Smölun

Það hlaut að gerast. Það þýðir ekkert að flytja út í sveit og sleppa svo bara smölun og réttum! Nei, ég hitti varla þá manneskju sem spurði mig ekki „ferðu ekki í smölun um helgina?“ og svo er frændi minn kindabóndi hér rétt fyrir utan Hólmavík þannig að það var ekki um annað að ræða en að bretta upp ermarnar og skella sér í þetta. Mér finnst vinnan hjá Hólmadrangi alveg ágætlega erfið, en að elta þrjóskar kindur um öll fjöll, yfir læki, grjót, mýrar, skurði og risastórar þúfur, í vindi og frosti, og þar af leiðandi hálku, er einn sá erfiðasti hlutur sem ég hef gert. Ég vil samt alls ekki fæla fólk frá því að skella sér í smölun! Það eru til verkefni við allra hæfi, sama í hvernig formi þú ert eða á hvaða aldri þú ert. Og svo er auðvitað eitt í þessu, því fleiri sem taka þátt, því auðveldari verður smölunin. Og í ár var einmitt metþáttaka svo allt gekk þetta því mjög vel. Í þessum bransa virka hlutirnir þannig að því öflugri sem þú ert, þess erfiðara verkefni færðu. Og það vill einmitt svo til, að ég hef sjaldan verið í eins góðu formi og einmitt nú, svo ég færði mig alltaf uppá skaftið, Þar til ég var búinn að koma mér í þau vandræði að elta örugglega þrjóskustu kindur í heimi. Byrjum á byrjuninni. Það var smalað frá föstudeginum til sunnudagsins og þá tóku réttirnar við síðdegis. Ég var auðvitað að vinna á föstudaginn svo ég mætti snemma á laugardaginn og ég og bróðir minn ásamt fleirum byrjuðum efst í Norðurdal svokölluðum, og sem betur fer undir leiðsögn í gegnum talstöðvar, því að þetta var mín fyrsta smölun. Allt gekk með ágætum fyrri hluta dagsins og við gengum á jöfnum hraða í línu (semsagt, einn neðst í brekkunni, einn í miðjunni og einn ofar og svo framvegis) svo kindurnar söfnuðust fyrir framan okkur og gerðu fáar tilraunir til að fara framhjá okkur. En síðdegis tók verra við. Þá vorum við færri og kannski óreyndari, og lentum í þessum þrjóskuferfætlingum dauðans. Það var alveg sama hve mikið ég reyndi að koma fénu áfram í rétta átt, það vildi bara upp! Til að komast upp fyrir þær varð ég að taka margra tuga metra sveig framhjá þeim, en það lá við að fyrir hverja 5 metra sem mér heppnaðist að reka þær niður, þá enduðu þær 50 metrum ofar á endanum. Þær hlupu semsagt nokkra metra niður fjallið á undan mér, en síðan hlupu þær bara nógu langt meðfram hlíðinni til að ég væri ekki lengur fyrir ofan þær, og þá tóku þær bara sprettinn upp! Kvikindin enduðu semsagt nánast á toppnum og ég lá sigraður í mosanum, með asmakast og bullandi hjartslátt og gat mig hvergi hreyft fyrir mæði. Það var því ekki furða að ég var ekkert allt of spenntur fyrir sunnudeginum. En sá dagur varð mun skárri og bara þrælskemmtilegur, ég var í miklu minna puði, það voru aðrir að smala þeim hjörðum sem eftir voru á fjallinu og ég stóð bara vaktina niðri með mörgum öðrum að taka á móti þeim og koma þeim inn fyrir girðingu. Síðan tók við matur, og þegar allir voru búnir að hvíla sig aðeins hófust réttirnar. Allir sem hafa tekið þátt í réttum vita hve skemmtilegar þær eru, og þessar réttir voru engin undantekning. Í stuttu máli: Þetta var ERFIÐ helgi, en skemmtileg og ég mæti bara tvíefldur aftur að ári.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gúndi minn.

Mikið rosalega var gaman að lesa þetta, maður lifði sig nánast inn í þetta, á köflum sá ég ykkur alveg fyrir mér og var grenjandi úr hlátri.

kveðja mútta

Kristín Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 10:18

2 identicon

Hæ frændi, þessi smölun var greinilega akkúrat það sem þú þurftir. Gott hjá þér að mæta galvaskur næsta dag líka. Gaman að fylgjast með þér hér á blogginu.

kv, Begga

Bergþóra Njála Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 20:57

3 Smámynd: Guðmundur Björn Sigurðsson

Ég hélt ég myndi ekki hafa það að mæta aftur. Feginn að ég gerði það :)

Guðmundur Björn Sigurðsson, 24.9.2007 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband