Veikindi og bati

Tekið af facebook veggnum mínum 17. janúar 2025:

Undanfarnir níu dagar hafa sannarlega ekki verið dans á rósum hjá mér. Miðvikudaginn áttunda janúar fór ég að finna fyrir verkjum í ristlinum, en við fjölskyldan höfðum fengið okkur smá popp kvöldið áður. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af þessu því að fyrir nokkrum árum grunaði lækni að ég þjáðist stundum af ristilpokabólgu og meðferðin við því er einfaldlega íbúfen og auðmeltur matur uns bólgan hjaðnar. Ég fékk mér verkjalyf og fór á auðmelt, hollt matarræði og hélt að eins og venjulega myndi það duga til að lækna mig. Það var svo sannarlega ekki raunin í þetta sinn því verkirnir héldu áfram að versna og versna. Að lokum var ég orðinn það þjáður að mér fannst eins og hnífar væru að skera mig innvortis og verstu verkjaköstin komu alltaf um klukkutíma eftir að ég borðaði eitthvað. Það skipti nánast engu máli hvað ég borðaði og breytt matarræði dugði skammt. Á endanum hætti ég alveg að borða og ég léttist um sex kíló á einni viku. Ofan á þetta var kominn látlaus niðurgangur svo það var augljóst að eitthvað mikið var að. 

Miðvikudaginn 15. janúar sagði læknirinn á Hólmavík mér að keyra strax til Reykjavíkur í tölvusneiðmyndatöku sem og ég gerði. Ég hélt að ég færi bara heim samdægurs og myndi svo heyra í lækninum daginn eftir. En rétt áður en ég ætlaði að aka heim hringdi læknirinn með slæmar fréttir og sagði mér að fara tafarlaust á bráðamóttökuna. Jú, ég var með ristilpokabólgu en í þetta sinn var hún svo slæm að það kom rof á ristilinn og ég var kominn með alvarlega sýkingu og mikinn gröft fyrir utan hann. Ég var sendur í aðgerð þar sem var sett í mig dren og mikill gröftur tekinn úr mér. Drenið er enn í mér og enn að koma einhver gröftur þó það hafi hægst vel á. Það er búið að dæla í mig sýklalyfjum í æð og einnig dágóðum skammti af morfíni og öðrum verkjalyfjum. Lengst af var ég látinn fasta sem var algjör hryllingur enda var ég búinn að vera meira eða minna fastandi heima dagana á undan svo ég var ekki sjón að sjá lengur. 

Í dag er fyrsti dagurinn sem mér finnst mér vera að batna. Verkirnir hafa dofnað mikið og ég er farinn að borða (varlega) á ný, bara allt annað líf! Ég er farinn að kíkja fram á spítalagang í stutta innanhússgöngutúra og setjast niður í kaffistofunni. Ef það heldur áfram að ganga vel þá losna ég vonandi við drenið á morgun eða hinn og ég er bjartsýnn á að verða útskrifaður áður en helgin er á enda. Takk fyrir allar kveðjurnar og peppið þau ykkar sem voruð búin að frétta þetta og hafa samband! Stórt knús á ykkur öll ❤

Tekið af facebook veggnum mínum 24. janúar 2025:

Jæja, það er best að koma með nýjustu upplýsingar af mér. Ég vil byrja á að þakka ykkur öllum af dýpstu hjartarótum fyrir allar fallegu batakveðjurnar. Ég er svo heppinn að eiga svona marga góða ættingja, vini og kunningja og það er öruggt að hlýjan frá ykkur hefur hjálpað mér. Mér hefur aldrei á ævinni þótt lífið eins dýrmætt og einmitt nú. Enn og aftur, takk! ❤

Nú hef ég lést um eitt kíló í viðbót síðan ég veiktist svo það eru sjö kíló farin síðan 15. janúar þegar ég var lagður inn. Sjö kíló á níu dögum! Þyngd: 94,8 kg! Það var sko ekki svona sem ég ætlaði að léttast og ég mæli ekki með þessu! Ekki skrýtið að ég sé búinn að vera máttfarinn, svimagjarn og óglatt yfir þennan tíma. Ég fékk að fara af spítalanum 18. janúar eftir fjögurra daga spítalavist en var þó áfram með drenslöngu og poka fastan við mig í tvo daga til viðbótar og á sterkum sýklalyfjum. En ég mátti ekki fara langt frá spítalanum svo ég hef dvalið hjá mömmu og pabba í Melahverfinu. 

20. janúar fór ég aftur á spítalann til að láta taka drenið því það var hættur að koma gröftur úr því og sýkingin var að jafna sig hratt. Nú var ég kannski orðinn aðeins of kátur og að ofmeta getu mína því ég beið ekki boðanna og strax daginn eftir tók ég Benjamín Mána á rúntinn á Akranes og fór með hann á Langasand svo hann gæti aðeins dundað sér þar með mér. Sunna og krakkarnir mínir voru að fara að aka heim eftir smá stund svo ég vildi ná að gera eitthvað skemmtilegt með honum áður en þau færu. Við fórum svosem ekki langt, gengum bara nokkur hundruð metra en þegar við komum til baka til mömmu og pabba og ég var að standa upp eftir að hafa aðeins lagst upp í rúm þá leið næstum yfir mig. Mér sortnaði fyrir augum og ég þurfti að styðja mig við vegg. Þessi svimaköst hafa haldið áfram í hvert sinn sem ég stend upp svo ég hef þurft að venja mig á að standa rólega upp og hinkra svo í smá stund áður en ég fer að ganga.

Í gær fékk ég þær góðu fréttir að blóðprufur sýndu að sýkingin væri alveg búin og ég fékkgrænt ljós að fá loksins að fara heim! Mikið hlakka ég til! Ég er loksins farinn að borða meira (þær fæðutegundir sem ég má borða) og svimaköstin eru að minnka og minnka en ég finn þó vel að ég er enn ekki nema skelin af sjálfum mér þó ég gleymi því stundum.

Það sem er framundan hjá mér er að ég á að taka því rólega heima næstu þrjár vikurnar eða svo, en ég neita að trúa öðru en að ég verði mættur í vinnuna áður en sá tími er liðinn. Ég á að mæta í ristilspeglun á Akranesi 18. mars og svo í viðtal við lækni á Landspítalanum 20. mars. Þá skilst mér að ég fái loks að vita hvenær ég á að fara í skurðaðgerð til að stytta ristilinn (fjarlægja sjúka hlutann). Eftir þá aðgerð og nokkura daga hvíld á ég að vera orðinn að fullu læknaður. Þá fyrst mun ég smátt og smátt geta byrjað að borða allan venjulegan mat áhyggjulaust. Þetta verður langt ferli en ég verð bara að láta mig hafa það, ég hef ekkert val.

Núna er ég bara að bíða eftir að strætó mæti hingað í Melahverfið kl. 16:34 og þá kemst ég loksins heim til Hólmavíkur! Farið vel með ykkur og við sjáumst!


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 1105

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband