Hress gestur og rafmagnsfjör!

Frábært, æðislegt. Loksins fékk ég gest W00t, þann fyrsta úr fjölskyldunni síðan ég flutti hingað norður fyrir sex mánuðum. Og hann kom með ,,stæl!'' Bergþór Njáll mætti galvaskur með flugi klukkan sex að kvöldi á föstudaginn síðasta. Það munaði litlu að ég yrði of seinn að sækja hann því að Applausinn minn heldur áfram að plaga mig með fleiri og fleiri bilunum, rétt eins og hann viti að ég hyggist selja hann og að hann sé að reyna að koma í veg fyrir að fara til nýs eiganda. En ég vil ekki drepa fólk úr leiðindum sem hefur ekki áhuga á þessu bílaveseni sem er að gera mig gráhærðan svo að ég er búinn að setja þann pakka hérna neðst í færsluna, ég bara varð að fá útrás Crying! En allavega. Við áttum óborganlega helgi, við grilluðum saman, drukkum öl, rúntuðum um stórt svæði og gerðum margt fleira skemmtilegt. Á laugardaginn fórum við að Grettislaug en þar er afar fallegt. Þar eru brött og formfögur fjöll, bjarg skammt frá sem steypist út í sjó, Drangey örstutt frá og mun tignarlegri en frá Króknum, hestar og önnur dýr á svæðinu og svo auðvitað laugarnar sjálfar (hin náttúrulega Grettislaug og Jarlslaug). Við fengum leyfi til að grilla á staðnum og fengum lánað grill, borð og allt og við grilluðum svínarif sem var auðvitað engin leið að borða nema með höndunum, sem var bara þægilegt. Svo eyddum við löngum tíma í laugunum sem voru vel heitar. Ég dýfði fæti í sjóinn en hann var allt of kaldur ennþá svona snemma í júní, ja ég lagði allavega ekki í þetta að sinni. Svo var haldið til baka á Krókinn (bíllinn hrökk í gang sem betur fer) og fengið sér smá öl. Sunnudagurinn fór aðallega í leti og stuttan útsýnisrúnt upp í skíðabrekkuna við Tindastól og svo meiri leti! En nú voru góð ráð dýr, bíllinn náði að afhlaða sig á örskömmum tíma á meðan við vorum inni og brósa vantaði far til baka út á flugvöll. Ég náði sem betur fer að hlaða geyiminn í nokkrar mínútur og svo tók ég sénsinn að skemma kannski hleðslutækið mitt (sem ég er nýbúinn að kaupa dýrum dómum) og ræsti bílinn með tækið ennþá tengt, og það tókst án skemmda svo að allt endaði vel og brósi komst út á völl í þessa pínulitlu flugvél sem þjónustar Krókinn (öfund!).

 

Varúð, ekki lesa lengra ef þér leiðist bílaröfl!

 

Þessa einu helgi sem Bergþór Njáll var í heimsókn fékk ég start frá þremur ólíkum manneskjum og ég fékk aðstöðu til að hlaða geyminn yfir nótt hjá þeirri fjórðu og kann ég öllum þökk fyrir. Stóra vandamálið með bílinn minn í dag er þetta rafmagnsvesen og ég veit aldrei hvenær bíllinn fer í gang og hvenær ekki. Til að bæta gráu ofan á svart þá er bilaður hitamælir sem á að sjá til þess að sprengihólfin fái rétta bensínblöndu við ræsingu eftir því hvort það er kalt eða heitt úti. Bíllinn fær því oft ranga blöndu og fer ekki í gang fyrr en kannski í annarri eða þriðju tilraun, en þá er ég oft búinn að klára af rafgeyminum og næ ekki að ræsa vélina. Vandamálið stafar af afhleðslu einhvers staðar í öllu rafkerfinu og ég er ráðalaus og hef ekki hugmynd um hvaða vír er að leka allri orkunni. Ég hef meðal annars aftengt allar hurða- og skottperur en það bætti málin ekkert, en það var ekki fyrr en ég hafði skipt um rafgeymi og vandamálið hvarf samt ekki sem ég varð 90% viss um að ég hefði rétt fyrir mér með að þetta væri afhleðsluvandi. Ég hafði alltaf aftengt gamla geyminn eftir hverja ökuferð eftir að ég sá að það að aftengja allar hurða- og skottperur virkaði ekki. Nú var nýji geymirinn kominn í svo ég hætti að aftengja eftir hvern akstur. En eins og fyrr segir var nýji geymirinn skyndilega hleðslulaus í fyrsta sinn á ögurstundu þegar ég var að verða of seinn að sækja Bergþór Njál. Á laugardaginn datt okkur brósa í hug að athuga hvort það væri nóg vatn á nýja geyminum... og við fórum að fikta í honum sem endaði með að núna er ég líklega búinn að skemma geyminn þannig að nú er ekki nóg með að bíllinn afhlaði geyminn ef geymirinn er tengdur við hann, geymirinn sjálfur er farinn að afhlaðast þó hann sé ótengdur, og gerir það bara tvöfalt hraðar tengdur. Nú verð ég semsagt að gefa bílnum start í hvert sinn sem ég þarf að nota hann (eða hlaða geyminn yfir nótt), og ég þori varla að slökkva á bílnum fyrr en ég er aftur kominn heim. Já, í stuttu máli verð ég að henda skrjóðnum á verkstæði og láta finna út úr þessu, (og skipta um öxulhosu og laga pústið, bæði nýbilað) og jafnvel kaupa nýjan geymi! Argh, ég er nýbúinn að þurfa að eyða tugum þúsunda í að láta hjólastilla bílinn (svo dekkin étist ekki upp), fara með hann í skoðun, láta laga erfiðan bensínleka, kaupa föt (sem hefur setið á hakanum síðan áður en ég fór í FB svo ég átti engin heil föt eftir og ég bara varð að versla!) og fara í nauðsynlega tannlæknaferð Devil. Semsagt, von mín um að geta skipt um bíl er að verða að engu því að í stað þess að geta safnað uppí er ég kominn í mínus aftur og ég mun enda á núlli í gróða þegar ég sel þetta kvikyndi! Já, ég var of seinn að skipta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband