Færsluflokkur: Bloggar

Sérstakur náungi þessi.

Hvernig fór þessi maður að því að fatta það ekki sjálfur á neinum tímapunkti í heil sjö ár að það er hægt að mæta með heyrnarhlífar í vinnuna og geta þá þar að auki hlustað á útvarpið frekar en hrín allan daginn? Ég er nú ekki vanur að blogga um fréttir en þetta kemur mér bara svo spánskt fyrir sjónir þar sem ég hef notað heyrnarhlífar við vinnu í sjö ár sjálfur, og fattaði það strax á fyrsta degi að það væri bráðnauðsynlegt í mínum störfum þar sem ég er yfirleitt að vinna í miklum skarkala.
mbl.is Missti heyrnina við að gæta svína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannar sögur

Nú er ég búinn að búa á Suðureyri í 18 daga og mér er farið að líða eins og ég eigi í alvöru heima hérna. Ég skrapp í sundlaugina eftir vinnu í dag til að fara í heita pottinn og láta líða úr mér þar. Er ég horfði yfir í busllaugina sá ég hvar eitthvað datt ofan í hana af himnum ofan með áberandi skvampi, og á sama tíma heyrði ég í fugli garga og þjóta hjá. Maður og kona voru í busllauginni og ég hugsaði nú bara ,,oj bara, fuglinn hefur dritað svona líka risa hlussu beint ofan í laugina til þeirra." En þá nálgaðist maðurinn hlutinn og tók hann upp úr og haldið þið ekki að þetta hafi verið dauð mús sem fuglinn missti úr goggnum! Þetta er einn af þessum hlutum sem fólk getur lifað heila ævi án þess að upplifa.

Ég hef upplifað annað sem hendir fæsta, en það er að aka yfir tvo refi á innan við einu ári. Ég var sem sagt einu sinni sem oftar að keyra norður til Hólmavíkur, í svartamyrkri og ég var rétt ókominn að Hreðavatnsskála. Stökk þá skyndilega refur í veg fyrir mig rétt fyrir framan bílinn á harðaspretti. Ég átti engan möguleika á að forða árekstri og ók því yfir rebba sem steindrapst. Minna en ári síðar var ég aftur að keyra í myrkri til Hólmavíkur, en að þessu sinni átti ég minna en fimm mínútur eftir í bæinn, ég var nánar tiltekið að nálgast fótbolta- og golfvöllinn. Þá stökk skyndilega refkvikindi á ný í veg fyrir mig á harðaspretti og engin leið að forða árekstri. Þessi drapst einnig samstundis eins og fólk getur gert sér í hugarlund. Í bæði skiptin hafði ég fjarlægt hræin af veginum en í þetta sinn var ég nýbúinn að fjarlægja seinna hræið þegar vörubíll kemur aðvífandi og hægir á sér. Ég hugsaði með mér, ,,best að fara hvergi, það lítur kannski ankannalega út að aka af stað skiljandi eftir sig stóran blóðpoll, best að bakka yfir blóðpollinn og láta vörubílinn taka fram úr mér." Ég var handviss um að það myndi vörubílstjórinn gera, þar sem þeir eru nú venjulega að reyna að halda áætlun og það var gott útsýni framundan. En nei, nei, bílstjóri þessi nam alveg staðar fyrir aftan mig og beið bara og beið!! ,,Hver skollinn?," hugsaði ég, ,,ég neyðist til að leggja af stað," sem og ég gerði og hugsaði um það hvaða skuggaverk hann hefur haldið að ég hafi framið þarna þegar hann sá blóðpollinn!!


Skellt sér í körfuna maður!

Haldið þið ekki að ég hafi farið á körfuboltaleik á föstudaginn eftir vinnu. Félagi minn spurði mig hvort ég vildi koma með á leik og ég sló til, enda man ég ekki einu sinni eftir að hafa nokkurn tíman farið á alvöru leik, þó ég hafi auðvitað spilað fáeina um ævina. En það fyndna við þetta er að ég hef samt farið á íshokkíleiki, í Reykjavík og á Akureyri. Leikurinn fór fram á Ísafirði og öttu kappi liðin KFÍ og Stjarnan í fyrirtækjabikar karla og í leikslok endaði staðan í 87:77 fyrir KFÍ. Mætingin var ágæt, sýndist mér og fínasta stemning og ég gæti alveg hugsað mér að mæta á fleiri leiki í vetur. Það var samt þrautin þyngri að halda athyglinni og að geta séð leikinn almenninlega því ég var bæði dauðþreyttur eftir langan vinnudag (12 tíma) og svo hrjáði mig þessi líka hressilegi augnþurrkur dauðans svo það var ekki sjón að sjá mig Happy!

Eftir leikinn skellti ég mér á tvo öllara á Suðureyri og sofnaði ekki fyrr en klukkan eitt um nóttina, en mætti þó í laugardagsvinnu sjö um morguninn daginn eftir. Ég var þó furðu hress á laugardeginum miðað við það, en steinrotaðist reyndar strax eftir vinnu fyrir framan tölvuna! Nú er biðin eftir fyrstu launagreiðslunni loks á enda, svo ég get hætt að lifa í ofursparnaði öllum stundum, þó ég ætli heldur ekkert að sleppa mér í eyðslu. Það er bara einhvernveginn þannig að manni líður mun betur að geta keypt eitthvað, jafnvel þó maður kaupi það ekki, en ef maður getur ekki keypt eitthvað, því maður eigi ekki peninga, hvort sem manni langi til þess eða ekki! Eh, hmm... þið fattið!!

Næsta helgi verður skemmtileg. Þá verða leitir og réttir í Staðardal í Steingrímsfirði og að sjálfsögðu er ég á leiðinni þangað. Þá mun ég hitta fullt af ættingjum og vinum og hlaupa á eftir mis þrjóskum kindum og lömbum um hæðir og hóla. Svo er ég að gæla við að skreppa til Reykjavíkur helgina eftir það, svo lengi sem það verður ekki farin að vera hálka á vegunum (ég er á hálfslitnum sumardekkjum), en ég á eftir að sækja helling af dóti svo ég geti gert þetta herbergi hér á Suðureyri heimilislegra, en best verður þó að hitta fjölskylduna og vinina fyrir sunnan á ný eftir um eins mánaðar fjarveru.


Fiskilífið og fleira

Það er áhugavert að sjá hvernig atvinnulífið á Íslandi tengist allt saman á ótal vegu. Við höfum verið að fá fullt af makríl hingað til Suðureyrar sem kemur frá Ströndum þar sem hann er veiddur. Allir eru að græða, Strandamenn, Súgfirðingar og auðvitað öll þjóðin, og ég fæ helling af langþráðri yfirvinnu, bara frábært. Það vantar fólk í störf á Hólmavík því það er kviknað svo mikið líf þar við höfnina í kringum makrílveiðarnar. Allt bryggjupláss þar er troðfullt af bátum og allt iðar af lífi og það er unnið sleitulaust við löndun og vantar fleiri vinnandi hendur. Eða hefur vantað því að nú hlýtur að styttast í annan endann á vertíðinni.

Það getur vel hugsast að þetta hafi haft áhrif á það að ég var ráðinn í vinnu til Íslandssögu (fiskvinnslunnar). Það er einfaldlega búið að vera brjálað að gera við að vinna makrílinn svo að það var líklega ekki hægt að lána mann í endastöðina þar sem ég er nú að vinna. Ég held að ég hafi dottið á eitt af betri störfunum í vinnslunni, að vera annar af tvem starfsmönnum á ,,tækjunum" eins og það er kallað. Við erum að vinna við að plasta bretti með fiski sem búið er að fullvinna, frysta, pakka og setja í kassa. Við færum allt til bókar og merkjum í bak og fyrir og í lok dags hlöðum við afrakstri dagsins á vörubílana sem keyra með fiskinn suður til Reykjavíkur þar sem sendingarnar fara með flugvél eða skipi út í heim, já eða beint á veitingastaði borgarinnar eða í Bónus um land allt! Þetta þýðir að við þurfum alltaf að vinna 1-2 tímum lengur en flestir aðrir hér, utan þrifafólks, og það þýðir að ég hef trygga yfirvinnutíma á hverjum degi sem mig vantaði svo mjög á Króknum.

Við sjáum líka um að frysta fisk í blokkir í þar til gerðum frystiskápum, en þá röðum við mótum með blokkum (öskjum fylltum af fiski) í hillur frystiskápa, sem við svo látum pressast saman áður en við svo lokum skápunum og bíðum í tvo tíma eftir að herlegheitin séu frosin í gegn. Að því loknu tökum við formin út og sláum blokkirnar úr þeim (í þar til gerðum pressum), sem nú eru grjótharðar eins og múrsteinar. Svo röðum við blokkunum ofan í kassa og kössunum á bretti og þá er varan tilbúin til útflutnings. Íslandssaga er ansi sérstök vinnsla í þeim skilningi að boðið er upp á hópskoðunarferðir um verksmiðjuna, svo við fáum reglulega gesti í heimsókn, en þó líklega mun meira á sumrin en veturna, ætla ég að giska á. Viljið þið ekki bara kíkja í skoðunarferð? Wink

Ég er enn á ný að reyna að gera það að reglu að skokka á hverjum degi. Ég er búinn að finna mér frábæran vettvang til þess, sem er aflagður flugvöllur rétt við bæinn, en ég hleyp sex ferðir á dag og þá eru komnir þrír kílómetrar af hlaupum. Svo, ef ég hef tíma, þá skelli ég mér í heitu pottana í þessari dásamlegu laug sem Suðureyringar hafa, en hún er reyndar lokuð tvo daga í viku á veturna en starfsmenn Íslandssögu fá frítt í sund, gott fyrir mig! Þegar ég loks kem mér heim eftir allt þetta þá er ég að skrafa aðeins í spænskunni í eins og klukkutíma á dag, svo ég verði tilbúinn í slaginn þegar ég skrái mig aftur í nám til að ljúka við þessar litlu ellefu einingar sem ég á eftir í stúdentsprófið. Þetta hefst fyrir rest. En vá, ég ætlaði nú bara að rétt skrifa einar fjórar, fimm línur af texta hér í kvöld svo það er best að hætta að sinni! Meira næst. Smile


Brallað um helgina

Þessi bær leynir á sér. í gærkvöld (laugard.), þegar ég ætlaði bara að hafa það rólegt og lesa uppi í rúmi þar til ég myndi sofna, hringdi síminn og var það félagi minn úr vinnunni að spyrja hvort ég vildi ekki kíkja á kaffihúsið/barinn. Ég sló til og eyddi síðustu aurunum í skot og öl en svo kíktum við í portið við hliðina á kaffihúsinu, en félagsheimili Suðureyrar er næsta hús við og þaðan kom mikið skvaldur og tónlist. Við kíktum þar inn og var þá staddur þar danshópur sem hefur dvalið á Suðureyri undanfarna daga og æft sig í félagsheimilinu, en þau voru að halda lokahófið þetta kvöld. Við fengum að vera með í fjörinu og það var ekki annað hægt en að reyna að dansa eitthvað svo ég skellti mér á gólfið! Á einu borðinu var stór skál, full af harðfiski, svona líklega til að hafa eitthvað íslenskt og þjóðlegt handa útlendingunum að smakka. En það voru Íslendingarnir sem hópuðust í kringum skálina mun meira en útlendingarnir og ég held að ég hafi sjaldan borðað eins mikinn harðfisk, hvað þá á djamminu, og í gær! Þarna var spilað allt milli himins og jarðar, frá salsa tónlist yfir í lög eins og Macarena og ég veit ekki hvað, en þó var áherslan vitanlega á danstónlist. Þarna var staddur Víkingur Kristjánsson leikari og við tókum tal saman, og kannski einhverjir fleiri þekktir sem ég hef ekki kveikt á perunni með hverjir væru, en ég er svo lítið að pæla í þessu fólki, nema þá þegar það er í sjónvarpinu, tölvunni eða útvarpinu.

Eftir að stóri hvellurinn gekk yfir kom þessi líka bongóblíða og sól á laugardaginn, svo ég nýtti tækifærið og rúntaði til Bolungarvíkur og skellti mér í þessa frábæru sundlaug sem þeir eru með í plássinu sínu. Að því loknu kíkti ég í kaffi til vinar míns, en hann er fyrrverandi vinnufélagi minn úr Hólmadrangi og nýfluttur til Bolungarvíkur. Þegar ég var kominn út úr Vestfjarðagöngunum inn í botn Súgandafjarðar, stóðst ég ekki mátið að prófa nú nýja bílinn minn almenninlega svo ég tók hægri beygjuna út af malbikinu og keyrði út Súgandafjörðinn norðanmegin eins langt og sá slóði liggur, en hann er grýttur mjög og nokkuð torfær og fjöldinn allur af stórum og smáum lækjum renna yfir hann svo þetta var mikið fjör. Ég er nokkuð sannfærður um að ég hefði rifið olíupönnuna undan gamla bílnum ef ég hefði reynt að fara þetta á honum. Æðislegt frelsi! Í dag er ég lítið sem ekkert búinn að gera annað en að vera þunnur og hangsa í tölvunni. Nú held ég að ég taki smá lestrartörn uppi í rúmi eða sófa og haldi mig inni við en það er aftur komið rok og rigning, en spáin lofar þó góðu frá og með þriðjudeginum. Þar til næst: lifið heil og góðar stundir!! Sideways


Gengur vel

Bara þessa fyrstu viku mína hjá Íslandssögu er ég búinn að vinna 12 yfirvinnutíma og vinnuvikan er ekki einu sinni búin, morgundagurinn er eftir! **Uppfærsla: komnir 18 tímar og 30 mín. betur núna á föstud.** Það má því segja að hvað tekjur varðar var þetta klárlega hárrétt ákvörðun hjá mér að skipta um vinnustað! Fólkið sem hér vinnur er af ýmsum þjóðernum auk Íslands en allt saman gæðafólk að því er mér sýnist og ég er að vinna með fínasta náunga. Vinnan hefur verið passlega erfið bara, ekkert mál, en það sem hefur aðallega vaxið mér í augum er að læra á bókhaldið, en það er í mínum augum, allavega enn sem komið er á meðan ég er að læra, æði flókið. Ég er sem sagt (aðallega) að vinna á endastöðinni þar sem fiskurinn er sendur af stað út í heim eða í verslanir og veitingastaði á Íslandi. En meira um það seinna. Í gær kíkti ég upp á bæjarfjall Suðureyringa, fjallið Spilli (Spillir í nefnifalli). Ég vildi endilega drífa mig upp á topp áður en óveðrið skylli á, en það á að gerast einhvern tíman á morgun, gott ef ekki í nótt, ég man það ekki alveg. Útsýnið af fjallinu var glæsilegt og alltaf gaman að svala forvitninni og sjá hvað er hinum megin við fjöll! Ég setti nokkrar myndir úr göngunni á síðuna mína hjá sports-tracker.com fyrir áhugasama að sjá. Ég hef bara einu sinni kveikt á nýja bílnum mínum síðan ég kom í Súgandafjörðinn en ég er að bíða eftir fyrstu launagreiðslunni sem kemur á fimmtudaginn eftir viku (borgað vikulega) en þangað til verður tankurinn ekki fylltur þó ég hafi raunar alveg fyrir eins og einni og hálfri tankfylli. Ég er samt blússandi ánægður með gripinn og hann verður sko notaður vel í framtíðinni og ég trúi því að hann muni reynast vel, sérstaklega á vondum vegum eða í torfærum og svellum. En ég má ekki vera að þessu hangsi, þarf að fara að sofa, mæting kl. sjö á morgnana. Góða nótt góða fólk Smile


Orðinn íbúi á Suðureyri við Súgandafjörð

Hér er ég staddur, í herbergi á Suðureyri, og velti því fyrir mér hvort ég gerði rétt, hvort ég er að fara að græða á flutningnum frá Sauðárkróki, eður ei. En ég hef samt sterka tilfinningu fyrir því að svo verði með tímanum. Þetta verður erfitt fyrst um sinn, að þurfa að byrja upp á nýtt að kynnast fólki, eignast nýja vini og venjast nýrri vinnu og umhverfi... en ég er dolfallinn fyrir Vestfjörðum svo að þó ég myndi ekkert græða meira fjárhagslega á flutningnum en það að eiga heima á Vestfjörðum (sem verður samt pottþétt raunin) þá á ég eftir að verða ánægðari hérna og geta sleppt ferðalögum í smá tíma á meðan ég er að safna pínulítið næstu þrjá mánuðina að minnsta kosti.

Ég er nokkuð heppinn með herbergið hérna get ég sagt ykkur. Það er næstum jafn stórt og herbergið á Króknum, en það er á jarðhæð (ég þurfti að ganga upp brattan stiga á Króknum) og bara eins og tíu skref frá sjoppunni og tuttugu skref frá sjónum og í svona 2-3 mínútna göngufjarlægð frá vinnunni. Svo er ég með þvottavél og þurrkara hérna sem ég var ekki með á Króknum (það var hryllilegt að handþvo, ég tek ofan fyrir forfeðrum okkar að hafa staðið í þessu!) og reyndar ekki eigið herbergi með sturtu og klósetti en sturta og klósett þó (að sjálfsögðu). Eldhúsið er svo alveg þokkalegt, með öllu því helsta: rafhellum, örbylgjuofni og grilli en reyndar engum bakaraofni, og svo eru ísskápar en ég sé samt fram á að ég muni vilja kaupa mér eigin lítinn ísskáp með frystihólfi til að setja inn í herbergið mitt.

Í framhaldi af fyrri færslu get ég sagt frá því að ég lét verða af þessu... ég keypti Súbarúinn og dýrka hann í botn! Þvílíkur munur á bílum... að keyra hann, hvað hann er stöðugri á veginum, kröftugur, cruise control, engin rúða biluð eins og á Daihatsúinum, það er miklu meira pláss, fjórhjóladrif!!.. og ýmislegt fleira. Applausinn var ágætur á meðan hann entist, og hann var með sál, en það var löngu kominn tími á skipti.


Allt gengur eins og í sögu!

Nú er kominn tími til að segja betur frá því hvað er að gerast hjá mér með vinnu og bílamál! Ég er semsagt, eins og fyrr segir, kominn með nýja vinnu, nánar tiltekið hjá fiskvinnslunni Íslandssögu á Suðureyri í Súgandafirði í rétt um korters akstursfjarlægð frá Ísafirði. Fyrsti vinnudagurinn verður mánudaginn 26. ágúst næstkomandi svo ég hef nokkra daga til að kíkja á fjölskyldu og vini hér í Reykjavík áður en ég fer vestur kannski á föstudaginn til að venjast umhverfinu aðeins áður en ég hef störf. Vinnuveitandinn er strax búinn að redda mér herbergi með sameiginlegri eldunaraðstöðu á Suðureyri svo það er allt til reiðu og ég er sloppinn við að þurfa að stressa mig við að finna mér samastað í tæka tíð. Það bætist við gleðina að í dag (20.) tókst mér að finna Daihatsu Applausinum mínum nýjan eiganda eftir að hafa átt þann ágæta grip í sjö ár og ekið hann 115.000 km. en hann var í 88.000 km. er ég keypti hann á sínum tíma. Hjalti frændi er duglegur að hjálpa mér í bílamálum en hann hefur bent mér á ágætis bíl í staðinn fyrir Applausinn en þar er um að ræða Subaru Outback sem er fjórhjóladrifinn skutbíll sem ég hef ákveðið að skella mér á. Það verður ekki slæmt að komast á bíl sem leikur sér að snjónum sem undantekningalítið kyngir niður fyrir vestan og víðar á veturna. Gleði gleði!! Meira næst!!! Happy Tounge

Vestfirðir, hér kem ég!

Í dag (15. ágúst) var ég ráðinn í vinnu á einum af þeim fjórum stöðum sem ég hef hingað til sótt um vinnu hjá á Ísafjarðarsvæðinu. Ég er því í góðum málum og á að hefja störf eftir rúma viku, eða mánudaginn 26. ágúst. Nú tekur við húsnæðisleit en meira ætla ég ekki að segja ykkur fyrr en þetta skýrist frekar hjá mér, en þetta lofar allt saman mjög góðu og ég mun geta flutt á draumasvæðið mitt á landinu! Af því að ég er orðinn svolítið sjóaður í svona flakki þá er ég ekkert að fara á límingunum yfir þessu eins og áður, en ég get ekki neitað því að ég er mjög spenntur. Ég segi ykkur meira á allra næstu dögum. Það styttist mjög í 29 ára afmælið mitt þann 17. ágúst og ég er ekki frá því að ég sé það ánægður með lífið þessa dagana að ég haldi bara upp á það og bjóði jafnvel til lítillar veislu eða hittings hér í Reykjavík áður en ég fer!

Frí og þægilegheit

Heil og sæl öll. Cool Núna er ég búinn að vera í fríi síðan 12. júlí, en það var síðasti vinnudagurinn minn hjá Fisk Seafood og nú tekur við bið eftir nýju starfi, helst á Ísafirði en ég vona bara það besta og er nokkuð bjartsýnn. Ég hef samt ekki setið auðum höndum en ég byrjaði á að kíkja í bústað með fjölskyldunni við Úlfljótsvatn í eina viku, sem var dásamlegt og margt brallað þar. Gógó frænka kom líka í bústaðinn ásamt Hjalta og Dagnýju og það var meðal annars farið í aparóluna, grillað, farið í göngutúra, farið í bíltúr upp að Skálholti og í Búrfellsstöð á sýningu (slepptum því reyndar að kíkja á vindmillurnar í þetta sinn) og svo var kíkt út á Úlfljótsvatn og að sjálfsögðu slakað á í heita pottinum, en við vorum í þetta sinn í efsta sumarbústaðnum sem var bara ágætt (aðeins minna á kafi í trjánum en í miðjubústaðnum þó litlu muni). Eftir að í borgina var komið hóf ég að flíkka upp á Applausinn en ég lét laga pústkerfið á honum og keypti nýjan afturkút, massaði hann og bónaði, skipti um teppi í skottinu, þreif sætin, mælaborðið og golfið og að lokum hreinsaði ég alla ryðbletti í burtu og lakkaði og glæraði yfir svo bíllinn er orðinn nánast eins og nýr, ilmandi og tandurhreinn, bara glæsilegur! Ég toppaði svo yfirhalninguna með því að splæsa í flotta hjólkoppa á hann og nú hlýtur kagginn að seljast. Smile Glæsikerran er föl fyrir 260 þúsund en verðið er nú alveg viðsemjanlegt, bara endilega að gera mér tilboð og ég skoða málið. Wink

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband