Styttist í annarlok

Nú er bara þessi kennsluvika eftir og tvær að auki. Mér til ánægju hef ég getað vakað á daginn og sofið á nóttunni eins og venjulegt fólk nú í tvo daga! Ég vaknaði til dæmis í gær ferskur við fyrsta vekjara án þess að ýta á blundarann á símanum, og það var sama sagan í morgun (allt í lagi þá, ég blundaði í eitt skipti Whistling).

Ég vil fá snjó hingað til Reykjavíkur, þetta gengur ekki lengur. Það jákvæða er að Esjan er farin að sýna hvítan lit öðru hvoru og alveg niður í miðjar hlíðar, en betur má ef duga skal. Fönnin gerir allt bjartara og skemmtilegra og ég dauðöfunda fólk sem er núna statt fyrir norðan. Er ekki líka snjór á Vestur- og Austurlandi annars? Nú ætla ég að notfæra mér syfjuna sem er komin yfir mig þessa stundina þó það sé enn allt of snemmt að fara að sofa. Ég gæti farið að vakna upp seinna eins og svo oft, svo ég er bara farinn að sofa strax. Þá vakna ég bara sérstaklega snemma, það er allt í lagi, ég á eftir að læra svolítið fyrir sögutíma, gott að geta byrjað morgundaginn þannig.


27 dagar, glæsilegt :)

Nú er ég búinn að skokka 4 km á dag í 27 daga. Vonandi geri ég aldrei aftur þau mistök að hætta, en það gerði ég því miður árið 2009 og ég hef séð eftir því allar götur síðan, enda fékk ég hvert einasta kíló á mig til baka og kílói betur meira að segja.

Hástemmd blogg

Mér brá svolítið þegar ég kíkti á forsíðu Blog.is um daginn. Þar var varla hægt að finna einn einasta bloggara sem er bara að skrifa um daglegt líf og eigin hugleiðingar um hversdagslega hluti. Þarna má finna bloggsíður um hitt og þetta, blogg veðurfræðings, blogg trúboða, blogg eldheits áhugamanns um stjórnmál, blogg um fréttir, kreppuvælsblogg, blogg um ESB með eða á móti og svo framvegis, allt voða ,,hástemmt" eins og ég vil kalla þetta í léttu gamni. En varla er finnandi eitt einasta blogg ,,leikmanns" sem er einfaldlega að tala um sitt eigið líf og pælingar um hitt og þetta, eins og t.d. hvernig gaman væri að endurinnrétta íbúðina sína í framtíðinni, eða hversu ótrúlega flottan kött einhver hafi séð í gær!!! Það vantar bloggið um spennandi utanlandsferðina sem einhver er að fara í, bloggið um glæsilegan árangur í líkamsræktinni, bloggið um hversu illa einhverjum gangi að spara og það vantar blogg náungans sem gat einfaldlega ekki sofið og vildi endilega tilkynna það með nýrri færslu til að eyða tímanum!

Ég er hræddur um að ég verði að fara að hætta að blogga svo ég sé ekki eini ,,lágstemmdi" lúðinn innan um alla sérfræðingana í mikilvægu málefnunum. Ég virðist altént vera orðinn það hér í blog.is samfélaginu. Ég kenni Flettismettinu og Twitter um þetta. Ég trúi því samt ekki að ég sé einn eftir, þetta hlýtur bara að vera svona slæmt hérna. Ég þarf klárlega að leita betur á netinu.

Ein aðal ástæðan fyrir því að ég skrifa er reyndar sú að ég er að skrifa eigin hugleiðingar fyrir sjálfan mig, sem öllum er þó velkomið að lesa, en svo hef ég líka mikinn áhuga á íslensku sem og öðrum tungumálum, að þau séu skrifuð sem réttast og með sem fæstum slettum. Það finnst mér fallegt. Einnig hef ég aldrei gefið bloggið upp á bátinn því að ég er eldheitur áhugamaður um að komast út úr borginni eitthvað út á land og setjast þar að, en þegar sá draumur rætist gæti verið skemmtilegt fyrir vinina og ættingjana að geta gluggað í það hvað sé svona helst að frétta hjá mér í gegnum bloggið mitt. Ég verð þá líka að passa mig að skrifa ekki of mikið svo fólk þurfi líka að hringja í mig öðru hvoru!

En jæja, ég þarf að halda áfram að læra í nótt fyrir prófin tvö sem ég er að fara í á morgun. Fyrst ég get ekki sofnað er allt eins gott að læra bara fram á morgun. Miðað við hvað mér hefur gengið vel að vakna á morgnana held ég að ég þori hvort eð er ekki að fara að sofa núna því að þá gæti ég sofið yfir mig og misst af prófunum! Sko, þetta var ekki erfitt! Nú er ég búinn að koma með voðalegt ,,drama" úr eigin lífi um lágstemmt málefni sem engu máli skiptir fyrir aðra en gæti þó haft eitthvað skemmtanagildi, eða í það minnsta hjálpað einhverjum að drepa tímann. Ekki flólkið Wink


Skokkað alla daga

Mótvindurinn hafði sín áhrif í dag þó að sums staðar hafi verið skjól í Elliðaárdalnum. Ég þurfti að ganga meira en venjulega til að geta pústað aðeins. Þegar veðrið er til friðs þá er ég farinn að skokka alla leiðina nema í brattasta hlutanum á bakaleiðinni upp úr dalnum. Nokkuð sérstakt að sjá vatn í læk fara tvisvar sinnum niður sama fossinn í vindhviðunum áður en það hélt áfram sína leið. Það var líka komið ágætis klakalistaverk fyrir ofan fossinn. Nú er ég að tala um litla lækinn við Reykjanesbrautina en ekki þann stóra niðri í dalnum, en neðri foss þess lækjar var auðvitað ekki síður fallegur. Kári megnaði þó ekki að blása honum eins glatt upp fyrir sjálfan sig og hinum. Það er hægt að klæða af sér flest veður, mér leið bara ágætlega með húfuna á hausnum og svo hettuna rígbundna yfir svo hún héldist kyrr. Ef ég sleppi úr degi þá er ég svo hræddur um að ég sé hættur svo það geri ég ekki nema eitthvað mikið sé að. Nú er að læra um helgina og vona það besta, en ég fer í tvö próf á mánudaginn og eitt á þriðjudaginn.

Dæmigert

Fólk á lágmarkslaunum verður samkvæmt þessari reglugerð að vera þrælar húsnæðislána stórra = dýrra íbúða (eða leigja og eignast aldrei neitt) en má ekki velja að verða skuldlaust og frjálst í litlum = ódýrum íbúðum. Meira um málið hér.

Myrkur

Jæja, það er spurning að hrista af sér slenið og fara að læra. Mér sýnist það vera að birta til í höfðinu á mér og að ég geti því hætt að sofa mest allan sólarhringinn, og reynt í staðinn að verða 95% stúdent á önninni. Skólinn neitar að gefast upp á mér þó ég hafi helst viljað bakka úr þessu eins mikið og hægt væri. Skólinn hafði samband við mig sérstaklega til að fá mig ofan af því að draga í land og ég var hvattur áfram og sannfærður um að ég gæti þetta ennþá, þó að aðeins nokkrar vikur væru eftir. Ég þyrfti bara að spýta í lófana og þrauka út önnina. Er til betri skóli en FB? Ég held varla. Mér finnst að tilraun mín til að flýta fyrir andlegum bata með hreyfingu sé að bera árangur, ég þori varla að hugsa til þess hvernig ég væri búinn að vera án þessa daglega fjögurra kílómetra skokkhrings míns um Elliðaárdalinn. Mikið er leiðinlegt að vera svona samt. Þó hefur mér tekist að halda þunglyndinu niðri að mestu alveg síðan 2007. Svona smá lægð eins og núna er ekkert miðað við það sem ég var að kljást við fyrir þann tíma. Ég þarf bara að losna við athyglisbrestinn líka, ég á enn eftir að finna almennilega lausn á þeim vanda. Af hverju skrifa ég ekki meira þegar ég er upp á mitt besta? Þetta lítur út eins og sálfræðiviðtal við sjálfan mig. Ég er reyndar bara að skrifa hér pælingar fyrir sjálfan mig (þó fólki sé frjálst að lesa). Eitt í viðbót, áður en ég hætti. Eins staðráðinn og ég hef verið í að yfirgefa Reykjavík strax um áramótin, þá er ég farinn að fá bakþanka. Ef mér tekst að finna leið til að losna við 150.000 króna mínus eftir áramót, og eiga fyrir helstu nauðsynjum (á ég að selja bílinn og hjólið? Fá hlutastarf fyrir kraftaverk? Kaupa fullt af skafmiðum?!?) þá er ég jafnvel að velta því fyrir mér að fara í kvöldskólann í FB og veifa svo stúdentshúfunni í vor og ÞÁ loksins verð ég frjáls og get farið í fullt starf og eignast íbúð! Ég sé þetta í hyllingum.

Já...

Góðar fréttir fyrir mig! Rafmótorinn er kominn úr viðgerð og við pabbi settum hann aftur á hjólið í gær. Hjólið virkar fínt núna og tryggingin náði yfir allan kostnaðinn! Nú er stefnan sett á að hjóla sem oftast í skólann og víðar, nema kannski þegar veðrið er verulega leiðinlegt, og þá er ég fyrst og fremst að tala um BLEYTU. Ég get klætt kuldann af mér og rokið truflar mig ekki, en mér finnst ekkert leiðinlegra en að verða gegnblautur. Það allra besta við að fara í skólann á hjólinu er að losna við að finna stæði, en það er hrein geðveiki að reyna að fá stæði hjá FB á annatímum. Ef ég kem of seint þá þarf ég að leggja í allt að 250 metra fjarlægð frá anddyri skólans, sem gerir mig enn seinni, en ef það væri búið að leggja í öll stæði nema það fjarlægasta sem leyfilegt er að leggja í, þá væri fjarlægðin orðin heilir 350 metrar (hjá Leiknishúsinu), takk fyrir!

Ég er ekki mikill aðdáandi Facebook, en ég á marga vini á síðunni sem ég vil geta spjallað við. Mér til mikillar gleði er til svokallað Facebook spjallforrit sem gerir mér kleift að spjalla við Fb-vini mína og vera sýnilegur þeim, án þess að nota Facebook síðuna sjálfa. Ég setti upp forritið í dag og mun því verða mun oftar sýnilegur (flestum) Fb-vinum mínum, en líklega mun ég nota Facebook enn minna en verið hefur, og hef ég þó lítið notað það undanfarið! Það er alveg gulltryggt að maður segi eða geri einhverjar bölvaðar vitleysur öðru hvoru á þessari síðu, sem maður svo dauðsér eftir, eða að maður fái kjánahroll yfir einhverju sem aðrir séu að gera. Fínt að losna við það... að minnsta kosti þar til ég skipti aftur um skoðun! Það er mun betra að tjá sig bara hér, og skrifa eitthvað kjánalegt sem færri eru að kíkja á, og sem líklegra er að réttir aðilar skoði, heldur en að nánast allir manns ættingjar og annað fólk, sem maður hefur sett á vinalistann sinn sjái, hvort sem þeir höfðu áhuga eða ekki, því að allt sem maður skrifar á Facebook, birtist í einhverri ,,fréttaveitu" síðunnar. Mér er alveg sama þó að ókunnugt fólk slæðist hingað inn að lesa, það fólk veit hvort eð er nánast ekkert um mig og þó svo einhverjir þeirra yrðu reglulegir lesendur og jafnvel skrifuðu athugasemdir þá væri það bara allt í lagi. Það er bara gaman ef einhver ókunnugur sýnir skrifum manns áhuga, sá aðili er þá að koma hingað af þeirri ástæðu að honum eða henni líki við eitthvað í fari manns. Á Facebook, ef maður skrifar allt í einu að það eigi að ,,skjóta alla refi," eða maður skrifar að það eigi að ,,láta grey refina í friði," þá sjá það allir og fólk mun skiptast í fylkingar með eða á móti! Hérna fær maður auðvitað líka kannski bæði jákvæða og neikvæða gagnrýni, en munurinn er sá að sá sem er á móti lífsskoðunum mínum skrifar mig fljótt sem aula og hættir svo oftast í kjölfarið að heimsækja mig, vitleysinginn Wink. Það er þægilegra að vera meira óskrifað blað í augum náungans sem hefur ekki áhuga á mér en hendir mér þó ekki af vinalistanum sökum blóðtengslanna eða annarra tengsla!

Það er sannarlega ekki allt ljúft í lífi mínu þessa dagana þó margt sé gott, eins og með hjólið. Ég hef átt við mikinn athyglisbrest að stríða alveg síðan skólaönnin hófst, sem hefur komið niður á náminu, en svo hef ég verið að kljást við miklar svefntruflanir að auki. Nú hefur þunglyndi bæst við auk sjúklegrar frestunaráráttu (oft fylgifiskur þunglyndis), en ég áttaði mig ekki strax á að ég væri kominn með þunglyndi því að það kom svo lúmskt, hægt og rólega. Það tengist eflaust klemmunni sem ég er í, að ná ekkert að einbeita mér að náminu, og að átta mig svo á því í framhaldinu, að von mín um útskrift fyrir jól væri runnin út í sandinn. Svo eru það fjármálin sem valda mér áhyggjum, en ég er í mínus og veit ekkert með starf eftir áramót, hef ekki enn fengið nein alvöru svör frá vinnuveitendum sem ég hef haft samband við, en reyndar á ég eftir að sækja um á fullt af stöðum. Ég gerði mér loks grein fyrir að ég væri nú með snert af þunglyndi þegar ég fór að hugsa um það hvað ég er farinn að sofa mikið. Ég er farinn að nota öll möguleg tækifæri til að sofa og þó ég sé til dæmis vakandi núna um miðja nótt, þá er ég að sofa miklu meira en venjulegan sólarhrings-dagskammt. Stundum sef ég meira að segja mest alla nóttina en samt legg ég mig heillengi eftir skólann. Þetta er ekki skemmtilegt, en mitt sterkasta vopn gegn þunglyndinu er að ég veit að það er bara í höfðinu á mér, og líf mitt hefur nákvæmlega ekkert orðið svona hræðilegt allt í einu. Það er einfaldlega dökkt ský í höfðinu á mér, það er allt og sumt. Samt losna ég ekki við þunglyndið, en það að vita að þetta er bara höfuðið gerir mér kleift að halda ,,næstum því" mínu striki, fara í sund, fara út og skokka, kíkja í heimsóknir (sem ég mætti þó gera meira af) og gera aðra uppbyggilega hluti, tja, auk þess að sofa svo þegar mér dettur ekkert skárra í hug! Hafið því engar áhyggjur af mér, ég mun jafna mig Pouty, og alveg sérstaklega þegar önnin er búin og ég fer að vinna aftur og ég get farið að enduskipuleggja tilveruna og hafa efni á að lifa í þessum blessaða efnisheimi. Það er bara staðreynd að þó að hamingjan fáist kannski ekki fyrir peninga, þá fæst öryggistilfinning og minni áhyggjur fyrir peninga, og hægt er að gera örlítið vel við sig án þess að óttast að fá það í bakið á gjalddaga.

Jæja, best að fara kannski að sofa? Happy


Skokkið

50,6 km komnir á 12 dögum (4,22 km u.þ.b. á dag). Byrjaður að léttast, þokkalegt!

Mér gengur því miður ekki eins vel í skólanum, ég mun ekki ná að útskrifast á þessari önn og peningarnir eru búnir svo ég neyðist til að hætta námi óútskrifaður og fara í fullt starf. Útskriftinni mun því seinka um kannski 1-2 ár en fjandinn hafi það, ég skal verða stúdent fyrir þrítugt. Ég er búinn að fá nóg af því að búa ekki í eigin íbúð orðinn þetta gamall svo ég er að fara á leigumarkaðin þegar ég er búinn að finna mér vinnu einhversstaðar á landsbyggðinni en mig langar ekki að búa á höfuðborgarsvæðinu af ýmsum ástæðum, þó mér sé alltaf hlýtt til Reykjavíkur. Það er bara of dýrt að búa hér, ég sætti mig ekki við að verða íbúðarlánsþræll til eftirlaunaáranna og ég sætti mig heldur ekki við að borga meirihluta launanna í leigu. Svo er líka bara yndislegt að búa á litlum stað eða í sveitinni.


4. dagur

16,88 km komnir á fjórum dögum. Eftir viku verður þetta orðið rútína Smile

Þyngd 14. okt. - 99.0 kg


Fyrsti skokkdagur

Fyrsti goslausi dagur og skokkdagur

14. október 2012 :)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband