Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Tiltektir

Loksins hafði ég mig í það að hreinsa dótið út úr herberginu sem ég er með á leigu hér á Hólmavík, svo ég geti farið að hafa herbergið eins og ég vil hafa það, og með mínu dóti. Það tók miklu styttri tíma en ég hafði ímyndað mér. Að ég skuli hafa dregið það svona lengi að ljúka þessu af, en þetta lýsir mér svosem ágætlega. Nú er bara að skúra og þurrka rykið, og skreppa svo suður og ná í eitthvað meira af dótinu mínu.

Ég virðist hafa verið eitthvað að flýta mér í síðustu skrifum. Ég var ekkert að segja frá því að Pálmi frændi minn reddaði mér alveg um síðustu helgi varðandi rúðuþurrkurnar. Ég náði ekki að útvega mér varahluti því að þeir eru víst ekki til hjá umboðinu þannig að ég mun þurfa að panta þá. Þetta er gallinn við að vera á tiltölulega sjaldgæfri týpu af bíl. En semsagt, hann náði að „skítmixa“ þetta fyrir mig eins og hann kallaði það, svo að ég komst alla leið til Hólmavíkur áður en skítmixið gaf sig svo. Það er alveg borin von að láta sig svo mikið sem dreyma um að reyna að keyra alla leið frá Reykjavík til Hólmavíkur með bilaðar rúðuþurrkur! Líkurnar á því að þú þyrftir aldrei að nota þurrkurnar á leiðinni eru þær sömu og að þú myndir vakna einn morguninn og finna eina milljón inni í koddanum þínum.


Slakað á

Hafði það ágætt fyrir sunnan. Gerði ekki helminginn af því sem ég ætlaði að gera. Verst var hvað ég var óduglegur í félagslífinu en þó hitti ég t.d. gömlu vinnufélagana hjá borginni sem var bara tær snilld, ég verð að halda sambandi við þetta úrvalsfólk.

Ég var eiginlega bara að slappa af, nákvæmlega eins og ég ætlaði því að ég var algerlega búinn að fá nóg af stressi og vinnu svo ég þurfti virkilega á þessu fríi að halda. Var bara edrú og nettur á því, skrapp bara í bíó með bróðir mínum Elvari og lék mér að því að gera skissur og teikna, eitthvað sem var orðið óralangt síðan ég gerði síðast. Ég var næstum búinn að gleyma hvað það er gaman að teikna maður.

Haldi'ði ekki að rúðuþurrkurnar á bílnum mínum hafi bilað á meðan ég var í Reykjavík. Alger klassi. Það virðist ætla að verða þrautin þyngri að komast á milli bæja í eitt skipti án þess að eitthvað smádót klikki sem samt er ekki hægt að vera án á Íslandi, eins og t.d. rúðuþurrkur! Síðan ég flutti þá hafa afturdempararnir klárast, mikilvæg baula dottið undan bílnum sem heldur við hjólabúnaðinn, ventill á einni felgunni hefur gefið sig og núna fór þurrkubúnaðurinn. En ég hef þó ennþá tröllatrú á þessum bíl, hann er þrátt fyrir allt sá besti sem ég hef átt, ég þarf bara að anda með nefinu og vera ekkert að æsa mig, klappa kvikindinu, mússímússí og allt það og þá klikkar hann ekki aftur.


Sund...alger snilld í kuldanum

Snjórinn virðist kominn til að vera hér. Eftir að ég kom með færsluna um snjóinn sem síðan bráðnaði samdægurs þá leið ekki nema einn eða tveir dagar þar til það snjóaði á ný. Jörðin hefur verið meira eða minna hvít síðan.

Það er geðveikt þægilegt að frændi minn sé í þessum bolta. Eins og ég hef sagt áður þá kem ég alltaf með honum þegar hann fer á boltaæfingarnar, en fer bara í sund í stað boltans. Undanfarnar vikur hefur það ansi oft gerst að ég hef verið farinn að dorma eftir vinnu þar til ég var farinn að reyna að hlaupast undan því að fara í sundið. „Æ, ég held ég sleppi þessu núna, er orðinn svo þreyttur eitthvað.“ Þá segir hann alltaf „þú „beilar“ ekkert á þessu, þú kemur með, það er ekki eins og það sé svona erfitt að fara í sund.“ Og auðvitað hætti ég alltaf við að hætta við eftir svona ræðu yfir manni! sem betur fer, því mér veitir svo sannarlega ekki af hreyfingunni, jafnvel þó ég sé núna í einu því erfiðasta starfi sem ég hef verið í. Sundið veitir mér þær hreyfingar sem vantar uppá í vinnunni þannig að það er alveg bráðnauðsynlegt fyrir mig svo ég sé ekki með grautlina vöðva innan um þá þjálfuðu.

Ég ætlaði bara að vera nettur á kantinum í dag og synda svona 20-30 ferðir hámark og slaka svo vel á í heita pottinum. En mér varð á að segja einum sundgestinum frá áformum mínum og þá sagði hann auðvitað „Það er nú alveg lágmark. Þú verður samt eiginlega að taka 40 ferðir, 41 til að toppa mig.“ Þetta var auðvitað ekkert annað en storkun svo auðvitað varð ég að taka að minnsta kosti 42 ferðir, bara út af kjaftinum í mér. En þetta þýddi að ég var kominn í tímahrak svo ég varð að synda eins og það væri óður hákarl á eftir mér. Kom mér svo uppá bakkann með oföndun dauðans, en sáttur. Það varð lítið úr heita pottinum.

Ég ætla suður eftir vinnu á fimmtudaginn. Löng helgi framundan. Flestir vinnufélagarnir mínir eru að fara í starfsmannaferð til Akureyrar að skemmta sér en ég vildi frekar fara til Reykjavíkur til að hitta vini og vandamenn og nýta tækifærið til að geta verið í bænum á virkum degi, en þetta er fyrsta tækifærið mitt til þess síðan ég flutti. Mér finnst ég ennþá eiga líka heima í Reykjavík þó mér líði ágætlega hér á nýja staðnum.


Mér leiddist

Horfði því á „The Gladiator“ um síðustu helgi til að drepa tímann. Sötraði kaldan öl. Var einn í húsinu, allir farnir á flakk. Fékk hugmynd. „Heyrðu, hvernig ætli ég líti út með svona skegg, eins og Maximus?“ Hvað gerist um næstu helgi? Fylgist með.


Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband