Færsluflokkur: Bloggar
14.3.2019 | 11:45
15. júlí 2007 byrjaði ég líklega á hinum mikla tímaþjófi - facebook!
Ég var að reyna að finna það á fésbókinni í dag hvenær ég byrjaði í henni, en uppgötvaði þá að allt í einu sýnir hún ekki lengur skráningardagsetninguna! Hvers vegna í ósköpunum? Það elsta sem ég gat samt fundið á veggnum mínum voru skilaboð frá Mist Rúnarsdóttur frá 25. júlí 2007 þar sem hún segir ,,Hey hey! Velkominn á þetta rugl.'' En ég hef lengi fundið hvernig facebook hefur lítið sem ekkert stuðlað að uppbyggilegum hlutum fyrir mig. Það sem facebook gerir fyrst og fremst fyrir mig er að sjúga frá mér allan tíma svo ég afkasti engu. Ég er með of mikinn athyglisbrest til að ráða við að hanga þarna dags daglega, svo að hér með ætla ég að forðast það eins og heitan eldinn að skoða þennan samskiptamiðil. Það er líklega best að kíkja bara einusinni í viku eða svo, bara rétt til að missa ekki af viðburðum, og til að kannski henda inn einni og einni mynd fyrir fjölskyldu og vini til að geta fylgst með manni. Svo þarf ég að hætta alveg á facebook í símanum og þá er ég góður. Gangi mér vel!
Bloggar | Breytt 14.4.2019 kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2019 | 12:09
Sáttari við blog.is, Sindri mættur, og snjalli Benjamín!
Jæja, nú er ég búinn að læra hvernig á að setja gott færsluyfirlit á bloggið mitt, og eins og þið sjáið hér vinstra megin á síðunni þá er nú hægt að velja og lesa öll blogg sem ég hef skrifað frá upphafi, með því einfaldlega að velja þann mánuð og ár sem sem mér eða þér hugnast. Ég hef því ákveðið að halda áfram blogginu mínu hér. Samt ætla ég að hafa opin augun ef ég skyldi finna eitthvað flottara á netinu, en þá myndi ég helst vilja afrita allar gömlu færslurnar mínar héðan, yfir á hið hugsanlega nýja blogg.
Nú er yngsti bróðir minn, Sindri Snær, fluttur til Hólmavíkur og hefur hafið störf hjá Hólmadrangi. Hans fyrsti vinnudagur var föstudaginn 15. febrúar síðastliðinn og er hann hæstánægður með að vera mættur á svæðið! Við erum því orðnir þrír bræður af fjórum sem erum fluttir hingað til Hólmavíkur, og er það þá ekki bara málið að reyna að plata þann fjórða, Elvar Árna, til að koma líka? Haha!
Hann sonur minn, Benjamín Máni er klárari en sýnist! Um daginn (þegar ég var reyndar ekki heima) kom hann víst til móður sinnar og vildi fá að sjá Letibjörn (Grizzy and the Lemmings), en fékk neitun. Hvað gerði hann? Jú, hann vildi þá allt í einu setjast á koppinn til að pissa, sem hann hefur ekki verið of duglegur við að gera. Svo sagði hann sjá Letibjörn, því við höfum gjarnan leyft honum að horfa þegar hann hefur verið dulegur á koppnum, haha! Þetta var svo heiðarleg tilraun til að snúa á reglurnar að Sunna varð bara að leyfa honum að horfa :)
Meira síðar (óreglulega samt)!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2018 | 04:00
Mörg árin liðin.
Jæja, nú hef ég heldur betur verið latur við skrifin, sem var nú ekki ætlunin. En það er kannski að hluta til vegna þess að mig hefur mikið langað til að skipta um bloggsíðu vegna stórs galla við uppsetningu þessa að öðru leyti ágæta bloggvettvangs. Stóri gallinn er hvað það er erfitt að fletta í gegnum færslurnar t.d. í leit að einhverri ákveðinni færslu. Aðeins er hægt að fletta fram og til baka um eina síðu í senn, en ekki er gefinn möguleiki á því að smella á eitthvað ákveðið ár eða mánuð og finna þannig örskjótt það sem mig langar að endurlesa. Aðrar ástæður fyrir bloggleysinu eru tja, leti, framtaksleysi, skipulagsleysi (sem leiðir af sér tímaleysi!!!), tilkoma facebook (tímaþjófur), mikil vinna, bæði á vinnustaðnum sem og í heimilishaldinu og barnauppeldinu o.s.frv., o.s.frv! En vonandi stend ég nú á tímamótum fyrst ég er allt í einu að blaðra hér í fyrsta sinn í nokkur ár, vonandi verð ég duglegri við að lesa, skrifa, aprender mi español, safna peningum, léttast og fleira í þessum dúr á nýja árinu sem er nú handan við hornið. Það er aldrei að vita nema ég hendi hingað inn eftir áramót almenninlegri færslu þar sem ég mun renna yfir það helsta sem ég hef verið að gera þessi blogglausu ár, og hvað hefur drifið á daga mína nýlega. Einnig væri gaman að ræða markmið mín fyrir árið 2019 en það lang stærsta er auðvitað spænska, spænska, spænska!!! Nú skal ég verða talandi í henni, og það áður en ég fer til Kanarí í sumar með fjölskyldunni og tengdó og systkinum og systkinabörnum Sunnu. En meira um síðir! E.s. ég skrifaði hér með vélritun, ekki með tvem fingrum, framfarir, framfarir ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2015 | 04:24
Barn á leiðinni :)
Draumurinn heldur áfram. Ég og Sunna erum að fara að eignast barn saman! Barnið er sett 26. september svo þetta er bara að fara að gerast. Við erum á fullu í undirbúningi og erum að verða búin að kaupa eða útvega okkur flest það sem ungabarn þarf á að halda. Meðgangan hefur gengið vel og barnið að öllum líkindum alheilbrigt, það vantar allavega ekki kraftinn í það miðað við spörkin sem ég hef fundið og séð þegar ég hef sett lófann á magann á Sunnu.
Þegar við fórum í sónarmyndatöku til að sjá hvort allt væri í lagi og til að vita kynið þá vildi barnið bara ekki sýna okkur neitt og passaði sig að snúa þannig alla skoðunina að ekkert sæist! Það er í góðu lagi mín vegna því ég vildi hvort eð er að kynið kæmi bara í ljós eftir fæðingu. Það sem sást og skiptir öllu máli er að það virðist ekkert ama að.
Við hlökkum ekki lítið til að barnið komi í heiminn og ég get sannarlega ímyndað mér að Sunna verði fegin þegar meðgangan er búin. Fyrst ég er búinn að eignast þessa yndislegu stjúpdóttur, hana Guðnýju Lilju, þá er mér alveg sama hvort barnið sé strákur eða stelpa, mig langar alveg jafnt í bæði, en áður en ég eignaðist hana vildi ég frekar eignast stelpu, enda á ég bara bræður. Meira seinna :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2015 | 02:44
Gleðilegt nýtt ár!
Þetta ár hefur verið yndislegt í alla staði og ætla ég að stikla á því helsta sem dreif á daga okkar frá því síðast er ég bloggaði. Ég og Sunna ferðuðumst mikið í vetur og í sumar á Vestfjörðum og Vesturlandi. Snemmsumars kíktum við í rómantíska ferð á Drangsnes og gistum í litlu gistiherbergi og fórum út að borða á Malarkaffi, auk þess að láta líða úr okkur í heitu pottunum í fjöruborðinu. Við kíktum í sumarbústað tengdafjölskyldu minnar við Skorradalsvatn og fórum líka í sumarbústað sem mamma og pabbi leigðu við Langavatn nálægt söluskálanum Baulu á Vesturlandi. Við lönduðum nokkrum fiskum af ýmsum tegundum í Skorradalsvatni, Langavatni og einnig í sjónum við Bolungarvík, ísafjörð, Suðureyri, Hólmavík og víðar.
Við fengum fjölskyldur okkar beggja í heimsókn vestur, fyrst mína (nema Elvar) í grenjandi rigningu, svo fjölskyldu Sunnu (nema Ívar) í fínasta veðri, en við gerðum ýmislegt skemmtilegt í bæði skiptin og létum veðrið ekki stöðva okkur mikið. Við fórum Vestfjarðahringinn tvisvar, fyrst bara við litla fjölskyldan og þá tjölduðum við í Bíldudal, svo með fjölskyldu Sunnu þegar þau komu til okkar. Þetta allt gerðum við þrátt fyrir að ég hafi ekki náð að kreista fram nema viku frí hjá Íslandssögu. Um Verslunarmannahelgina var mikið fjör líka en við kíktum að sjálfsögðu á mýrarboltamótið og á ókeypis tónleikana við brennuna. Þá helgi hitti ég nokkra góða vini frá Vogaskólaárunum (og fleiri), meðal annars á tjaldsvæðinu, en líka vini Sunnu sem voru þarna einnig um helgina. Við Sunna og Guðný skruppum líka á Suðureyri og tjölduðum þar í eina nótt með Pétri vini mínum og Erlu kærustu hans. Það var skrýtin tilfinning að tjalda þarna rétt við hliðina á bragganum sem ég bjó í aðeins nokkrum mánuðum fyrr áður en boltinn fór að rúlla og ég eignaðist kærustu og fór að leigja á Ísafirði og var allt í einu orðinn stjúpfaðir, allt á svo skömmum tíma. Þetta sannar svo vel að maður veit aldrei hvaða ævintýrum maður lendir í á morgun, lífið er afar spennandi, bara yndislegt! Ekki má gleyma öllum notalegu sundferðunum okkar í sumar, aðallega í Bolungarvík og á Suðureyri.
Við vorum orðin þreytt á kostnaðinum sem fylgdi því að búa á Ísafirði en vinna á Suðureyri með tilhreyrandi akstri, bensíneyðslu og tímaeyðslu. Þetta ýtti við okkur að leita að nýrri vinnu um vorið og sumarið. Því miður var ekki laust hentugt húsnæði fyrir okkur á Suðureyri á þessum tíma svo það var ekki möguleiki að búa þar. Í fyrstu ætluðum við að fá vinnu á Ísafirði, og ég var meira að segja kominn með starf þar, en einn daginn vorum við á rúntinum að velta fyrir okkur möguleikunum þegar Sunna sagði við mig eitthvað á þessa leið ,,Hvað með að flytja til Hólmavíkur? Þú talar svo oft um hvað þú saknir staðarins og vinnunnar þar og að þér hafi liðið svo vel þar.'' Þetta gladdi mig mjög því mér hafði aldrei dottið í hug að spyrja hana hvort henni litist á að flytja með mér þangað, því ég hélt að henni fyndist Hólmavík vera full lítill og einangraður staður, komandi frá Reykjavík, miðað við hvað Ísafjörður og nágrenni hefur upp á að bjóða. En fyrst hún var til í Hólmavík, þá varð ég sjálfur mjög spenntur að flytja þangað á ný. Ég dreif í því að hringja í gamla vinnustaðinn minn, Hólmadrang og sækja um vinnu þar fyrir okkur bæði og við sóttum um leiguíbúð og leikskólapláss. Allt varð að smella saman svo það yrði úr flutningunum. Okkur fannst biðin eftir svari um starfið engan endi ætla að taka, svo ég fór að hringja reglulega í Hólmadrang til að minna á okkur. Svo er við vorum einn daginn stödd í Hnífsdal á rúntinum kom hringingin, og við fengum störfin! Sem betur fer fengum við líka íbúð (í Skólabraut 16) og pláss á leikskólanum Lækjarbrekku fyrir Guðnýju og þá var aðeins eftir að pakka og flytja. Það var svosem ekkert aðeins, því við lögðum mikið á okkur til að koma öllu okkar dóti til Hólmavíkur og ókum mörgum sinnum á milli með fullan bíl og kerru af búslóð, jafnvel á virkum degi eftir vinnu, og vorum svo komin til baka vestur um nóttina og svo var mæting í vinnu snemma um morguninn.
Fljótlega eftir að við vorum flutt í leiguíbúðina á Skólabrautinni sáum við að við gætum ekki búið þar lengi, því það var bæði fúkkalykt og mygla þar, auk þess sem íbúðin var með úr sér gengnar innréttingar og hún var líka bara langt frá því að vera falleg. Það eina frábæra við hana var útsýnið yfir þorpið og Steingrímsfjörðinn út um gluggana. Við vorum vægast sagt svekkt því við höfðum rétt misst af draumaleiguíbúð í Lækjartúni 18. Á meðan við vorum með opin augun fyrir nýrri íbúð til að leigja eða kaupa fórum við í leitir og réttir í Staðardalnum fyrir frænda minn Harald á Stakkanesi og skemmtum við okkur öll mjög vel þá helgi. Haustið kom og veturinn en þá dró heldur betur til tíðinda hjá okkur því við fréttum af huggulegu gömlu húsi til sölu á Kópnesbraut 3b í hjarta gamla bæjarins á Hólmavík. Í fyrstu voru þetta aðeins draumórar hjá okkur því við vissum ekki hvað húseigendur vildu selja á og svo vissum við ekki hvort við fengjum lán hjá einhverjum bankanum eða hvort við ættum nóg fé til að greiða út þann hluta húsnæðisverðsins sem fengist ekki lánaður. Við fórum í greiðslumat hjá hagstæðasta bankanum og byrjuðum að gera tilboð í húsið. Svo bauðst okkar fólk til að lána okkur það sem myndi vanta uppá, og þegar við fengum húsið á viðráðanlegu verði þá réðum við okkur ekki af kæti.
Þetta er búið að vera draumi líkast og ég vil þakka öllum sem hafa hjálpað okkur að láta hann rætast. Við erum semsagt flutt í þetta yndislega hús sem bíður eftir okkur á Hólmavík þegar við keyrum heim frá Reykjavík eftir yndisleg jól og áramót hér fyrir sunnan. Nú læt ég staðar numið í bili og þakka fyrir góðar stundir á gamla árinu. Gleðilegt nýtt ár öll sömul :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2014 | 13:11
Páskafjör :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2014 | 21:25
ALLT að gerast

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.2.2014 | 20:16
Er svo hamingjusamur núna


Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2014 | 23:16
Þorrablót á Hólmavík :D
Nú er þorrablótið á Hólmavík að bresta á á laugardaginn, og að sjálfsögðu mæti ég, svona fyrst ég er í nógu góðum málum fjárhagslega til þess núna. Svo er veðrið líka upp á sitt besta þessa dagana! Ég veit að ég hef verið slappur að blogga undanfarna daga en ég hef mínar ástæður, það er bara búið að vera fullt að gera bæði í vinnunni sem utan hennar, og margt að breytast hjá mér. Meira um það síðar samt því núna þarf ég að fara að sofa svo ég verði ferskur í akstrinum á morgun eftir vinnu. En eins og ég segi, alvöru færsla er á næsta leyti, þangað til, sjáumst! Og verið hress!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2014 | 20:01
Rútínan byrjuð
Nú hugsa ég mikið um næsta haust því ég vona svo innilega að ég komist í FB á ný til að klára þessar síðustu ellefu einingar sem ég á eftir til stúdentsprófs. Eftir það byrja hlutirnir fyrir alvöru að verða spennandi því þá fer ég loksins að sérhæfa mig í verknámi sem ég virkilega hef áhuga á. Því verður vonandi lokið í kringum árið 2016-17 og þá finn ég mér, ef heppnin er með, mína fyrstu vinnu sem býður upp á hærra tímakaup en það lægsta sem vinnuveitandi kemst upp með að greiða. Ég er svolítið spenntur fyrir þeirri hugmynd að plata einn eða tvo af bræðrum mínum, eða einhverja vini nema hvort tveggja sé, til að leigja með mér íbúð í Reykjavík þegar ég sný þangað í námið því ég ætla í þetta sinn að finna mér aukavinnu svo ég komist loks í mína eigin íbúð. Ég verð að segja eins og er að ég er orðinn hundleiður á að kúldrast þetta endalaust í leiguherbergjum hingað og þangað og ég er nú bara orðinn allt of gamall til að flytja enn á ný í foreldrahús. Jæja, ég læt þetta duga af mér í bili, hafið það gott!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðmundur B. Sigurðsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Gummi bloggar á spænsku Bloggið mitt þar sem ég æfi mig í að skrifa og tjá mig á spænsku.
Eldri færslur
2025
2024
2021
2020
2019
2018
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Bloggin
Vinir, fjölskylda eða aðrir
- Haddi frændi
-
Pétur Olsen og co
Fyrrverandi vinnufélagi minn og vinir hans í sameiginlegu bloggi, bara flott hjá þeim! - Bergþór bróðir
- Elín frænka
- Þórhallur
- Ari
- Mary
- Anna Hendrix
- Mist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar