Færsluflokkur: Bloggar

Þokkalegt bara!

Það er búið að ganga svo vel hjá mér í vinnunni sem ,,stjórinn" yfir endastöðinni (tækjunum), þrátt fyrir mikið álag, að það er allt stress horfið og mér er farið að finnast þessi vinna vera ein sú besta sem ég hef komist í. Hver veit nema ég ílengist hérna bara? Það veltur reyndar á því hvernig mér mun takast til í félagslífinu hérna, en það er allt að koma líka. Veðrið er búið að vera með ólíkindum gott undanfarna daga, nánast sumarblíða; logn, sól og léttskýjað, sannkallaður ,,sumarauki," eins og kunningi minn af Ströndum orðaði það um daginn. Vonandi teygist þetta fram yfir næstu helgi svo að flugið haldi áætlun og Sindri Snær komist í heimsókn í góðu veðri um mánaðamótin.

Hafnarlífið

Nú eru strembnir dagar framundan hjá mér í vinnunni og eins gott að standa sig. Stór hluti af vinnufélögunum er að fara í starfsmannaferð (skemmtiferð) til Berlínar í Þýskalandi þann 17. - 20. október og ég þarf því að passa nánast einsamall upp á bókhaldið og fleira í vinnunni, reyndar strax frá og með miðvikudegi. Ég fæ reyndar mann í staðinn fyrir þann sem hefur verið með mér en hann kann, eins og ég, ekki hundrað prósent á allt. En allt verður engu að síður að vera hundrað prósent rétt nú sem fyrr svo það verður ekkert gert án góðrar ígrundunar.

Ég slóst í för með tvem félögum á Ísafjörð um helgina og þar rúntuðum við um og kíktum líka til Bolungarvíkur, en lengst af vorum við í Ísafjarðarhöfn því að þar var mikið um að vera. Verið var að draga skipið Ísbjörninn í höfnina af stórum línubát sem ég man nú ekki lengur nafnið á, en skipið hafði fengið nótina í skrúfuna í fyrsta kasti. Þarna var líka mættur lóðs til að ýta til skipinu til innan hafnarinnar, auk kafaragengis og fleira fólks svo það var hamagangur í öskjunni sem gaman var að fylgjast með frá hliðarlínunni.

Mér var hugsað til þess þarna hvað ég yrði nú í góðum málum ef ég bara kæmist á gott skip og næði tökum á sjómannslífinu. Það væri heldur betur búbót fyrir mig og ég myndi ráða auðveldlega við langa túra, enda vanur því að vera í einangrun eins og t.d. þegar ég var í vinnubúðum á Klettshálsi árið 2003. Þá var ég fastur á mínu vinnusvæði fjarri mannabyggð, í hálfan mánuð í einu, án sambands við nokkra aðra en vinnufélagana og þarna var ekkert gemsasamband, engar sjoppur og eingöngu um að ræða matinn í mötuneytinu á staðnum - sem smakkaðist reyndar lang oftast mjög vel. Annað gott sem myndi fylgja því að vera á sjó væri fríið a milli túra sem væri stundum á virkum dögum líka svo það væri auðveldara að sinna erindum. En jæja, ég læt þetta duga í bili, ég þarf víst að ná smá kríu. Lifið heil gott fólk!


Fæ heimsókn í nóvember :)

Á fimmtudaginn lét ég verða af því að kaupa flugmiða fyrir Sindra Snæ bróður minn til Ísafjarðar. Ef veður leyfir mætir hann því 1. nóvember og verður hjá mér yfir helgina. Bæði ég og hann hlökkum mikið til og það er gott að geta núna efnt loforðið um að hann geti kíkt í heimsókn til mín. Mér fannst nefninlega mjög leiðinlegt að hann komst aldrei á Krókinn eins og ég hafði lofað honum. Þetta verður góð sárabót held ég. Ég var að frétta að Elvar brósi var að kaupa sinn fyrsta bíl fyrir nokkrum dögum, Mitsubishi Carismu '99, svo það er allt að gerast hjá okkur fjölskyldunni. Bara snilld. Ég fór í mína fyrstu bíóferð á Ísafjörð í gær, fór á myndina Prisoners en get nú ekki sagt að þetta hafi verið mynd að mínu skapi. Þetta er mjög vel gerð mynd og allt það og með flottum leikurum, en pyndinga- og mannránsmyndir heilla mig yfirleitt ekki. Ég vil frekar sjá góðar spennumyndir, gaman- og grínmyndir, ferðamyndir og góða vísindatrylla, vestramyndir og slíkt, það er mér að skapi. Semsagt, hryllingsmyndir með limlestingum og slíku eru ekki fyrir mig takk fyrir.


Október

Það er margt sem heillar mig við þennan árstíma. Á haustin og veturna er engin pressa að gera hluti. Til dæmis að fara í ferðalög næstum því um hverja helgi, grilla, mæta á útihátíðir eða að vera stanslaust úti! Svo er líka myrkur á nóttunni sem bætir nætursvefninn minn um allan helming. Og ó já, ó já, allar þessar pirrandi pöddur drepast!! Ég er ekki einusinni byrjaður að tala um snjóinn, norðurljósin og stjörnurnar. En engar áhyggjur, ég hef ekki tíma til að tala um það núna. Ég á líka alltaf mun auðveldara með að spara á veturna og að skipuleggja mig. Svo er bara svo fallegt á haustin! Nú skartar landslagið hér í kring sínu fegursta. Það er snjór efst í fjöllunum og kjarrið í miðjum hlíðunum er komið í rauðan haustbúning. Enn er þó grasið grænt á láglendinu og svo tekur við blátt og slétt hafið, eða þannig var þetta altént í dag. Algjört listaverk. Þetta minnir mig á það að ég ætti að taka nokkrar myndir af þessari dýrð um helgina til að sýna fólki.


Namm!

Ég steikti mér loksins ýsu í raspi í kvöld, með nýjum soðnum kartöflum og smá kokteilsósu og hafði vatnsglas með og vá hvað þetta var mikið lostæti! Ég passaði mig að steikja nóg fyrir morgundaginn líka svo föstudagurinn verður þægilegur. Þar sem ég náði að redda mér frystiplássi fyrir ýsuna mína sem ég keypti fyrir slikk á meðan ég bjó á Króknum, þá mun ég líklega ekki lenda í fiskiskorti fyrr en einhvern tíman á næsta ári. Þetta eru 9 kíló sem ég fékk á 4.500 krónur sem starfsmaður hjá Fisk Seafood og það er harla erfitt að komast í betri ,,díl" en það, nema maður hreinlega sé sjómaður eða þekki sjómann! Amma mín og afi á Hólmavík voru svo væn að leyfa mér að geyma fiskinn hjá sér og upphaflega ætlaði ég að fara með hann áfram til Reykjavíkur, en þar var ekki pláss fyrir svona mikið magn í einu. Þegar ég skrapp í smalamennskuna notaði ég tækifærið og kippti ýsunni með mér vestur, því að mér var reddað frystiplássi á Suðureyri þar til ég myndi eignast mitt eigið. En frá og með morgundeginum ætti ég ekki lengur að vera í neinum geymsluvandræðum því að ég er með hjálp vina búinn að finna notaðan ísskáp (með stóru frystihólfi) á góðu verði. Bara snilld. Happy

Ferðahelgi

Nú er ég búinn að skreppa í mína fyrstu ferð til Reykjavíkur síðan ég flutti. Ég fór á bílnum til þess að sækja eitthvað af dótinu mínu og auðvitað að hitta fjölskyldu og vini. Þetta voru einhverjir rúmir 1.000 km allt í allt og því enginn smá bíltúr svo það er eins gott að ég hef gaman að akstri! Ég var ekki búinn í vinnunni fyrr en um níuleitið á föstudeginum sem þýddi að ég varð að leggja mig áður en ég lagði af stað svo ég myndi ekki sofna undir stýri! En blundurinn seinkaði mér um einhvern klukkutíma í viðbót svo ég var ekki kominn til Reykjavíkur fyrr en fjögur um morguninn. Þá var ég orðinn svangur svo ég píndi mig til að aka áfram, alla leið niðrí miðbæ, því mig dauðlangaði svo í eitt stykki Hlöllabát. Þetta mátti ekki tæpara standa því að Hlöllabátar lokuðu einhverjum tveimur mínútum eftir að ég pantaði bátinn!! Á laugardagskvöldinu kíkti ég í púlstofu (pool) í bænum með vinum og við tókum nokkra leiki, og fór svo á tónleika í Iðnó sem voru til minningar um Bergþóru Jónsdóttur frænku mína og annan mann sem ég kann ekki deili á, Steingrím, en þau létust bæði langt fyrir aldur fram. Bergþóra var alltaf skemmtileg við mig þegar ég var barn og var mér kær þó ég hafi því miður ekki hitt hana oft eftir að ég fullorðnaðist. Ég náði að versla eitthvað pínulítið líka og heimsækja ömmu og afa í móðurætt áður en ég varð að drífa mig aftur á Suðureyri. Ég læt þessi skrif duga í bili því ég er að leka niður úr þreytu og held ég halli mér bara áður en ég sofna hreinlega fyrir framan tölvuna... Sleeping

Smalahelgi

Síðasta helgi var alveg frábær. Ég skrapp á Strandir í leitir og réttir og gekk smalamennskan mjög vel þetta árið, jafnvel þó tvísýnt hafi verið með veðrið. Við fengum í raun allar tegundir veðurs yfir okkur sem til eru á Íslandi: sól og úrkomuleysi, ský og rigningu, snjókomu, haglél, logn, rok, hita og kulda. Mest var þó um að Kári væri að heimsækja okkur! Snjó hafði fest þar sem við byrjuðum en niðri í dölunum var ástandið betra, en það má reyndar deila um hvort mígandi bleyta á láglendinu vegna mikillar úrkomu undanfarið sé skárri en snjórinn. Ég er samt ekkert að kvarta, þetta var þrælskemmtilegt eins og alltaf og það var gott að geta komið að gagni fyrir Harald frænda og alla hina bændurna á svæðinu. Þetta var fyrsta ferðin mín út fyrir Ísafjarðarsvæðið síðan ég flutti hingað og kærkomið að geta hitt helling af ættingjum og vinum á einu bretti. Ég skelli kannski myndum og smalasögum hingað seinna, svona þegar ég nenni! En nú ætla ég að halla mér, verið þið sæl að sinni.

Sérstakur náungi þessi.

Hvernig fór þessi maður að því að fatta það ekki sjálfur á neinum tímapunkti í heil sjö ár að það er hægt að mæta með heyrnarhlífar í vinnuna og geta þá þar að auki hlustað á útvarpið frekar en hrín allan daginn? Ég er nú ekki vanur að blogga um fréttir en þetta kemur mér bara svo spánskt fyrir sjónir þar sem ég hef notað heyrnarhlífar við vinnu í sjö ár sjálfur, og fattaði það strax á fyrsta degi að það væri bráðnauðsynlegt í mínum störfum þar sem ég er yfirleitt að vinna í miklum skarkala.
mbl.is Missti heyrnina við að gæta svína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannar sögur

Nú er ég búinn að búa á Suðureyri í 18 daga og mér er farið að líða eins og ég eigi í alvöru heima hérna. Ég skrapp í sundlaugina eftir vinnu í dag til að fara í heita pottinn og láta líða úr mér þar. Er ég horfði yfir í busllaugina sá ég hvar eitthvað datt ofan í hana af himnum ofan með áberandi skvampi, og á sama tíma heyrði ég í fugli garga og þjóta hjá. Maður og kona voru í busllauginni og ég hugsaði nú bara ,,oj bara, fuglinn hefur dritað svona líka risa hlussu beint ofan í laugina til þeirra." En þá nálgaðist maðurinn hlutinn og tók hann upp úr og haldið þið ekki að þetta hafi verið dauð mús sem fuglinn missti úr goggnum! Þetta er einn af þessum hlutum sem fólk getur lifað heila ævi án þess að upplifa.

Ég hef upplifað annað sem hendir fæsta, en það er að aka yfir tvo refi á innan við einu ári. Ég var sem sagt einu sinni sem oftar að keyra norður til Hólmavíkur, í svartamyrkri og ég var rétt ókominn að Hreðavatnsskála. Stökk þá skyndilega refur í veg fyrir mig rétt fyrir framan bílinn á harðaspretti. Ég átti engan möguleika á að forða árekstri og ók því yfir rebba sem steindrapst. Minna en ári síðar var ég aftur að keyra í myrkri til Hólmavíkur, en að þessu sinni átti ég minna en fimm mínútur eftir í bæinn, ég var nánar tiltekið að nálgast fótbolta- og golfvöllinn. Þá stökk skyndilega refkvikindi á ný í veg fyrir mig á harðaspretti og engin leið að forða árekstri. Þessi drapst einnig samstundis eins og fólk getur gert sér í hugarlund. Í bæði skiptin hafði ég fjarlægt hræin af veginum en í þetta sinn var ég nýbúinn að fjarlægja seinna hræið þegar vörubíll kemur aðvífandi og hægir á sér. Ég hugsaði með mér, ,,best að fara hvergi, það lítur kannski ankannalega út að aka af stað skiljandi eftir sig stóran blóðpoll, best að bakka yfir blóðpollinn og láta vörubílinn taka fram úr mér." Ég var handviss um að það myndi vörubílstjórinn gera, þar sem þeir eru nú venjulega að reyna að halda áætlun og það var gott útsýni framundan. En nei, nei, bílstjóri þessi nam alveg staðar fyrir aftan mig og beið bara og beið!! ,,Hver skollinn?," hugsaði ég, ,,ég neyðist til að leggja af stað," sem og ég gerði og hugsaði um það hvaða skuggaverk hann hefur haldið að ég hafi framið þarna þegar hann sá blóðpollinn!!


Skellt sér í körfuna maður!

Haldið þið ekki að ég hafi farið á körfuboltaleik á föstudaginn eftir vinnu. Félagi minn spurði mig hvort ég vildi koma með á leik og ég sló til, enda man ég ekki einu sinni eftir að hafa nokkurn tíman farið á alvöru leik, þó ég hafi auðvitað spilað fáeina um ævina. En það fyndna við þetta er að ég hef samt farið á íshokkíleiki, í Reykjavík og á Akureyri. Leikurinn fór fram á Ísafirði og öttu kappi liðin KFÍ og Stjarnan í fyrirtækjabikar karla og í leikslok endaði staðan í 87:77 fyrir KFÍ. Mætingin var ágæt, sýndist mér og fínasta stemning og ég gæti alveg hugsað mér að mæta á fleiri leiki í vetur. Það var samt þrautin þyngri að halda athyglinni og að geta séð leikinn almenninlega því ég var bæði dauðþreyttur eftir langan vinnudag (12 tíma) og svo hrjáði mig þessi líka hressilegi augnþurrkur dauðans svo það var ekki sjón að sjá mig Happy!

Eftir leikinn skellti ég mér á tvo öllara á Suðureyri og sofnaði ekki fyrr en klukkan eitt um nóttina, en mætti þó í laugardagsvinnu sjö um morguninn daginn eftir. Ég var þó furðu hress á laugardeginum miðað við það, en steinrotaðist reyndar strax eftir vinnu fyrir framan tölvuna! Nú er biðin eftir fyrstu launagreiðslunni loks á enda, svo ég get hætt að lifa í ofursparnaði öllum stundum, þó ég ætli heldur ekkert að sleppa mér í eyðslu. Það er bara einhvernveginn þannig að manni líður mun betur að geta keypt eitthvað, jafnvel þó maður kaupi það ekki, en ef maður getur ekki keypt eitthvað, því maður eigi ekki peninga, hvort sem manni langi til þess eða ekki! Eh, hmm... þið fattið!!

Næsta helgi verður skemmtileg. Þá verða leitir og réttir í Staðardal í Steingrímsfirði og að sjálfsögðu er ég á leiðinni þangað. Þá mun ég hitta fullt af ættingjum og vinum og hlaupa á eftir mis þrjóskum kindum og lömbum um hæðir og hóla. Svo er ég að gæla við að skreppa til Reykjavíkur helgina eftir það, svo lengi sem það verður ekki farin að vera hálka á vegunum (ég er á hálfslitnum sumardekkjum), en ég á eftir að sækja helling af dóti svo ég geti gert þetta herbergi hér á Suðureyri heimilislegra, en best verður þó að hitta fjölskylduna og vinina fyrir sunnan á ný eftir um eins mánaðar fjarveru.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 1167

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband