Jæja

Fyrsta færslan í þrjú ár! Aldeilis dugnaðurinn! Hjá mér er allt mjög gott að frétta þannig lagað séð. Ég eignaðist hann elsku Róbert Loga minn sem er nú orðinn tveggja ára gutti (meira síðar) og ég komst loks í gegnum ADHD-greiningu og er byrjaður á Concerta! Og jeremías hvað ég hef breyst til batnaðar á þessu lyfi (með fáum, en svolítið strembnum aukaverkunum, en þær eru smátt og smátt að rjátlast af mér). Nú er bara blankalogn í höfðinu á mér sem gerir mér kleift að einbeita mér betur að verkefnum líðandi stundar. Bestu áhrifin eru þó hvað allt stress og kvíði hefur svo gott sem horfið eins og dögg fyrir sólu. Nú er ég að vinna í að eflast á öllum sviðum lífsins!

Ég hef lést um tuttugu kíló á hálfu ári (úr 120 kg í 100,5 kg), ég er að borga niður skuldir (loksins, þó fyrr hefði verið), ég er kominn á fleygiferð í spænskunáminu mínu (sérstaklega á LingQ og með hlustun þegar ég er upptekinn og kemst ekki í appið en get hlustað á meðan ég geri önnur verkefni), ég var að bæta við nýju tungumáli, pólsku, bara núna á sunnudaginn (klikkað, ég veit), fjármálabókhald er í startholunum, ég er farinn að geta sinnt heimili, konu og börnum af meiri athygli (en betur má ef duga skal), ég er pínu farinn að dunda mér við að teikna aftur eftir of löng hlé, ég er að eignast fleiri vini, og já, svona má lengi telja.

Öll svið lífs míns hafa batnað nema kannski svefninn, en þó merki ég að ég sé líka hægt og rólega að ná tökum á því að ljúka fullum nætursvefni hverja nótt (skrifa ég er klukkan er komin fram yfir miðnætti, ehemm!). Of lítill nætursvefn margar nætur í röð undanfarið tóku sinn toll (svosem ekkert nýtt, ævilangt vandamál) og ég endaði á að fá slæmt mígreniskast í vinnunni nú í vikunni (þrátt fyrir [loksins] góðan svefn aðfaranótt ummrædds dags) með blindu, eldglæringum og heilaþoku og svo hausverki eftir kastið og var þetta aðeins í þriðja sinn á ævinni sem ég fæ mígreniskast. Concertað truflar mann frá því að finna fyrir þreytu svo ég þarf að hafa þau áhrif í huga (sem ég er reyndar búinn að gera nú þegar því ég tek núna Melatóníntöflu fyrir svefninn til að hjálpa mér að sofna). Önnur skrýtin aukaverkun verður ekki rædd hér en ég er líka að ná tökum á henni!

Ég er feginn að þessu dapurlega sumri er lokið og veturinn hefur stimplað sig inn (fyrsta snjóþekjan á Hólmavík kom núna sunnudaginn 29. sept., var þó bráðnuð strax um kvöldið). Þetta sumar einkenndist af eilífum rigningum, vindi og kulda utan kannski einnar heillrar viku þar sem sólin skein og hitinn sleikti tuttugu stigin, en þá voru tengdó og mamma ákkúrat í heimsókn, magnað!!! Svo varð Óli frændi bróðir mömmu bráðkvaddur fyrir aldur fram og um svipað leiti veiktist föðuramma mín, elsku amma Sissa, og lést eftir allt of langan tíma á banalegunni. Þeirra er mjög sárt saknað. En jæja, ég get ekki haft þetta lengra í bili og verð að gera þessu skil síðar því ég þarf að fara að henda mér upp í rúm. Meira næst, takk fyrir að lesa og góða nótt.


Um bloggið

Guðmundur B. Sigurðsson

Höfundur

Guðmundur Björn Sigurðsson
Guðmundur Björn Sigurðsson
Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Bloggin

Vinir, fjölskylda eða aðrir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband