4.9.2013 | 21:40
Fiskilífið og fleira
Það er áhugavert að sjá hvernig atvinnulífið á Íslandi tengist allt saman á ótal vegu. Við höfum verið að fá fullt af makríl hingað til Suðureyrar sem kemur frá Ströndum þar sem hann er veiddur. Allir eru að græða, Strandamenn, Súgfirðingar og auðvitað öll þjóðin, og ég fæ helling af langþráðri yfirvinnu, bara frábært. Það vantar fólk í störf á Hólmavík því það er kviknað svo mikið líf þar við höfnina í kringum makrílveiðarnar. Allt bryggjupláss þar er troðfullt af bátum og allt iðar af lífi og það er unnið sleitulaust við löndun og vantar fleiri vinnandi hendur. Eða hefur vantað því að nú hlýtur að styttast í annan endann á vertíðinni.
Það getur vel hugsast að þetta hafi haft áhrif á það að ég var ráðinn í vinnu til Íslandssögu (fiskvinnslunnar). Það er einfaldlega búið að vera brjálað að gera við að vinna makrílinn svo að það var líklega ekki hægt að lána mann í endastöðina þar sem ég er nú að vinna. Ég held að ég hafi dottið á eitt af betri störfunum í vinnslunni, að vera annar af tvem starfsmönnum á ,,tækjunum" eins og það er kallað. Við erum að vinna við að plasta bretti með fiski sem búið er að fullvinna, frysta, pakka og setja í kassa. Við færum allt til bókar og merkjum í bak og fyrir og í lok dags hlöðum við afrakstri dagsins á vörubílana sem keyra með fiskinn suður til Reykjavíkur þar sem sendingarnar fara með flugvél eða skipi út í heim, já eða beint á veitingastaði borgarinnar eða í Bónus um land allt! Þetta þýðir að við þurfum alltaf að vinna 1-2 tímum lengur en flestir aðrir hér, utan þrifafólks, og það þýðir að ég hef trygga yfirvinnutíma á hverjum degi sem mig vantaði svo mjög á Króknum.
Við sjáum líka um að frysta fisk í blokkir í þar til gerðum frystiskápum, en þá röðum við mótum með blokkum (öskjum fylltum af fiski) í hillur frystiskápa, sem við svo látum pressast saman áður en við svo lokum skápunum og bíðum í tvo tíma eftir að herlegheitin séu frosin í gegn. Að því loknu tökum við formin út og sláum blokkirnar úr þeim (í þar til gerðum pressum), sem nú eru grjótharðar eins og múrsteinar. Svo röðum við blokkunum ofan í kassa og kössunum á bretti og þá er varan tilbúin til útflutnings. Íslandssaga er ansi sérstök vinnsla í þeim skilningi að boðið er upp á hópskoðunarferðir um verksmiðjuna, svo við fáum reglulega gesti í heimsókn, en þó líklega mun meira á sumrin en veturna, ætla ég að giska á. Viljið þið ekki bara kíkja í skoðunarferð?
Ég er enn á ný að reyna að gera það að reglu að skokka á hverjum degi. Ég er búinn að finna mér frábæran vettvang til þess, sem er aflagður flugvöllur rétt við bæinn, en ég hleyp sex ferðir á dag og þá eru komnir þrír kílómetrar af hlaupum. Svo, ef ég hef tíma, þá skelli ég mér í heitu pottana í þessari dásamlegu laug sem Suðureyringar hafa, en hún er reyndar lokuð tvo daga í viku á veturna en starfsmenn Íslandssögu fá frítt í sund, gott fyrir mig! Þegar ég loks kem mér heim eftir allt þetta þá er ég að skrafa aðeins í spænskunni í eins og klukkutíma á dag, svo ég verði tilbúinn í slaginn þegar ég skrái mig aftur í nám til að ljúka við þessar litlu ellefu einingar sem ég á eftir í stúdentsprófið. Þetta hefst fyrir rest. En vá, ég ætlaði nú bara að rétt skrifa einar fjórar, fimm línur af texta hér í kvöld svo það er best að hætta að sinni! Meira næst.
Um bloggið
Guðmundur B. Sigurðsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Gummi bloggar á spænsku Bloggið mitt þar sem ég æfi mig í að skrifa og tjá mig á spænsku.
Eldri færslur
2024
2021
2020
2019
2018
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Bloggin
Vinir, fjölskylda eða aðrir
- Haddi frændi
-
Pétur Olsen og co
Fyrrverandi vinnufélagi minn og vinir hans í sameiginlegu bloggi, bara flott hjá þeim! - Bergþór bróðir
- Elín frænka
- Þórhallur
- Ari
- Mary
- Anna Hendrix
- Mist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gaman að lesa þetta karlinn minn! Ég var líka að heyra að þú leigir hjá frænda þínum honum Jóni Víði. Það er gott að þú skulir vera ánægður þarna og vertu nú duglegur að blogga.
þín gömlu afi og amma í Espigerðinu
Ólafía Margrét Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 14:56
Takk fyrir innlitið, mér finnst miklu skemmtilegra að blogga ef ég veit að einhver er að skoða það! Ég held að það séu svona um fimm manns sem lesa skrifin mín reglulega, en það er nóg fyrir mig til að halda áfram. Þetta er líka eins konar dagbók fyrir sjálfan mig svo ég muni hvenær ég gerði hvað! Bestu kveðjur til ykkar, afi og amma .
Guðmundur Björn Sigurðsson, 8.9.2013 kl. 15:14
E.S. Já, það er rétt, ég komst að því að ég er að leigja hjá Jóni Víði frænda, sem ég hef þó ekki enn hitt! Ég þarf að fara að snuðra hann uppi!
Guðmundur Björn Sigurðsson, 8.9.2013 kl. 15:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.