27.6.2013 | 23:26
Næsta stopp: Hólmavík
Nú er um að gera fyrir mig að pakka niður tölvunni strax eftir þessa færslu og vera búinn að pakka öllu öðru líka svo ég geti brunað til Hólmavíkur strax eftir vinnu á morgun. Hamingjudagarnir eru semsagt núna um helgina, alveg satt í þetta sinn!! Ég var þó sannarlega ekki kyrr um síðustu helgi þó ég hafi haldið að hamingjudagarnir á Hólmavík væru þá, heldur fór ég í 1209 km rúnt frá Sauðárkróki til Bíldudals í gegnum Patró og Tálknó, svo til Ísafjarðar og loks til baka á Krókinn með stoppi á Hólmavík.
Ég er alveg kominn á þá skoðun að Bíldudalur sé í fallegasta bæjarstæði á Vestfjörðum, ef ekki á landinu öllu. Þvílík fjallafegurð allt um kring, og skjólið sem fjöllin veita og hafið og fuglarnir, húsin og bara allt! Og þar verða mörg atvinnutækifæri í framtíðinni svo hver veit hvað gerist hjá manni. En þó held ég að það sé líklegra að ég haldi mig 100% við það að komast á Ísafjarðarsvæðið því að þar eru svo miklu fleiri möguleikar og bærinn auðvitað miklu stærri og minna einangraður (þó það hjálpi Bílddælingum reyndar mjög mikið að það sé áætlunarflug þaðan til Reykjavíkur, eins og er á Ísó).
Ég myndi svo segja að Ísafjörður sé í næst fallegasta bæjarstæðinu og bærinn sjálfur sá fallegasti að mínu mati! Þarna er allt til alls; lágvöruverðsverslun; sérverslanir; þjónusta af ýmsu tagi; bíó; menning (t.d. Aldrei fór ég suður!); gamall, gróinn og sjarmerandi miðbær; skólar á öllum menntunarstigum; góðar flugsamgöngur og malbik alla leið til Reykjavíkur (en reyndar brjálæðislega löng akstursleið, en ég hef gaman af því að keyra og svo er Hólmavík á miðri leið!) og veðursæld í skjóli fjallanna og alvöru snjór á veturna en ekki bara slydda!
Eini mínusinn við Ísó fyrir mig er að sundlaugin þarna er innilaug með bara einum litlum heitum potti og það er dýrt í sund, en það er þó hægt að komast í flottari laug í Bolungarvík skilst mér, og svo er alveg frábær útisundlaug með þægilegum heitum pottum á Suðureyri sem er bara örstutt frá með bíl. Ég kom einmitt við á Suðureyri og skellti mér í pottana, en bærinn er sá eini sem hefur hitaveituvatn á Ísafjarðarsvæðinu.
Það verður svolítið erfitt að segja skilið við vinina sem ég hef eignast á Króknum og að þurfa að byrja á byrjuninni að kynnast fólki á nýjum stað. En þetta er þó mun léttara fyrir mig en flest annað fólk því að ég er einfari í eðli mínu og kann mjög vel við einveru annað veifið, ég meira að segja þarfnast hennar. Þó ég elski að eyða tímanum með fjölskyldunni og vinum mínum (og þeir skipta mig líka öllu máli í lífinu, bara svo það sé alveg klárt), og ég muni ávallt ferðast mikið til að hitta þá sem ég hef flutt í burtu frá, þá líður mér yfirleitt mjög vel einum í heilu dagana án félagslífs. Ég fæ mikið út úr félagsskap sem ég fæ á vinnustöðum og svo vindur sá félagsskapur alltaf upp á sig og færist út fyrir vinnustaðinn og áður en maður veit af er maður kominn með góða vini, hvar sem maður plantar sér niður.
En nú er nóg komið af pælingum í bili. Best að fara að pakka niður, það verður fjör á morgun. Allir að mæta á hamingjudaga um helgina, sjáumst þar.
Um bloggið
Guðmundur B. Sigurðsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Gummi bloggar á spænsku Bloggið mitt þar sem ég æfi mig í að skrifa og tjá mig á spænsku.
Eldri færslur
2024
2021
2020
2019
2018
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Bloggin
Vinir, fjölskylda eða aðrir
- Haddi frændi
-
Pétur Olsen og co
Fyrrverandi vinnufélagi minn og vinir hans í sameiginlegu bloggi, bara flott hjá þeim! - Bergþór bróðir
- Elín frænka
- Þórhallur
- Ari
- Mary
- Anna Hendrix
- Mist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.