Bölvun!

Sumarfríið mitt (og dagarnir rétt á undan) byrjaði með miklu veseni svo vægt sé til orða tekið! Ég og Róbert höfðum skroppið suður í kringum (að mig minnir) helgina 14.-15. júní, ég var eitthvað að brasa fyrir sunnan. Allavega, við feðgarnir erum á heimleið mjög snemma svo við höfðum allan heimsins tíma. Mér varð hugsað til þess að nánast eini vegurinn sem ég hef ekki farið um í stórum radíus í kringum Hólmavík er Skarðsströndin milli Hvammsfjarðar (þar sem Búðardalur er) og Gilsfjarðar. Núna var tækifærið að aka aðeins lengri leið heim og sjá svæðið, auk þess sem það var rjómablíða þennan dag. Ég var ekki búinn að aka veginn nema í kannski korter þegar ég varð var við það að það lekur hratt úr vinstra dekkinu að aftan. Það eina sem ég hafði meðferðis fyrir svona vandræði var rafmagnspumpa og kvoðuviðgerðarbrúsi. Ég pumpaði í dekkið en það lak svo hratt að ég varð að drífa mig á næsta bóndabæ að freista þess að fá aðstoð. Ég ók að bænum Valþúfu þar sem mætti mér ein yndislegasta fjölskylda sem ég hef hitt! Einhver stelpa á bænum bauð Róberti inn að fá drykk og leika við sig og aðra krakka sem voru innandyra og bóndinn sem var heima hjálpaði mér með dekkið. Þegar var búið að troða þremur töppum í dekkið og tæma úr tveimur kvoðubrúsum í það lak ennþá en þó nógu lítið til að ég gat komið mér og Róberti heim með því að stoppa eitthvað um sex sinnum á leiðinni til að pumpa í dekkið! Ég var líka svo heppinn að á sama tíma var Njalli bróðir einnig á ferðinni um svæðið og hann fylgdi mér alla leið frá Skarðsstrandarafleggjaranum (syðri) til Hólmavíkur. Ég er innilega þakklátur fólkinu á Valþúfu og bróður mínum fyrir hjálpina þennan dag!

En ballið var rétt að byrja! Kvöldið fyrir upphaf sumarfrísins, þann 25. júní þurfti ég aftur að fara suður, og aftur var Róbert með í för, en einnig samstarfskona úr leikskólanum sem fékk far með mér til Reykjavíkur. Ég fékk viðvörun á skjáinn um að það væri hætt að hlaðast inn á litla sýrurafgeyminn undir húddinu (semsagt, stóra rafhlaðan sem knýr bílinn var næstum fullhlaðin en gaf ekki lengur straum inn á 12 volta kerfið). Þegar ég var að aka yfir Gilsfjörðinn fór bíllinn svo í skjaldbökuham (turtle mode) sem þýddi að ég komst ekki hraðar en svona 50 km/klst. Nú vissi ég að skammt væri í að bíllinn myndi slökkva endanlega á sér svo ég flytti mér að aka inn á næsta afleggjara að bóndabæ, sem var bærinn Lindarholt.

Aftur mætir mér yndislegt fólk og bóndi á bænum reyndi að hjálpa mér og tengdi hleðslutæki inn á litla rafgeyminn. En ég varð þó að skilja bílinn eftir þarna og fá frekari hjálp. Njalli bróðir kom frá Hólmavík og gaf okkur far til Búðardals. Á leiðinni sagði hann mér að því miður ætti ég senniega eftir að lenda einu sinni enn í óheppni því ,,allt er þegar þrennt er," segir máltækið! Við hlógum að þessu og ég grínaðist með að ég ætlaði þá bara að leggjast upp í rúm og vera þar til öryggis. Brósi hló þá og sagði að það borgaði sig ekki, það myndi bara fresta óheppninni og best væri fyrir mig að ljúka þessu bara af (af með plásturinn, snöggt!) og lifa mínu lífi, þá myndi þriðju óheppninni fljótt ljóstra á mig og létta af mér bölvuninni! Kannski voru álfar loksins að hefna sín á mér fyrir að hafa grýtt álfasteininn þeirra í æsku, eða ég braut spegil, eða hvað veit ég!!! Allavega, pabbi minn kom akandi til móts við okkur í Búðardal frá Melahverfinu (í Hvalfjarðarsveit) til að skutla mér, Róberti og samstarfskonunni sem fékk far með mér áfram suður. Ég fékk svo lánaðan bílinn frá mömmu og pabba til að skutla konunni restina af leiðinni til Reykjavíkur. Það var líka ágætt því að tilgangur ferðarinnar hafði verið að sækja Sunnu og hina krakkana þangað en þau höfðu verið í heimsókn í borginni í nokkra daga.

Síðar um helgina skutlaði ítalskur vinur minn (frá Reykjahlíð sem var staddur í borginni) mér aftur í Gilsfjörðinn að sækja bílinn þar sem ég hélt í vonina að bílabilunin væri bara eitthvað smotterí og að fullhlaðinn rafgeymirinn (þökk sé bóndanum á Lindarholti) hefði hresst við og það myndi núna hlaðast eðlilega inn á hann. Ég vonaði nefninlega að geymirinn hefði bara tæmst vegna þess að við hefðum gleymt hurð opinni alla nóttina. Þá hefði geymirinn kannski fengið sjokk og hleðslan frá bílnum dygði því ekki til að koma honum í eðlilegt form. Von mín var semsagt að hleðsla yfir nótt með hleðslutæki bóndans hefði lagað vandann. En nei, ég var ekki búinn að aka lengi í samfloti með vini mínum þegar viðvörunarskilaboð birtust aftur á skjánum um enga hleðslu inn á sýrugeyminn. Ég náði þó að keyra í Búðardal til að skilja bílinn eftir þar. Ég þakkaði ítalska vini mínum fyrir hjálpina og hann fór sína leið heim til sín. Pabbi kom svo frá Melahverfinu til að reyna að hjálpa og gefa mér far til baka í Melahverfið.

Verkstæðiskall í Búðardal kíkti undir húddið en gat ekkert gert annað en að upplýsa okkur um að það væri ekkert að sýrugeyminum, en hins vegar gæfi bíllinn honum engan straum. Við feðgarnir þökkuðum fyrir, skildum Ioniqinn eftir í Búðardal og fórum til baka. Nú var ekkert annað í stöðunni en að senda bílinn á verkstæði umboðsins til að bilanagreina og laga bílinn. Þau sendu dráttarbíl frá Krók til að sækja Ioniqinn með bílaleigubíl sömu tegundar meðferðis á pallinum svo við værum ekki bíllaus. Ég tók það fram mörgum sinnum í símtalinu að bíllinn frá Krók yrði að koma við í Melahverfinu með bílaleigubílinn og til að ég gæti afhent lykil að okkar bíl vegna þess að ég væri staddur þar en ekki bíðandi í Búðardal. Ég beið og beið í Melahverfinu eftir þessum dráttarbíl en ekkert bólaði á honum og ég var farinn að stressast því ég vildi komast til Reykjavíkur til að vera með Róberti Loga á afmælisdeginum sínum þennan sama dag en hann, Guðný, Benjamín og Sunna voru þar í startholunum að hefja afmælisveisluna hans með söng, köku og gjöfum!

Að endingu gafst ég upp á biðinni og fékk nýja Nissan mömmu og pabba lánaðann (Nissan Aria) til að komast í borgina og bað þau um að taka á móti dráttarbílamanninum. Á meðan ég var að aka í átt að Hvalfjarðargöngum varð mér hugsað til óheppni minnar og ákvað að nú skyldi ég sko fara varlega og hægja vel á mér framhjá gatnamótunum að Grundartanga þar sem hraðinn lækkar niður í 70 (bara við gatnamótin) því það væri dæmigert að ég fengi ofan á allt hitt hraðasekt þarna (það væri þá þriðja bölvunin!)! Ég var óvanur akstri á nýjum bíl foreldra minna svo ég ætlaði að nýta tækifærið og æfa mig að hægja á mér ekki með því að bremsa heldur með því að lækka hraðann með hraðastilli bílsins. Það voru stór mistök því skyndilega kom ég auga á hvítan sendibíl lögðum út í kanti við umrædd gatnamót! Þetta var skrambans myndavélabíll frá lögreglunni og ég flýtti mér að bremsa en þetta vesen mitt með hraðastillinn kostaði mig það að ég var enn ekki kominn á nógu lítinn hraða við gatnamótin og bévítans myndavélin smellti af mér mynd.

Er ég var að keyra milli Mosó og Reykjavíkur hringdi skyndilega síminn. Þá var starfsmaður dráttarbílsins kominn til Búðardals, lyklalaus og með bílaleigubílinn á pallinum, semsagt án þess að hafa komið við í Melahverfinu!!! Hann sagðist aldrei hafa fengið upplýsingarnar um að eiga að koma við í Meló! Ég átti ekki orð! Svekktur og þreyttur kom ég heim til tengdó til að knúsa afmælisdrenginn minn og fá mér kökubita og alls ekki með orku til að fara í annað sinn sama daginn í Búðardal en þó tilneyddur til þess. En þá hrigdi síminn allt í einu og þá fékk ég loks góðar fréttir! Starfsmanni dráttarbílsins hafði tekist að draga harðlæstan rúmlega tveggja tonna bílinn okkar upp á pallinn hjá sér og félagi hans sem hafði fyrir tilviljun verið með honum í för hafði boðist til að fylgja honum eftir á bílaleigubílnum til baka! Halelúja! Ég var svo innilega feginn! Nú vorum við ekki bíllaus lengur svo við biðum ekki boðanna og drifum okkur bara heim og veltum því fyrir okkur hlæjandi hvað það myndi taka Hólmvíkinga langan tíma að taka eftir því að Ioniqinn okkar væri allt í einu hvítur í stað þess að vera grár!

Dagarnir liðu og við fórum eina ferð á þessum bíl á ættarmót og svo kom hringing frá umboðinu um að bíllinn okkar væri tilbúinn. Það sem ég hélt að væri einhver bilaður spennubreytir sem væri hættur að gefa sýrugeyminum straum frá stóru rafhlöðunni var sko alls ekki það! Nei, einhver ICCU tölva hafði bilað sem kostar, haldið ykkur fast, 700.000 krónur! ÉG SVITNAÐI!!! En svo sagði maðurinn mér að þar sem bíllinn væri enn í abyrgð þyrfti ég ekki að borga neitt!!! Jesús, hvað ég var mikil taugahrúga þarna, haha! Semsagt, málið dautt, vandinn leystur, bölvun minni var hér með aflétt og Sunna skrapp suður og skilaði bílaleigubílnum og kom til baka á okkar gráa Ioniq-5!


Bloggfærslur 3. ágúst 2025

Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband