Sumarfríið er hálfnað og það hefur verið dásamlegt!

Það er ótrúlegt hvað tíminn æðir áfram. Nú er sumarfríið um það bil hálfnað og ég hef nokkurn vegin staðið við það sem ég hafði lofað sjálfum mér, að vera að mestu bara heima í alveg óskipulögðu sumarfríi! Það er sjaldgæft því venjulega er maður búinn að t.d. bóka sumarbústað hér og ákveða tjaldferð þar, lofa sér í hitt og þetta. En vegna óvissunnar með það hvenær ég verð sendur í aðgerðina til að stytta ristilinn (láta fjarlægja veika hlutann) þá var öllum áætlunum slegið á frest. Við Sunna höfðum t.d. hugsað okkur að halda okkar eigin brúðkaupsveislu í sumar í kjölfar þess að, já, þú lest rétt, við giftum okkur í skyndi í mars bara hérna á Hólmavík í látlausri sýslumannsathöfn! Þá voru einungis foreldrar okkar og börn viðstödd svo það eiginlega verður að gera betur við tækifæri og halda upp á þetta almenninlega í hópi náinna vina og ættingja. En vegna þess að ég fékk í langan tíma engin svör frá spítalanum þá fóru öll plön í frost. Skurðlæknirinn hafði sagt mér að aðgerðin yrði í júní án þess að gefa nákvæmari dagsetningu. Ég hringdi og hringdi til að reyna að fá niðurnegldan dag, en annað hvort náði ég ekki sambandi, eða ég náði sambandi en á röngum tíma og/eða við ranga manneskju! Að lokum heyrði ég í konu sem sér um þessar bókanir og þá sagði hún mér þær fréttir að það væri ekki einiusinni búið að bóka mig enn og vegna þess að sumarleyfistími skurðlækna væri að hefjast væri úr þessu ólíklegt að aðgerðin verði gerð fyrr en í fyrsta lagi í ágúst eða í haust. Ég má ekki vinna í um sex vikur á eftir svo augljóslega er á meðan ekki hægt að ákveða neina hluti. Semsagt, veislan verður nær örugglega bara næsta sumar!

Ég hef ekki alveg gert ekki neitt því ég hef dundað mér við að taka öll herbergi í húsinu í gegn (ég á bara eftir hitakompuna og bílskúrinn), eitthvað sem ég man ekki eftir að hafa tekist að gera áður, og svo hef ég bara reynt að vera duglegur að eyða meiri tíma með krökkunum og losna við sem flesta af löstunum sem ég hef verið að burðast með eins og t.d. símafíkn, matarfíkn, frestunaráráttu, svefnleysi og annað í þessum dúr. Ég segi hér með stolti að ég hef náð besta árangri ævinnar í þessu dásamlega fríi, ég er bara orðlaus hvað ég hef náð langt! Árangrinum má þakka blöndu af hjálp frá ADHD-lyfinu sem ég er kominn á (Elvanse) og svo því að ég fann loksins skipuleggjandi og hvetjandi aðferð sem skotvirkar! Ég hef komið mér upp ákveðnu umbunarkerfi og nota til þess ótilgreint app/smáforrit sem virkar þannig að ég kem mér upp verkefnum eins og að taka til í einhverju herbergi, borða hollt, fara snemma að sofa, skúra, læra spænsku í minnst hálftíma á dag o.s.frv. og ég vel fyrirfram hvað hvert klárað verkefni gefur mér marga punkta. Ef það eru tímamörk á verkefni (að klára eitthvað einu sinni á dag, einu sinni í viku, mánaðarlega, í eitt skipti o.s.frv.) og ég lýk ekki við verkefnið þá get ég látið mig tapa punktum (eða ekki)! Ég get líka haft lesti sem ég vil ekki gera, eins og t.d. að borða á nóttunni eða taka út af sparireikningi að ósynju, þá snýst allt við og ég græði punkta (eða græði ekki) fyrir að klára ekki verkið, en tapa punktum fyrir að klára það. Svo er það gulrótin! Ég vel mér verðlaun og vel hvað þau kosta og ef ég hef safnað nógu mörgum punktum get ég ,,keypt verðlaunin" fyrir punktana. Það getur verið t.d. óhollustudagur þar sem ég má borða hvað sem er í einn dag, eða lengri tími í hangs í símanum, eða að ég meigi kaupa mér einhvern óþarfa sem mig langar í, svona til að nefna eitthvað. Heimilisstörfin og annað sem venjulega er ,,leiðinlegt" að gera verður þannig spennandi og eftirsoknarvert að klára, næstum eins og í tölvuleik! Ég vissi það auðvitað ekki fyrirfram en þetta hefur virkað eins og ég veit ekki hvað! Sambland af svona umbunarkerfi og ADHD-lyfinu hefur bara gert mig að nýjum og betri manni! Og vegna þess að ég hef í þessu ferli náð geggjuðum árangri í baráttunni við ofþyngdina þá virðist mér hafa tekist að losna við kæfisvefninn, sem hefur svo bætt svefngæðin, sem hefur svo gert mig úthvíldan á daginn, sem hefur svo líka hjálpað mér að halda einbeitingunni og þannig ná að ljúka við flest það sem ég hef tekið mér fyrir hendur! Góð samlíking er á þá leið að snjóboltinn sé byrjaður að rúlla niður hlíðina og hann stækki bara og stækki! Þannig finnst mér líf mitt vera ákkúrat núna, betra og betra með hverjum deginum!

Það er svo mikið sem hefur gerst bæði í vetur og í sumar síðan ég bloggaði síðast að ef ég myndi skrifa um það allt nú þá yrði þetta löng ritgerð. Ég á til dæmis eftir að skrifa um ættarmótið sem ég kíkti á, heimsókn til Akureyrar og fleira en læt það semsagt bíða þar til næst! Bloggin ættu að koma með reglulegra millibili á næstunni því að eitt af ,,verkefnunum" mínum, ein af áskorununum, er einmitt að reyna að blogga að lágmarki einusinni í viku :)


Bloggfærslur 18. júlí 2025

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband