Færsluflokkur: Bloggar
4.9.2013 | 21:40
Fiskilífið og fleira
Það er áhugavert að sjá hvernig atvinnulífið á Íslandi tengist allt saman á ótal vegu. Við höfum verið að fá fullt af makríl hingað til Suðureyrar sem kemur frá Ströndum þar sem hann er veiddur. Allir eru að græða, Strandamenn, Súgfirðingar og auðvitað öll þjóðin, og ég fæ helling af langþráðri yfirvinnu, bara frábært. Það vantar fólk í störf á Hólmavík því það er kviknað svo mikið líf þar við höfnina í kringum makrílveiðarnar. Allt bryggjupláss þar er troðfullt af bátum og allt iðar af lífi og það er unnið sleitulaust við löndun og vantar fleiri vinnandi hendur. Eða hefur vantað því að nú hlýtur að styttast í annan endann á vertíðinni.
Það getur vel hugsast að þetta hafi haft áhrif á það að ég var ráðinn í vinnu til Íslandssögu (fiskvinnslunnar). Það er einfaldlega búið að vera brjálað að gera við að vinna makrílinn svo að það var líklega ekki hægt að lána mann í endastöðina þar sem ég er nú að vinna. Ég held að ég hafi dottið á eitt af betri störfunum í vinnslunni, að vera annar af tvem starfsmönnum á ,,tækjunum" eins og það er kallað. Við erum að vinna við að plasta bretti með fiski sem búið er að fullvinna, frysta, pakka og setja í kassa. Við færum allt til bókar og merkjum í bak og fyrir og í lok dags hlöðum við afrakstri dagsins á vörubílana sem keyra með fiskinn suður til Reykjavíkur þar sem sendingarnar fara með flugvél eða skipi út í heim, já eða beint á veitingastaði borgarinnar eða í Bónus um land allt! Þetta þýðir að við þurfum alltaf að vinna 1-2 tímum lengur en flestir aðrir hér, utan þrifafólks, og það þýðir að ég hef trygga yfirvinnutíma á hverjum degi sem mig vantaði svo mjög á Króknum.
Við sjáum líka um að frysta fisk í blokkir í þar til gerðum frystiskápum, en þá röðum við mótum með blokkum (öskjum fylltum af fiski) í hillur frystiskápa, sem við svo látum pressast saman áður en við svo lokum skápunum og bíðum í tvo tíma eftir að herlegheitin séu frosin í gegn. Að því loknu tökum við formin út og sláum blokkirnar úr þeim (í þar til gerðum pressum), sem nú eru grjótharðar eins og múrsteinar. Svo röðum við blokkunum ofan í kassa og kössunum á bretti og þá er varan tilbúin til útflutnings. Íslandssaga er ansi sérstök vinnsla í þeim skilningi að boðið er upp á hópskoðunarferðir um verksmiðjuna, svo við fáum reglulega gesti í heimsókn, en þó líklega mun meira á sumrin en veturna, ætla ég að giska á. Viljið þið ekki bara kíkja í skoðunarferð?
Ég er enn á ný að reyna að gera það að reglu að skokka á hverjum degi. Ég er búinn að finna mér frábæran vettvang til þess, sem er aflagður flugvöllur rétt við bæinn, en ég hleyp sex ferðir á dag og þá eru komnir þrír kílómetrar af hlaupum. Svo, ef ég hef tíma, þá skelli ég mér í heitu pottana í þessari dásamlegu laug sem Suðureyringar hafa, en hún er reyndar lokuð tvo daga í viku á veturna en starfsmenn Íslandssögu fá frítt í sund, gott fyrir mig! Þegar ég loks kem mér heim eftir allt þetta þá er ég að skrafa aðeins í spænskunni í eins og klukkutíma á dag, svo ég verði tilbúinn í slaginn þegar ég skrái mig aftur í nám til að ljúka við þessar litlu ellefu einingar sem ég á eftir í stúdentsprófið. Þetta hefst fyrir rest. En vá, ég ætlaði nú bara að rétt skrifa einar fjórar, fimm línur af texta hér í kvöld svo það er best að hætta að sinni! Meira næst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.9.2013 | 17:00
Brallað um helgina
Þessi bær leynir á sér. í gærkvöld (laugard.), þegar ég ætlaði bara að hafa það rólegt og lesa uppi í rúmi þar til ég myndi sofna, hringdi síminn og var það félagi minn úr vinnunni að spyrja hvort ég vildi ekki kíkja á kaffihúsið/barinn. Ég sló til og eyddi síðustu aurunum í skot og öl en svo kíktum við í portið við hliðina á kaffihúsinu, en félagsheimili Suðureyrar er næsta hús við og þaðan kom mikið skvaldur og tónlist. Við kíktum þar inn og var þá staddur þar danshópur sem hefur dvalið á Suðureyri undanfarna daga og æft sig í félagsheimilinu, en þau voru að halda lokahófið þetta kvöld. Við fengum að vera með í fjörinu og það var ekki annað hægt en að reyna að dansa eitthvað svo ég skellti mér á gólfið! Á einu borðinu var stór skál, full af harðfiski, svona líklega til að hafa eitthvað íslenskt og þjóðlegt handa útlendingunum að smakka. En það voru Íslendingarnir sem hópuðust í kringum skálina mun meira en útlendingarnir og ég held að ég hafi sjaldan borðað eins mikinn harðfisk, hvað þá á djamminu, og í gær! Þarna var spilað allt milli himins og jarðar, frá salsa tónlist yfir í lög eins og Macarena og ég veit ekki hvað, en þó var áherslan vitanlega á danstónlist. Þarna var staddur Víkingur Kristjánsson leikari og við tókum tal saman, og kannski einhverjir fleiri þekktir sem ég hef ekki kveikt á perunni með hverjir væru, en ég er svo lítið að pæla í þessu fólki, nema þá þegar það er í sjónvarpinu, tölvunni eða útvarpinu.
Eftir að stóri hvellurinn gekk yfir kom þessi líka bongóblíða og sól á laugardaginn, svo ég nýtti tækifærið og rúntaði til Bolungarvíkur og skellti mér í þessa frábæru sundlaug sem þeir eru með í plássinu sínu. Að því loknu kíkti ég í kaffi til vinar míns, en hann er fyrrverandi vinnufélagi minn úr Hólmadrangi og nýfluttur til Bolungarvíkur. Þegar ég var kominn út úr Vestfjarðagöngunum inn í botn Súgandafjarðar, stóðst ég ekki mátið að prófa nú nýja bílinn minn almenninlega svo ég tók hægri beygjuna út af malbikinu og keyrði út Súgandafjörðinn norðanmegin eins langt og sá slóði liggur, en hann er grýttur mjög og nokkuð torfær og fjöldinn allur af stórum og smáum lækjum renna yfir hann svo þetta var mikið fjör. Ég er nokkuð sannfærður um að ég hefði rifið olíupönnuna undan gamla bílnum ef ég hefði reynt að fara þetta á honum. Æðislegt frelsi! Í dag er ég lítið sem ekkert búinn að gera annað en að vera þunnur og hangsa í tölvunni. Nú held ég að ég taki smá lestrartörn uppi í rúmi eða sófa og haldi mig inni við en það er aftur komið rok og rigning, en spáin lofar þó góðu frá og með þriðjudeginum. Þar til næst: lifið heil og góðar stundir!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2013 | 23:11
Gengur vel
Bara þessa fyrstu viku mína hjá Íslandssögu er ég búinn að vinna 12 yfirvinnutíma og vinnuvikan er ekki einu sinni búin, morgundagurinn er eftir! **Uppfærsla: komnir 18 tímar og 30 mín. betur núna á föstud.** Það má því segja að hvað tekjur varðar var þetta klárlega hárrétt ákvörðun hjá mér að skipta um vinnustað! Fólkið sem hér vinnur er af ýmsum þjóðernum auk Íslands en allt saman gæðafólk að því er mér sýnist og ég er að vinna með fínasta náunga. Vinnan hefur verið passlega erfið bara, ekkert mál, en það sem hefur aðallega vaxið mér í augum er að læra á bókhaldið, en það er í mínum augum, allavega enn sem komið er á meðan ég er að læra, æði flókið. Ég er sem sagt (aðallega) að vinna á endastöðinni þar sem fiskurinn er sendur af stað út í heim eða í verslanir og veitingastaði á Íslandi. En meira um það seinna. Í gær kíkti ég upp á bæjarfjall Suðureyringa, fjallið Spilli (Spillir í nefnifalli). Ég vildi endilega drífa mig upp á topp áður en óveðrið skylli á, en það á að gerast einhvern tíman á morgun, gott ef ekki í nótt, ég man það ekki alveg. Útsýnið af fjallinu var glæsilegt og alltaf gaman að svala forvitninni og sjá hvað er hinum megin við fjöll! Ég setti nokkrar myndir úr göngunni á síðuna mína hjá sports-tracker.com fyrir áhugasama að sjá. Ég hef bara einu sinni kveikt á nýja bílnum mínum síðan ég kom í Súgandafjörðinn en ég er að bíða eftir fyrstu launagreiðslunni sem kemur á fimmtudaginn eftir viku (borgað vikulega) en þangað til verður tankurinn ekki fylltur þó ég hafi raunar alveg fyrir eins og einni og hálfri tankfylli. Ég er samt blússandi ánægður með gripinn og hann verður sko notaður vel í framtíðinni og ég trúi því að hann muni reynast vel, sérstaklega á vondum vegum eða í torfærum og svellum. En ég má ekki vera að þessu hangsi, þarf að fara að sofa, mæting kl. sjö á morgnana. Góða nótt góða fólk
Bloggar | Breytt 31.8.2013 kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2013 | 02:26
Orðinn íbúi á Suðureyri við Súgandafjörð
Hér er ég staddur, í herbergi á Suðureyri, og velti því fyrir mér hvort ég gerði rétt, hvort ég er að fara að græða á flutningnum frá Sauðárkróki, eður ei. En ég hef samt sterka tilfinningu fyrir því að svo verði með tímanum. Þetta verður erfitt fyrst um sinn, að þurfa að byrja upp á nýtt að kynnast fólki, eignast nýja vini og venjast nýrri vinnu og umhverfi... en ég er dolfallinn fyrir Vestfjörðum svo að þó ég myndi ekkert græða meira fjárhagslega á flutningnum en það að eiga heima á Vestfjörðum (sem verður samt pottþétt raunin) þá á ég eftir að verða ánægðari hérna og geta sleppt ferðalögum í smá tíma á meðan ég er að safna pínulítið næstu þrjá mánuðina að minnsta kosti.
Ég er nokkuð heppinn með herbergið hérna get ég sagt ykkur. Það er næstum jafn stórt og herbergið á Króknum, en það er á jarðhæð (ég þurfti að ganga upp brattan stiga á Króknum) og bara eins og tíu skref frá sjoppunni og tuttugu skref frá sjónum og í svona 2-3 mínútna göngufjarlægð frá vinnunni. Svo er ég með þvottavél og þurrkara hérna sem ég var ekki með á Króknum (það var hryllilegt að handþvo, ég tek ofan fyrir forfeðrum okkar að hafa staðið í þessu!) og reyndar ekki eigið herbergi með sturtu og klósetti en sturta og klósett þó (að sjálfsögðu). Eldhúsið er svo alveg þokkalegt, með öllu því helsta: rafhellum, örbylgjuofni og grilli en reyndar engum bakaraofni, og svo eru ísskápar en ég sé samt fram á að ég muni vilja kaupa mér eigin lítinn ísskáp með frystihólfi til að setja inn í herbergið mitt.
Í framhaldi af fyrri færslu get ég sagt frá því að ég lét verða af þessu... ég keypti Súbarúinn og dýrka hann í botn! Þvílíkur munur á bílum... að keyra hann, hvað hann er stöðugri á veginum, kröftugur, cruise control, engin rúða biluð eins og á Daihatsúinum, það er miklu meira pláss, fjórhjóladrif!!.. og ýmislegt fleira. Applausinn var ágætur á meðan hann entist, og hann var með sál, en það var löngu kominn tími á skipti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2013 | 04:15
Allt gengur eins og í sögu!


Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2013 | 02:11
Vestfirðir, hér kem ég!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2013 | 00:50
Frí og þægilegheit



Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2013 | 00:00
3 dagar enn

Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2013 | 23:26
Næsta stopp: Hólmavík
Nú er um að gera fyrir mig að pakka niður tölvunni strax eftir þessa færslu og vera búinn að pakka öllu öðru líka svo ég geti brunað til Hólmavíkur strax eftir vinnu á morgun. Hamingjudagarnir eru semsagt núna um helgina, alveg satt í þetta sinn!! Ég var þó sannarlega ekki kyrr um síðustu helgi þó ég hafi haldið að hamingjudagarnir á Hólmavík væru þá, heldur fór ég í 1209 km rúnt frá Sauðárkróki til Bíldudals í gegnum Patró og Tálknó, svo til Ísafjarðar og loks til baka á Krókinn með stoppi á Hólmavík.
Ég er alveg kominn á þá skoðun að Bíldudalur sé í fallegasta bæjarstæði á Vestfjörðum, ef ekki á landinu öllu. Þvílík fjallafegurð allt um kring, og skjólið sem fjöllin veita og hafið og fuglarnir, húsin og bara allt! Og þar verða mörg atvinnutækifæri í framtíðinni svo hver veit hvað gerist hjá manni. En þó held ég að það sé líklegra að ég haldi mig 100% við það að komast á Ísafjarðarsvæðið því að þar eru svo miklu fleiri möguleikar og bærinn auðvitað miklu stærri og minna einangraður (þó það hjálpi Bílddælingum reyndar mjög mikið að það sé áætlunarflug þaðan til Reykjavíkur, eins og er á Ísó).
Ég myndi svo segja að Ísafjörður sé í næst fallegasta bæjarstæðinu og bærinn sjálfur sá fallegasti að mínu mati! Þarna er allt til alls; lágvöruverðsverslun; sérverslanir; þjónusta af ýmsu tagi; bíó; menning (t.d. Aldrei fór ég suður!); gamall, gróinn og sjarmerandi miðbær; skólar á öllum menntunarstigum; góðar flugsamgöngur og malbik alla leið til Reykjavíkur (en reyndar brjálæðislega löng akstursleið, en ég hef gaman af því að keyra og svo er Hólmavík á miðri leið!) og veðursæld í skjóli fjallanna og alvöru snjór á veturna en ekki bara slydda!
Eini mínusinn við Ísó fyrir mig er að sundlaugin þarna er innilaug með bara einum litlum heitum potti og það er dýrt í sund, en það er þó hægt að komast í flottari laug í Bolungarvík skilst mér, og svo er alveg frábær útisundlaug með þægilegum heitum pottum á Suðureyri sem er bara örstutt frá með bíl. Ég kom einmitt við á Suðureyri og skellti mér í pottana, en bærinn er sá eini sem hefur hitaveituvatn á Ísafjarðarsvæðinu.
Það verður svolítið erfitt að segja skilið við vinina sem ég hef eignast á Króknum og að þurfa að byrja á byrjuninni að kynnast fólki á nýjum stað. En þetta er þó mun léttara fyrir mig en flest annað fólk því að ég er einfari í eðli mínu og kann mjög vel við einveru annað veifið, ég meira að segja þarfnast hennar. Þó ég elski að eyða tímanum með fjölskyldunni og vinum mínum (og þeir skipta mig líka öllu máli í lífinu, bara svo það sé alveg klárt), og ég muni ávallt ferðast mikið til að hitta þá sem ég hef flutt í burtu frá, þá líður mér yfirleitt mjög vel einum í heilu dagana án félagslífs. Ég fæ mikið út úr félagsskap sem ég fæ á vinnustöðum og svo vindur sá félagsskapur alltaf upp á sig og færist út fyrir vinnustaðinn og áður en maður veit af er maður kominn með góða vini, hvar sem maður plantar sér niður.
En nú er nóg komið af pælingum í bili. Best að fara að pakka niður, það verður fjör á morgun. Allir að mæta á hamingjudaga um helgina, sjáumst þar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2013 | 15:37
Uss, kjáni ég

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðmundur B. Sigurðsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Gummi bloggar á spænsku Bloggið mitt þar sem ég æfi mig í að skrifa og tjá mig á spænsku.
Eldri færslur
2025
2024
2021
2020
2019
2018
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Bloggin
Vinir, fjölskylda eða aðrir
- Haddi frændi
-
Pétur Olsen og co
Fyrrverandi vinnufélagi minn og vinir hans í sameiginlegu bloggi, bara flott hjá þeim! - Bergþór bróðir
- Elín frænka
- Þórhallur
- Ari
- Mary
- Anna Hendrix
- Mist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar