Glataður laugardagsmorgunn

Í síðustu viku ákvað ég að skjótast á bílnum til Reykjavíkur í smá fjölskylduheimsókn, enda var ég farinn að sakna hennar svolítið eftir nokkurra vikna fjarveru. Ég var þreyttur eftir vinnudaginn á föstudeginum svo ég ákvað að vakna bara snemma næsta morgun og aka af stað þá. Mér tókst að rífa mig á fætur um sjöleitið og var farinn af stað klukkan átta. Aksturinn gekk vel þrátt fyrir hálku og naglalaus vetrardekkin en mér brá nú heldur betur þegar ég stansaði á Hólmavík til að koma við í kaffi hjá ömmu minni og afa í föðurættinni. Mér varð nefninlega þar litið aftan á bílinn minn og sá þá að hægra afturljósið var mölbrotið, stuðarinn rispaður að ofanverðu og skotthlerinn beyglaður og sprunginn og ónýtur að öllum líkindum.

Einhver hefur greinilega ekið á bílinn minn á Suðureyri og stungið af, en ég vissi ekki af því fyrr en nú vegna þess að það er alltaf komið myrkur þegar ég er búinn í vinnunni og ég hafði gengið í vinnuna alla vikuna og ekki hreyft bílinn síðan á þriðjudaginn. Þann dag stóð snjómokstur yfir á bílaplaninu hjá okkur í ,,bragganum," eins og húsið mitt er kallað, og ég hafði því verið beðinn um að færa bílinn á meðan. Ég ók honum yfir á sjoppuplanið og lagði þar, en sjoppan er bara næsta hús við braggann. En svo liðu dagarnir og ég hafði ekki haft fyrir því að færa bílinn til baka, enda taldi ég hann jafn öruggan á sjoppuplaninu eins og hinu bílastæðinu, en það var heldur betur rangt mat hjá mér.

Frændi minn í Reykjavík sem vinnur við bílaréttingar skoðaði bílinn fyrir mig og taldi að viðgerð gæti farið í 400.000 kallinn á almennu verkstæði. Semsagt, ég er kominn með tjón upp á sömu upphæð og ég keypti bílinn á, og það grátlegasta er að ég var að ljúka við að borga hann aðeins sextán dögum áður en ég uppgötvaði tjónið. Frítíminn hefur verið svo lítill hjá mér að ég hafði enn ekki sett hann í kaskótryggingu, en það hafði sannarlega verið á döfinni næst þegar tryggingamálin hefðu náð athygli minni.

Ef sá eða sú sem ók á bílinn minn hefði verið heiðarlegur og tilkynnt áreksturinn þá hefði tryggingafélagið borgað og manneskjan aðeins þurft að greiða í kringum 15.000 kall í sjálfsábyrgð (eða svo er mér sagt) og ég hefði sloppið við viðgerðarkostnaðinn. En því miður var þetta óheiðarleg manneskja og ég sit því uppi með þetta tjón sem er jafn dýrt og upphæðin sem ég ætlaði að vera búinn að spara fram á vor. Þetta er svo grátlegt fyrir mig að ég hef sjaldan eða aldrei verið eins vonsvikinn og óhappið með bloggið sem eyddist óvart var bara grín miðað við þetta! Ég biðst afsökunar á öllum þessum harmakveinum undanfarið, hér er ég vanur að blogga á léttu nótunum, eins og ég er nú næstum alla daga, því að ég er búinn að vera mjög hamingjusamur undanfarin 6-7 ár eða svo. En hvað get ég sagt, það er erfitt að brosa þegar hálfur vetur sem átti að fara í að koma mér loksins á rétt ról fjárhagslega svo ég kæmist áhyggjulaus í skóla aftur er farinn í vaskinn.

Svo ég segi frá því skemmtilega úr helginni þá var auðvitað yndislegt að eyða tíma í bænum með fjölskyldunni og ég naut þess í botn þrátt fyrir langan akstur og stuttan tíma. Ég reddaði mér líka loksins nýjum síma svo nú er ég ekki lengur með sprungu yfir miðjum skjánum, ónýta rafhlöðu og símasamband sem dettur út í tíma og ótíma vegna þess að SIM kortið tollir ekki nógu vel í, heldur er ég kominn með þennan fína ,,snjallsíma" með snertiskjá sem kostaði ekki nema um sextán þúsund. Ég verð alveg lágmark að geta verið í símasambandi við mitt fólk svo þetta var bráðnauðsynleg fjárfesting!

Jamm, ég læt þetta duga í bili. Þetta er kannski leiðindamál, en þessi bíll skiptir mig samt engu máli í stóra samhenginu, svo ég verð að reyna að stappa í mig stálinu og vera jákvæður. Ég er jú við hestaheilsu og á góða að sem er alltaf það eina sem skiptir í raun máli. Eigið góðan dag öllsömul!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Leiðinlegt að heyra Gummi minn, Já fólk er fífl.

Hafðu það gott og Kram frá Gautó

Anna María (IP-tala skráð) 20.11.2013 kl. 18:29

2 Smámynd: Guðmundur Björn Sigurðsson

Já því miður er það staðreynd með sumt fólk.

Takk sömuleiðis Anna mín, kram frá Suðureyri!

Guðmundur Björn Sigurðsson, 20.11.2013 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband