form. Það er greinilega of mikið fyrir mig ennþá að skokka svona langa leið svo ég verð að hlífa liðamótunum og ganga megnið af leiðinni þar til líkaminn þolir meiri þjösnagang.

Mun betra

Þetta er allt annað líf hjá mér núna, að vera kominn í alvöru herbergi með sér baðherbergi (með sturtu, klósetti og vaski) og sameiginlegri stofu og eldhúsi. Mér líður mjög vel hérna, leigan er lág svo ég get sparað og herbergið er á besta stað í bænum því að héðan er stutt í allt nema reyndar matvöruverslanirnar, en til þess er nú bíllinn! Það er krá hérna stutt frá, bakarí, hársnyrtistofa, bíó, krambúð, líkamsræktarstöð og fleira. Það er  líka stutt í bæði vinnuna og sundlaugina en þó aðeins lengra, samt undir einum kílómetra. Ég er búinn að fara eina ferð í bæinn að sækja dót í herbergið mitt svo það er orðið heimilislegt og skemmtilegt, er t.d. búinn að setja fiskabúrið mitt upp en í því eru flottir gúbbífiskar sem hafa nú þegar gotið nokkrum seiðum! Ég er búinn að finna mér frábæra skokkleið sem kallast ,,sandurinn," en það er 3,6 km löng sandfjara sem er alveg æðislegt að skokka eftir daglega, og það besta er auðvitað að hafið, með sínum flóðum og fjörum, sér til þess að þar er aldrei svell. Í gærkvöldi var mér boðið í heimahús í fyrsta sinn (af vinnufélaga) og við hittumst þar nokkur, drukkum og fórum svo niðrí bæ á krána sem er rétt hjá herberginu mínu. Það var því aldeilis þægilegt að koma sér heim þegar ég var búinn að fá nóg af ,,djamminu," ég var kominn heim eftir aðeins tuttugu skref eða svo! Mig langaði mikið að komast til Hólmavíkur í kvöld á þorrablót en því miður er víst spáð ljótu veðri í kvöld svo ég er hættur við að fara. En ég stefni þá á að mæta í Góuveisluna í staðinn. Ég læt þessar fréttir duga af mér í bili, meira næst.

Tíminn líður sem betur fer

Nú er ég búinn að vera á Króknum í 13 daga en ég flutti hingað eins og fyrr segir 2. janúar og fór í bráðabirgðaherbergi á vegum sláturhúss bæjarins (á Kirkjutorgi 1, við Skagfirðingabraut). Síðan mætti ég í skoðunarferð í fiskiðjuna (Fisk Seafood ehf.) þann 3. og 4. janúar var svo fyrsti vinnudagurinn minn. 10. janúar fékk ég fyrsta launaseðilinn, en reyndar fékk ég bara  greiddann út fyrsta vinnudaginn sem ég vann vegna þess hvernig launatímabilið liggur, en ég fæ semsagt útborgað vikulega (á hverjum fimmtudegi) eins og algengt er í svona störfum. Næsta fimmtudag fæ ég fyrstu heilu vinnuvikuna greidda svo að ég ætti loksins að fara að eiga eitthvað fé eftir það.

Á morgun (16. janúar) flyt ég loksins í framtíðarhúsnæðið mitt, allavega um óákveðinn tíma en ég verð þar líklega í minnst í eitt ár. Þetta er herbergi á Kaupangstorgi 1, en eiginlega ætti það frekar að tilheyra Aðalgötunni (þá við Aðalgötu 1), en húsið er munaðarlaust í þeim skilningi að það átti að vera eitt fleiri húsa sem stæðu við Kaupangstorg nokkuð, en svo varð ekkert úr gerð torgs þessa og til að fólk finni nú húsið verður að vísa á Aðalgötuna sem húsið stendur við. Semsagt, bara skipulagsklúður. Helsta kennileitið nálægt nýja húsnæðinu mínu er Ólafshúsið en það er frægt hús hér í bæ og veitingastaður, 2 húsum frá.

Ég hlakka mjög til flutninganna því að þetta sláturhúsaherbergi og í raun húsið allt er ekki upp á marga fiska. Nýja herbergið mitt er 15 fermetrar að stærð, á 2. hæð og með sér baðherbergi (klósetti, sturtu og vaski) og stórum glugga og ekki undir súð eins og núverandi herbergi (sem er á 3. hæð). Ég mun einnig hafa aðgang að eldhúsi og stofu sem ég deili með öðrum herbergjaleigjendum, en þetta húsnæði átti upphaflega að vera gistiheimili.

Í fyrstu stefndi ég á að komast í leiguíbúð strax, en ég hef ákveðið að láta mér þetta herbergi nægja því að það er ódýrara og gerir mér auðveldara um vik að safna frekar upp í lágmarksupphæð fyrir láni til íbúðarkaupa, sem er auðvitað mun skynsamlegra en að brenna laununum í leigukostnað á íbúð. Það er alltaf betra að eiga en leigja held ég, allavega þegar um húsnæði er að ræða og til að geta gert þetta ætla ég að reyna að safna mér einni milljón króna á um það bil 12-15 mánuðum. En áður en ég byrja að spara verð ég auðvitað að klára að borga yfirdráttinn, bílatryggingreikninginn og smá lán sem ég fékk frá foreldrum mínum svo ég hefði nú fyrir mat á Króknum fyrstu dagana! En þetta ætti að vera afgreitt mál á eins og einum mánuði, og eftir það er bara að vera duglegur og agaður í þessu. En jæja, þetta er orðið gott í bili, meira seinna!

E.s. ég býst við að skreppa til Reykjavíkur næstu helgi til að sækja fiskabúrið mitt og annað dót og auðvitað að heilsa upp á fjölskyldu og vini. Sjáumst vonandi þá Smile


Jamm, gengur vel á Króknum

Lífið er búið að vera ágætt hér á Króknum þessa fáu daga sem ég hef verið hér. Mér finnst alltaf betur og betur að ég hafi tekið rétta ákvörðun. Það var gaman í vinnunni fyrsta daginn (og þann eina þar til eftir helgi) og mér líkar vel við fólkið sem ég er að vinna með. Ég er þessa stundina í bráðabirgðaherbergi sem er ekki upp á marga fiska en ég er svo heppinn að hafa verið boðið 15 fermetra herbergi eftir helgi með vaski, eldunaraðstöðu, húsgögnum og fleiru sem maður nauðsynlega þarf á að halda. Ég vona að mér líki herbergið það vel að ég láti það duga í bili. Þá get ég reynt að einbeita mér að sparnaði þar til ég finn mér íbúð seinna. Spurning hvort ég kíki ekki á krá niðrí bæ á eftir, það held ég nú!

Brottför á morgun

Nú er ég orðinn yfirspenntur, það er svo stutt í ferðalagið mitt norður á Sauðárkrók. Óvissan er algjör. Ég hef aðeins örfáum sinnum komið þangað, en nú er ég að fara að vinna þarna. Á morgun fæ ég herbergið sem mér tókst að redda mér (sem er á vegum sláturhússins), daginn eftir er starfskynningin, og daginn eftir það er fyrsti vinnudagurinn minn en þar sem það er á föstudegi er ég svo strax kominn í helgarfrí eftir fyrsta daginn, nema jú auðvitað að ég verði beðinn um að vinna helgarvinnu. En jæja, það er best að fara að tína saman restina af farangrinum og koma honum í bílinn. Ég reikna með að leggja af stað fyrir hádegi á morgun, það er allavega gott færi eins og er svo ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Takk fyrir gamla árið og hafið það sem allra best á því nýja. Óskið mér góðs gengis!

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband