Sumarið að koma

Jæja, þá er komið að því að bera út Fréttablaðið í síðasta skiptið í vetur, best að ljúka því bara af strax. Ég kvarta ekki yfir þessari yfirleitt þægilegu vinnu en þetta er orðið gott í bili. Síðasta lokapróf annarinnar er 9. maí næstkomandi, svo hef ég nokkra frídaga í borginni áður en ég fer að vinna á Hólmavík í sumar :)

Veðrið

Það er búin að vera alveg ótrúleg blíðan og sólin undanfarna daga, alveg þveröfugt við þessa 2-3 mánuði í kringum áramótin þar sem aldrei þornaði jörð, aldrei, vegna gríðarlegrar og stöðugrar snjókomu og einnig rigninga á köflum (auk vinda). Í nótt var víst tuttugu stiga munur á heitasta og kaldasta stað á Íslandi, það munar um minna. Ég er ekki með nánari upplýsingar um þetta á hraðbergi því að ég heyrði þetta bara í útvarpinu. Mér datt svona í hug að kasta þessu hér inn, fólk talar jú mikið um að ef vetur og sumar frjósi saman þá verði gott sumar, og sumardagurinn fyrsti var jú einmitt að renna sitt skeið síðastliðna nótt. Þá er það bara spurningin hvort að þessi tuttugu stiga hitamunur hafi orðið fyrir eða eftir miðnætti :P

Uppfærsla: Hér er þetta!

Á Stórhöfða, þar sem var heitast á landinu, var semsagt rúmlega sjö stiga hiti og á Þingvöllum, sem eru í aðeins 104 km loftlínu frá höfðanum, var tæplega níu stiga frost, sem er ótrúlegur hitamunu á svona stuttri leið, og mesta frostið á landinu á sama tíma var á Setri nálægt Öræfajökli, en þar mældist tæplega 14 stiga frost. Þetta gerir víst 20 stiga hitamun svo nú er þetta vonandi rétt (heimildir af Vísi.is og Google Earth).

Gleðilegt sumar :)

 


Já páskaegg eru óholl

Ég var að smjatta á páskaegginu mínu góða í kvöld og ákvað að gæða mér á karamellu-brjóstsykrinum sem var í því. Viti menn, er ég tuggði á honum í sakleysi mínu þá losnaði stórt stykki úr næst fremsta jaxlinum mínum. Mig grunar að stykkið sé hluti af viðgerðunum sem voru gerðar á tönnunum eftir að bíll sem ég var í lenti í árekstri fyrir nokkrum árum. Ég hefði betur sogið karamelluna góðu en að reyna að tyggja hana.

Loksins get ég verið B í nokkra daga

Núna í páskafríinu hef ég getað haldið sólarhringnum eðlilegum fyrir minn líkama, ég fer að sofa klukkan þrjú eða fjögur á nóttunni og vakna um hádegið á daginn, enda er ég loksins óþreyttur þegar ég er vakandi. Ég hef barist við það alla ævi að reyna að sofa og vaka þegar annað fólk sefur og vakir en niðurstaðan verður alltaf sú sama, andvökur hálfa nóttina og mikil þreyta á daginn.

Páskafrí og námið

Ég hef það alveg rosalega gott nú í páskafríinu. Er útsofinn alla daga, ég kíki í heimsóknir og veðrið er gott. Það skrítna er þó að mig hlakkaði samt ekkert sérstaklega til frísins. Það er líklega vegna þess að mig grunar að lokaspretturinn í skólanum eigi eftir að verða mér erfiður á þessari næst síðustu önn hjá mér. Og vegna þess að ég vil alls ekki að þetta verði þriðja síðasta önnin í staðin fyrir þá næst síðustu þá verð ég eiginlega að byrja að læra af krafti frá og með morgundeginum, nota þetta frí í það verkefni að minnka líkurnar á föllum í mínum veikustu greinum, sem eru því miður þrjár af fimm. Mér er búið að ganga vel í náttúrufræðinni og sálfræðinni en það hallar undan fæti í íslenskunni, stærðfræðinni og spænskunni. Þannig að ég mun líklega ekki geta notið páskanna nema byrja að læra því að annars fæ ég bara áhyggjur sem munu magnast eftir því sem nær dregur frílokum. En ég vona semsagt að ef mér gangi vel að læra á morgun og ég sjái árangur þá létti á áhyggjunum.

Kostur og rafhjól

Ég fór í Kost í fyrsta sinn frá opnun í dag (ég og Elvar Árni í leit að gamla Cocoa Puffsinu, þar með var loksins komin ástæða til að kíkja þangað!). Ég á enn eftir að sjá Korputorg en hvatinn til þess er enginn :P ...En það sem er meira um vert...ég prófaði loks rafhjól (rafmagnsreiðhjól) og vá, reynslan var langt yfir væntingum, mig langar svo í !!

Klapparinn klár

Jæja, þá tel ég mig vera búinn að græja Applausinn fyrir skoðun. Ég hef skipt um báða afturdemparana og í dag var skipt um allt pústkerfið nema aftasta kútinn og rörið þaðan. Heildarkostnaðurinn er kominn í hundrað þúsund kallinn takk. Veskið hefur verið í léttavigt síðan sumarféð kláraðist snemma árs og síðan þá hafa bílaviðgerðirnar gleypt öll blaðberalaun og vel það. „Klapparinn" á að fara í skoðun núna í mars en það verður að bíða fram í apríl. Það er því ekki skrítið að mig sé vel farið að lengja eftir sumarvinnunni. Annars gengur bara ágætlega hjá mér í skólanum þó ég þurfi aðeins að herða róðurinn. Ég sé fram á að geta útskrifast á næstu önn og skólinn virðist vera sammála því ég fékk nýlega rafpóst þar sem ég var spurður hvort ég ætlaði ekki að útskrifast á næstkomandi haustönn, og að ef svo væri (og ekkert væri að klúðrast) þá skyldi ég endilega hafa samband við áfangastjórann og fá hjálp við lokavalið. Æðislegt!! Framtíðin er sumsé klár þótt aurinn sé fár :)

Sniðug síða fyrir landafræðinörda og ferðafólk

Þessi síða getur gert alls konar sniðuga landafræðiútreikninga fyrir okkur, meðal annars getur hún fundið út þungamiðju búsetu manns sem er þá sá punktur sem er á milli allra staða sem maður hefur búið á. Einnig, sem er klannski sniðugra, sérstaklega fyrir fólk sem býr fjarri hvort öðru og vill hittast mitt í miðjunni, þá er þarna að finna forrit sem reiknar út nákvæma miðjuna á milli tveggja einstaklinga, bæði ef farið er eftir vegi og í loftlínu. Þannig prófaði ég til dæmis að finna út hvar Hólmvíkingur og Reykvíkingur ættu að hittast ef báðir aðilar ætluðu bara að fara hálfa leið að heimabæ hins. Niðurstaðan varð sú að maður er nákvæmlega hálfnaður í miðri Bröttubrekkunni! En ég er samt aðallega að nördast þetta vegna almennra leiðinda og ætla nú að fara að skella mér í bælið. En hér kemur síða þessi: Geographic Midpoint Calculator

Orðinn fjarsýnn

Þá er ég orðinn gleraugnaglámur frá og með gærdeginum, það er að segja þegar ég les. Það er þó enginn skaði skeður því ég lít bara ágætlega út með gleraugun á nefinu! Það mun þó örugglega taka sinn tíma að venjast þessu og verður skrítið að láta allt í einu sjá sig með gleraugu á nefinu til dæmis í skólanum og á fleiri stöðum. Ég greindist semsagt með +0,75 á hægra auga og +1,25 á því vinstra. Aðdragandinn var sá að ég var lengi búinn að átta mig á að ég væri farinn að sjá óskýrt stundum þegar ég læsi eða væri við tölvuna, en lét það ekki trufla mig og vandist því einfaldlega. En það sem á endanum rak mig til augnlæknis var það að fyrir tæpum tveimur mánuðum fór ég öðru hverju að fá ægilega verki í augun, sérstaklega á kvöldin eða eftir lestur. Ég náði samt ekki samhenginu en hafði vitanlega áhyggjur af verkjunum og hélt kannski að það væri eitthvað alvarlegt að svo ég ákvað að panta tíma hjá augnlækni. Þar fékk ég fyrrgreinda sjóngreiningu og fékk líka þann fróðleik að verkirnir stöfuðu einfaldlega af því að þegar vöðvarnir sem stilla skerpuna í augunum eru búnir að reyna á sig lengi þá endar hreinlega með að maður fær harðsperrur í þá! En lesgleraugu hjálpa til á þann hátt að auk þess að laga skerpuna að þá þurfa þessir vöðvar ekki lengur að reyna svona á sig og verkirnir hverfa. Ég er allavega feginn að vita nú hvað er að og ég er nú þegar búinn að kaupa mér „+1 bensínstöðvargleraugu” sem ég ætla að nota þar til ég hef efni á sérhönnuðum, en þau eru allt að 20-30 sinnum dýrari sem er meira en ég ræð við næstu mánuði sem fátækur námsmaður! En jæja, þetta er nóg blaður í bili um sama hlutinn, lifið heil :)

Venus

[Þessu hér] verð ég að muna eftir í sumar! Annað tækifæri mun mér ekki gefast á minni ævi, þótt ég slægi heimsmet í háum aldri þá dygði það ekki til að ég væri enn á lífi í næsta skiptið!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband