Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Þreyttur en ánægður

Þá fer þetta loksins að klárast. Ég er búinn með allt bóklegt núna og líka fyrsta verklega prófið, sem þýðir að ég er núna kominn með vörubílaréttindin! Þetta er enginn smá léttir og bara æðisleg tilfinning, ég er búinn að vera í skýjunum yfir þessu alla helgina. En það var samt ekki auðvelt að fara í próf á vörubíl rétt á eftir erfiðustu jarðarför sem ég hef farið í. En það þýddi ekkert annað en að draga bara djúpt andann fyrst og ljúka þessu svo af. Ég var heppinn að geta seinkað prófinu um nokkra klukkutíma svo ég þyrfti ekki að fresta prófinu um viku. Nú á ég bara eftir að fara í nokkra trailer (vagn), rútu og leigubílatíma sem ættu að geta klárast á næstu 2-3 vikum og síðan tek ég síðustu 3 prófin bara í jólafríinu og þá er þetta komið! Ég ætlaði ekki að trúa því hvað mér gekk vel í vörubílaprófinu en það eina sem olli því að ég fékk einhvern mínus var það að ég var ekki sérlega góður í að skipta um gír á réttum tíma og halda réttum snúningi, en það kemur bara með æfingunni held ég. Verð örugglega ekki lengi að laga það. Eitt get ég þó sagt ykkur núna, en það er að ég get ekki beðið eftir því þegar ég fer að vera laus um helgar. Er orðinn pínu þreyttur á allri þessari helgardagskrá alltaf og ferðalögum milli Hvk. og Rvk. hverja einustu helgi.

Kristinn Ísfeld Andreasen

Á mánudaginn (17. nóv.) fékk ég þær hræðilegu fréttir að góður vinur minn, Kristinn Ísfeld Andreasen (f. 1981), lést um helgina. Honum var ég svo lánsamur að kynnast þegar ég fékk vinnu hjá Framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar (Miklatúni) og vorum við oft saman í flokki þar og unnum hin margvíslegustu störf saman.

Ég var ekki búinn að þekkja Kidda nema í nokkrar vikur þegar tilfinningin var orðin þannig að mér fannst eins og ég hefði alltaf þekkt hann. Auðvitað átti hann eins og flestir sína góðu og slæmu daga, en þegar ég hugsa til hans, eru fyrstu minningarnar sem koma upp í hugann ætíð af þeim fjöruga, opna, skemmtilega og uppátækjasama húmorista sem hann að jafnaði var. Ég kann ekki á því skýringu, en eins ólíka fortíð og við áttum okkur og eins ólíkar persónur og við vorum, þá áttum við vel saman og við gátum treyst hvor öðrum fullkomlega, líka fyrir leyndarmálum og persónulegum vandamálum. Við áttum ákveðna eiginleika sameiginlega þó æska okkar hafi verið gjörólík. Báðir gátum við verið haldnir svolitlum athyglisbresti suma dagana, svo vægt sé til orða tekið, sem gat gert vinnudagana ansi skrautlega stundum, kannski sérstaklega ef við vorum að vinna einir saman, en það var nú alltaf hægt að hlæja að því eftirá! Hitt var það að geðið átti það til að hrella okkur stundum en það fór nú samt ekki bara í dýfu, heldur líka upp sem betur fer.

Þeir eru mjög fáir vinnufélagarnir sem ég hef um æfina tengst það sterkum böndum að ég hafi heimsótt þá utan vinnutíma eða skroppið út á lífið með þeim (utan alls vinnustaðadjamms), en þú varst einn af þeim Kiddi, þó það hafi reyndar verið allt of fá skipti. Þú stappaðir í mig stálinu oftar en einusinni þegar ég átti mína slæmu daga, þú reyndir meira að segja að hjálpa mér með stelpur eitt sinn.

Kiddi, ég kveð þig með söknuði, það hryggir mig að þú hafir farið svo snemma en gleður mig innilega að hafa kynnst þér. Nú færðu ró og frið.

Guðmundur Björn Sigurðsson


Fyrirgefið mér fjarveruna!

Ég lenti í því óhappi fyrir rúmum mánuði síðan að hella... ehem, drykk nokkrum yfir lyklaborðið á nýju fartölvunni minni... Sá kostulegi drykkur er oft nefndur Vodka í Burn og er afar bragðgóður af vodkadrykk að vera en passar ekkert sérstaklega vel með tölvum. Þegar þetta gerðist var orðið ansi langt síðan ég skrifaði eitthvað hérna síðast og ég var þó búinn að gera eitthvað smá uppkast því ég vissi uppá mig skömmina hehe, en þá var ég plataður á mjög skemmtilegt fyllerí á Hólmavík sem endaði samt óvart með þessum ósköpum. Semsagt, ég eyðilagði lyklaborðið mitt og það er víst enginn barnaleikur að gera við lyklaborð á fartölvum sem klístraður drykkur hefur hellst yfir, en sem betur fer skemmdist ekkert meira og ég keypti mér svona aulatryggingu á sínum tíma ef svona atvik myndi gerast.

Jæja, eftir þetta aulaóhapp fór ég ekki suður fyrr en um það bil hálfum mánuði seinna (5. október) og þá fyrst gat ég komið tölvunni í viðgerð hjá Elko þar sem ég keypti hana (en þeir gera víst ekki við svo þeir sendu tölvuna til EJS). Svo fór ég aftur norður og kom ekki aftur suður fyrr en hálfum mánuði seinna. Komst þá að því að það er víst aldrei opið hjá þessum viðgerðarverkstæðum nema á virkum dögum svo ég hafði farið fýluferð. Ég fór aftur norður og komst svo aftur til Reykjavíkur fyrir lokun föstudaginn 24. október (kom raunar suður til að byrja á meiraprófsnámskeiði sem er bara á góðu skriði hjá mér í augnablikinu) og hugsaði með mér að eftir allan þennan tíma gæti ekki annað verið en að tölvan mín væri löngu tilbúin. Nei aldeilis ekki. Þau hjá EJS sögðu mér að Elko liðið hafi sent þeim tölvuna mína með miða þar sem stóð að þau ættu að gera kostnaðarmat... en það stóð auðvitað ekkert um viðgerðir, já að sjálfsögðu gleymdist að taka það fram. Þau hjá EJS gerðu kostnaðarmatið en þó að það væri auðvitað augljóst að það þyrfti að gera við tölvuna gátu þau ekki gert það fyrst það stóð ekki svo tölvan var send til baka. Einhver tími leið víst áður en EJS fékk svo tölvuna aftur til sín með fyrirmælum um viðgerð. Jæja, þá kom víst í ljós að það var ekki til annað svona lyklaborð á landinu svo það þurfti að panta nýtt frá útlöndum sem tekur auðvitað sinn tíma. Ég er semsagt enn ekki búinn að fá tölvuna mína til baka og það er í raun ótrúlegt að mér hafi tekist að halda mér rólegum yfir þessu svona lengi, en ég er að vona að ég fái kvikindið loksins núna á mánudaginn. Þá fer ég nú örugglega að verða duglegri að blogga nema ég verði of upptekinn í meiraprófinu en það er nú alltaf hægt að finna tíma. Það er ansi margt búið að drífa á daga mína svo það á eftir að koma einhver risaritgerð hingað inn þegar mér gefst tími! Lifið heil!

E.S. verð í Reykjavík um hverja helgi og gott betur vegna meiraprófsins, alveg út þennan mánuð. Er til í hitting eða bíó eða kaffi eða hvað sem er nema kannski feitt djamm því það passar ekki beinlínis með námi eða akstri á einhverjum risa trukkum!!!


Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband