Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Ligg í dvala

Gleðileg jól! Ég vona að þið séuð búin að hafa það gott um hátíðirnar.

Ég get ekki útskýrt það fyrir ykkur hvað ég er búinn að þurfa mikið að fá þetta frí. Loksins, loksins er það komið! Loksins get ég safnað kröftum almenninlega og hvílt mig. Það besta við þetta frí er að ég er laus við alla dagskrá, fyrir utan jólin sjálf og gamlárskvöld auðvitað, en það er samt auðvitað bara skemmtileg dagskrá.

Ég lenti reyndar strax í vægu áfalli eftir að ég kom til Reykjavíkur. Þannig er mál með vöxtum að ég tók tölvuna mína með mér og alla fylgihluti, enda fer ég ekki til baka fyrr en fyrsta janúar. En þegar ég var búinn að tengja allt, uppgötva ég að annar af utanáliggjandi hörðu diskunum sem ég á, er ónýtur eftir ferðina suður. Hvernig er þetta hægt? Hvernig geta þessir diskar verið svona viðkvæmir að það sé ekki hægt að flytja þá á milli staða án þess að þurfa að naga á sér neglurnar af áhyggjum yfir því hvort þeir lifi ferðina af. Þessi diskur var varla orðinn árs gamall og þetta var í fyrsta sinn sem ég tek tölvuna með mér suður síðan ég flutti til Hólmavíkur í ágúst.

Ég var reyndar mjög heppinn að það var þessi diskur sem hrundi en ekki einhver annar, því að mest af gögnunum á honum voru vara afrit sem ég hafði gert ef eitthvað svona myndi gerast. En sumu er ég samt búinn að glata að eilífu og það mátti engu muna að allar myndirnar úr Færeyjaferðinni minni hefðu glatast, því að ég hafði sett þær á þennan disk til að skapa meira pláss á hinum diskunum, og þá auðvitað án þess að eiga þær annars staðar í tölvunni. En það var að rifjast upp fyrir mér að ég skrifaði þessar myndir einusinni á geisladisk til að sýna foreldrum mínum þær, núna verð ég bara að finna þennan disk og vona heitt og innilega að það sé í lagi með hann. Þær myndir sem ég var búinn að henda hingað inná myndaalbúmið eru bara í broti af gæðunum sem ég átti þær í á harða diskinum og ég var heldur ekki búinn að setja nema örfáar af myndunum hér inn.

Bíllinn minn er loksins kominn í topp stand... eða svona næstum því. Eftir margra mánaða bið er ég loksins búinn að skipta um afturdemparana. Ég hef einfaldlega aldrei tímt því fyrr en núna, en ég gat ekki frestað þessu lengur því að ég hef aldrei séð strandaveginn (á milli Hvk. og Rvk.) svona slæman áður. Er líka búinn að skipta um rúðuþurrkubúnaðinn, sem var ófáanlegur á landinu og þurfti að koma hingað langt að, því hann var ekki heldur til á einhverjum lager í Evrópu sem umboðið verslar venjulega við. En sagan er ekki öll skal ég segja ykkur! Haldið þið ekki að það hafi myndast þessi myndarlega sprunga á framrúðuna sama dag og allt var klappað og klárt. Og að sjálfsögðu stækkaði hún all rækilega strax daginn eftir. Það er alveg á hreinu að ég og bílar eigum ekki samleið.

Ég veit ekki hvað er málið með mig á þessum árstíma. Ég hef ekki haft löngun til að gera neitt í þessu fríi mínu. Ég keypti jólagjafirnar og pakkaði þeim inn. Var í faðmi fjölskyldunnar á aðfangadag, sem var alveg stórkostlegt. Fór með fjölskyldunni í nokkur matarboð. Hitti ættingjana. Allt alveg ágætt bara. En þess á milli hef ég varla stigið út fyrir hússins dyr, hef engan heimsótt, hef ekki haft samband við neinn, hef ekki kíkt í bíó, ekki farið á rúntinn... Það eina sem ég geri allan daginn er að horfa á bíómyndir, hanga í tölvunni, éta, hlusta á tónlist og svo geri ég alveg heilmikið af því að sofa. Ég er í dvala. Ætla samt að reyna eins og ég get að koma mér í gang á morgun, sjáum til hvernig það lukkast.


Trallala

Jæja, þá eru bílavarahlutirnir mínir komnir til Reykjavíkur og eiga bara eftir að koma hingað með næstu sendingu. Spánnýjir afturdemparar og rúðuþurrkubúnaður. Samtals rúmlega 70 þúsund kall, mig svimar af því að hugsa um þessa upphæð.

Um daginn heyrði ég um snarbrjálað veður fyrir sunnan og um fjúkandi brak og jólatré og 64 metra á sekúndu undir Hafnarfjallinu, vá! Hérna var í mesta lagi léttur andvari, bara besta veður. Maður var nú bara nokkuð sáttur þá. En í gærnótt  og í dag sluppum við ekki heldur við þetta brjálaða rok. Rafmagnið er búið að vera að fara af sí og æ, sem hafði auðvitað truflandi áhrif á vinnsluna, ekkert alvarlega þó, en við náðum samt ekki alveg að klára að keyra fullan skammt í gegn. 

Ég er alveg að missa mig núna af tilhlökkun, aðallega fyrir fríinu auðvitað hehe. Ég verð í 11 daga fríi, alveg frá 22. desember til 1. janúar. Getur lífið orðið betra? Jú kannski ef ég gæti losnað við bakverkinn, þá væri lífið því sem næst orðið fullkomið. Nenni ekki að skrifa meira, líka eins gott fyrir mig að klára áður en rafmagnið fer af rétt áður en ég vista...


Jólatilhlökkun á alvarlegu stigi

Ég held að þetta sé komið út fyrir öll eðlileg mörk hjá mér. Ég er búinn að standa sjálfan mig að því að hækka í útvarpinu í vinnunni þegar auglýsingalesturinn stendur yfir. Og til hvers? Jú, til að hlusta á jólastefið í bakgrunninum. Ég er sko ekkert að hlusta á upplesturinn sjálfann. Ég held að ég sé orðinn bilaður!

Bara kominn desember!

Sæl öll sömul. Ég er loksins farinn að uppfæra myndaalbúmin eitthvað, samt ekki búinn svo endilega bíðið bara róleg þar til ég klára hehe. Er að setja inn myndir frá Færeyjaferðinni minni sem ég veit að fæstir hafa séð, en flestir hafa verið að bíða eftir að sjá. Læt ykkur vita þegar allt er klappað og klárt!


Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband