Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Margt að ,,ske"

Þetta er búin að vera skrautleg vika hjá mér en samt er hún ekki nema rúmlega hálfnuð. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á Óskarsverðlaunahátíðinni og reynt að sjá hana sem oftast, en það er oft þrautin þyngri því að þau þurfa endilega að hafa hana á sunnudagskvöldi í stað laugardagskvölds. Það að hátíðin sé haldin á sunnudagskvöldi þýðir það að í mörgum löndum austan við Bandaríkin er klukkan einfaldlega orðin allt of margt ef fólk á að geta sofið eitthvað áður en það mætir til vinnu daginn eftir. Ísland, sem er vestasta Evrópulandið er í raun í bestu stöðunni innan álfunnar hvað þetta varðar, en í löndum á borð við Indland þá er nú bara næsti vinnudagur hafinn á meðan á hátíðinni stendur. En ef Óskarinn væri hafður á laugardegi gætu allir jarðarbúar sem eru í helgarfríi horft á hátíðina. En nú er þetta orðin örlítil lengri langloka en ég hafði ætlað mér.

Það sem ég ætlaði að segja er að til að geta horft á Óskarinn án þess að vera eins og liðið lík af þreytu í vinnunni þá ákvað ég að prófa hreinlega að sofa ekkert um laugardagsnóttina, ekki fyrr en í fyrsta lagi klukkan 7 að morgni sunnudags, og sofa svo mest allan daginn. Það gerði ég og ég vaknaði ekki fyrr en að nálgast fjögur eftir hádegi en þá varð ég nú að vakna til að hlusta á þáttinn ,,Og svaraðu nú'' á Bylgjunni með Hemma Gunn, því að mamma var í þættinum í þetta skiptið (og stóð sig bara vel í spurningunum), ég hefði ekki viljað missa af því!! En svo ég haldi áfram; síðan hófst útsendingin frá Óskarnum á miðnætti að íslenskum tíma og ég horfði á hann allt til enda þegar klukkan var orðin svona fimm um morguninn! Það þýddi að ef ég vildi leggja mig hafði ég bara rúman klukkutíma til þess, en þetta átti að vera í fínu lagi því ég hafði jú sofið allan sunnudaginn til undirbúnings. En mjög fljótlega í vinnunni var ég orðinn dauð, dauðþreyttur og var gjörsamlega að leka niður  í lok dags, þannig að þetta hafði af einhverjum ástæðum mistekist hjá mér. Líklega svaf ég ekki nógu lengi út, nema þá að líkamsklukkan mín vilji bara ekki leyfa mér svona hringl!

Á þriðjudaginn rölti ég þvert yfir bæinn til að komast í iðnaðarhverfið í þeim endanum, í þeim erindagjörðum að gera aðra tilraun með að fá eitthvað bílaverkstæðið til að skipta um bensínleiðsluna á Applausinum. Ég hitti Nonna nokkurn sem tók að sér verkið og var til í að sjá um að draga bílinn frá staðnum þar sem ég hafði þurft að skilja bílinn eftir við hliðina á fyrra verkstæðinu, yfir á sitt verkstæði! Í stuttu máli ætti bíllinn að vera tilbúinn á morgun, föstudag, og þá er ég loksins kominn á bíl eftir tæplega þriggja vikna bílleysi. Ég er staðráðinn í að komast til Reykjavíkur í þetta skiptið, það skal takast, ef ekki á mínum bíl, þá bara hreinlega með næstu rútu.

Ég gerði góðan ,,díl'' í vinnunni í dag. Ég keypti eina öskju af ýsu nánast beint úr skipinu á góðu verði, en þó að Fiskiðjan (Fisk Seafood ehf.) sé ekki með landvinnslu á ýsu þá er hún veidd af skipum vinnslunnar en verkuð um borð og fryst í 9 kílóa öskjum, roð og beinlaus. Ég er með vatn í munninum að komast í að elda mér nokkur flök, en ég ætla klárlega að raspsteikja hana og borða með soðnum kartöflum og kokteilsósu, namm! En heil askja er full mikið fyrir mig ef ég vil hafa pláss fyrir eitthvað annað líka í frystihólfinu mínu svo ég ætla að láta fjölskylduna fá ,,smá" í soðið.

Svakalega get ég blaðrað mikið nú orðið, þetta er gott í bili, meira seinna Happy


Heppinn!

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi í kvöld að komast á fyrirlestur hjá Vilborgu Örnu Gissurardóttur suðurpólsfara. Ég fór í sund í dag og frétti þar fyrir hreina tilviljun að hún væri komin á Sauðárkrók til að halda fyrirlestur um ferðina sína klukkan átta í kvöld, og ég var ekki eina sekúndu að ákveða að mæta. Ég fylgdist með henni öðru hvoru á meðan hún var í leiðangrinum og dáðist að ákveðninni og viljastyrknum. Hún var komin á þægilegan stað í lífinu og komin í eigið húsnæði en fórnaði öllu til að láta draum sinn rætast sem hafði kviknað um tíu árum fyrr. Hún eyddi öllum þeim tíma í ýmiss konar undirbúning, líkamlegan, fjárhagslegan og andlegan. Hún gat þó með ferðinni líka látið gott af sér leiða með söfnun sinni fyrir kvennadeild LSH. Meðal annars dvaldi hún ein á Grænlandi í nokkrar vikur án sambands við umheiminn, fór í göngur yfir stóra jökla og fleira. Hún sagðist hafa þurft að yfirstíga endalausar hindranir til að úr ferðinni yrði, þannig að hún hefði getað verið búin að gefast upp mörgum sinnum í ferlinu... en gerði það ekki! En svo ég sé ekki að kjafta of mikið frá, því hún er væntanlega enn að halda fyrirlestra ef einhver hefur áhuga, þá segi ég ekki meira í bili! Í stuttu máli þá er Vilborg mér mikil hvatning til að gera nú eitthvað krefjandi í lífinu og að setja mér markmið og láta þau rætast, hún er manneskja sem ég lít upp til. Þetta hefur verið næstum það eina sem ég hef litið á sem ókost við að búa úti á landi, að missa reglulega af einhverju svona, þannig að ég bjóst síður en svo við að komast á þennan fyrirlestur, verandi í smá mínus, með bilaðan bíl og fastur hér. Ég segi því beint: Takk fyrir að koma! Flott kona og heppinn ég.

Alveg glatað

Þessa helgina langaði mig mjög til að skreppa suður í Reykjavík til að hitta fjölskylduna og mögulega Halldór, Guðna og fleiri sem ég hafði frétt að ætluðu að hittast og fá sér pitsu saman. Ég fór því með bílinn minn til kalls sem var til í að laga bensínlekann á bílnum þó það væri laugardagur, enda venjulega fljótlegt verk. Það gekk nokkurn vegin svona: Í fyrstu virtist þetta ætla að heppnast og viðgerðarslöngubúturinn kominn á sinn stað. En er ég kveikti á bílnum þá kom fram leki á ný, í þetta sinn við hliðina á viðgerða svæðinu. Bílnum var því lyft upp á ný og málinu reddað. Karlinn sagði mér svo að aka stuttan hring og koma til baka til að sjá hvort þetta væri nú ekki komið núna. En nei, aldeilis ekki, núna var kominn leki á þriðja staðnum, hinum megin við viðgerðarbútinn. Nú var ég farinn að hjálpa til svo þetta gengi betur. Bíllinn var látinn síga niður í þriðja sinn og ég kveikti á honum og bakkaði út úr verkstæðinu. Nú er lekinn verri en nokkru sinni því það míglekur núna undan bílnum ef kveikt er á honum. Ég gat ekki gert kallinum það að krefjast þess að hann héldi áfram því verkið var búið að taka tvo og hálfan tíma og ég aðeins búinn að borga fyrir einn! Þetta er leiðinda ástand og súrt að komast ekki í bæinn núna í besta veðri sem hefur komið hérna á árinu, allir vegir greiðfærir og ekki einu sinni hálkublettir á leiðinni.

Hitt og þetta

Mmm, jæja, þá voru kjötbollur með brúnni sósu í matinn..........úr dós Sideways Eeen ég sauð kartöflurnar samt sjálfur af stökustu snilld Wink Rosalega gott skal ég segja ykkur, Ora er málið! Ég var mjög heppinn í dag. Ég hafði týnt úrinu mínu fyrir nokkrum dögum og var búinn að eyða löngum tíma í að leita að því án árangurs, svo ég var farinn að hugsa ,,alveg dæmigert að týna úrinu mínu loksins þegar ég er farinn að eiga peninga" en sams konar úr kostaði um 7-8.000 krónur fyrir nokkrum árum. En viti menn, rek ég ekki augun í það hangandi uppi á vegg á áberandi stað í vinnunni. Það hafði greinilega einhver vinnufélagi minn fundið það fyrir mig, lán í óláni! Vinnudagurinn var fjölbreyttur í dag. Ég hóf daginn á að pakka þurrkuðum skreið, svo var ég að spyrða saman (í tveggja-kippur) smáþorska sem síðan eru hengdir upp úti í hjöllum til þerris... sem var einmitt það sem ég gerði næst, í þessu fína veðri. Dagurinn endaði svo á að ég vann við að seila saman nokkrar kippur af þorskhausum sem fara sömuleiðis út í þurrkun á morgun (en þá eru um 16-18 hausar í hverri kippu). Ég veit ekki hvað skal meira segja. Ég er að spá í að fara að vinna í að koma bílnum í viðgerð núna eftir útborgun á morgun, það verður fínt að eiga á ný möguleikann á að skreppa eitthvað út fyrir Krókinn, en það góða sem kom út úr biluninni er það að ég er alveg hættur að keyra innanbæjar, geng þetta bara allt saman sem er alveg gerlegt, þó það sé skrambi lang út í Skagfirðingabúð eða í Hlíðarkaup. Ég fór í bíó í gær á myndina ,,Django Unchained" með leikstjóranum Quentin Tarantino og mikið svakalega er þetta góð mynd!!! Það verða allir að fara á hana (sem þola myndir bannaðar börnum), allir! Ég ætlaði fyrst ekki á myndina en vinir mínir í vinnunni voru allir slefandi yfir henni eftir að hafa farið á hana svo ég sló til. Besta bíómynd sem ég hef séð í nokkur ár, hasar vestri! Ég segi ekki meira, sjón er sögu ríkari...og heyrn.


Súrt og girnilegt...ehemm...

Ég komst í þorramat eftir allt saman!!! Fjárhagurinn er loksins að komast í góð mál og ég held að héðan í frá muni ég eiga meira en einn þúsund kall daginn eftir útborgunardag!! Ég fór út í búð og keypti loksins nokkrar nauðsynjavörur sem mig hefur skort, eins og t.d. þvottaefni og eldhúsrúllu, og svo eitthvað gott matarkyns annað en núðlupakka á 49 kr. stykkið! Ég keypti mér líka smá sýnishorn af þorramat af kjötborði Skagfirðingabúðarinnar. Sama hvað hægt er að segja um þorramatinn, þá er hann einfaldlega eitthvað sem maður verður að smakka að minnsta kosti einu sinni á ári, eða það finnst mér svona eftir að ég fullorðnaðist. Ég elska svona hefðir, og viðurkenni alveg að ég gretti mig oftast þegar ég er að borða sumt af þessu, en svei mér þá ef mér er ekki bara farið að finnast hákarlsbiti góður! En hvalspik mun ég aldrei láta aftur inn fyrir mínar varir. Ég var einu sinni á þorrablóti á Hólmavík og var eitthvað utan við mig og setti óvart hvalspik á diskinn í staðinn fyrir hákarlinn. Ég hélt ég myndi æla á staðnum er ég stakk einum bita upp í mig og gamla fólkið sem sat við hliðina á mér skemmti sér við að fylgjast með mér, gott ef þau hlógu ekki bara að mér. Svo sagði einn kallinn að hvalspik væri svo gott, bara eitt það besta sem hann fengi....OJJ BARA, ég verð grænn í framan!!! En eins og ég segi, ég borða allt hitt með glöðu geði þó þetta sé mis bragðgott allt saman. Ég keypti mér nú bara súra sviðasultu, hrútspunga og súra lifrarpylsu í þetta sinn og hef verið aðeins lengur að klára þetta en ég bjóst við. Það hefst fyrir helgi. Happy

Tortillur og hangs

Ég eldaði mér tortillur í kvöld, svakalega eru þær seðjandi og bragðgóðar með hakki, grænmeti og öðru góðgæti, namm! Ég hef tekið því rólega þessa helgi og lítið gert, sem mér finnst bara frábært. Það er gott að hanga stundum og sem fyrrverandi nemi veit ég svo sannarlega að það er ekki sjálfsagður hlutur sem allir geta gert. Ég tók mig þó til og handþvoði fötin mín og hengdi upp til þerris og fór svo út nokkrar ferðir með fötu af vatni og jós yfir bílinn minn á meðan ég reyndi að nudda drulluna af honum frá því um síðustu helgi er ég skrapp til Hólmavíkur, en þeir sem vilja fara þangað frá Norðurlandi verða að fara um malarveg nema þeir aki alla leið yfir Holtavörðuheiðina og beygji til hægri upp Bröttubrekku en það er töluvert lengri leið. Ég hef ekki hreyft bílinn núna í tæpa viku og það verður víst þannig þar til ég hef efni á viðgerð á bensínleiðslunni undir honum. Ég hef því gengið mikið undanfarið, í vinnuna og sund, banka og í búðir en það er töluvert langt fyrir mig að ganga í stærri matvörubúðir hér á Króknum, en það er þó bakarí og pínulítil ,,allt mögulegt" búð hér rétt hjá húsinu mínu. Þó mér líki vel við bæði vinnuna mína og Sauðárkrók, herbergið og fólkið sem hér býr þá hef ég það á tilfinningunni að ég verði ekki til frambúðar hér. Hingað kom ég því mig bráðvantaði vinnu strax, og ég fékk jákvætt svar við fyrsta símtal hjá Fiskiðjunni. Ég finn að Vestfirðir toga í mig, og mér leið svo vel að komast í smá heimsókn til Hólmavíkur síðustu helgi. Annað hvort enda ég aftur á Hólmavík eða á Ísafjarðarsvæðinu, held ég, en maður veit aldrei hvað gerist. Ef ég fæ einhvers staðar frábært atvinnutækifæri á landsbyggðinni þá enda ég auðvitað þar. En jæja, best að fara að leggja sig. Ég var næstum farinn út á lífið í kvöld (þessi tuttugu skref!!) en stóðst freistinguna með naumindum, ég verð að forgangsraða eyðslunni, það er nægur tími fyrir djamm á komandi tíð! Sideways

Króksbíóferðir

Ég fór á myndina ,,Bullet to the Head" með Sylvester Stalloone í kvöld sem var bara hin ágætasta mynd. Kallinn er ennþá með þetta! Aðsóknin var hins vegar frekar léleg í þetta skiptið því miður. Sjáum hvort Bruce Willis gangi betur á morgun í myndinni ,,A Good Day to Die Hard," ég held reyndar að svo verði. Ég ólst upp á gullaldarárum þessara kappa svo að þeir verða alltaf í uppáhaldinu og ég held tryggð við þá áfram. Ég varð að leyfa mér að sleppa mér aðeins svona fyrst það var útborgunardagur í dag, er það ekki? En ég verð alveg sáttur eftir myndina á morgun og þá verður ekki spreðað mikið meira í bili! Ég meina, maður fer ekki að missa af Bruce Willis, er það?!

Ferðalag

Þá er enn ein helgin að baki. Ég skrapp til Hólmavíkur á föstudaginn, en ég ákvað að skella mér því að vinur minn úr vinnunni, sem er frá Ísafirði og langaði að komast þangað, splæsti hluta af bensíninu og kom með mér til Hólmavíkur, en hann var svo tekinn uppí á Reykjanesinu (ég fór semsagt aðeins lengra en á Hvk!) af félaga hans og þeir héldu áfram til Ísafjarðar. Þannig komst ég norður þó ég hafi í raun ekki haft efni á því eins og er. Ég fékk gistingu á Stakkanesinu og hitti nokkra ættingja og vini. Veðrið var gott svo ég var mikið úti við og skrapp t.d. í sund (bæði á Hólmavík og svo notaði ég tækifærið og dýfði mér líka ofan í Reykjaneslaugina fyrst ég var nú að skutlast þangað, sem gerist næstum aldrei). Ég lenti hins vegar í vandræðum á bakaleiðinni því að bensínleiðslan undir bílnum fór að leka svo ég varð að eyða síðustu aurunum mínum í að setja auka bensín á bílinn svo ég yrði ekki mögulega stopp áður en ég kæmist til baka á Krókinn, bölvað vesen! Ég er semsagt búinn að taka bílinn úr notkun í bili þar til ég hef efni á að láta laga þetta fyrir mig, en ég get auðvitað ekki fengið hjálp frá pabba hér á Króknum svo það er líklegt að ég verði að splæsa á verkstæði því ég er ekki viss um að ég treysti mér í að fikta í þessu sjálfur. Bílaviðgerðir eru alls ekki mín sterka hlið þó ég sé kominn með ágætis akstursreynslu við allar mögulegar aðstæður. Ég varð líka að aftengja rafgeyminn fyrst ég er hættur að keyra í bili því að einhvers staðar afhleður bíllinn sig líka. Vonandi styttist í að ég fari loksins að hafa eitthvað á milli handanna en ég er orðinn dauðþreyttur á þessu fjármálaástandi hjá mér sem hefur staðið yfir mun lengur en ég bjóst við, en ég hef varla fengið neina yfirvinnu af viti síðan ég byrjaði hjá Fiskiðjunni svo launin eru í algjöru lágmarki. En til að enda þessi skrif skemmtilega þá tróð ég í mig bollum í dag í tilefni bolludagsins, en ég var svo heppinn að það var fullt af matargikkjum sem litu ekki við bollunum sínum sem allir fengu með kaffinu í dag svo það þýddi auðvitað bara að það var meira eftir fyrir okkur hin!! :D

Loksins fiskur í matinn hjá mér síðan ég flutti

Ég prófaði í dag að steikja karfa sem ég nældi mér í úr vinnunni. Flökunin hjá mér var skömm og sem betur fer sá enginn, tja, enginn nema einn af leigjendunum hérna mig við þá vinnu. Nýtingin var ekki glæsileg en hvaða hvaða, ég náði allavega að úrbeina karfann nógu vel til að fá máltíð fyrir einn. Ég velti flökunum upp úr eggi og hveiti, stráði ,,dassi" af pipar og aromati yfir þau og hafði ofnhitaðar franskar með, sem reyndar komu kolbrunnar úr ofninum því að ég hélt að það væri nóg að slökkva á honum og opna hann í nokkrar sekúndur og loka aftur, Því ég ætlaði að láta ofninn halda hita á frönskunum rétt á meðan ég var að klára að steikja!! Karfinn smakkaðist bara ágætlega en ég myndi roðfletta hann næst samt, en það var engin leið að gera það í þetta skiptið held ég, með þann hníf sem ég var að nota, nema breyta flakinu í fiskistöppu. Meirihluti franskanna endaði eins og gefur að skilja í ruslinu, en eins og einhver sagði um árið þá er það æfingin sem skapar meistarann!!! Það slæðast öðru hvoru einn eða tveir karfar í vinnsluna með þorskinum eða ufsanum sem eru þær tvær tegundir sem við höfum aðallega verið að vinna með í fiskiðjunni, en hann er semsagt ekki venjulega unninn hér. Það verður áhugavert að sjá hvort við komum til með að vinna með fleiri tegundir þegar nær dregur sumri, kannski einhverjar árstíðarbundnar tegundir eins og makríl eða grásleppu?

Smá skrepp

Maður veit aldrei hvernig dagurinn verður fyrr en hann er að kveldi kominn. Það sannaðist um helgina en ég borgaði nokkra reikninga, skrapp út í búð og fór svo í Króksbíó á ,,The Last Stand" með Arnold Schwarzenegger á föstudaginn og kíkti svo á heimabankann að því loknu. Kom þá í ljós að ég hafði óvart klárað peningana mína. ,,Staða: 600 kr. eftir af heimild!'' Þetta kennir mér að halda bókhald framvegis takk fyrir!! En allavega, ég hafði ekki miklar áhyggjur af þessu þó óþægilegt væri, því að ég keypti þá bara nokkra núðlupakka á 49 kr. pakkann!!.. og svo á ég ýmislegt til í frystihólfinu mínu og ísskápnum, auk þess sem það er hægt að fá sér jógúrt og brauðmeti með áleggi í vinnunni. En ég var allavega viss um að ég færi ekki neitt þessa helgina, enda bensíntankurinn á bílnum næstum tómur. En þá kemur til mín vinnufélagi í vandræðum sem vantaði far til Akureyrar og var hann reiðubúinn að borga fyrir. Ég hugsaði bara ,,hví ekki það," og skellti mér á Akureyrina og heimsótti frænku mína og fjölskyldu og fékk gistingu eina nótt. Ég keyrði til baka í björtu og fallegu veðri og fjöllin á leiðinni hafa sjaldan verið fallegri, þau voru mjallhvít alveg frá ,,toppi til táar" og ég sé eftir að hafa ekki tekið myndavélina með.

Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 1048

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband