Sumarfríið búið

Nú er sumarfríið búið og ég er farinn að mæta aftur til vinnu með Róbert í för. Það er svosem bara ágætt að vera kominn í gömlu rútínuna. Engu að síður er þetta oft sá tími ársins þar sem ég velti því fyrir mér hvort ég vilji halda áfram á sömu braut eða hvort tímabært sé að skipta um starfsvettvang. Eitt er víst að þó ég njóti oft vinnunnar, hún er mjög gefandi þó hún sé líka mjög oft virkilega krefjandi, þá er ekki annað hægt að segja en að launin hjálpa mér svo sannarlega ekki til að langa til að halda áfram. Ég gæti farið að vinna við nánast hvað sem er og fengið í það minnsta sömu laun eða, sem líklegt er, mun hærri laun annars staðar.

Sameinumst á Ströndum hátíðin fór fram hér á Hólmavík síðustu helgi og var mjög gaman að henni. Við kíktum á kjötsúpuröltið á föstudagskvöldið og svo á brekkusönginn í Kirkjuhvamminum kvöldið eftir og allir nutu sín vel og veðrið var stillt og milt. Núna um helgina eru svo Reykhóladagar og það væri líka gaman að skreppa á þá, en því miður er veðrið ekki eins gott núna því það á að vera hvasst og rigningar. Svo eru pælingar að skreppa bara suður í Skorradalinn, borgina og í Melahverfið í staðinn, spurning hvað maður gerir. Mér er reyndar líka boðið í afmæli á Drangsnesi svo valkostirnir eru margir. Jæja, nú er ég farinn að blaðra bara út í loftið svo það er best að hætta í bili!


Ættarmót

Laugardaginn 5. júlí fórum við fjölskyldan (nema Guðný, hún var að vinna) á ættarmót í mínum legg þar sem hittust afkomendur Jósteins og Margrétar en þau voru langafi og amma mín og afi og amma pabba míns í móðurlegg. Ég kynntist langafa minum nánast ekki neitt því ég var of ungur til að eiga minningar um hann þegar hann lést en ég þekkti langömmu mína mjög vel og hitti hana reglulega í Sandgerði á heimili hennar. Hún var alltaf glöð að hitta okkur og hún hafði mjög mikinn áhuga á afkomendum sínum sem vor farnir að nálgast (ef ekki hreinlega komnir yfir) hundraðið þegar hún lést.

Ættarmótið fór fram í Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum að þessu sinni, ákvörðun sem mér og fleirum fannst frábær en öðrum ekki (aðallega vegna slæms malarvegar í hreppnum). Þetta svæði er afskaplega fallegt, prýtt vígalegum fjöllum, klettahömrum út í sjó, skerjum og fallegum sandfjörum svo fátt eitt sé nefnt. Saga svæðisins er mikil og mögnuð (og göldrótt!) og þar er meðal annars að finna hina rómuðu Krossneslaug, Kaupfélagið (sennilega það minnsta á landinu), fallegt tjaldsvæði, fullt af gistihúsamöguleikum, safn, tvær kirkjur, Djúpuvík með sínum ægifagra fossi, útsýni yfir að Drangaskörðin, þoku!!! og svo margt fleira!

Flestir dvöldu þarna alla helgina í tjöldum, fellihýsum, hjólhýsum og í gistiheimilinu við tjaldsvæðið en við (allavega ég) vorum ekki í útilegustuði auk þess sem tjaldið okkar splundraðist á þessum sama stað í fyrra (það hafði töluvert að segja um ákvörðunina) svo við skruppum bara fram og til baka samdægurs og fórum bara seint heim til að fá sem lengstan tíma í stuðinu með ættingjunum. Þarna var ýmislegt brallað, t.d. fórum við fjölskyldan ásamt pabba mínum og Sindra bróður í Krossneslaugina, það var pálínuboð með kökum og alles, grillkvöld, leikir fyrir börnin, skrall innandyra þar sem næsta nefnd var kynnt til sögunnar, söngur og fjör! Ég var ekki tilbúinn að vera í nefnd núna en Sindri bróðir stökk til og það verður gaman að sjá hvað hann hefur fram að færa á næsta ættarmóti :) Þetta var æðislegur laugardagur og það er aldrei að vita nema við mætum næst með tjald/tjaldvagn/fellihýsi(?) og alles ef sá gállinn verður á okkur!


Bölvun!

Sumarfríið mitt (og dagarnir rétt á undan) byrjaði með miklu veseni svo vægt sé til orða tekið! Ég og Róbert höfðum skroppið suður í kringum (að mig minnir) helgina 14.-15. júní, ég var eitthvað að brasa fyrir sunnan. Allavega, við feðgarnir erum á heimleið mjög snemma svo við höfðum allan heimsins tíma. Mér varð hugsað til þess að nánast eini vegurinn sem ég hef ekki farið um í stórum radíus í kringum Hólmavík er Skarðsströndin milli Hvammsfjarðar (þar sem Búðardalur er) og Gilsfjarðar. Núna var tækifærið að aka aðeins lengri leið heim og sjá svæðið, auk þess sem það var rjómablíða þennan dag. Ég var ekki búinn að aka veginn nema í kannski korter þegar ég varð var við það að það lekur hratt úr vinstra dekkinu að aftan. Það eina sem ég hafði meðferðis fyrir svona vandræði var rafmagnspumpa og kvoðuviðgerðarbrúsi. Ég pumpaði í dekkið en það lak svo hratt að ég varð að drífa mig á næsta bóndabæ að freista þess að fá aðstoð. Ég ók að bænum Valþúfu þar sem mætti mér ein yndislegasta fjölskylda sem ég hef hitt! Einhver stelpa á bænum bauð Róberti inn að fá drykk og leika við sig og aðra krakka sem voru innandyra og bóndinn sem var heima hjálpaði mér með dekkið. Þegar var búið að troða þremur töppum í dekkið og tæma úr tveimur kvoðubrúsum í það lak ennþá en þó nógu lítið til að ég gat komið mér og Róberti heim með því að stoppa eitthvað um sex sinnum á leiðinni til að pumpa í dekkið! Ég var líka svo heppinn að á sama tíma var Njalli bróðir einnig á ferðinni um svæðið og hann fylgdi mér alla leið frá Skarðsstrandarafleggjaranum (syðri) til Hólmavíkur. Ég er innilega þakklátur fólkinu á Valþúfu og bróður mínum fyrir hjálpina þennan dag!

En ballið var rétt að byrja! Kvöldið fyrir upphaf sumarfrísins, þann 25. júní þurfti ég aftur að fara suður, og aftur var Róbert með í för, en einnig samstarfskona úr leikskólanum sem fékk far með mér til Reykjavíkur. Ég fékk viðvörun á skjáinn um að það væri hætt að hlaðast inn á litla sýrurafgeyminn undir húddinu (semsagt, stóra rafhlaðan sem knýr bílinn var næstum fullhlaðin en gaf ekki lengur straum inn á 12 volta kerfið). Þegar ég var að aka yfir Gilsfjörðinn fór bíllinn svo í skjaldbökuham (turtle mode) sem þýddi að ég komst ekki hraðar en svona 50 km/klst. Nú vissi ég að skammt væri í að bíllinn myndi slökkva endanlega á sér svo ég flytti mér að aka inn á næsta afleggjara að bóndabæ, sem var bærinn Lindarholt.

Aftur mætir mér yndislegt fólk og bóndi á bænum reyndi að hjálpa mér og tengdi hleðslutæki inn á litla rafgeyminn. En ég varð þó að skilja bílinn eftir þarna og fá frekari hjálp. Njalli bróðir kom frá Hólmavík og gaf okkur far til Búðardals. Á leiðinni sagði hann mér að því miður ætti ég senniega eftir að lenda einu sinni enn í óheppni því ,,allt er þegar þrennt er," segir máltækið! Við hlógum að þessu og ég grínaðist með að ég ætlaði þá bara að leggjast upp í rúm og vera þar til öryggis. Brósi hló þá og sagði að það borgaði sig ekki, það myndi bara fresta óheppninni og best væri fyrir mig að ljúka þessu bara af (af með plásturinn, snöggt!) og lifa mínu lífi, þá myndi þriðju óheppninni fljótt ljóstra á mig og létta af mér bölvuninni! Kannski voru álfar loksins að hefna sín á mér fyrir að hafa grýtt álfasteininn þeirra í æsku, eða ég braut spegil, eða hvað veit ég!!! Allavega, pabbi minn kom akandi til móts við okkur í Búðardal frá Melahverfinu (í Hvalfjarðarsveit) til að skutla mér, Róberti og samstarfskonunni sem fékk far með mér áfram suður. Ég fékk svo lánaðan bílinn frá mömmu og pabba til að skutla konunni restina af leiðinni til Reykjavíkur. Það var líka ágætt því að tilgangur ferðarinnar hafði verið að sækja Sunnu og hina krakkana þangað en þau höfðu verið í heimsókn í borginni í nokkra daga.

Síðar um helgina skutlaði ítalskur vinur minn (frá Reykjahlíð sem var staddur í borginni) mér aftur í Gilsfjörðinn að sækja bílinn þar sem ég hélt í vonina að bílabilunin væri bara eitthvað smotterí og að fullhlaðinn rafgeymirinn (þökk sé bóndanum á Lindarholti) hefði hresst við og það myndi núna hlaðast eðlilega inn á hann. Ég vonaði nefninlega að geymirinn hefði bara tæmst vegna þess að við hefðum gleymt hurð opinni alla nóttina. Þá hefði geymirinn kannski fengið sjokk og hleðslan frá bílnum dygði því ekki til að koma honum í eðlilegt form. Von mín var semsagt að hleðsla yfir nótt með hleðslutæki bóndans hefði lagað vandann. En nei, ég var ekki búinn að aka lengi í samfloti með vini mínum þegar viðvörunarskilaboð birtust aftur á skjánum um enga hleðslu inn á sýrugeyminn. Ég náði þó að keyra í Búðardal til að skilja bílinn eftir þar. Ég þakkaði ítalska vini mínum fyrir hjálpina og hann fór sína leið heim til sín. Pabbi kom svo frá Melahverfinu til að reyna að hjálpa og gefa mér far til baka í Melahverfið.

Verkstæðiskall í Búðardal kíkti undir húddið en gat ekkert gert annað en að upplýsa okkur um að það væri ekkert að sýrugeyminum, en hins vegar gæfi bíllinn honum engan straum. Við feðgarnir þökkuðum fyrir, skildum Ioniqinn eftir í Búðardal og fórum til baka. Nú var ekkert annað í stöðunni en að senda bílinn á verkstæði umboðsins til að bilanagreina og laga bílinn. Þau sendu dráttarbíl frá Krók til að sækja Ioniqinn með bílaleigubíl sömu tegundar meðferðis á pallinum svo við værum ekki bíllaus. Ég tók það fram mörgum sinnum í símtalinu að bíllinn frá Krók yrði að koma við í Melahverfinu með bílaleigubílinn og til að ég gæti afhent lykil að okkar bíl vegna þess að ég væri staddur þar en ekki bíðandi í Búðardal. Ég beið og beið í Melahverfinu eftir þessum dráttarbíl en ekkert bólaði á honum og ég var farinn að stressast því ég vildi komast til Reykjavíkur til að vera með Róberti Loga á afmælisdeginum sínum þennan sama dag en hann, Guðný, Benjamín og Sunna voru þar í startholunum að hefja afmælisveisluna hans með söng, köku og gjöfum!

Að endingu gafst ég upp á biðinni og fékk nýja Nissan mömmu og pabba lánaðann (Nissan Aria) til að komast í borgina og bað þau um að taka á móti dráttarbílamanninum. Á meðan ég var að aka í átt að Hvalfjarðargöngum varð mér hugsað til óheppni minnar og ákvað að nú skyldi ég sko fara varlega og hægja vel á mér framhjá gatnamótunum að Grundartanga þar sem hraðinn lækkar niður í 70 (bara við gatnamótin) því það væri dæmigert að ég fengi ofan á allt hitt hraðasekt þarna (það væri þá þriðja bölvunin!)! Ég var óvanur akstri á nýjum bíl foreldra minna svo ég ætlaði að nýta tækifærið og æfa mig að hægja á mér ekki með því að bremsa heldur með því að lækka hraðann með hraðastilli bílsins. Það voru stór mistök því skyndilega kom ég auga á hvítan sendibíl lögðum út í kanti við umrædd gatnamót! Þetta var skrambans myndavélabíll frá lögreglunni og ég flýtti mér að bremsa en þetta vesen mitt með hraðastillinn kostaði mig það að ég var enn ekki kominn á nógu lítinn hraða við gatnamótin og bévítans myndavélin smellti af mér mynd.

Er ég var að keyra milli Mosó og Reykjavíkur hringdi skyndilega síminn. Þá var starfsmaður dráttarbílsins kominn til Búðardals, lyklalaus og með bílaleigubílinn á pallinum, semsagt án þess að hafa komið við í Melahverfinu!!! Hann sagðist aldrei hafa fengið upplýsingarnar um að eiga að koma við í Meló! Ég átti ekki orð! Svekktur og þreyttur kom ég heim til tengdó til að knúsa afmælisdrenginn minn og fá mér kökubita og alls ekki með orku til að fara í annað sinn sama daginn í Búðardal en þó tilneyddur til þess. En þá hrigdi síminn allt í einu og þá fékk ég loks góðar fréttir! Starfsmanni dráttarbílsins hafði tekist að draga harðlæstan rúmlega tveggja tonna bílinn okkar upp á pallinn hjá sér og félagi hans sem hafði fyrir tilviljun verið með honum í för hafði boðist til að fylgja honum eftir á bílaleigubílnum til baka! Halelúja! Ég var svo innilega feginn! Nú vorum við ekki bíllaus lengur svo við biðum ekki boðanna og drifum okkur bara heim og veltum því fyrir okkur hlæjandi hvað það myndi taka Hólmvíkinga langan tíma að taka eftir því að Ioniqinn okkar væri allt í einu hvítur í stað þess að vera grár!

Dagarnir liðu og við fórum eina ferð á þessum bíl á ættarmót og svo kom hringing frá umboðinu um að bíllinn okkar væri tilbúinn. Það sem ég hélt að væri einhver bilaður spennubreytir sem væri hættur að gefa sýrugeyminum straum frá stóru rafhlöðunni var sko alls ekki það! Nei, einhver ICCU tölva hafði bilað sem kostar, haldið ykkur fast, 700.000 krónur! ÉG SVITNAÐI!!! En svo sagði maðurinn mér að þar sem bíllinn væri enn í abyrgð þyrfti ég ekki að borga neitt!!! Jesús, hvað ég var mikil taugahrúga þarna, haha! Semsagt, málið dautt, vandinn leystur, bölvun minni var hér með aflétt og Sunna skrapp suður og skilaði bílaleigubílnum og kom til baka á okkar gráa Ioniq-5!


Akureyrarskrepp

Dagana 12.-14. júlí fórum við Benjamín til Akureyrar í heimsókn til Gógó frænku og fjölskyldu. Veðrið var virkilega gott hluta tímans og nutum við okkar mjög á svæðinu. Við fórum tvisvar í sund, í Akureyrarlaug og í laugina í Hrafnagili, við fórum á tvö söfn, í Leikfangahúsið og í Nonnahús og kíktum einnig í Jólahúsið þar sem jólin ríkja allt árið um kring! Það var þó síður en svo jólalegt fyrir utan húsið enda sýndi hitamælir bílsins mest 27 gráðu hita í Öxnadalnum á leiðinni heim. Við enduðum skemmtilega feðgaferðina okkar á að fara í göngutúr um Hrútey í ánni Blöndu við Blönduós og komum heim með bros á vör! Ég hugsa að ég taki fyrir ættarmótið sem við skreppum á og bílabilun / bölvun næst þegar ég drep niður penna, haha!


Sumarfríið er hálfnað og það hefur verið dásamlegt!

Það er ótrúlegt hvað tíminn æðir áfram. Nú er sumarfríið um það bil hálfnað og ég hef nokkurn vegin staðið við það sem ég hafði lofað sjálfum mér, að vera að mestu bara heima í alveg óskipulögðu sumarfríi! Það er sjaldgæft því venjulega er maður búinn að t.d. bóka sumarbústað hér og ákveða tjaldferð þar, lofa sér í hitt og þetta. En vegna óvissunnar með það hvenær ég verð sendur í aðgerðina til að stytta ristilinn (láta fjarlægja veika hlutann) þá var öllum áætlunum slegið á frest. Við Sunna höfðum t.d. hugsað okkur að halda okkar eigin brúðkaupsveislu í sumar í kjölfar þess að, já, þú lest rétt, við giftum okkur í skyndi í mars bara hérna á Hólmavík í látlausri sýslumannsathöfn! Þá voru einungis foreldrar okkar og börn viðstödd svo það eiginlega verður að gera betur við tækifæri og halda upp á þetta almenninlega í hópi náinna vina og ættingja. En vegna þess að ég fékk í langan tíma engin svör frá spítalanum þá fóru öll plön í frost. Skurðlæknirinn hafði sagt mér að aðgerðin yrði í júní án þess að gefa nákvæmari dagsetningu. Ég hringdi og hringdi til að reyna að fá niðurnegldan dag, en annað hvort náði ég ekki sambandi, eða ég náði sambandi en á röngum tíma og/eða við ranga manneskju! Að lokum heyrði ég í konu sem sér um þessar bókanir og þá sagði hún mér þær fréttir að það væri ekki einiusinni búið að bóka mig enn og vegna þess að sumarleyfistími skurðlækna væri að hefjast væri úr þessu ólíklegt að aðgerðin verði gerð fyrr en í fyrsta lagi í ágúst eða í haust. Ég má ekki vinna í um sex vikur á eftir svo augljóslega er á meðan ekki hægt að ákveða neina hluti. Semsagt, veislan verður nær örugglega bara næsta sumar!

Ég hef ekki alveg gert ekki neitt því ég hef dundað mér við að taka öll herbergi í húsinu í gegn (ég á bara eftir hitakompuna og bílskúrinn), eitthvað sem ég man ekki eftir að hafa tekist að gera áður, og svo hef ég bara reynt að vera duglegur að eyða meiri tíma með krökkunum og losna við sem flesta af löstunum sem ég hef verið að burðast með eins og t.d. símafíkn, matarfíkn, frestunaráráttu, svefnleysi og annað í þessum dúr. Ég segi hér með stolti að ég hef náð besta árangri ævinnar í þessu dásamlega fríi, ég er bara orðlaus hvað ég hef náð langt! Árangrinum má þakka blöndu af hjálp frá ADHD-lyfinu sem ég er kominn á (Elvanse) og svo því að ég fann loksins skipuleggjandi og hvetjandi aðferð sem skotvirkar! Ég hef komið mér upp ákveðnu umbunarkerfi og nota til þess ótilgreint app/smáforrit sem virkar þannig að ég kem mér upp verkefnum eins og að taka til í einhverju herbergi, borða hollt, fara snemma að sofa, skúra, læra spænsku í minnst hálftíma á dag o.s.frv. og ég vel fyrirfram hvað hvert klárað verkefni gefur mér marga punkta. Ef það eru tímamörk á verkefni (að klára eitthvað einu sinni á dag, einu sinni í viku, mánaðarlega, í eitt skipti o.s.frv.) og ég lýk ekki við verkefnið þá get ég látið mig tapa punktum (eða ekki)! Ég get líka haft lesti sem ég vil ekki gera, eins og t.d. að borða á nóttunni eða taka út af sparireikningi að ósynju, þá snýst allt við og ég græði punkta (eða græði ekki) fyrir að klára ekki verkið, en tapa punktum fyrir að klára það. Svo er það gulrótin! Ég vel mér verðlaun og vel hvað þau kosta og ef ég hef safnað nógu mörgum punktum get ég ,,keypt verðlaunin" fyrir punktana. Það getur verið t.d. óhollustudagur þar sem ég má borða hvað sem er í einn dag, eða lengri tími í hangs í símanum, eða að ég meigi kaupa mér einhvern óþarfa sem mig langar í, svona til að nefna eitthvað. Heimilisstörfin og annað sem venjulega er ,,leiðinlegt" að gera verður þannig spennandi og eftirsoknarvert að klára, næstum eins og í tölvuleik! Ég vissi það auðvitað ekki fyrirfram en þetta hefur virkað eins og ég veit ekki hvað! Sambland af svona umbunarkerfi og ADHD-lyfinu hefur bara gert mig að nýjum og betri manni! Og vegna þess að ég hef í þessu ferli náð geggjuðum árangri í baráttunni við ofþyngdina þá virðist mér hafa tekist að losna við kæfisvefninn, sem hefur svo bætt svefngæðin, sem hefur svo gert mig úthvíldan á daginn, sem hefur svo líka hjálpað mér að halda einbeitingunni og þannig ná að ljúka við flest það sem ég hef tekið mér fyrir hendur! Góð samlíking er á þá leið að snjóboltinn sé byrjaður að rúlla niður hlíðina og hann stækki bara og stækki! Þannig finnst mér líf mitt vera ákkúrat núna, betra og betra með hverjum deginum!

Það er svo mikið sem hefur gerst bæði í vetur og í sumar síðan ég bloggaði síðast að ef ég myndi skrifa um það allt nú þá yrði þetta löng ritgerð. Ég á til dæmis eftir að skrifa um ættarmótið sem ég kíkti á, heimsókn til Akureyrar og fleira en læt það semsagt bíða þar til næst! Bloggin ættu að koma með reglulegra millibili á næstunni því að eitt af ,,verkefnunum" mínum, ein af áskorununum, er einmitt að reyna að blogga að lágmarki einusinni í viku :)


Veikindi og bati

Tekið af facebook veggnum mínum 17. janúar 2025:

Undanfarnir níu dagar hafa sannarlega ekki verið dans á rósum hjá mér. Miðvikudaginn áttunda janúar fór ég að finna fyrir verkjum í ristlinum, en við fjölskyldan höfðum fengið okkur smá popp kvöldið áður. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af þessu því að fyrir nokkrum árum grunaði lækni að ég þjáðist stundum af ristilpokabólgu og meðferðin við því er einfaldlega íbúfen og auðmeltur matur uns bólgan hjaðnar. Ég fékk mér verkjalyf og fór á auðmelt, hollt matarræði og hélt að eins og venjulega myndi það duga til að lækna mig. Það var svo sannarlega ekki raunin í þetta sinn því verkirnir héldu áfram að versna og versna. Að lokum var ég orðinn það þjáður að mér fannst eins og hnífar væru að skera mig innvortis og verstu verkjaköstin komu alltaf um klukkutíma eftir að ég borðaði eitthvað. Það skipti nánast engu máli hvað ég borðaði og breytt matarræði dugði skammt. Á endanum hætti ég alveg að borða og ég léttist um sex kíló á einni viku. Ofan á þetta var kominn látlaus niðurgangur svo það var augljóst að eitthvað mikið var að. 

Miðvikudaginn 15. janúar sagði læknirinn á Hólmavík mér að keyra strax til Reykjavíkur í tölvusneiðmyndatöku sem og ég gerði. Ég hélt að ég færi bara heim samdægurs og myndi svo heyra í lækninum daginn eftir. En rétt áður en ég ætlaði að aka heim hringdi læknirinn með slæmar fréttir og sagði mér að fara tafarlaust á bráðamóttökuna. Jú, ég var með ristilpokabólgu en í þetta sinn var hún svo slæm að það kom rof á ristilinn og ég var kominn með alvarlega sýkingu og mikinn gröft fyrir utan hann. Ég var sendur í aðgerð þar sem var sett í mig dren og mikill gröftur tekinn úr mér. Drenið er enn í mér og enn að koma einhver gröftur þó það hafi hægst vel á. Það er búið að dæla í mig sýklalyfjum í æð og einnig dágóðum skammti af morfíni og öðrum verkjalyfjum. Lengst af var ég látinn fasta sem var algjör hryllingur enda var ég búinn að vera meira eða minna fastandi heima dagana á undan svo ég var ekki sjón að sjá lengur. 

Í dag er fyrsti dagurinn sem mér finnst mér vera að batna. Verkirnir hafa dofnað mikið og ég er farinn að borða (varlega) á ný, bara allt annað líf! Ég er farinn að kíkja fram á spítalagang í stutta innanhússgöngutúra og setjast niður í kaffistofunni. Ef það heldur áfram að ganga vel þá losna ég vonandi við drenið á morgun eða hinn og ég er bjartsýnn á að verða útskrifaður áður en helgin er á enda. Takk fyrir allar kveðjurnar og peppið þau ykkar sem voruð búin að frétta þetta og hafa samband! Stórt knús á ykkur öll ❤

Tekið af facebook veggnum mínum 24. janúar 2025:

Jæja, það er best að koma með nýjustu upplýsingar af mér. Ég vil byrja á að þakka ykkur öllum af dýpstu hjartarótum fyrir allar fallegu batakveðjurnar. Ég er svo heppinn að eiga svona marga góða ættingja, vini og kunningja og það er öruggt að hlýjan frá ykkur hefur hjálpað mér. Mér hefur aldrei á ævinni þótt lífið eins dýrmætt og einmitt nú. Enn og aftur, takk! ❤

Nú hef ég lést um eitt kíló í viðbót síðan ég veiktist svo það eru sjö kíló farin síðan 15. janúar þegar ég var lagður inn. Sjö kíló á níu dögum! Þyngd: 94,8 kg! Það var sko ekki svona sem ég ætlaði að léttast og ég mæli ekki með þessu! Ekki skrýtið að ég sé búinn að vera máttfarinn, svimagjarn og óglatt yfir þennan tíma. Ég fékk að fara af spítalanum 18. janúar eftir fjögurra daga spítalavist en var þó áfram með drenslöngu og poka fastan við mig í tvo daga til viðbótar og á sterkum sýklalyfjum. En ég mátti ekki fara langt frá spítalanum svo ég hef dvalið hjá mömmu og pabba í Melahverfinu. 

20. janúar fór ég aftur á spítalann til að láta taka drenið því það var hættur að koma gröftur úr því og sýkingin var að jafna sig hratt. Nú var ég kannski orðinn aðeins of kátur og að ofmeta getu mína því ég beið ekki boðanna og strax daginn eftir tók ég Benjamín Mána á rúntinn á Akranes og fór með hann á Langasand svo hann gæti aðeins dundað sér þar með mér. Sunna og krakkarnir mínir voru að fara að aka heim eftir smá stund svo ég vildi ná að gera eitthvað skemmtilegt með honum áður en þau færu. Við fórum svosem ekki langt, gengum bara nokkur hundruð metra en þegar við komum til baka til mömmu og pabba og ég var að standa upp eftir að hafa aðeins lagst upp í rúm þá leið næstum yfir mig. Mér sortnaði fyrir augum og ég þurfti að styðja mig við vegg. Þessi svimaköst hafa haldið áfram í hvert sinn sem ég stend upp svo ég hef þurft að venja mig á að standa rólega upp og hinkra svo í smá stund áður en ég fer að ganga.

Í gær fékk ég þær góðu fréttir að blóðprufur sýndu að sýkingin væri alveg búin og ég fékkgrænt ljós að fá loksins að fara heim! Mikið hlakka ég til! Ég er loksins farinn að borða meira (þær fæðutegundir sem ég má borða) og svimaköstin eru að minnka og minnka en ég finn þó vel að ég er enn ekki nema skelin af sjálfum mér þó ég gleymi því stundum.

Það sem er framundan hjá mér er að ég á að taka því rólega heima næstu þrjár vikurnar eða svo, en ég neita að trúa öðru en að ég verði mættur í vinnuna áður en sá tími er liðinn. Ég á að mæta í ristilspeglun á Akranesi 18. mars og svo í viðtal við lækni á Landspítalanum 20. mars. Þá skilst mér að ég fái loks að vita hvenær ég á að fara í skurðaðgerð til að stytta ristilinn (fjarlægja sjúka hlutann). Eftir þá aðgerð og nokkura daga hvíld á ég að vera orðinn að fullu læknaður. Þá fyrst mun ég smátt og smátt geta byrjað að borða allan venjulegan mat áhyggjulaust. Þetta verður langt ferli en ég verð bara að láta mig hafa það, ég hef ekkert val.

Núna er ég bara að bíða eftir að strætó mæti hingað í Melahverfið kl. 16:34 og þá kemst ég loksins heim til Hólmavíkur! Farið vel með ykkur og við sjáumst!


Jæja

Fyrsta færslan í þrjú ár! Aldeilis dugnaðurinn! Hjá mér er allt mjög gott að frétta þannig lagað séð. Ég eignaðist hann elsku Róbert Loga minn sem er nú orðinn tveggja ára gutti (meira síðar) og ég komst loks í gegnum ADHD-greiningu og er byrjaður á Concerta! Og jeremías hvað ég hef breyst til batnaðar á þessu lyfi (með fáum, en svolítið strembnum aukaverkunum, en þær eru smátt og smátt að rjátlast af mér). Nú er bara blankalogn í höfðinu á mér sem gerir mér kleift að einbeita mér betur að verkefnum líðandi stundar. Bestu áhrifin eru þó hvað allt stress og kvíði hefur svo gott sem horfið eins og dögg fyrir sólu. Nú er ég að vinna í að eflast á öllum sviðum lífsins!

Ég hef lést um tuttugu kíló á hálfu ári (úr 120 kg í 100,5 kg), ég er að borga niður skuldir (loksins, þó fyrr hefði verið), ég er kominn á fleygiferð í spænskunáminu mínu (sérstaklega á LingQ og með hlustun þegar ég er upptekinn og kemst ekki í appið en get hlustað á meðan ég geri önnur verkefni), ég var að bæta við nýju tungumáli, pólsku, bara núna á sunnudaginn (klikkað, ég veit), fjármálabókhald er í startholunum, ég er farinn að geta sinnt heimili, konu og börnum af meiri athygli (en betur má ef duga skal), ég er pínu farinn að dunda mér við að teikna aftur eftir of löng hlé, ég er að eignast fleiri vini, og já, svona má lengi telja.

Öll svið lífs míns hafa batnað nema kannski svefninn, en þó merki ég að ég sé líka hægt og rólega að ná tökum á því að ljúka fullum nætursvefni hverja nótt (skrifa ég er klukkan er komin fram yfir miðnætti, ehemm!). Of lítill nætursvefn margar nætur í röð undanfarið tóku sinn toll (svosem ekkert nýtt, ævilangt vandamál) og ég endaði á að fá slæmt mígreniskast í vinnunni nú í vikunni (þrátt fyrir [loksins] góðan svefn aðfaranótt ummrædds dags) með blindu, eldglæringum og heilaþoku og svo hausverki eftir kastið og var þetta aðeins í þriðja sinn á ævinni sem ég fæ mígreniskast. Concertað truflar mann frá því að finna fyrir þreytu svo ég þarf að hafa þau áhrif í huga (sem ég er reyndar búinn að gera nú þegar því ég tek núna Melatóníntöflu fyrir svefninn til að hjálpa mér að sofna). Önnur skrýtin aukaverkun verður ekki rædd hér en ég er líka að ná tökum á henni!

Ég er feginn að þessu dapurlega sumri er lokið og veturinn hefur stimplað sig inn (fyrsta snjóþekjan á Hólmavík kom núna sunnudaginn 29. sept., var þó bráðnuð strax um kvöldið). Þetta sumar einkenndist af eilífum rigningum, vindi og kulda utan kannski einnar heillrar viku þar sem sólin skein og hitinn sleikti tuttugu stigin, en þá voru tengdó og mamma ákkúrat í heimsókn, magnað!!! Svo varð Óli frændi bróðir mömmu bráðkvaddur fyrir aldur fram og um svipað leiti veiktist föðuramma mín, elsku amma Sissa, og lést eftir allt of langan tíma á banalegunni. Þeirra er mjög sárt saknað. En jæja, ég get ekki haft þetta lengra í bili og verð að gera þessu skil síðar því ég þarf að fara að henda mér upp í rúm. Meira næst, takk fyrir að lesa og góða nótt.


Halló!

Mikið svakalega er ég nú orðinn lélegur bloggari, svona er þetta bara. En það er svona helst allt gott að frétta bara síðan síðast! Ég hef verið án alls þunglyndis og hress og kátur flesta daga, en ég vil meðal annars þakka það því að ég hef haldið áfram mínum daglegu göngutúrum alveg sleitulaust án þess að nokkurn tíman sleppa degi úr. Út fer ég sama hversu snælduvitlaust veður er úti, en ég klæði mig auðvitað bara betur eftir því sem veðrið er verra. En auðvitað fer ég yfirleitt í lengri göngur þegar það er blíðviðri! Ég geng aldrei styttra en 2 km á dag, en oftast geng ég aðeins lengra því ég er með það markmið að ná að lágmarki 100 km á mánuði. Til þess að svo megi verða þá þarf ég að meðaltali að ganga 3,333... km á dag, en ég hef nú farið létt með það, enda getur stöku göngutúr hjá mér farið yfir 10 kílómetrana og metið mitt undanfarið ár voru 23 km á einum degi þegar ég skrapp í smalamennsku þann 19. sept. 2020! Þegar ég sá fram á að ég þyrfti aðeins að herða mig agnarögn í göngutúrunum til að ná að ganga jafn langa vegalengd og Hringvegurinn (eða Þjóðvegur eitt) er á 12 mánuðum, tja, þá gerði ég einmitt það! Þessu markmiði náði ég með stæl því að á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til 31. janúar 2021 gekk ég samtals 1.329 km sem er 8 km lengra en Hringvegurinn sem er samtals 1.321 km langur eins og hann er í dag. Þetta er auðvitað bara tær, tær snilld!!!

Af öðrum hlutum að frétta þá náði ég þeim áfanga síðastliðið vor að ljúka við stúdentsprófið á félagsvísindabraut svo það var húllumhæ og útskrift um sumarið, en vegna Covid-19 skrattans þá munaði samt mjóu að ekki hefði verið hægt að halda útskriftina í raunheimum. Það slapp þó fyrir horn með því að fresta útskriftinni um eins og mánuð og með því að viðhafa fjöldatakmarkanir og fara eftir ítrustu sóttvarnarreglum og fjarlægðartakmörkunum. Ég gat af þessum sökum aðeins boðið tveimur gestum með mér í útskriftina og úr varð að Sunna og pabbi komu með mér á Krókinn í útskriftina og smá skrall og dekur eftirá. Aðrir gátu þó fylgst með í gegnum netútsendingu. Þetta nám er búið að vera svo mikil barátta hjá mér og það hefur tekið svo langan tíma að það lá við að ég brysti í grát í útskriftarsalnum rétt áður en ég tók við prófskírteininu mínu! En þetta tókst! Mér tókst þetta, 35 ára gömlum og nú eru mér allir vegir færir :)

Af öðrum fréttum þá er það að frétta að ég ákvað að hætta sem þrifamaður hjá Hólmadrangi og færa mig yfir í dagvinnu (á hreinsibandinu aðallega) með fríi um helgar og ég er yfirleitt bara að vinna frá 8-4 á daginn. Þetta er bara tær snilld og allt annað líf fyrir bæði mig og fjölskylduna og þetta hefur ekki breytt tekjunum hjá mér svo neinu nemur. Maður er auðvitað stálheppinn að búa á Íslandi á Covid tímum og eins og er þá er vírusinn í algjöru lágmarki hér á Fróni og helstu áhrifin (fyrir utan hertar sóttvarnarreglur, fjöldatakmarkanir og slíkt) eru þau að vegna hruns í sölu á rækju þá hafa komið regluleg vinnslustopp hjá Hólmadrangi en sem betur fer hefur atvinnuleysistryggingasjóður þá hlaupið undir bagga og borgað okkur laun þegar svo stendur á.

Nú ætlum við Sunna loksins að fara að taka húsið í gegn og t.d. erum við búin að panta bæði nýja eldhúsinnréttingu og nýtt rúm í Ikea og við erum bara að bíða eftir sendingunum með dótinu til að geta hafist handa við breytingarnar. Spennandi! Einnig höfum við verið að vinna í því að stöðva lekann í kjallarann undir eldhúsinu og svefnherberginu en við höfum t.d. verið að fylla hann að hluta með möl sem við ætlum svo að steypa yfir til að koma í veg fyrir grunnvatnsleka inn í kjallarann. Einnig hef ég með mikilli hjálp verið að laga pípulagnirnar þarna niðri svo neyðarkraninn til að skrufa fyrir vatnið inn á allt húsið lendi ekki undir þessari möl og steypu. Því miður kom líka í ljós að þegar við förum í sturtu þá seytlar einnig vatn inn í kjallarann í gegnum sprungu á veggnum svo við þurfum greinilega líka að lagfæra niðurfallið frá sturtunni. Svo erum við að vinna í músavörnum o.fl. en þetta er semsagt allt bara í bullandi vinnslu og meira um það síðar!

Við erum orðin tveggja bíla fjölskylda eftir að hafa lent í hrakningum með Trajetinn okkar í sumar sem leiddi til þess að við keyptum okkur varabíl, Benzjeppa, til að nota sem varabíl á meðan við værum að koma Trajetinum aftur í lag. Við ætluðum fyrst að selja Benzjeppann eftir að Trajetinn kæmist í lag, en við hættum við það og ákváðum að halda honum bara ef ske kynni að fleiri bilanir kæmu í ljós í framtíðinni, þá höfum við alltaf varabíl á meðan hinn bíllinn er í viðgerð!! Nú fer ég að hætta að skrifa í bili, þó á ég enn eftir að segja frá sumarferðalögum okkar fjölskyldunnar og svo mörgu fleiru, en ég læt þetta duga í bili. Takk fyrir að nenna að lesa þetta allt og lifið heil! ;)


Þunglyndi

Ég hef ekki verið alveg uppá mitt besta síðan um jólin en ég hef verið að prufa lyf við túrettinu mínu sem heitir Haldol. Lyfið hefur í raun þrælvirkað og kækirnir hafa svo gott sem horfið, en aukaverkanirnar virðast ætla að vera svo slæmar að þær eru verri en það góða sem ég fæ út úr þessum töflum. Ég hef fundið fyrir djúpu og stanslausu þunglyndi og deyfð og hugsa um það eitt að ég vilji bara sofa allan daginn, alveg frá því ég opna augun á morgnana þar til ég leggst í rúmið á kvöldin. Matarlystin hefur líka aukist svo ég er farinn að þyngjast líka sem ég má nú alls ekki við, en líklega leita ég í matinn því mér líður vel rétt á meðan ég borða. Áhugamál eins og spænskunámið hafa líka slokknað og ég er næstum hættur að fara út úr húsi (vetrarstormarnir hafa nú reyndar ekki hjálpað). Ég kvíði hverjum vinnudegi og finnst flest það sem mér fannst létt vera erfitt í dag, öll heimilisstörf og hvað eina. Þetta er alls ekki nógu gott svo ég er á leið til læknis á morgun í von um að hægt sé að stilla lyfið betur, ég fái nýtt lyf eða að ég hætti einfaldlega. Sem betur fer hef ég þrátt fyrir allt þetta náð að halda lágmarkseinbeitingu í tölfræðináminu mínu og ég hef náð að halda í við hina nemendurna í heimanáminu, sem mér finnst nú bara vera kraftaverk! Fyrsta kaflapróf af fjórum er svo núna á miðvikudaginn og ótrúlegt nokk þá er ég bara vongóður með það! Ég hef aðeins verið að fara í sund og reyna að ganga smá til að hressa mig við og það hefur hjálpað mikið. Fjölskyldan er líka auðvitað alltaf mikill gleðigjafi og það gengur bara vel hjá þeim öllum. En þetta er nóg mas í bili, meira síðar og hafið það gott kæra fólk!


Allt hið fínasta að frétta af mér, svona þannig lagað.

Komið þið sæl!

Ég er bara hress. Skólinn er búinn í bili hjá eilífðarstúdentinum og jólin hringja inn á morgun! Búið að ljúka við allt jólastússið, jólaþrifin og jólagjafakaup svo nú get ég loksins bara slakað á! Ég er svo sannarlega að gera það nú í kvöld með bjór í hönd! Ég hef nú lokið öllum fögum sem mig vantar til að fá stúdentshúfuna, nema bölvaðri tölfræðinni sem ég féll í núna í annað sinn. Þar með hef ég fallið um ellefu sinnum í stærðfræði á þessari grýttu braut minni til stúdentsprófsins. En fyrst ég á bara þennan eina tölfræðiáfanga eftir mun ég víst hafa allan heimsins tíma til að einbeita mér hundrað prósent að honum svo ég bara hlýt að ná loksins í vor. Stúdentinn framundan á vorönn 2020!

Verið þið sæl að sinni!


Næsta síða »

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 1160

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband